Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Unglingar sem gleðja hjarta Jehóva

Unglingar sem gleðja hjarta Jehóva

Unglingar sem gleðja hjarta Jehóva

Þessar námsgreinar voru sérstaklega skrifaðar fyrir unglinga meðal votta Jehóva. Þess vegna hvetjum við unglingana til að kynna sér þær vel og vera duglegir við að svara þegar farið verður yfir þær í Varðturnsnámi safnaðarins.

„Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 27:11.

1, 2. (a) Ertu óhæfur til að vera kristinn ef heimurinn togar stundum í þig? Skýrðu svarið. (Rómverjabréfið 7:21) (b) Hvað geturðu lært af Asaf? (Sjá rammagrein á blaðsíðu 24.)

ÍMYNDAÐU þér að þú sért að kaupa föt. Þú lítur yfir úrvalið og sérð flík sem höfðar strax til þín. Liturinn og sniðið virðast passa þér fullkomlega og verðið gefur til kynna að þetta séu kjarakaup. En síðan skoðarðu flíkina aðeins betur og þá kemur svolítið annað í ljós. Þú sérð að efnið er trosnað á jöðrunum og saumarnir fremur hroðvirknislegir. Flíkin er kannski aðlaðandi að sjá en illa unnin. Myndir þú eyða peningunum í flík sem þessa?

2 Þú gætir stundum staðið í svipuðum sporum sem kristinn unglingur. Við fyrstu sýn gæti margt í heiminum höfðað sterkt til þín, líkt og flíkin. Skólafélagarnir fara kannski í spennandi partí, taka inn eiturlyf, drekka, fara á stefnumót og stunda kynlíf fyrir hjónaband. Togar slíkur lífsstíll stundum í þig? Langar þig að fá smávott af þessu svokallaða frelsi þeirra? Ef svo er skaltu ekki álykta í fljótfærni að þú sért illa innrættur og engan veginn hæfur til að vera kristinn. Biblían viðurkennir meira að segja að heimurinn geti verið mjög lokkandi — jafnvel fyrir þann sem vill þóknast Guði. — 2. Tímóteusarbréf 4:10.

3. (a) Hvers vegna er það til einskis að sækjast eftir því sem heimurinn hefur upp á að bjóða? (b) Hvernig lýsir kristin kona því hve tilgangslaust það sé að eltast við heiminn?

3 Líttu aðeins nánar á málið, rétt eins og þú værir að skoða flík sem þú hefðir áhuga á að kaupa. Spyrðu sjálfan þig: ,Hvernig eru saumar núverandi heimskerfis eða hversu gott er efnið í því?‘ Biblían segir að ,heimurinn fyrirfarist.‘ (1. Jóhannesarbréf 2:17) Allur unaður í heiminum er í besta falli stundlegur. Óguðleg hegðun er þar að auki dýru verði keypt, hún er engin kjarakaup. Kristin kona þurfti að ganga í gegnum það sem hún kallar „sársaukann sem fylgir illa notaðri æsku.“ Hún segir: „Heimurinn getur virst heillandi og lokkandi. Hann vill telja manni trú um að maður geti skemmt sér eins og hann án þess að bíða tjón af. En það er einfaldlega ekki hægt. Heimurinn notar mann og þegar hann er búinn að því kastar hann manni frá sér.“ * Hvers vegna að sóa unglingsárunum í svona ómerkilegt líferni?

Vernd gegn ,hinum vonda‘

4, 5. (a) Um hvað bað Jesús Jehóva stuttu fyrir dauða sinn? (b) Hvers vegna var þetta viðeigandi bón?

4 Unglingar meðal votta Jehóva gera sér ljóst að núverandi heimskerfi hefur ekkert verðmætt upp á að bjóða. Þeir leggja sig þess vegna fram um að forðast vináttu við heiminn. (Jakobsbréfið 4:4) Ert þú einn þessara trúföstu unglinga? Ef svo er áttu hrós skilið. Það er vissulega ekki auðvelt að standa á móti hópþrýstingi og vera öðruvísi en fjöldinn, en þú getur fengið hjálp.

5 Stuttu fyrir dauða sinn bað Jesús Jehóva um að gæta lærisveinanna „vegna hins vonda.“ (Jóhannes 17:15, NW ) Það var ekki að ástæðulausu að Jesús bað þessarar bónar. Hann vissi að það yrði ekki auðvelt fyrir fylgjendur hans að vera ráðvandir, á hvaða aldri sem þeir væru. Hvers vegna? Ein ástæðan, sem Jesús nefnir, er sú að fylgjendur hans þyrftu að kljást við ósýnilegan og máttugan óvin — ,hinn vonda,‘ Satan djöfulinn. Biblían segir að þessi vonda andavera ,gangi um sem öskrandi ljón, leitandi að þeim, sem hún geti gleypt.‘ — 1. Pétursbréf 5:8.

6. Hvernig vitum við að Satan ber enga umhyggju fyrir börnum og unglingum?

6 Satan hefur notið þess alla mannkynssöguna að kvelja fólk á hrottalegasta hátt. Hugsaðu um þær hræðilegu hörmungar sem hann leiddi yfir Job og fjölskyldu hans. (Jobsbók 1:13-19; 2:7) Þú manst kannski eftir einhverjum fréttaviðburðum á þinni ævi sem bera vott um ofbeldisanda Satans. Djöfullinn reikar um og leitar að þeim sem hann getur tælt, og hann sýnir unglingum enga miskunn. Í byrjun fyrstu aldarinnar lét Heródes til dæmis deyða öll sveinbörn í Betlehem sem voru tveggja ára og yngri. (Matteus 2:16) Það var líklega Satan sem blés honum þessu í brjóst — og tilgangurinn var sá að drepa barnið sem átti síðar að verða hinn fyrirheitni Messías og fullnægja dómi Guðs yfir Satan. (1. Mósebók 3:15) Það er augljóst að Satan ber engan hlýhug til barna og unglinga. Það sem hann hefur mestan áhuga á er að gleypa eins marga og hann getur. Þetta á sérstaklega við um okkar tíma. Satan hefur verið varpað af himnum og niður á jörðina og hann er „í miklum móð, því að hann veit, að hann hefur nauman tíma.“ — Opinberunarbókin 12:9, 12.

7. (a) Á hvaða hátt er Jehóva alger andstæða Satans? (b) Hvernig lítur Jehóva á lífshamingju þína?

7 Jehóva, sem er miskunnsamur, er alger andstæða Satans sem er í „miklum móð.“ (Lúkas 1:78) Jehóva er persónugervingur kærleikans. Þessi stórkostlegi eiginleiki er svo stór þáttur í persónuleika skaparans að Biblían segir: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Hvílíkur munur á guði þessa heimskerfis og þeim Guði sem þú færð að tilbiðja. Satan reynir að gleypa fólk í sig en Jehóva „vill ekki að neinir glatist.“ (2. Pétursbréf 3:9) Hann lítur á hvert mannslíf sem dýrmætt — þar á meðal þitt. Þegar Jehóva hvetur þig í orði sínu til að vera ekki hluti af heiminum er hann ekki að reyna að meina þér einhverja skemmtun eða hefta frelsi þitt. (Jóhannes 15:19) Hann er þvert á móti að vernda þig vegna hins vonda. Himneskur faðir þinn vill að þú eignist nokkuð sem er margfalt betra en skammvinnur unaður heimsins. Hann langar til að þú eignist „hið sanna líf“ — eilífa lífið í paradís á jörð. (1. Tímóteusarbréf 6:17-19) Jehóva vill að þú náir í mark og hann hvetur þig áfram. (1. Tímóteusarbréf 2:4) Og það sem meira er, þú hefur fengið mjög sérstakt boð frá Jehóva. Hvaða boð er það?

„Gleð hjarta mitt“

8, 9. (a) Hvaða gjöf getur þú gefið Jehóva? (b) Hvernig smánar Satan Jehóva líkt og í frásögunni af Job?

8 Hefurðu einhvern tíma gefið nánum vini gjöf og séð gleðina skína úr andliti hans? Sennilega hugsaðirðu þig vel og lengi um hvers konar gjöf myndi gleðja vin þinn. Veltu núna eftirfarandi spurningu fyrir þér: Hvers konar gjöf getur þú gefið skapara þínum, Jehóva Guði? Fyrst um sinn gæti þetta hljómað mjög fjarstæðukennt. Hvað þarf alvaldur Guð að fá frá lítilmótlegum mönnum? Hvað gætir þú hugsanlega gefið honum sem hann á ekki til nú þegar? Biblían svarar í Orðskviðunum 27:11: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“

9 Eins og þú veist líklega af námi þínu í Biblíunni er það Satan djöfullinn sem smánar Jehóva. Hann fullyrðir að allir þjónar Jehóva þjóni honum af eigingjörnum hvötum en ekki af kærleika. Hann fullyrðir að mennirnir verði fljótir að yfirgefa sanna tilbeiðslu ef þeir lenda í erfiðleikum. Taktu til dæmis eftir hvað Satan sagði við Jehóva um hinn réttláta Job: „Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið. En rétt þú út hönd þína og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ — Jobsbók 1:9-11.

10. (a) Hvernig vitum við að Satan dró ráðvendni fleiri en Jobs í efa? (b) Hvernig tengist þú deilumálinu um drottinvaldið?

10 Frásagan sýnir að Satan dró ekki aðeins í efa hollustu Jobs heldur allra þjóna Guðs — einnig hollustu þína. Satan átti í rauninni við allt mannkynið er hann sagði við Jehóva: „Fyrir líf sitt gefur maðurinn [ekki aðeins Job heldur allir menn] allt sem hann á.“ (Jobsbók 2:4) Sérðu hvernig þetta mikilvæga deilumál snertir þig? Jehóva segir að það sé nokkuð sem þú getur gefið honum eins og Orðskviðirnir 27:11 gefa til kynna. Þú getur gefið honum grundvöll til að svara smánara sínum, Satan. Hugsaðu þér, alheimsdrottinn biður þig um að taka afstöðu í mesta deilumáli allra tíma. Þetta er gríðarmikil ábyrgð en jafnframt einstök sérréttindi. Geturðu gert það sem Jehóva biður þig um? Job gat það. (Jobsbók 2:9, 10) Jesús gat það líka. Og ótal aðrir, þar á meðal margir unglingar, hafa getað það gegnum alla mannkynssöguna. (Filippíbréfið 2:8; Opinberunarbókin 6:9) Þú getur það líka. En hafðu eitt í huga — það er enginn hlutlaus í þessu deilumáli. Þú sýnir með lífsstefnu þinni hvort þú styður smánaryrði Satans eða svar Jehóva. Hvort ætlar þú að styðja?

Jehóva ber umhyggju fyrir þér

11, 12. Skiptir það Jehóva einhverju máli hvort þú þjónar honum eða ekki? Skýrðu svarið.

11 Skiptir það Jehóva máli hvað þú kýst að gera? Hafa ekki nógu margir verið trúfastir og þannig svarað ásökunum Satans nægilega vel? Satan djöfullinn fullyrti að enginn þjónaði Jehóva af kærleika og þá staðhæfingu er þegar búið að afsanna. Jehóva vill samt sem áður að þú styðjir hann í deilumálinu um drottinvaldið þar sem hann ber umhyggju fyrir þér persónulega. Jesús sagði: „Það [er] eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist.“ — Matteus 18:14.

12 Jehóva er greinilega umhugað um þá lífsstefnu sem þú velur. Og það sem meira er, það hefur áhrif á hann. Biblían sýnir greinilega fram á að Jehóva hafi næmar tilfinningar og að verk manna, hvort sem þau eru góð eða slæm, hafi áhrif á tilfinningar hans. Ísraelsmenn „móðguðu“ hann til dæmis þegar þeir gerðu uppreisn hvað eftir annað. (Sálmur 78:40, 41) Honum ,sárnaði í hjarta sínu‘ fyrir flóðið á dögum Nóa þegar „illska mannsins var mikil.“ (1. Mósebók 6:5, 6) Hugsaðu um hvað þetta merkir. Þú gætir valdið skapara þínum sársauka með því að velja ranga lífsstefnu. Þetta merkir hins vegar ekki að Guð láti stjórnast af tilfinningum eða sé veikgeðja heldur er honum annt um þig og vill að þér vegni vel. Og ef þú gerir það sem rétt er gleðurðu hjarta hans. Hann er ekki aðeins ánægður vegna þess að hann getur þá svarað ákærum Satans enn frekar heldur er hann líka ánægður að geta umbunað þér. Og hann langar til að gera það. (Hebreabréfið 11:6) Jehóva Guð er sannarlega kærleiksríkur faðir!

Mikil umbun nú þegar

13. Hvernig er okkur umbunað nú þegar fyrir að þjóna Jehóva?

13 Jehóva umbunar okkur ekki aðeins í framtíðinni fyrir þjónustu okkar við sig. Mörgum unglingum meðal votta Jehóva er umbunað með gleði og ánægju nú þegar, og ekki að ástæðulausu. „Fyrirmæli Drottins eru rétt, gleðja hjartað,“ skrifaði sálmaritarinn. (Sálmur 19:9) Jehóva veit betur en nokkur maður hvað er okkur fyrir bestu. Hann sagði fyrir munn spámannsins Jesaja: „Ég, Drottinn Guð þinn, er sá sem kenni þér að gjöra það sem þér er gagnlegt, sem vísa þér þann veg, er þú skalt ganga. Æ, að þú vildir gefa gaum að boðorðum mínum, þá mundi heill þín verða sem fljót og réttlæti þitt sem bylgjur sjávarins.“ — Jesaja 48:17, 18.

14. Hvernig geta meginreglur Biblíunnar forðað þér frá skuldum?

14 Með því að fylgja meginreglum Biblíunnar áttu auðveldara með að sneiða hjá sársauka og hugarangri. Biblían segir til dæmis að þeir sem elski peninga, valdi sjálfum sér mörgum harmkvælum.‘ (1. Tímóteusarbréf 6:9, 10) Hafa einhverjir jafnaldrar þínir fengið að reyna sannleiksgildi þessara orða? Sumt ungt fólk er skuldum vafið einfaldlega vegna þess að það verður að eignast allt það nýjasta bæði í fatatísku og tækni. Það er íþyngjandi þrældómur að þurfa að borga háa vexti af langtímalánum vegna hluta sem maður hafði eiginlega ekki efni á að kaupa. — Orðskviðirnir 22:7.

15. Hvernig vernda meginreglur Biblíunnar þig frá sársaukafullum afleiðingum kynferðislegs siðleysis?

15 Kynferðislegt siðleysi er einnig alvarlegt umhugsunarefni. Á hverju ári verða ótalmargar einhleypar unglingsstúlkur barnshafandi. Sumar eignast börn þótt þær langi hvorki til þess né geti alið þau upp. Aðrar fara í fóstureyðingu en uppskera hræðilegt samviskubit fyrir vikið. Og ekki má gleyma öllu því unga fólki sem smitast af kynsjúkdómum eins og alnæmi. En alvarlegustu afleiðingarnar fyrir þann sem þekkir Jehóva eru auðvitað þær að skaða samband sitt við hann. * (Galatabréfið 5:19-21) Biblían segir af ærinni ástæðu: „Flýið saurlifnaðinn!“ — 1. Korintubréf 6:18.

Að þjóna hinum ,sæla Guði‘

16. (a) Hvernig vitum við að Jehóva vill að þú njótir æskunnar? (b) Hvers vegna gefur Jehóva þér leiðbeiningar?

16 Biblían lýsir Jehóva sem hinum ,sæla Guði.‘ (1. Tímóteusarbréf 1:11, Biblían 1908) Hann vill að þú sért líka hamingjusamur. Orð hans segir jafnvel: „Gleðstu, unglingur, í æsku þinni og láttu liggja vel á þér unglingsár þín.“ (Prédikarinn 11:9, Biblíurit, ný þýðing 1998) Jehóva sér hins vegar meira en augnablikið. Hann getur séð langtímaafleiðingar af góðri sem slæmri hegðun. Þess vegna hvetur hann unglinga: „Mundu eftir skapara þínum á unglingsárum þínum, áður en vondu dagarnir koma og þau árin nálgast, er þú segir um: ,Mér líka þau ekki.‘“ — Prédikarinn 12:1.

17, 18. Hvernig lýsti kristin unglingsstúlka hamingjunni sem fylgir því að þjóna Jehóva og hvernig getur þú fundið slíka hamingju?

17 Margir unglingar þjóna Jehóva og eru mjög hamingjusamir fyrir vikið. Lina, sem er 15 ára, segir til dæmis: „Ég get borið höfuðið hátt. Ég er heilsuhraust af því að ég hvorki reyki né neyti eiturlyfja. Ég fæ góða leiðsögn í söfnuðinum sem hjálpar mér að berjast gegn hinum gríðarmikla þrýstingi Satans. Andlit mitt skín af gleði af því að ég fæ uppbyggjandi félagsskap í ríkissalnum. En það sem gefur mér mest er sú óviðjafnanlega von að lifa að eilífu á jörðinni.“

18 Margir kristnir unglingar berjast harðri baráttu fyrir trúnni líkt og Lina, og það færir þeim gleði. Þó að líf þeirra sé ekki alltaf dans á rósum gera þeir sér grein fyrir að þeir hafa sannan tilgang í lífinu og góðar framtíðarhorfur. Haltu þess vegna áfram að þjóna Guði sem lætur sér alltaf annt um velferð þína. Gleddu hjarta hans og hann mun veita þér ríkulega gleði núna og um ókomna framtíð. — Sálmur 5:12.

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Sjá greinina „The Truth Gave Me Back My Life,“ í Vaknið! á ensku 22. október 1996.

^ gr. 15 Það er hughreystandi til að vita að Jehóva „fyrirgefur ríkulega“ þeim einstaklingi sem iðrast, játar syndir sínar og hættir rangri breytni. — Jesaja 55:7.

Manstu?

• Hvaða hætta stafar þér af „hinum vonda,“ Satan?

• Hvernig geturðu glatt hjarta Jehóva?

• Hvernig sýnir Biblían fram á að Jehóva ber umhyggju fyrir þér?

• Hvaða blessun fylgir því að þjóna Jehóva?

[Spurningar]

[Rammagrein á blaðsíðu 24]

Réttlátur maður missir jafnvægið

Asaf var levíti og þekktur tónlistarmaður í musteri Jehóva í Forn-Ísrael. Hann samdi jafnvel tónlist sem var notuð við opinbera tilbeiðslu. En þrátt fyrir einstök sérréttindi fór honum að þykja hegðun guðlausra jafnaldra sinna heillandi. Þeir virtust geta brotið lög Guðs án þess að verða meint af. „Nærri lá, að fætur mínir hrösuðu, lítið vantaði á, að ég skriðnaði í skrefi,“ viðurkenndi Asaf eftir á. „Ég fylltist gremju út af hinum hrokafullu, þegar ég sá gengi hinna guðlausu.“ — Sálmur 73:2, 3.

Asaf fór í helgidóminn og lagði þetta mál fyrir Jehóva í bæn. Nú sá hann málin í andlegu ljósi. Hann skildi að Jehóva hatar það sem er illt og að bæði réttlátir sem ranglátir uppskera það sem þeir sá þegar fram líða stundir. (Sálmur 73:17-20; Galatabréfið 6:7, 8) Syndarar eru sannarlega á ,sleipri jörð.‘ Að lokum falla þeir þegar Jehóva eyðir þessu óguðlega kerfi. — Opinberunarbókin 21:8.

[Mynd á blaðsíðu 25]

Jehóva er annt um velferð þína en Satan reynir að gleypa þig.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Margir unglingar finna til mestu hamingju sem hugsast getur með því að þjóna Jehóva ásamt trúsystkinum sínum.