Jóhannes segir frá 6:1–71

  • Jesús gefur 5.000 að borða (1–15)

  • Jesús gengur á vatni (16–21)

  • Jesús, „brauð lífsins“ (22–59)

  • Margir hneykslast á orðum Jesú (60–71)

6  Eftir þetta fór Jesús yfir Galíleuvatn, öðru nafni Tíberíasvatn.  Mikill fjöldi fólks fylgdi honum því að það sá kraftaverkin sem hann vann með því að lækna þá sem voru veikir.  Jesús fór þá upp á fjall og settist þar niður með lærisveinum sínum.  Þetta var skömmu fyrir páskahátíð Gyðinga.  Þegar Jesús leit upp og sá mikinn mannfjölda nálgast sagði hann við Filippus: „Hvar eigum við að kaupa brauð til að gefa þessu fólki að borða?“  Jesús vissi hvað hann ætlaði að gera en sagði þetta til að reyna Filippus.  Filippus svaraði: „Brauð fyrir 200 denara* myndi ekki einu sinni nægja til að allir fengju smábita.“  Einn af lærisveinum hans, Andrés, bróðir Símonar Péturs, sagði við hann:  „Hér er drengur með fimm byggbrauð og tvo smáfiska en hvað er það handa svona mörgum?“ 10  Jesús sagði: „Látið fólkið setjast.“ Þarna var grösugt og fólkið settist niður en karlmennirnir voru um 5.000 talsins. 11  Jesús tók brauðið, þakkaði Guði og útbýtti því meðal þeirra sem sátu þar. Eins gerði hann með fiskinn og allir fengu eins mikið og þeir vildu. 12  Þegar fólkið hafði borðað nægju sína sagði hann við lærisveinana: „Safnið leifunum saman svo að ekkert fari til spillis.“ 13  Þeir söfnuðu þeim saman og fylltu 12 körfur með leifum byggbrauðanna fimm sem fólkið hafði borðað af. 14  Þegar fólkið sá táknið sem hann gerði sagði það: „Þetta er sannarlega spámaðurinn sem átti að koma í heiminn.“ 15  Jesús vissi að fólkið myndi nú koma og taka hann með valdi til að gera hann að konungi. Hann fór því aftur upp á fjallið einn síns liðs. 16  Þegar kvöldaði fóru lærisveinarnir niður að vatninu, 17  stigu um borð í bát og lögðu af stað yfir vatnið til Kapernaúm. Nú var orðið dimmt og Jesús var enn ekki kominn til þeirra. 18  Hvasst var í veðri og öldugangurinn jókst. 19  Þegar þeir höfðu róið um fimm eða sex kílómetra* sáu þeir Jesú ganga á vatninu og nálgast bátinn. Þeir urðu hræddir 20  en hann sagði við þá: „Þetta er ég, óttist ekki.“ 21  Þá tóku þeir hann fúslega um borð og skömmu síðar kom báturinn að landi þar sem þeir höfðu ætlað að lenda. 22  Daginn eftir rann upp fyrir fólkinu sem hafði verið eftir hinum megin við vatnið að þar var enginn bátur. Lítill bátur hafði verið þar en Jesús hafði ekki farið um borð í hann með lærisveinunum heldur höfðu þeir farið einir. 23  Nokkrir bátar komu nú frá Tíberías og tóku land nálægt staðnum þar sem fólk hafði borðað brauðið eftir að Drottinn þakkaði Guði. 24  Þegar fólkið sá að hvorki Jesús né lærisveinarnir voru þar steig það um borð í bátana og hélt til Kapernaúm í leit að Jesú. 25  Fólkið fann hann hinum megin við vatnið og spurði hann: „Rabbí, hvenær komstu hingað?“ 26  Jesús svaraði: „Ég segi ykkur með sanni: Þið leitið mín ekki vegna þess að þið sáuð tákn heldur vegna þess að þið átuð af brauðinu og urðuð södd. 27  Vinnið ekki fyrir fæðu sem eyðist heldur fyrir þeirri fæðu sem endist og veitir eilíft líf og Mannssonurinn gefur ykkur, því að á hann hefur faðirinn, Guð sjálfur, sett innsigli sitt til tákns um velþóknun.“ 28  Menn sögðu þá við hann: „Hvað þurfum við að gera til að vinna verk Guðs?“ 29  Jesús svaraði: „Guð vill að þið trúið á þann sem hann sendi.“ 30  Þeir sögðu þá við hann: „Hvaða tákn gerirðu svo að við getum séð það og trúað þér? Hvaða verk vinnurðu? 31  Forfeður okkar átu manna í eyðimörkinni eins og skrifað stendur: ‚Hann gaf þeim brauð af himni að borða.‘“ 32  Jesús svaraði: „Ég segi ykkur með sanni: Móse gaf ykkur ekki brauðið af himni en nú gefur faðir minn ykkur hið sanna brauð af himni. 33  Brauð Guðs er sá sem kemur niður af himni og gefur heiminum líf.“ 34  Þá sögðu þeir við hann: „Drottinn, gefðu okkur alltaf þetta brauð.“ 35  Jesús sagði: „Ég er brauð lífsins. Sá sem kemur til mín verður ekki hungraður og sá sem trúir á mig verður aldrei þyrstur. 36  En eins og ég sagði ykkur hafið þið séð mig en trúið samt ekki. 37  Allir sem faðirinn gefur mér koma til mín og ég mun aldrei reka burt þann sem kemur til mín 38  því að ég kom ekki niður af himni til að gera minn vilja heldur vilja þess sem sendi mig. 39  Og það er vilji þess sem sendi mig að ég glati engum af öllum þeim sem hann hefur gefið mér heldur reisi þá upp á síðasta degi. 40  Það er vilji föður míns að allir sem viðurkenna soninn og trúa á hann hljóti eilíft líf, og ég reisi þá upp á síðasta degi.“ 41  Nú fóru Gyðingarnir að nöldra yfir því að hann skyldi segja: „Ég er brauðið sem kom niður af himni,“ 42  og þeir sögðu: „Er þetta ekki Jesús sonur Jósefs? Við þekkjum nú foreldra hans. Hvernig getur hann sagt: ‚Ég er kominn niður af himni‘?“ 43  „Hættið að nöldra,“ sagði Jesús. 44  „Enginn getur komið til mín nema faðirinn sem sendi mig dragi hann til mín, og ég reisi hann upp á síðasta degi. 45  Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Jehóva* mun kenna þeim öllum.‘ Allir sem hafa hlustað á föðurinn og lært af honum koma til mín. 46  Ekki svo að skilja að nokkur maður hafi séð föðurinn. Enginn hefur séð föðurinn nema sá sem er frá Guði. 47  Ég segi ykkur með sanni: Allir sem trúa hljóta eilíft líf. 48  Ég er brauð lífsins. 49  Forfeður ykkar átu manna í eyðimörkinni en dóu samt. 50  En sá sem borðar hið sanna brauð sem kemur niður af himni deyr ekki. 51  Ég er hið lifandi brauð sem kom niður af himni. Sá sem borðar af þessu brauði lifir að eilífu. Og brauðið er hold mitt sem ég gef heiminum til lífs.“ 52  Gyðingarnir fóru nú að þræta sín á milli og sögðu: „Hvernig getur maðurinn gefið okkur hold sitt að borða?“ 53  Þá sagði Jesús við þá: „Ég segi ykkur með sanni: Ef þið borðið ekki hold Mannssonarins og drekkið blóð hans hafið þið ekki líf í ykkur. 54  Sá sem borðar hold mitt og drekkur blóð mitt hlýtur eilíft líf og ég reisi hann upp á síðasta degi 55  því að hold mitt er sönn fæða og blóð mitt er sannur drykkur. 56  Sá sem borðar hold mitt og drekkur blóð mitt er sameinaður mér og ég honum. 57  Eins og hinn lifandi faðir sendi mig og ég lifi vegna föðurins, þannig mun sá sem nærist á mér lifa vegna mín. 58  Þetta er brauðið sem kom niður af himni. Það er ólíkt því sem var hjá forfeðrum ykkar sem átu en dóu samt. Sá sem borðar af þessu brauði lifir að eilífu.“ 59  Þetta sagði hann þegar hann kenndi í samkunduhúsi* í Kapernaúm. 60  Margir af lærisveinum hans sem heyrðu þetta sögðu: „Hvílíkt hneyksli! Hver getur hlustað á svona ræðu?“ 61  En Jesús vissi að lærisveinarnir nöldruðu yfir þessu og sagði: „Hneykslar þetta ykkur? 62  Hvað þá ef þið sæjuð Mannssoninn stíga upp þangað sem hann var áður? 63  Það er andinn sem veitir líf en holdið er einskis nýtt. Það sem ég hef sagt ykkur er andi og líf. 64  En sum ykkar trúa ekki.“ Jesús sagði þetta af því að hann vissi frá upphafi hverjir trúðu ekki og hver myndi svíkja hann. 65  Hann bætti við: „Þess vegna sagði ég við ykkur að enginn geti komið til mín nema faðirinn leyfi honum það.“ 66  Af þessari ástæðu sneru margir lærisveina hans aftur til fyrri starfa og hættu að fylgja honum. 67  Jesús sagði þá við hina tólf: „Ætlið þið að fara líka?“ 68  Símon Pétur svaraði: „Drottinn, til hvers ættum við að fara? Þú hefur orð eilífs lífs. 69  Við trúum og vitum að þú ert hinn heilagi sem er sendur af Guði.“ 70  Jesús svaraði þeim: „Valdi ég ekki ykkur tólf? Einn ykkar er samt rógberi.“* 71  Hér átti hann við Júdas, son Símonar Ískaríots, sem átti eftir að svíkja hann þó að hann væri einn þeirra tólf.

Neðanmáls

Sjá orðaskýringar.
Orðrétt „um 25 eða 30 skeiðrúm“. Skeiðrúm var 185 m.
Sjá orðaskýringar.
Eða hugsanl. „á almennri samkomu“.
Eða „djöfull“.