Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nýttu þér til fulls andlegu fæðuna frá Jehóva

Nýttu þér til fulls andlegu fæðuna frá Jehóva

„Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er.“ – JES. 48:17.

SÖNGVAR: 117, 114

1, 2. (a) Hvernig líta vottar Jehóva á Biblíuna? (b) Hvaða biblíubók eða -kafla heldurðu mest upp á?

VOTTUM JEHÓVA þykir ákaflega vænt um Biblíuna. Hún hefur að geyma leiðbeiningar sem við getum treyst og veitir okkur uppörvun og von. (Rómv. 15:4) Við lítum ekki á Biblíuna sem samsafn af hugmyndum manna heldur sem ,Guðs orð – eins og hún í sannleika er‘. – 1. Þess. 2:13.

2 Allir eiga sér eflaust uppáhaldsbók eða -kafla í Biblíunni. Sumir hafa sérstakt yndi af guðspjöllunum þar sem dregin er upp fögur mynd af persónuleika Jehóva eins og hann birtist í syni hans. (Jóh. 14:9) Aðrir eru hrifnir af spádómsbókum Biblíunnar, kannski Opinberunarbókinni sem gefur innsýn í „það sem verða á innan skamms“. (Opinb. 1:1) Og hverjum hefur ekki þótt hughreystandi að lesa í Sálmunum eða dregið lærdóma af Orðskviðunum? Biblían á vissulega erindi til allra.

3, 4. (a) Hvernig lítum við á ritin okkar? (b) Hvaða rit fáum við handa sérstökum lesendahópum?

3 Þar sem okkur þykir svo vænt um Biblíuna þykir okkur líka vænt um biblíuskýringarritin okkar. Við erum afar þakklát fyrir andlegu fæðuna sem við fáum í tímaritum, bæklingum, bókum og öðrum ritum. Við vitum að þessi andlega fæða frá Jehóva nærir okkur og hjálpar okkur að halda andlegri vöku okkar og vera ,heilbrigð í trúnni‘. – Tít. 2:2.

4 Auk efnis, sem er ætlað vottum Jehóva almennt, fáum við biblíutengt efni sem er samið með sérstaka lesendur í huga. Til dæmis má nefna lesefni handa börnum og unglingum og lesefni handa foreldrum. Stór hluti efnisins, sem birtist á prenti og á vefsetri okkar, er saminn handa almenningi. Allt þetta fjölbreytta efni sýnir að Jehóva hefur haldið það loforð sitt að „búa öllum þjóðum veislu“. – Jes. 25:6.

5. Hvað kann Jehóva vel að meta?

5 Flestir óska þess eflaust að þeir hefðu meiri tíma til að lesa Biblíuna og biblíutengd rit. Við megum treysta að Jehóva kann að meta að við notum tímann vel til að lesa í Biblíunni og stunda sjálfsnám. (Ef. 5:15, 16) Það er þó varla við því að búast að við getum þaullesið allt efnið sem við fáum. Við þurfum hins vegar að vita af ákveðinni hættu. Hver er hún?

6. Hvað gæti orðið til þess að við færum á mis við hluta af andlegu fæðunni frá Jehóva?

6 Hættan er sú að við ímyndum okkur að ákveðið efni eða vissir biblíukaflar eigi ekki við okkur. Segjum til dæmis að eitthvað sem við lesum í Biblíunni virðist ekki eiga við okkar aðstæður. Eða segjum sem svo að við tilheyrum ekki aðalmarkhópi ákveðins rits. Hættir okkur þá til að renna aðeins lauslega yfir þetta efni – eða sleppa jafnvel alveg að lesa það? Þá gætum við farið á mis við upplýsingar sem við hefðum annars mikið gagn af. Hvað getum við gert til að falla ekki í þá gryfju? Fyrst og fremst skulum við öll hafa hugfast að andlega fæðan er komin frá Jehóva. Hann sagði fyrir munn Jesaja spámanns: „Ég er Drottinn, Guð þinn, sem kenni þér það sem gagnlegt er.“ (Jes. 48:17) Í þessari grein ræðum við um þrennt sem við getum gert til að hafa gagn af allri Biblíunni og öllu lesefni safnaðarins.

AÐ HAFA SEM MEST GAGN AF BIBLÍULESTRI

7. Hvers vegna þurfum við að lesa Biblíuna með opnum huga?

7 Lestu með opnum huga. Í Biblíunni segir berum orðum að ,sérhver ritning sé innblásin af Guði og nytsöm‘. (2. Tím. 3:16) Vissulega er það svo að sumt sem stendur í Biblíunni var upphaflega skrifað til ákveðins manns eða hóps. Þess vegna þurfum við að lesa Biblíuna með opnum huga. „Þegar ég les í Biblíunni reyni ég að hafa í huga að það er hægt að læra ýmislegt af einu versi eða kafla,“ segir bróðir nokkur og bætir við: „Þetta er mér hvatning til að skyggnast undir yfirborðið.“ Áður en við byrjum að lesa í Biblíunni er gott að biðja Jehóva að opna huga okkar og gefa okkur visku til að koma auga á það sem hann vill að við lærum. – Esra. 7:10; lestu Jakobsbréfið 1:5.

Hvernig geturðu haft sem mest gagn af biblíulestri? (Sjá 7. grein.)

8, 9. (a) Hvaða spurninga gætum við spurt okkur þegar við lesum Biblíuna? (b) Hvað lærum við um Jehóva af hæfniskröfunum sem hann gerir til öldunga?

8 Spyrðu spurninga. Þegar þú lest í Biblíunni skaltu gera hlé af og til og spyrja spurninga eins og: Hvað segir þetta mér um Jehóva? Hvernig get ég nýtt mér þetta efni? Hvernig get ég notað það til að hjálpa öðrum? Við fáum örugglega meira út úr biblíulestrinum ef við spyrjum spurninga sem þessara. Tökum sem dæmi hæfniskröfur safnaðaröldunga sem eru tíundaðar í Biblíunni. (Lestu 1. Tímóteusarbréf 3:2-7.) [1] Fæst okkar eru safnaðaröldungar þannig að við fyrstu sýn mætti ætla að þessi vers eigi ekki beint erindi til okkar. En ef við lítum á nokkur hugsanleg svör við eftirfarandi spurningum kemur í ljós að við getum öll lært ýmislegt af þessari upptalningu.

9 Hvað segir þetta mér um Jehóva? Með þessari upptalningu lætur Jehóva í ljós að hann gerir miklar kröfur til þeirra sem fara með ábyrgðarstörf í söfnuðinum. Hann ætlast til að þeir séu til fyrirmyndar og þeir þurfa að gera honum skil á því hvernig þeir annast söfnuðinn sem hann keypti með blóði sonar síns. (Post. 20:28, NW) Jehóva vill að við finnum til öryggiskenndar í umsjá undirhirðanna sem hann hefur skipað. (Jes. 32:1, 2) Ef horft er á hæfniskröfur safnaðaröldunga frá þessum bæjardyrum minna þær á hve mjög Jehóva lætur sér annt um okkur.

10, 11. (a) Hvaða gagn getum við haft af því að lesa hæfniskröfurnar sem gerðar eru til öldunga? (b) Hvernig getum við notað þetta efni til að hjálpa öðrum?

10 Hvernig get ég nýtt mér þetta efni? Safnaðaröldungar ættu af og til að meta sjálfa sig með hliðsjón af hæfniskröfum Biblíunnar og kanna hvar þeir geta bætt sig. Bróðir, sem sækist eftir umsjónarstarfi, ætti að kynna sér hæfniskröfurnar vel því að hann þarf að leggja sig fram um að uppfylla þær eftir bestu getu. (1. Tím. 3:1) Allir þjónar Guðs geta reyndar lært sitthvað af hæfniskröfunum sem eru taldar upp í þessum versum því að flestar snúast þær um hluti sem Jehóva ætlast til af öllum kristnum mönnum. Við eigum til dæmis öll að vera sanngjörn og skynsöm. (Tít. 3:2; Jak 3:13) Þegar við sjáum öldunga vera „fyrirmynd hjarðarinnar“ getum við lært af þeim og ,líkt eftir trú þeirra‘. – 1. Pét. 5:3; Hebr. 13:7.

11 Hvernig get ég notað þetta efni til að hjálpa öðrum? Við getum notað listann yfir hæfniskröfur safnaðaröldunga á fleiri vegu, til dæmis til að sýna áhugasömum og biblíunemendum okkar fram á að öldungar í söfnuðum Votta Jehóva séu ólíkir prestum kristna heimsins. Þegar við lesum listann minnir það okkur á hvað öldungar í heimasöfnuði okkar leggja á sig fyrir okkur. Þegar við hugleiðum það lærum við að ,meta þá að verðleikum sem erfiða á meðal okkar‘. (1. Þess. 5:12) Og við gleðjum síðan þessa duglegu öldunga með því að sýna þeim virðingu. – Hebr. 13:17.

12, 13. (a) Hvers konar upplýsinga getum við aflað okkur? (b) Nefndu dæmi sem sýnir að ítarefni getur varpað ljósi á lærdóma sem blasa ekki við manni við fyrstu sýn.

12 Skoðaðu ítarefni. Við getum notað tiltæk hjálpargögn til að leita eftirfarandi upplýsinga:

  • Hver skrifaði þessa biblíubók?

  • Hvar og hvenær var hún skrifuð?

  • Hvaða mikilvægu atburðir áttu sér stað á þeim tíma sem þessi biblíubók var skrifuð?

Upplýsingar af þessu tagi geta varpað ljósi á lærdóma sem blasa ekki við manni við fyrstu sýn.

13 Tökum sem dæmi Esekíel 14:13, 14. Þar stendur: „Ef eitthvert land syndgar gegn mér með svikum rétti ég út hönd mína gegn því. Ég svipti það öllum birgðum brauðs og sendi hungur yfir það og eyði það mönnum og fénaði. Þó að þeir þrír, Nói, Daníel og Job, byggju í því landi myndu þeir aðeins bjarga eigin lífi með réttlæti sínu, segir Drottinn Guð.“ Með því að grúska svolítið komumst við að raun um að þessi kafli Esekíelsbókar var skrifaður um 612 f.Kr. Nói og Job höfðu verið dánir öldum saman en Jehóva mundi vel eftir trúfesti þeirra. Aftur á móti var Daníel á lífi á þeim tíma. Hann kann að hafa verið rétt um tvítugt þegar Jehóva sagði að hann væri jafn réttlátur og þeir Nói og Job. Hvað lærum við af þessu? Að Jehóva sér og kann að meta ráðvendni allra trúrra þjóna sinna, einnig þeirra sem eru ungir að árum. – Sálm. 148:12-14.

ÚRVAL RITA SEM ÞÚ GETUR HAFT GAGN AF

14. Hvaða gagn hefur unga fólkið af efninu sem er gefið út handa því og hvaða gagn geta aðrir haft af því? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

14 Eins og fram hefur komið getum við haft gagn af allri Biblíunni, og við getum sömuleiðis haft gagn af allri andlegu fæðunni sem er í boði. Lítum á fáein dæmi. Efni handa ungu fólki. Á síðustu árum hefur verið gefið út mikið efni handa ungu fólki. [2] Sumt af þessu efni er samið til að hjálpa unga fólkinu að standast hópþrýsting í skólanum og glíma við áskoranir unglingsáranna. Hvaða gagn getum við öll haft af því að lesa þess konar efni? Það minnir okkur á hvað unga fólkið í söfnuðinum er að takast á við. Og þar með erum við í betri aðstöðu til að styðja það og hvetja.

15. Hvers vegna ættu fullorðnir þjónar Guðs að hafa áhuga á efni sem er samið fyrir unglinga?

15 Mörg af þeim vandamálum, sem fjallað er um í efni handa unglingum, eru ekki einskorðuð við þá. Öll þurfum við að verja trú okkar, hafa stjórn á tilfinningunum, standast skaðlegan hópþrýsting og forðast vafasaman félagsskap og afþreyingarefni. Rætt hefur verið um þessi mál og mörg önnur í lesefni handa unglingum. Fullorðnir þjónar Guðs ættu alls ekki að hugsa sem svo að það sé fyrir neðan þeirra virðingu að lesa rit sem eru samin fyrir unglinga. Enda þótt efnið sé sett þannig fram að það höfði til unglinga er það byggt á sígildum meginreglum Biblíunnar. Við getum því öll haft gagn af þessari andlegu fæðu.

16. Nefndu annað gagn sem unga fólkið hefur af ritunum okkar.

16 Ritin okkar hjálpa unga fólkinu ekki aðeins að takast á við vandamál heldur líka að þroskast í trúnni og tengjast Jehóva nánari böndum. (Lestu Prédikarann 12:1, 13.) Fullorðnir þjónar Guðs geta líka notið góðs af þess konar efni. Tökum dæmi: Í apríl 2009 birtist grein í Vaknið! á mörgum tungumálum í greinaröðinni „Ungt fólk spyr ...“ Hún fjallaði um leiðir til að hafa ánægju af biblíulestri. Þar voru gefnar margar góðar tillögur og þar var lítil rammagrein sem stungið var upp á að klippa út og geyma í Biblíunni. Hafa fullorðnir vottar haft gagn af þessari grein? „Það hefur alltaf verið basl hjá mér að lesa í Biblíunni,“ skrifaði 24 ára eiginkona og móðir. „Ég fór eftir leiðbeiningunum í greininni og notaði úrklippuna. Núna hlakka ég til að setjast niður og lesa í Biblíunni. Ég sé hvernig biblíubækurnar tengjast og fléttast saman eins og fagur listvefnaður. Ég hef aldrei haft eins gaman af biblíulestri og nú.“

17, 18. Hvaða gagn getum við haft af efni sem er samið handa almenningi? Nefndu dæmi.

17 Efni ætlað almenningi. Námsútgáfa Varðturnsins er samin fyrst og fremst fyrir votta Jehóva og hefur komið út síðan 2008. En hvað um blöðin okkar sem eru fyrst og fremst samin handa almenningi? Er líka gagnlegt fyrir okkur að lesa þau? Hugsum okkur eftirfarandi: Þú ert staddur í ríkissalnum rétt áður en opinberi fyrirlesturinn hefst. Allt í einu kemurðu auga á manneskju sem þú bauðst að koma og hlusta. Þú ert áreiðanlega hæstánægður. Líklega ertu með gestinn ofarlega í huga meðan á ræðunni stendur. Það er næstum eins og þú heyrir ræðuna með eyrum hans. Fyrir vikið kanntu enn betur að meta efnið.

18 Eitthvað svipað getur gerst þegar við lesum efni sem er samið handa almenningi. Í almennri útgáfu Varðturnsins er til dæmis rætt um biblíuleg málefni með auðskildu orðfæri. Hið sama er að segja um margar af greinunum sem birtast á jw.org, svo sem undir „Biblíuspurningar“ og „Spurningar og svör“. Með því að lesa þetta efni fáum við meiri mætur á biblíusannindum sem við þekkjum vel. Auk þess lærum við kannski nýjar leiðir til að rökstyðja trú okkar í boðuninni. Vaknið! styrkir sömuleiðis þá sannfæringu okkar að til sé skapari og kennir okkur að verja trú okkar. – Lestu 1. Pétursbréf 3:15.

19. Hvernig sýnum við að við erum Jehóva þakklát fyrir andlegu fæðuna?

19 Jehóva hefur greinilega gefið okkur meira en nóg til að fullnægja andlegum þörfum okkar. (Matt. 4:4) Höldum áfram að nýta okkur alla andlegu fæðuna sem Jehóva sér okkur fyrir. Þannig sýnum við honum að við erum þakklát fyrir alla kennsluna sem er okkur svo gagnleg. – Jes. 48:17.

^ [1] (8. grein.) 1. Tímóteusarbréf 3:2, 3 (NW): „Umsjónarmaðurinn á því að vera óaðfinnanlegur, einnar konu eiginmaður, hófsamur í venjum, skynsamur, reglusamur, gestrisinn, góður kennari, ekki drykkfelldur, ekki ofbeldisfullur heldur sanngjarn, ekki deilugjarn, ekki fégjarn.“

^ [2] (14. grein.) Sem dæmi má nefna bókina Spurningar unga fólksins – svör sem duga, 1. og 2. bindi, og greinaröðina „Ungt fólk spyr“ sem er núna birt á Netinu.