Fyrsta Mósebók 18:1–33

  • Þrír englar heimsækja Abraham (1–8)

  • Sara fær loforð um son; hún hlær (9–15)

  • Abraham biður fyrir Sódómu (16–33)

18  Abraham sat í tjalddyrunum á heitasta tíma dags við stóru trén í Mamre þegar Jehóva birtist honum.  Hann leit upp og sá þá þrjá menn standa í nokkurri fjarlægð. Hann hljóp á móti þeim úr tjalddyrunum og beygði sig til jarðar.  Síðan sagði hann: „Jehóva, ef þú hefur velþóknun á mér farðu þá ekki fram hjá þjóni þínum.  Leyfið okkur að sækja dálítið vatn til að þvo fætur ykkar og hvílið ykkur síðan undir trénu.  Mig langar að færa ykkur brauðbita til að þið getið safnað kröftum* úr því að þið eruð komnir hingað til þjóns ykkar. Síðan getið þið haldið ferðinni áfram.“ Þeir svöruðu: „Gott og vel, gerðu eins og þú hefur sagt.“  Abraham flýtti sér inn í tjaldið til Söru og sagði: „Náðu sem snöggvast í þrjá mæla* af fínu mjöli, hnoðaðu það og bakaðu brauð.“  Því næst hljóp hann til hjarðarinnar og valdi vænt og gott ungnaut. Hann fékk það þjóni sínum sem flýtti sér að matreiða það.  Síðan tók hann smjör og mjólk og ungnautið sem hann hafði matreitt og bar fram fyrir þá, en sjálfur stóð hann hjá þeim undir trénu meðan þeir borðuðu.  „Hvar er Sara kona þín?“ spurðu þeir. „Hún er inni í tjaldinu,“ svaraði hann. 10  Einn þeirra sagði þá: „Ég kem aftur til þín á þessum tíma að ári liðnu og þá verður Sara kona þín búin að eignast son.“ Sara stóð í tjalddyrunum bak við manninn og heyrði hvað sagt var. 11  Abraham og Sara voru orðin gömul. Þau voru komin á efri ár og Sara komin af barneignaraldri.* 12  Sara hló þá með sjálfri sér og sagði: „Hvernig má það vera að ég fái að njóta þessarar ánægju þar sem ég er útslitin og herra minn orðinn gamall?“ 13  Þá sagði Jehóva við Abraham: „Hvers vegna hló Sara og sagði: ‚Hvernig getur það verið að ég fæði barn svona gömul?‘ 14  Er eitthvað ómögulegt fyrir Jehóva? Ég kem aftur til þín á sama tíma að ári liðnu og þá verður Sara búin að eignast son.“ 15  En Sara sagði: „Ég hló ekki.“ Hún vildi ekki viðurkenna það því að hún var hrædd. „Víst hlóstu,“ sagði hann. 16  Mennirnir stóðu nú upp og bjuggust til að fara. Abraham fylgdi þeim áleiðis og mennirnir horfðu niður til Sódómu. 17  Jehóva sagði: „Held ég því leyndu fyrir Abraham sem ég ætla að gera? 18  Abraham verður að mikilli og voldugri þjóð og allar þjóðir jarðar munu hljóta blessun* vegna hans. 19  Ég þekki hann vel og treysti því að hann fyrirskipi sonum sínum og öllum afkomendum sínum að ganga á vegum Jehóva og gera það sem er rétt og réttlátt svo að Jehóva komi til leiðar því sem hann hefur lofað Abraham.“ 20  Og Jehóva sagði: „Ópin gegn Sódómu og Gómorru eru mikil og synd þeirra mjög þung. 21  Ég ætla að stíga niður til að kanna hvort íbúarnir séu eins vondir og ópin gefa til kynna. Ef ekki þá vil ég vita það.“ 22  Mennirnir héldu nú ferð sinni áfram áleiðis til Sódómu en Jehóva var um kyrrt hjá Abraham. 23  Abraham gekk nær og sagði: „Ætlarðu að eyða hinum réttlátu með hinum vondu? 24  Hvað ef það eru 50 réttlátir í borginni? Ætlarðu þá að eyða þeim en ekki þyrma borginni vegna þeirra 50 réttlátu sem eru þar? 25  Það er óhugsandi að þú gerir slíkt. Þú myndir aldrei láta réttlátan mann deyja með hinum vonda þannig að eins fari fyrir hinum réttláta og hinum vonda. Þér dytti það ekki í hug! Gerir ekki dómari allrar jarðarinnar það sem er rétt?“ 26  Jehóva svaraði: „Ef ég finn 50 réttláta í Sódómu þyrmi ég allri borginni vegna þeirra.“ 27  En Abraham hélt áfram: „Ég hef vogað mér að tala við Jehóva þótt ég sé aðeins duft og aska. 28  Segjum að það vanti fimm upp á tölu 50 réttlátra. Ætlarðu þá að eyða allri borginni vegna þeirra fimm?“ Hann svaraði: „Ég mun ekki eyða henni ef ég finn þar 45 réttláta.“ 29  En Abraham hélt áfram og sagði: „Segjum að þar finnist 40.“ Hann svaraði: „Ég eyði henni ekki vegna hinna 40.“ 30  Abraham sagði þá: „Jehóva, ég bið þig að reiðast mér ekki þótt ég haldi áfram að tala. Hvað ef það finnast ekki nema 30?“ „Ég læt það ógert ef ég finn þar 30,“ svaraði hann. 31  Og enn sagði Abraham: „Ég hef vogað mér að tala við Jehóva. Hvað ef þar finnast ekki nema 20?“ „Ég eyði henni ekki vegna hinna 20,“ svaraði hann. 32  Að lokum sagði Abraham: „Jehóva, ég bið þig að reiðast mér ekki þótt ég nefni eitt enn. Hvað ef þar finnast aðeins 10?“ „Ég eyði henni ekki vegna hinna 10,“ svaraði hann. 33  Þegar Jehóva hafði lokið við að tala við Abraham fór hann burt og Abraham sneri aftur heim.

Neðanmáls

Orðrétt „hjörtu ykkar styrkist“.
Orðrétt „þrjár seur“. Sea jafngilti 7,33 l. Sjá viðauka B14.
Orðrétt „kvenlegir eðlishættir voru horfnir frá Söru“.
Eða „afla sér blessunar“.