Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

SAMRÆÐUR UM BIBLÍUNA

Hvenær tók ríki Guðs til starfa? (1. hluti)

Hvenær tók ríki Guðs til starfa? (1. hluti)

Hér á eftir fara fram dæmigerðar samræður sem vottar Jehóva eiga við fólk. Við skulum gera okkur í hugarlund að vottur, sem heitir Garðar, hafi bankað upp á hjá manni sem heitir Jóhann.

AÐ LEITA SVARA

Garðar: Það hefur verið virkilega ánægjulegt að koma til þín, Jóhann, og ræða saman um Biblíuna. * Síðast þegar við hittumst ræddum við stuttlega um ríki Guðs og þú spurðir af hverju Vottar Jehóva segja að þetta ríki hafi tekið til starfa árið 1914.

Jóhann: Já, ég var að lesa í blöðunum ykkar og þar stóð að ríki Guðs hafi tekið til starfa árið 1914. Mér fannst það forvitnilegt því að þið segist byggja allar kenningar ykkar á Biblíunni.

Garðar: Já, það er alveg rétt. Við gerum það.

Jóhann: Ég hef nú reyndar lesið alla Biblíuna en ég man ekki eftir að hafa rekist á ártalið 1914 í henni. Ég skoðaði því Biblíuna á Netinu og sló inn leitarorðið „1914“. En það kom hvergi fyrir.

Garðar: Mig langar til að hrósa þér, Jóhann, fyrir að hafa lesið alla Biblíuna. Þú hlýtur að meta orð Guðs mikils.

Jóhann: Já, ég geri það. Mér finnst Biblían alveg einstök bók.

Garðar: Ég er alveg sammála. Mig langar líka til að hrósa þér fyrir að leita svara við spurningunni þinni í Biblíunni. Þú gerðir nákvæmlega það sem Biblían hvetur okkur til að gera: Að halda áfram að leita svara til að öðlast skilning. * Það er mjög gott að þú gafst ekki upp á að finna svör.

Jóhann: Þakka þér fyrir. Mig langar virkilega til að vita meira. Ég kannaði málið reyndar aðeins betur og fann upplýsingar um árið 1914 í bókinni sem við höfum verið að lesa saman. Þar var sagt frá konungi sem dreymdi draum um stórt tré. Tréð var fellt en óx síðan aftur. Er það ekki rétt hjá mér?

Garðar: Jú, það er alveg rétt. Þessi spádómur er í Daníelsbók kafla 4. Þar er talað um draum Nebúkadnesars konungs í Babýlon.

Jóhann: Já, einmitt. Ég las þennan spádóm aftur og aftur. En satt að segja skil ég ekki enn hvernig hann tengist ríki Guðs eða árinu 1914.

Garðar: Það er nú kannski ekkert skrýtið. Daníel skildi ekki einu sinni allt sem honum var innblásið að skrifa.

Jóhann: Já, er það?

Garðar: Já. Hann segir sjálfur hérna í Daníelsbók 12:8: „Ég hlustaði á en skildi ekki.“

Jóhann: Nú, jæja. Það er gott að vita að ég er ekki sá eini sem finnst erfitt að skilja þetta.

Garðar: Daníel skildi reyndar ekki þessa spádóma vegna þess að tíminn var ekki kominn að Guð veitti mönnum fullan skilning á þeim. En núna, á okkar tímum, er hægt að skilja þá að fullu.

Jóhann: Af hverju segirðu það?

Garðar: Jú, sjáðu hvað segir hérna í næsta versi, í Daníel 12:9: „Þessi orð eru leyndardómur, innsigluð allt til endalokanna.“ Það yrði því aðeins hægt að skilja þessa spádóma löngu síðar, eða á tíma „endalokanna“. Og eins og við skoðum fljótlega saman í biblíunámsbókinni bendir allt til þess að tími endalokanna standi yfir núna. *

Jóhann: En geturðu þá sagt mér hvað þessi spádómur í Daníelsbók merkir?

Garðar: Já, ég skal gera mitt besta.

DRAUMUR NEBÚKADNESARS

Garðar: Fyrst skulum við rifja stuttlega upp hvað Nebúkadnesar konung dreymdi. Síðan getum við skoðað hvað draumurinn merkir.

Jóhann: Allt í lagi.

Garðar: Nebúkadnesar dreymdi feikihátt tré sem náði alla leið til himna. Síðan heyrði hann engil Guðs gefa skipun um að höggva tréð en skilja rótarstubbinn eftir í moldinni. Tréð myndi síðan vaxa upp aftur eftir „sjö tíðir“. * Þessi spádómur rættist fyrst á Nebúkadnesari konungi. Enda þótt hann væri voldugur og mikilfenglegur konungur, ekki ósvipað og þetta feikiháa tré sem teygði sig óhindrað til himna, var hann í táknrænni merkingu höggvinn í „sjö tíðir“. Manstu hvernig það gerðist?

Jóhann: Nei, ég man það nú ekki.

Garðar: Allt í lagi. Í Biblíunni segir að Nebúkadnesar hafi misst vitið að því er virðist í sjö ár. Á því tímabili var hann ófær um að ríkja sem konungur. En eftir þessar „sjö tíðir“ fékk hann vitið aftur og tók að ríkja sem konungur á ný. *

Jóhann: Ókei, ég held að ég hafi náð þessu. En hvað hefur það að gera með ríki Guðs og árið 1914?

Garðar: Í stuttu máli sagt rættist þessi spádómur tvisvar. Hann rættist fyrst þegar hlé var gert á stjórn Nebúkadnesars konungs. Hann rættist síðan aftur þegar hlé varð á stjórn Guðs. Þannig að seinni uppfylling spádómsins tengist ríki Guðs.

Jóhann: En hvernig veistu að seinni uppfyllingin tengist ríki Guðs?

Garðar: Jú, við fáum vísbendingu um það í spádóminum sjálfum. Samkvæmt Daníel 4:14 var þessi spádómur borinn fram „svo að hver lífvera sjái að Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna“ og „að hann fær ríkið hverjum sem hann vill“. Tókstu eftir orðalaginu „alvaldur yfir ríki mannanna“?

Jóhann: Já, það segir hér: „Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna.“

Garðar: Einmitt. Hver heldurðu að „Hinn æðsti“ sé?

Jóhann: Ég geri ráð fyrir að það sé Guð.

Garðar: Alveg rétt. Og það segir okkur að spádómurinn rætist ekki einungis á Nebúkadnesari því að í spádóminum er líka talað um þann sem er „alvaldur yfir ríki mannanna“, það er að segja Guð sem stjórnar yfir mannkyni. Og það er rökrétt þegar við skoðum spádóminn í heild sinni.

Jóhann: Hvað áttu við?

AÐALBOÐSKAPUR DANÍELSBÓKAR

Garðar: Í Daníelsbók er athyglinni beint að ákveðnum boðskap. Þar er margsinnis vísað fram til þess tíma þegar Guð stofnsetur ríki undir stjórn Jesú, sonar síns. Skoðum til dæmis 2. kafla í Daníelsbók. Myndir þú vilja lesa vers 44?

Jóhann: Já. Hér stendur: „Á dögum þessara konunga mun Guð himnanna magna upp ríki sem aldrei mun hrynja og ekki verða selt annarri þjóð í hendur. Það mun eyða öllum þessum ríkjum og gera þau að engu en standa sjálft að eilífu.“

Garðar: Takk fyrir. Gæti verið að hér sé verið að tala um ríki Guðs?

Jóhann: Ég er bara ekki alveg viss.

Garðar: Taktu eftir að hér segir að þetta ríki muni „standa sjálft að eilífu“. Ríki Guðs getur vissulega staðið að eilífu en stjórnir manna geta ekki ríkt að eilífu, er það nokkuð?

Jóhann: Nei, það geta þær ekki.

Garðar: Í Daníelsbók er einnig annar spádómur sem beinir athyglinni að ríki Guðs. Hann er að finna í kafla 7 versum 13 og 14. Þar er sagt um stjórnanda þessa ríkis: „Honum var falið valdið, tignin og konungdæmið og allir menn, þjóðir og tungur skyldu lúta honum. Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ Hér er greinilega ekki verið að tala um hvaða ríki eða „konungdæmi“ sem er, því að þetta ríki fengi vald yfir ,öllum mönnum, þjóðum og tungum‘. Það myndi með öðrum orðum ríkja yfir allri jörðinni.

Jóhann: Já, ég skil.

Garðar: Taktu líka eftir hvað segir enn fremur í spádóminum: „Veldi hans er eilíft og líður aldrei undir lok, á konungdæmi hans verður enginn endir.“ Minnir þetta ekki á það sem við lásum í Daníel 2:44, um að þetta ríki standi að eilífu?

Jóhann: Jú, það gerir það.

Garðar: Við skulum rifja þetta aðeins upp. Spádómurinn í 4. kafla Daníelsbókar var borinn fram til þess að fólk fengi að vita að „Hinn æðsti er alvaldur yfir ríki mannanna“. Það gefur til kynna að spádómurinn rætist ekki bara á Nebúkadnesari, heldur að hann eigi sér líka aðra og meiri uppfyllingu. Og víða í Daníelsbók er að finna spádóma um að Guð stofnsetji ríki undir stjórn sonar síns. Er þá ekki rökrétt að álykta að þessi spádómur í 4. kafla Daníelsbókar tengist einnig ríki Guðs?

Jóhann: Jú, það hljómar rökrétt. En ég skil ekki enn hvernig þetta tengist árinu 1914.

„SJÖ TÍÐIR“ LÍÐA

Garðar: Við skulum þá snúa okkur aftur að Nebúkadnesari konungi. Þegar spádómurinn rættist í fyrra skiptið táknaði tréð Nebúkadnesar. Hlé var gert á stjórn hans þegar tréð var höggvið og bundið í sjö tíðir – það er að segja þegar hann missti vitið um tíma. Þessum sjö tíðum lauk þegar hann fékk vitið aftur og tók að ríkja á ný. Þegar spádómurinn rættist í seinna skiptið varð tímabundið hlé á stjórn Guðs – en það stafaði samt ekki af því að eitthvað hafði farið úrskeiðis hjá Guði.

Jóhann: Hvað áttu við?

Garðar: Á biblíutímanum var talað um að Ísraelskonungar, sem ríktu í Jerúsalem, sætu „í hásæti Drottins“. * Guð gaf þeim umboð til að ríkja yfir Ísraelsmönnum, þjóð sinni, og því má segja að Guð hafi í raun stjórnað fyrir milligöngu þeirra. Flestir þessara konunga óhlýðnuðust þó Guði og meirihluti þjóðarinnar fylgdi slæmu fordæmi þeirra. Vegna óhlýðni þeirra leyfði Guð að Babýloníumenn hertækju þá árið 607 f.Kr. Upp frá því ríkti enginn konungur framar í umboði Jehóva í Jerúsalem og þar af leiðandi varð hlé á stjórn Guðs. Finnst þér þú skilja þetta örlítið betur núna?

Jóhann: Já, ég held það.

Garðar: Þannig að árið 607 f.Kr. hófust þessar sjö tíðir, eða tímabilið þegar hlé yrði á stjórn Guðs. Þegar því lyki myndi Guð krýna nýjan konung til að ríkja í umboði hans, og í þetta skipti yrði konungurinn á himnum. Þá rættust líka hinir spádómarnir í Daníelsbók sem við lásum áðan. En þá er spurningin: Hvenær lauk tíðunum sjö? Ef við vitum svarið við því vitum við hvenær ríki Guðs tók til starfa.

Jóhann: Ég skil. Lauk þessum sjö tíðum sem sagt árið 1914?

Garðar: Já, þar hittirðu naglann á höfuðið.

Jóhann: En hvernig er hægt að vita að þeim lauk þá?

Garðar: Jú, þegar Jesús prédikaði hér á jörð gaf hann til kynna að tíðirnar sjö stæðu enn yfir. * Því er augljóst að þessar sjö tíðir ná yfir langt tímabil. Það hófst öldum áður en Jesús kom til jarðar og stóð í töluverðan tíma eftir að hann var farinn aftur til himna. Og mundu líka að ekki yrði hægt að skilja að fullu spádómana í Daníelsbók fyrr en á tíma „endalokanna“. * Seint á 19. öld var uppi hópur manna sem þráði í einlægni að öðlast nákvæman skilning á Biblíunni. Þeir höfðu mikinn áhuga á þessum spádómum og rannsökuðu þá vandlega. Smám saman varð þeim ljóst að þessum sjö tíðum myndi ljúka árið 1914. Og þeir afdrifaríku atburðir, sem hafa átt sér stað í heiminum síðan þá, staðfesta svo ekki verður um villst að ríki Guðs tók til starfa á himnum árið 1914. Þetta ár hófust síðustu dagar þessa heims, það er að segja tími endalokanna. Ég skil ef þér finnst erfitt að meðtaka allar þessar upplýsingar á einu bretti.

Jóhann: Já, ég held að ég verði að skoða þetta aftur til að skilja þetta aðeins betur.

Garðar: Það skil ég vel. Það tók mig líka tíma að meðtaka þetta allt saman. En ég vona að minnsta kosti að þú hafir getað séð að það sem við, Vottar Jehóva, trúum varðandi ríki Guðs er byggt á Biblíunni.

Jóhann: Já, þið færið alltaf rök fyrir kenningum ykkar með því að nota Biblíuna og það finnst mér aðdáunarvert.

Garðar: Það er gott að sjá hve mikla virðingu þú berð fyrir Biblíunni. En eins og ég sagði áðan getur tekið tíma að skilja þessa spádóma og þú hefur eflaust enn einhverjar spurningar. Við höfum skoðað hvernig tíðirnar sjö tengjast ríki Guðs og að þær hófust árið 607 f.Kr. En hvernig vitum við að þeim lauk árið 1914? *

Jóhann: Já, ég var einmitt að spá í það.

Garðar: Með hjálp Biblíunnar getum við reiknað nákvæmlega út hve langt tímabil tíðirnar sjö eru. Myndirðu vilja að við skoðuðum það næst þegar ég kem?

Jóhann: Já, ég væri alveg til í það.

Viltu fá svar við einhverri biblíuspurningu sem þú hefur velt fyrir þér? Langar þig til að vita meira um Votta Jehóva eða trú þeirra? Hikaðu þá ekki við að ræða um það næst þegar þú hittir einhvern þeirra. Vottum Jehóva væri sönn ánægja að svara spurningum þínum.

^ gr. 5 Vottar Jehóva bjóða upp á ókeypis biblíunámskeið í heimahúsum þar sem þeir ræða við fólk um sannindi Biblíunnar lið fyrir lið.

^ gr. 21 Sjá 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva. Einnig fáanleg á www.jw.org/is.

^ gr. 61 Þegar Jesús spáði um síðustu daga sagði hann: „Framandi þjóðir munu fótum troða Jerúsalem [sem táknaði stjórn Guðs] þar til tímar heiðingjanna eru liðnir.“ (Lúkas 21:24) Á dögum Jesú var því enn hlé á stjórn Guðs og yrði alveg þar til síðustu dagar hæfust.

^ gr. 65 Sjá bls. 215-218 í bókinni Hvað kennir Biblían? Einnig fáanleg á www.jw.org/is.

Í næstu grein í þessum greinaflokki verður rætt um biblíuvers sem varpa ljósi á hve langt tímabil tíðirnar sjö eru.