Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum“

„Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum“

„Farið ... og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá ... og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ – MATT. 28:19, 20.

SÖNGVAR: 141, 97

1, 2. Hvaða spurningar vakna þegar við lesum fyrirmæli Jesú í Matteusi 24:14?

HVORT sem fólk er hliðhollt okkur eða andsnúið geta flestir fallist á að sem hópur séu Vottar Jehóva þekktir fyrir að boða trú sína. Kannski hefur þú hitt fólk sem segist virða okkur fyrir starf okkar þótt það sé ekki sammála því sem við trúum. Eins og við vitum spáði Jesús að fagnaðarerindið um ríkið yrði boðað um allan heim. (Matt. 24:14) En hvernig vitum við að við eigum þátt í að uppfylla spádóm Jesú með starfi okkar? Er það hroki af okkar hálfu að halda því fram að við séum sá hópur sem boðar fagnaðarerindið eins og Jesús spáði?

2 Margir trúarhópar telja sig boða fagnaðarerindið. En boðun þeirra takmarkast oft við guðsþjónustur, útsendingar í sjónvarpi eða á Netinu eða við það að lýsa eigin trúarupplifunum. Öðrum finnst þeir vera að boða trúna þegar þeir gefa til góðgerðarmála eða vinna í sjálfboðavinnu  sem læknar, hjúkrunarfræðingar eða kennarar. En var það þetta sem Jesús átti við þegar hann sagði lærisveinum sínum að boða fagnaðarerindið?

3. Hvað fernt þurfa lærisveinar Jesú að gera samkvæmt Matteusi 28:19, 20?

3 Áttu lærisveinar Jesú bara að bíða eftir að fólk kæmi til þeirra? Nei. Eftir að Jesús reis upp sagði hann við hundruð lærisveina sinna: „Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá ... og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður.“ (Matt. 28:19, 20) Sem lærisveinar Jesú þurfum við að gera fernt. Við þurfum að gera fólk að lærisveinum, skíra það og kenna því. En hvað er það fyrsta sem við verðum að gera? Jesú sagði: „Farið!“ Biblíufræðingur segir eftirfarandi um þessi fyrirmæli: „Það er verkefni allra trúaðra manna að ,fara‘, hvort sem það er yfir götuna eða yfir hafið.“ – Matt. 10:7; Lúk. 10:3.

4. Hvað felst í því að ,veiða menn‘?

4 Til hvers ætlaðist Jesús af lærisveinum sínum? Ætlaðist hann til að þeir boðuðu fagnaðarerindið einir og óstuddir eða áttu þeir að gera það í skipulögðum hópi? Einn einstaklingur gat ekki farið og gert „allar þjóðir“ að lærisveinum og þar af leiðandi þurfti skipulagðan hóp. Jesús gaf þetta til kynna þegar hann bauð lærisveinum sínum að ,veiða menn‘. (Lestu Matteus 4:18-22.) Jesús átti ekki við stangveiði þar sem maður situr í makindum og bíður eftir að fiskur bíti á. Hann var að tala um að veiða í net en það var erfiðisvinna sem útheimti oft að margir ynnu saman. – Lúk. 5:1-11.

5. Hvaða fjórum spurningum þarf að svara og hvers vegna?

5 Til að vita hverjir boða fagnaðarerindið núna í samræmi við spádóm Jesú þurfum við að fá svör við þessum fjórum spurningum:

  • Hvaða boðskap á að boða?

  • Af hvaða hvötum eigum við að boða fagnaðarerindið?

  • Hvaða aðferðir eigum við að nota?

  • Hve umfangsmikil átti boðunin að vera og hve lengi átti hún að standa?

Svörin við þessum spurningum leiða í ljós hverjir vinna þetta björgunarstarf og hjálpa okkur líka að vera ákveðin í að halda því áfram. – 1. Tím. 4:16.

HVAÐA BOÐSKAP Á AÐ BOÐA?

6. Hvers vegna geturðu verið viss um að Vottar Jehóva boði réttan boðskap?

6 Lestu Lúkas 4:43Jesús boðaði „fagnaðarerindið um ríkið“ og hann ætlast til að lærisveinar sínir geri það líka. Hvaða hópur fólks boðar ,öllum þjóðum‘ þennan boðskap? Svarið er augljóst – aðeins Vottar Jehóva. Sumir sem eru okkur andsnúnir viðurkenna það meira að segja. Prestur, sem hafði verið trúboði í mörgum löndum, sagði við eitt trúsystkina okkar að hann hefði spurt vottana í hverju einasta landi hvaða boðskap þeir boðuðu. Hvaða svar fékk hann? Hann sagði: „Þeir voru allir svo vitlausir að þeir gáfu sama svarið: ,Fagnaðarerindið um ríkið.‘“ En vottarnir voru alls ekkert „vitlausir“ heldur einhuga eins og sannkristnir menn eiga að vera. (1. Kor. 1:10) Og þeir endurómuðu boðskapinn sem er inntak tímaritsins  Varðturninn kunngerir ríki Jehóva. Það er fáanlegt á 254 tungumálum og meðalupplag hvers tölublaðs er næstum 59 milljónir eintaka. Það er útbreiddasta tímarit í heimi.

7. Hvernig vitum við að prestar kristna heimsins boða ekki réttan boðskap?

7 Prestar kristna heimsins boða ekki ríki Guðs. Ef þeir tala um ríki Guðs á annað borð segja þeir að það sé tilfinning í hjarta kristins manns. (Lúk. 17:21) Þeir kenna ekki fólki að ríki Guðs sé himnesk stjórn í höndum Jesú Krists. Þeir kenna ekki að það sé lausnin á öllum vandamálum mannkyns og að von bráðar muni það uppræta alla illsku á jörðinni. (Opinb. 19:11-21) Þeir kjósa heldur að hugsa um Jesú á jólum og páskum. Þeir virðast ekki hafa hugmynd um hverju Jesús mun áorka sem nýr stjórnandi jarðar. Þeir hafa greinilega misst sjónar á boðskapnum sem þeir eiga að boða. Er þá nokkur furða að þeir skuli hafa misst sjónar á því af hvaða hvötum eigi að boða hann?

AF HVAÐA HVÖTUM?

8. Af hvaða hvötum ætti ekki að boða fagnaðarerindið?

8 Af hvaða hvötum ætti að boða fagnaðarerindið? Það ætti ekki að gera það til að safna peningum eða til að reisa íburðarmiklar byggingar. Jesús sagði við lærisveinana: „Gefins hafið þér fengið, gefins skuluð þér láta í té.“ (Matt. 10:8) Það ætti ekki að fara með orð Guðs eins og verslunarvöru. (2. Kor. 2:17) Þeir sem boða fagnaðarerindið ættu ekki að gera það fyrir kaup. (Lestu Postulasöguna 20:33-35.) Þrátt fyrir þessar skýru leiðbeiningar hafa flestar kirkjur gengið í þá gildru að nota krafta sína til að safna peningum eða reyna að komast af fjárhagslega. Þær þurfa að halda uppi launuðum prestum og fjölda annarra starfsmanna. Margir forystumenn kristna heimsins hafa sankað að sér miklum auði. – Opinb. 17:4, 5.

9. Hvernig hafa Vottar Jehóva sýnt að þeir boða fagnaðarerindið af réttum hvötum?

9 Standa Vottar Jehóva fyrir fjársöfnun á samkomum sínum eða mótum? Nei. Starf þeirra er fjármagnað með frjálsum framlögum. (2. Kor. 9:7) Á síðasta ári notuðu Vottar Jehóva aftur á móti 1,93 milljarða klukkustunda til að boða fagnaðarerindið og halda níu milljónir biblíunámskeiða endurgjaldslaust í hverjum mánuði. Þeir taka ekki laun fyrir vinnu sína og standa meira að segja sjálfir undir kostnaðinum af starfi sínu. Og þeir gera þetta með glöðu geði. Rannsóknarmaður sagði um starf Votta Jehóva: „Aðalmarkmiðið er að boða og kenna ... Þeir eru ekki með neina presta og það dregur verulega úr kostnaði.“ Af hvaða hvötum vinnum við þá þetta starf? Við gerum það fúslega af því að við elskum Jehóva og náungann. Þannig uppfyllist spádómurinn í Sálmi 110:3. (Lestu.)

HVAÐA AÐFERÐIR ÆTTI AÐ NOTA?

Við boðum fagnaðarerindið hvar sem fólk er að finna. (Sjá 10. grein.)

10. Hvernig boðuðu Jesús og lærisveinar hans fagnaðarerindið?

10 Hvaða aðferðir notuðu Jesús og lærisveinar hans við að boða fagnaðarerindið? Þeir fóru til fólksins hvar sem það var. Þeir boðuðu boðskapinn til dæmis á götum úti og á markaðstorgum. Þeir fóru líka heim til fólks.  (Matt. 10:11; Lúk. 8:1; Post. 5:42; 20:20) Boðunin hús úr húsi var skipuleg aðferð til að ná til alls konar fólks.

11, 12. Hvernig hafa kirkjur kristna heimsins staðið sig við að boða fagnaðarerindið í samanburði við Votta Jehóva?

11 Hvernig hafa kirkjur kristna heimsins staðið sig á þessu sviði? Sóknarbörnin hafa að langmestu leyti eftirlátið launuðum prestum að boða trúna. En prestarnir virðast hafa takmarkaðan áhuga á að ,veiða menn‘ og gera sig ánægða með að halda bara í „fiskana“ sem þeir hafa nú þegar. Sumir prestar reyna þó stöku sinnum að koma í gang einhvers konar trúboði. Til dæmis skrifaði Jóhannes Páll páfi annar í bréfi snemma árs 2001: „Árum saman hef ég ítrekað kvaðninguna að hefja nýtt kristniboð. Ég geri það enn á ný ... Við verðum að endurglæða innra með okkur eldheita sannfæringu Páls sem hrópaði: ,Vei mér ef ég boða ekki fagnaðarerindið.‘“ Páfinn sagði síðan að þetta trúboð „mætti ekki eftirláta hópi ,sérfræðinga‘ heldur þyrftu allir sem tilheyrðu þjóð Guðs að líta á það sem skyldu sína“. En hversu margir hafa gert eins og páfi hvatti til?

12 Hvernig hafa Vottar Jehóva þá staðið sig? Þeir eru þeir einu sem boða að Jesús hafi ríkt sem konungur síðan 1914. Þeir fylgja fyrirmælum Jesú og leggja mikla áherslu á boðunina. (Mark. 13:10) Í bókinni Pillars of Faith – American Congregations and Their Partners stendur: „Hjá Vottum Jehóva er áherslan á boðunina öllu öðru sterkari.“ Höfundur bókarinnar vitnar í vott, sem hann talaði við, og segir: „Þeir reyna að aðstoða þegar fólk er hungrað, einmana og heilsuveilt ... en þeir gleyma aldrei að aðalverkefnið er að flytja fólki andlegan boðskap um væntanlegan heimsendi og nauðsyn þess að hljóta hjálpræði.“ Vottar Jehóva halda áfram að boða þennan boðskap og þeir nota sömu aðferðir og Jesús og lærisveinar hans.

HVE VÍÐA OG HVE LENGI?

13. Hve umfangsmikil átti boðunin að vera?

13 Jesús lýsti umfangi boðunarinnar og sagði að fagnaðarerindið yrði boðað „um alla heimsbyggðina“. (Matt. 24:14) Það átti að gera fólk af ,öllum þjóðum‘ að lærisveinum. (Matt. 28:19, 20) Það þýðir að fylgjendur Jesú áttu að boða fagnaðarerindið um alla jörðina.

14, 15. Hvað sannar að Vottar Jehóva hafa uppfyllt spádóm Jesú um umfang boðunarinnar? (Sjá myndir í upphafi greinar.)

14 Lítum á nokkrar staðreyndir sem sýna fram á að Vottar Jehóva hafa uppfyllt spádóm Jesú um umfang boðunarinnar. Í Bandaríkjunum eru um 600.000 prestar í ýmsum kirkjudeildum. Vottar Jehóva þar í landi eru um 1.200.000. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni eru um 400.000 prestar um  allan heim. En hversu margir vottar boða ríki Guðs? Um átta milljónir sjálfboðaliða boða fagnaðarerindið í 240 löndum. Þetta mikla starf er Jehóva til lofs og vegsemdar. – Sálm. 34:2; 51:17.

15 Vottar Jehóva vilja koma fagnaðarerindinu til eins margra og hægt er áður en endirinn kemur. Þess vegna leggjum við meiri áherslu en nokkur annar á að þýða og gefa út biblíutengd rit. Við höfum dreift endurgjaldslaust milljónum bóka, tímarita, smárita og boðsmiða á mótin og minningarhátíðina. Við höfum gefið út ýmis rit á meira en 700 tungumálum. Við höfum gefið út Nýheimsþýðingu heilagrar ritningar á meira en 130 tungumálum. Upplagið nemur meira en 200 milljónum eintaka. Á síðasta ári voru framleiddir um það bil 4,5 milljarðar eintaka af biblíutengdum ritum. Á opinberu vefsetri okkar er til efni á meira en 750 tungumálum. Er til nokkur annar trúarhópur sem vinnur svipað starf?

16. Hvernig vitum við að Vottar Jehóva hafa anda Guðs?

16 Hve lengi átti að halda boðuninni áfram? Jesús sagði að fagnaðarerindið yrði prédikað á síðustu dögum ,og þá myndi endirinn koma‘. (Matt. 24:14) Hvaða annar trúarhópur hefur haldið áfram að boða fagnaðarerindið á þessu þýðingarmikla tímaskeiði? Sumt trúað fólk, sem við hittum í boðuninni, segir: „Við höfum heilagan anda en þið vottarnir vinnið verkið.“ En er úthald okkar í þessu starfi ekki sönnun þess að við höfum anda Guðs? (Post. 1:8; 1. Pét. 4:14) Af og til hafa sumir trúarhópar reynt að boða trúna eins og Vottar Jehóva gera en það hefur oftast runnið út í sandinn. Sumir stunda trúboð, sem þeir kalla svo, í stuttan tíma og taka svo aftur upp venjulegt daglegt líf. Og aðrir reyna jafnvel að fara hús úr húsi. En hvaða boðskap boða þeir? Svarið við þessari spurningu sýnir skýrt að þeir sinna ekki boðuninni sem Kristur hleypti af stokkunum.

HVERJIR BOÐA FAGNAÐARERINDIÐ NÚ Á DÖGUM?

17, 18. (a) Hvers vegna getum við verið viss um að það séu Vottar Jehóva sem boða fagnaðarerindið um ríkið nú á dögum? (b) Hvað gerir okkur kleift að halda þessu starfi áfram?

17 Hverjir boða þá fagnaðarerindið um ríkið nú á dögum? Við getum sagt með fullri sannfæringu að það séu Vottar Jehóva. Hvers vegna getum við verið svona viss um það? Vegna þess að við boðum rétta boðskapinn, fagnaðarerindið um ríkið. Við notum líka réttu aðferðirnar með því að fara til fólks. Við boðum af réttum hvötum – af kærleika en ekki í hagnaðarskyni. Og boðun okkar er sú umfangsmesta sem þekkist því að hún nær til fólks af öllum þjóðum og tungum. Og við höldum áfram að vinna þetta starf ár eftir ár þangað til endirinn kemur.

18 Það er stórkostlegt að sjá hverju þjónar Guðs áorka á þessum spennandi tímum sem við lifum. En hvað gerir þeim þetta kleift? Páll postuli svarar því í bréfi sínu til safnaðarins í Filippí: „Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar.“ (Fil. 2:13) Megi Jehóva halda áfram að gefa okkur kraft til að gera okkar allra besta og fullna þjónustu okkar. – 2. Tím. 4:5.