Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

NÁMSGREIN 28

Vertu sannfærður um að þú hafir fundið sannleikann

Vertu sannfærður um að þú hafir fundið sannleikann

„Haltu þig við það sem þú hefur lært og látið sannfærast um.“ – 2. TÍM. 3:14.

SÖNGUR 56 Trúin verður þín

YFIRLIT *

1. Hvað eigum við við með hugtakinu „sannleikurinn“?

HVERNIG kynntistu sannleikanum? Varstu alinn upp í sannleikanum? Hversu lengi hefurðu verið í sannleikanum? Þú hefur eflaust fengið slíkar spurningar. Og kannski hefurðu spurt aðra svipaðra spurninga. Hvað eigum við við með hugtakinu „sannleikurinn“? Við notum það venjulega til að lýsa því hverju við trúum, hvernig við tilbiðjum Guð og hvernig við lifum lífinu. Þeir sem eru „í sannleikanum“ vita hvað Biblían kennir og lifa í samræmi við meginreglur hennar. Fyrir vikið eru þeir lausir undan trúarlegum lygum og lifa besta lífi sem völ er á fyrir ófullkomið fólk. – Jóh. 8:32.

2. Hvað gæti verið það fyrsta sem vekur áhuga fólks á sannleikanum, samanber Jóhannes 13:34, 35?

2 Hvað laðaði þig að sannleikanum? Ef til vill var það góð hegðun þjóna Jehóva. (1. Pét. 2:12) Eða kannski var það kærleikurinn sem þeir sýndu. Margir hafa tekið eftir þessum kærleika á fyrstu samkomunni sem þeir sóttu og það hafði meiri áhrif en nokkuð sem var sagt frá sviðinu. Þetta kemur ekki á óvart því að Jesús sagði að lærisveinar sínir myndu þekkjast á kærleikanum sín á milli. (Lestu Jóhannes 13:34, 35.) En fleira þarf til ef trú okkar á að vera sterk.

3. Hvað gæti gerst ef trú okkar á Guð væri byggð aðeins á kærleikanum sem trúsystkini okkar sýna?

3 Trú okkar þarf að vera byggð á fleiru en kristnum kærleika sem þjónar Guðs sýna. Hvers vegna? Segjum að trúsystkini – jafnvel öldungur eða brautryðjandi – fremji alvarlega synd. Eða hvað ef bróðir eða systir særir þig? Eða þá að einhver verður fráhvarfsmaður og fullyrðir að við höfum ekki sannleikann? Myndirðu hneykslast og hætta að þjóna Jehóva ef eitthvað slíkt gerðist? Málið er: Ef þú byggðir trú þína aðeins á því sem aðrir gera en ekki á sambandi þínu við Jehóva yrði trú þín ekki traust. Þú ættir ekki eingöngu að byggja hana á tilfinningum heldur líka sterkum rökum og staðreyndum. Þú þarft að sannreyna að Biblían kenni sannleikann um Jehóva. – Rómv. 12:2.

4. Hvaða áhrif hefur það á suma þegar trú þeirra er reynd, samkvæmt Matteusi 13:3–6, 20, 21?

4 Jesús sagði að trú sumra sem tækju við sannleikanum „með fögnuði“ myndi dvína þegar hún yrði reynd. (Lestu Matteus 13:3–6, 20, 21.) Kannski áttuðu þeir sig ekki á að fylgjendur Jesú myndu mæta erfiðleikum og héldu kannski að lífið myndi einkennast af eintómri blessun. (Matt. 16:24) En enginn er laus við vandamál í þessum ófullkomna heimi. Aðstæður geta breyst og haft þau áhrif að gleði okkar dvíni um tíma. – Sálm. 6:7; Préd. 9:11.

5. Hvernig sýna langflest trúsystkini okkar að þau eru sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann?

5 Langflest trúsystkini okkar sýna að þau eru sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann. Hvernig? Þau hvika ekki frá sannfæringu sinni þótt trúsystkini særi þau eða fari að haga sér ókristilega. (Sálm. 119:165) Í hvert sinn sem reynir á trú þeirra styrkist hún í stað þess að veikjast. (Jak. 1:2–4) Hvernig getur þú byggt upp slíka trú?

AFLAÐU ÞÉR NÁKVÆMRAR ÞEKKINGAR Á GUÐI

6. Á hverju byggðu frumkristnir menn trú sína?

6 Frumkristnir menn byggðu trú sína á þekkingu á orði Guðs og kenningum Jesú Krists, það er að segja ,sannleika fagnaðarboðskaparins‘. (Gal. 2:5) Þessi sannleikur felur í sér kenningar kristninnar í heild, þar á meðal sannindin um lausnarfórn Jesú og upprisuna. Páll postuli var sannfærður um að þessar kenningar væru réttar. Hann notaði Ritningarnar „til að sanna að Kristur þurfti að þjást og rísa upp frá dauðum“. (Post. 17:2, 3) Lærisveinar Jesú trúðu þessum kenningum og reiddu sig á hjálp heilags anda til að skilja orð Guðs. Þeir rannsökuðu kenningarnar og gengu úr skugga um að þær væru byggðar á Ritningunum. (Post. 17:11, 12; Hebr. 5:14) Þeir byggðu ekki trú sína á tilfinningum einum saman og þjónuðu ekki Jehóva aðeins vegna þess að þeim leið vel í félagsskap trúsystkina sinna. Trú þeirra var byggð á ,nákvæmri þekkingu á Guði‘. – Kól. 1:9, 10, neðanmáls.

7. Hvernig er það okkur til góðs að trú okkar sé byggð á biblíusannindum?

7 Sannleikurinn í orði Guðs breytist aldrei. (Sálm. 119:160) Hann breytist til dæmis ekki ef trúsystkini særir okkur eða syndgar alvarlega. Hann breytist ekki heldur þegar við stöndum andspænis erfiðleikum. Við þurfum þess vegna að þekkja kenningar Biblíunnar vel og vera sannfærð um að þær séu sannar. Sterk trú sem byggist á biblíusannindum veitir okkur stöðugleika í prófraunum rétt eins og akkeri heldur skipi kyrru í öflugum stormi. Hvernig getur þú styrkt þá sannfæringu þína að þú hafir fundið sannleikann?

,LÁTTU SANNFÆRAST‘

8. Hvernig sannfærðist Tímóteus um að hann hefði fundið sannleikann, eins og sjá má af 2. Tímóteusarbréfi 3:14, 15?

8 Tímóteus var sannfærður um að hann hefði fundið sannleikann. Hvers vegna? (Lestu 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.) Móðir hans og amma fræddu hann um „heilagar ritningar“. Eflaust notaði hann líka sjálfur tíma og orku til að rannsaka kenningarnar í orði Guðs. Fyrir vikið sannfærðist hann um að þessar ritningar innihéldu sannleikann. Tímóteus, móðir hans og amma kynntust seinna kristninni. Tímóteus var örugglega snortinn af kærleikanum sem fylgjendur Jesú sýndu og hann hafði mikla löngun til að vera með trúsystkinum sínum og hjálpa þeim. (Fil. 2:19, 20) En trú hans byggðist ekki á tilfinningum hans til annarra. Hann var sannfærður um að kenningar Ritninganna væru sannar og það laðaði hann að Jehóva. Þú þarft sömuleiðis að skoða Biblíuna vandlega og sannfærast um að það sem þú lærir um Jehóva sé satt.

9. Hvaða þrennu grundvallarsannindi þarftu að sannreyna?

9 Þú þarft að byrja á því að sannreyna þrenn grundvallarsannindi. Í fyrsta lagi verður þú að vera sannfærður um að Jehóva Guð sé skapari allra hluta. (2. Mós. 3:14, 15; Hebr. 3:4; Opinb. 4:11) Í öðru lagi þarftu að komast að raun um að Biblían hafi að geyma innblásinn boðskap Guðs til mannanna. (2. Tím. 3:16, 17) Og í þriðja lagi þarftu að vera sannfærður um að Jehóva eigi sér skipulagðan hóp manna sem tilbiður hann undir forystu Krists, og að sá hópur sé Vottar Jehóva. (Jes. 43:10–12; Jóh. 14:6; Post. 15:14) Það er ekki nauðsynlegt að vita allt um Biblíuna til að vera fullviss um þessi grundvallarsannindi. Markmið þitt ætti að vera að „beita skynseminni“ til að styrkja þá sannfæringu þína að þú hafir fundið sannleikann. – Rómv. 12:1.

VERTU REIÐUBÚINN AÐ SANNFÆRA AÐRA

10. Hvað þurfum við að vera fær um, auk þess að þekkja sannleikann?

10 Þegar þú hefur gengið úr skugga um sannleiksgildi þessara þrennu grundvallarsanninda varðandi Guð, Biblíuna og fólk Guðs þarftu að vera tilbúinn að nota Biblíuna til að sanna þau fyrir öðrum. Hvers vegna? Vegna þess að við höfum þá ábyrgð sem lærisveinar Krists að kenna þeim sem vilja hlusta þau sannindi sem við höfum tileinkað okkur. * (1. Tím. 4:16) Og við styrkjum eigin sannfæringu þegar við leitumst við að sannfæra aðra um þau.

11. Hvernig setti Páll postuli okkur gott fordæmi til eftirbreytni þegar hann kenndi öðrum?

11 Þegar Páll postuli kenndi öðrum „notaði [hann] bæði lög Móse og spámennina til að reyna að sannfæra þá um að þeir ættu að trúa á Jesú“. (Post. 28:23) Hvernig getum við líkt eftir Páli þegar við kennum öðrum sannleikann? Við verðum að gera meira en að þylja upp staðreyndir. Við þurfum að hjálpa biblíunemendum okkar að rannsaka Biblíuna og hugleiða vandlega það sem hún segir. Við viljum ekki að þeir taki við sannleikanum vegna þess að þeim líki vel við okkur heldur vegna þess að þeir eru sannfærðir um að það sem þeir læra sé sannleikurinn um kærleiksríkan Guð okkar, Jehóva.

Foreldrar, hjálpið börnum ykkar að byggja upp trú með því að kenna þeim „hið djúpa sem býr í Guði“. (Sjá 12. og 13. grein.) *

12, 13. Hvernig geta foreldrar hjálpað börnum sínum að halda sig við sannleikann?

12 Þið foreldrar viljið eflaust að börnin ykkar verði áfram í sannleikanum. Ykkur finnst kannski að þau muni geta byggt upp sterka trú ef þau eiga góða vini í söfnuðinum. En það er ekki nóg að eiga góða vini ef þau eiga að vera sannfærð um að þau hafi fundið sannleikann. Það er nauðsynlegt að þau eigi vináttusamband við Guð og séu sannfærð um að það sem Biblían kennir sé satt.

13 Til að kenna börnum sínum sannleikann um Guð þurfa foreldrar að setja þeim gott fordæmi með því að vera iðnir við að rannsaka Biblíuna sjálfir. Þeir verða að gefa sér tíma til að hugleiða það sem þeir læra. Þá geta þeir hjálpað börnunum að gera slíkt hið sama. Þeir þurfa að kenna þeim að nota biblíunámsgögnin okkar * rétt eins og þeir kenna biblíunemanda að nota þau. Þannig hjálpa þeir börnum sínum að elska Jehóva og vera þakklát fyrir þá boðleið sem hann notar til að útdeila andlegri fæðu – trúa og skynsama þjóninn. (Matt. 24:45–47) Foreldrar, látið ykkur ekki nægja að kenna börnum ykkar aðeins grundvallarsannindi Biblíunnar. Hjálpið þeim að byggja upp sterka trú með því að kenna þeim í samræmi við aldur og getu „hið djúpa sem býr í Guði“. – 1. Kor. 2:10.

RANNSAKAÐU BIBLÍUSPÁDÓMA

14. Hvers vegna ættum við að rannsaka spádóma Biblíunnar? (Sjá einnig rammann „Geturðu útskýrt þessa spádóma?“)

14 Spádómar eru mikilvægur hluti af Biblíunni og hjálpa okkur að byggja upp sterka trú á Jehóva. Hvaða spádómar hafa styrkt trú þína? Þú bendir kannski á spádóma um ,síðustu daga‘. (2. Tím. 3:1–5; Matt. 24:3, 7) En hvaða aðrir uppfylltir spádómar geta styrkt sannfæringu þína? Geturðu til dæmis útskýrt hvernig spádómarnir í 2. eða 11. kafla Daníelsbókar hafa ræst og eru að rætast? * Trú þín verður óhagganleg ef hún er traustlega byggð á Biblíunni. Skoðum fordæmi trúsystkina okkar sem sættu miklum ofsóknum í Þýskalandi í seinni heimsstyrjöldinni. Þótt skilningur á spádómum Biblíunnar um hina síðustu daga var ekki orðinn alveg skýr báru þau fullt traust til orðs Guðs.

Að rannsaka Biblíuna og spádóma hennar hjálpar okkur að vera trúföst þegar reynir á. (Sjá 15.–17. grein.) *

15–17. Hvernig styrkti biblíunám trúsystkini okkar sem voru ofsótt af nasistum?

15 Undir stjórn nasista í Þýskalandi voru þúsundir bræðra og systra sendar í fangabúðir. Hitler og SS-foringinn Heinrich Himmler hötuðu Votta Jehóva. Að sögn systur nokkurrar sagði Himmler við hóp systra í einni fangabúðanna: „Þessi Jehóva ykkar ríkir kannski á himni en hér á jörðinni ráðum við! Þið fáið að sjá hvort við höldum velli lengur eða þið!“ Hvað hjálpaði fólki Jehóva að vera trúfast?

16 Þessir biblíunemendur vissu að ríki Guðs tók til starfa árið 1914. Hörð andstaðan kom þeim ekki á óvart. En þjónar Guðs vissu að engin mannleg stjórn gæti komið í veg fyrir að fyrirætlun Guðs næði fram að ganga. Hitler gat ekki þurrkað út sanna tilbeiðslu né komið á fót stjórn sem gæti komið ríki Guðs frá völdum. Trúsystkini okkar voru sannfærð um að stjórn Hitlers tæki enda fyrr eða síðar.

17 Sannfæring þessara bræðra og systra var á rökum reist. Ekki leið á löngu áður en stjórn nasista hrundi og Heinrich Himmler lagði á flótta, sá sami og hafði sagt: „Hér á jörðinni ráðum við!“ Á flóttanum rakst hann á bróður Lübke, fyrrverandi fanga sem hann kannaðist við. „Hvað gerist nú, biblíunemandi?“ spurði hann algerlega bugaður. Bróðir Lübke sagði Himmler að vottar Jehóva hefðu vitað allan tímann að stjórn nasista myndi hrynja og að þeir yrðu frelsaðir. Himmler varð orðlaus – maðurinn sem hafði haft svo margt að segja um Votta Jehóva. Hann svipti sig lífi stuttu síðar. Lærdómurinn? Að rannsaka Biblíuna, þar á meðal spádóma hennar, getur hjálpað okkur að byggja upp óbilandi traust á Guð og vera staðföst í prófraunum. – 2. Pét. 1:19–21.

18. Hvers vegna þurfum við að búa yfir „nákvæmri þekkingu og góðri dómgreind“ eins og Páll talaði um og sjá má af Jóhannesi 6:67, 68?

18 Við ættum öll að sýna þann kærleika sem einkennir sannkristna menn. En við þurfum líka að búa yfir „nákvæmri þekkingu og góðri dómgreind“. (Fil. 1:9) Að öðrum kosti gætum við orðið fyrir áhrifum af „hverjum kenningarvindi“ og mönnum sem „beita brögðum og blekkingum“, þar á meðal fráhvarfsmönnum. (Ef. 4:14) Þegar margir lærisveinar Jesú á fyrstu öld hættu að fylgja honum lét Pétur í ljós þá sannfæringu sína að Jesús hefði „orð eilífs lífs“. (Lestu Jóhannes 6:67, 68.) Þótt Pétur hafi ekki skilið til fulls allt sem Jesús kenndi var hann trúfastur vegna þess að hann var sannfærður um að Jesús væri sendur af Guði. Þú getur að sama skapi styrkt sannfæringu þína um að það sem Biblían kennir sé satt. Ef þú gerir það stenst trú þín hvaða prófraun sem er og þú hjálpar öðrum að byggja upp sterka trú. – 2. Jóh. 1, 2.

SÖNGUR 72 Boðum sannleikann um ríkið

^ gr. 5 Þessi grein hjálpar okkur að skilja hve verðmætur sannleikurinn í orði Guðs er. Einnig er rætt hvernig við getum styrkt þá sannfæringu okkar að við höfum fundið sannleikann.

^ gr. 10 Til að fá hjálp við að ræða við aðra um grundvallarkenningar Biblíunnar geturðu skoðað greinaröðina „Samræður um Biblíuna“ sem birtist í Varðturninum á árunum 2010 til 2015. Þar má finna greinar eins og „Hvenær tók ríki Guðs til starfa?“, „Trúa Vottar Jehóva á Jesú?“ og „Af hverju leyfir Guð þjáningar?

^ gr. 13 Meðal þessara hjálpargagna eru Efnislykillinn, VEFBÓKASAFN Varðturnsins og appið JW Library.

^ gr. 14 Nánari umfjöllun um þessa spádóma er að finna í Varðturninum 15. júní 2012 og maí 2020.

^ gr. 61 MYND: Foreldrar rannsaka biblíuspádóma um þrenginguna miklu með börnum sínum í biblíunámsstund fjölskyldunnar.

^ gr. 63 MYND: Það sem á sér stað í þrengingunni miklu kemur fjölskyldunni ekki í opna skjöldu.