Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjónar Guðs þurfa að fylgja biblíufræddri samvisku sinni í samskiptum við opinbera starfsmenn.

Spurningar frá lesendum

Spurningar frá lesendum

Hvað getur hjálpað kristnum mönnum að ákveða hvort viðeigandi sé að gefa ríkisstarfsmönnum gjafir eða þjórfé?

Hafa ber í huga nokkur atriði. Kristnir menn verða að vera heiðarlegir. Þeir þurfa að hlýða landslögum svo framarlega sem þau brjóta ekki í bága við lög Jehóva. (Matt. 22:21; Rómv. 13:1, 2; Hebr. 13:18) Þeir leggja sig einnig fram um að virða siði og venjur á hverjum stað og að ,elska náunga sinn eins og sjálfa sig‘. (Matt. 22:39; Rómv. 12:17, 18; 1. Þess. 4:11, 12) Þegar kristnir menn fylgja slíkum meginreglum hvar sem þeir búa hefur það líklega áhrif á viðhorf þeirra til þess að gefa gjafir og þjórfé.

Á mörgum stöðum þarf fólk ekki að gefa opinberum starfsmönnum neitt til að fá þá þjónustu sem það hefur rétt á. Opinberir starfsmenn inna af hendi þjónustu sem þeim er greitt fyrir af ríkinu. Þeir biðja hvorki um né ætlast til að fá neitt umfram laun sín. Í mörgum löndum er ólöglegt fyrir ríkisstarfsmenn að sækjast eftir eða þiggja nokkur verðmæti fyrir vinnu jafnvel þótt þeir geri aðeins það sem felst í starfi þeirra. Litið yrði á slíkar gjafir sem mútur jafnvel þó að þær hefðu engin áhrif á þjónustuna. Í löndum þar sem sú er raunin þurfa kristnir menn ekki einu sinni að spyrja sig hvort gefa eigi opinberum starfsmönnum gjafir eða þjórfé. Slíkar gjafir eru einfaldlega ekki við hæfi.

Sums staðar í heiminum eru slík lög hins vegar ekki til staðar eða þau ekki virt sem skyldi og því líta opinberir starfsmenn ekki allir eins á það hvernig þeir eiga að gegna skyldum sínum. Í sumum löndum notfæra þeir sér stöðu sína til að kúga fé eða aðra greiða út úr þeim sem þeir eiga að veita þjónustu, og vilja ekki gera handtak án þess að fá aukalega þóknun. Þeir sem skrásetja hjónabönd í þessum löndum, vinna á skattstofum, gefa út byggingarleyfi og þar fram eftir götunum krefjast þess að fá þjórfé. Þegar starfsmenn fá ekki þjórfé geta þeir vísvitandi búið til hindranir og gert það mjög erfitt, jafnvel ómögulegt fyrir fólk að fá þá þjónustu sem það hefur rétt á. Meira að segja hefur frést af því að í landi einu neiti slökkviliðsmenn að berjast við eldinn nema þeir fái fyrst veglega greiðslu.

Stundum getur verið viðeigandi að gefa litla gjöf í þakklætisskyni fyrir þjónustu sem maður hefur rétt á.

Þar sem slíkt viðgengst gæti einhverjum þótt það óhjákvæmilegt að gefa þjórfé. Við þær aðstæður gætu kristnir menn litið á þjórfé sem viðbótargjald sem þeir eru skyldugir til að borga til að fá þjónustu sem þeir eiga rétt á. Hins vegar þurfa kristnir menn á stöðum þar sem spilling er algeng að vera á varðbergi til að mörkin milli þess sem er viðeigandi og óviðunandi í augum Guðs verði þeim ekki óljós. Það er mikill munur á að gefa þjórfé til að fá það sem maður hefur rétt á og því að sækjast eftir ólögmætum greiða. Þar sem spilling er ríkjandi gefa sumir opinberum starfsmönnum þjórfé til að fá þjónustu sem þeir hafa ekki rétt á eða gefa lögreglumanni eða opinberum eftirlitsmanni „þjórfé“ til að komast hjá sekt sem þeir ættu réttilega að borga. Það er auðvitað rangt að reyna að múta nokkrum manni með „gjöf“ rétt eins og það er rangt að láta múta sér með því að þiggja slíka „gjöf“. Hvort tveggja myndi halla réttinum. – 2. Mós. 23:8; 5. Mós. 16:19; Orðskv. 17:23.

Vegna samvisku sinnar, sem er byggð á Biblíunni, finnst flestum þroskuðum kristnum mönnum óþægilegt að gefa opinberum starfsmönnum þjórfé þegar þeir falast eftir því. Með því að gera það finnst þeim þeir vera að samþykkja eða ýta undir spillingu. Þeir neita því að gefa nokkrar slíkar gjafir.

Þroskaðir kristnir menn átta sig á að gjafir, sem eru gefnar til að fá greiða sem þeir hafa ekki rétt á, gætu jafngilt mútum. Vegna aðstæðna sums staðar getur fólki þó fundist í lagi að gefa litla gjöf til að fá þá þjónustu sem það hefur rétt á eða til að komast hjá óréttmætum töfum. Við aðrar aðstæður gefa kristnir menn læknum og hjúkrunarfólki gjafir í þakklætisskyni fyrir meðferð á spítala sem þeir hafa fengið að kostnaðarlausu. Þeir gera það frekar eftir að hafa fengið meðferð en áður þannig að ekki sé hægt að líta á gjöfina sem mútur eða ósk um sérstaka meðhöndlun.

Það er ógerlegt að ræða hér um allar mögulegar aðstæður í hverju landi. Óháð aðstæðum á hverjum stað ættu kristnir menn því að leitast við að taka ákvarðanir sem brjóta ekki gegn samvisku þeirra. (Rómv. 14:1-6) Þeir ættu að vera löghlýðnir. (Rómv. 13:1-7) Þeir ættu að forðast hvaðeina sem gæti kastað rýrð á nafn Jehóva eða verið öðrum til hrösunar. (Matt. 6:9; 1. Kor. 10:32) Og ákvarðanir þeirra ættu að endurspegla kærleika þeirra til náungans. – Mark. 12:31.

Hvernig getur söfnuðurinn tjáð gleði sína þegar tilkynnt er að einhver hafi verið tekinn inn í hann á ný?

Í 15. kafla Lúkasarguðspjalls er sagt frá áhrifaríkri dæmisögu Jesú um mann sem á 100 sauða hjörð. Þegar einn sauðanna týnist skilur maðurinn hina 99 eftir í óbyggðinni og fer að leita að týnda sauðnum „þar til hann finnur hann“. Jesús heldur áfram: „Glaður leggur hann sauðinn á herðar sér er hann finnur hann. Þegar hann kemur heim kallar hann saman vini sína og nágranna og segir við þá: Samgleðjist mér því að ég hef fundið sauðinn minn sem týndur var.“ Jesús lýkur dæmisögunni á að segja: „Ég segi yður, þannig verður meiri fögnuður á himni yfir einum syndara, sem tekur sinnaskiptum, en yfir níutíu og níu réttlátum sem þurfa þess ekki við.“ – Lúk. 15:4-7.

Af samhenginu má sjá að Jesús sagði þetta til að leiðrétta hugsunarhátt fræðimanna og farísea sem gagnrýndu hann fyrir að umgangast tollheimtumenn og syndara. (Lúk. 15:1-3) Jesús benti á að fögnuður sé á himni þegar syndari iðrast. Við gætum því spurt: Ætti þá ekki líka að vera fögnuður á jörð þegar syndari iðrast, snýr til baka og lætur fætur sína feta beinar brautir? – Hebr. 12:13.

Við höfum góða ástæðu til að gleðjast þegar einhver er tekinn inn í söfnuðinn á ný. Einstaklingurinn þarf að halda áfram að sýna Guði hollustu en hann þurfti að iðrast til að vera tekinn inn í söfnuðinn á ný og það gleður okkur að hann skuli hafa gert það. Þegar öldungarnir tilkynna að einhver hafi verið tekinn inn í söfnuðinn á ný væri þess vegna ekki rangt af viðstöddum að klappa hæversklega.

Hvað getur hafa valdið hreyfingunni sem komst á vatnið í Betesdalaug í Jerúsalem?

Sumir Jerúsalembúar á dögum Jesú trúðu að hægt væri að fá lækningu í Betesdalaug þegar vatnið ‚hrærðist‘, það er að segja þegar hreyfing komst á það. (Jóh. 5:1-7) Þar af leiðandi hópaðist fólk til laugarinnar til að leita sér lækningar.

Umrædd laug var ein af trúarlegum baðlaugum hjá Gyðingum. Vatnsborði laugarinnar var haldið í ákveðinni hæð með því að hleypa vatni í hana úr aðliggjandi þró sem tilheyrði sama mannvirki. Fornleifarannsóknir hafa leitt í ljós að stífluveggur aðskildi þessar tvær laugar. Hægt var að opna loku á stífluveggnum til að veita vatni um stokk inn í botn laugarinnar. Þegar það var gert hlýtur vatnsstreymið að hafa komið hreyfingu á yfirborð laugarinnar.

Athyglisvert er að Jóhannes 5:4, þar sem segir að engill hafi hrært vatnið í lauginni, er ekki að finna í virtum forngrískum handritum, svo sem Codex Sinaiticus frá fjórðu öld. Hvað sem því líður læknaði Jesús mann við Betesdalaug sem hafði verið veikur í 38 ár. Hann læknaðist á augabragði án þess að fara einu sinni ofan í laugina.