Fyrri Kroníkubók 29:1–30

  • Framlög til musterisins (1–9)

  • Bæn Davíðs (10–19)

  • Fólkið fagnar; konungdómur Salómons (20–25)

  • Davíð deyr (26–30)

29  Davíð konungur sagði nú við allan söfnuðinn: „Salómon sonur minn, sem Guð hefur valið, er ungur og óreyndur* og verkið er mikið því að musterið er ekki ætlað manni heldur Jehóva Guði.  Ég hef gert mitt ýtrasta til að útvega það sem þarf fyrir hús Guðs míns: gull í það sem á að vera úr gulli, silfur í það sem á að vera úr silfri, kopar í það sem á að vera úr kopar, járn í það sem á að vera úr járni, timbur í það sem á að vera úr timbri, ónyxsteina, steina til að leggja í steinlím, mósaíksteina, alls konar eðalsteina og alabasturssteina í miklu magni.  Þar sem ég hef yndi af húsi Guðs míns gef ég líka gull og silfur úr mínum eigin sjóði til húss Guðs míns, auk alls sem ég hef útvegað fyrir hið heilaga hús.  Ég gef meðal annars 3.000 talentur* af gulli frá Ófír og 7.000 talentur af hreinu silfri til að klæða veggi herbergjanna,  gull í það sem á að vera úr gulli og silfur í það sem á að vera úr silfri og til að nota í alla listasmíði handverksmanna. En hver er fús til að færa Jehóva gjöf í dag?“  Ættarhöfðingjarnir, höfðingjar ættkvísla Ísraels, foringjar þúsund manna og hundrað manna flokka og umsjónarmenn sem önnuðust ýmis störf í þjónustu konungs vildu fúslega leggja sitt af mörkum.  Þeir gáfu til vinnunnar við hús hins sanna Guðs 5.000 talentur af gulli, 10.000 daríka,* 10.000 talentur af silfri, 18.000 talentur af kopar og 100.000 talentur af járni.  Allir sem áttu eðalsteina gáfu þá til fjárhirslunnar í húsi Jehóva sem Jehíel Gersoníti hafði umsjón með.  Fólkið gladdist yfir að gefa þessar sjálfviljagjafir því að það gaf Jehóva þær af heilu hjarta. Davíð konungur var líka yfir sig glaður. 10  Davíð lofaði síðan Jehóva frammi fyrir öllum söfnuðinum og sagði: „Lofaður sért þú, Jehóva, Guð Ísraels föður okkar, um alla eilífð.* 11  Jehóva, þú ert mikill og voldugur, stórfenglegur, dýrlegur og vegsamlegur því að allt á himni og jörð er þitt. Konungdómurinn er þinn, Jehóva. Þú ert hafinn yfir allt sem höfðingi. 12  Auðurinn og dýrðin koma frá þér og þú ríkir yfir öllu. Í hendi þinni er máttur og styrkur og þú hefur vald til að upphefja og efla hvern sem er. 13  Og nú þökkum við þér, Guð okkar, og lofum þitt undurfagra nafn. 14  En hver er ég og hver er þjóð mín að við getum gefið slíkar sjálfviljagjafir? Allt er frá þér og við höfum aðeins gefið þér það sem við höfum fengið úr hendi þinni. 15  Frammi fyrir þér erum við útlendingar og innflytjendur eins og allir forfeður okkar. Dagar okkar á jörðinni eru eins og skuggi – án vonar. 16  Jehóva Guð okkar, öll þessi auðæfi sem við höfum útvegað til að reisa þér hús, nafni þínu til heiðurs, eru úr hendi þinni og þú átt það allt. 17  Ég veit, Guð minn, að þú rannsakar hjartað og gleðst yfir ráðvendni.* Ég hef gefið þetta allt af einlægu hjarta og fúsu geði og það gleður mig innilega að sjá fólk þitt, sem er hingað komið, færa þér sjálfviljagjafir. 18  Jehóva, Guð forfeðra okkar, Abrahams, Ísaks og Ísraels, varðveittu þessa löngun og hugarfar í hjarta fólks þíns að eilífu og beindu hjörtum þess til þín. 19  Gefðu Salómon syni mínum heilt hjarta svo að hann haldi boðorð þín, fyrirmæli og lög og geti gert allt þetta og reist musterið sem ég hef undirbúið.“ 20  Síðan sagði Davíð við allan söfnuðinn: „Lofið Jehóva Guð ykkar.“ Allur söfnuðurinn lofaði þá Jehóva, Guð forfeðra sinna, kraup og féll á grúfu frammi fyrir Jehóva og konunginum. 21  Daginn eftir voru Jehóva færðar fleiri sláturfórnir og Jehóva voru einnig færðar brennifórnir: 1.000 ungnaut, 1.000 hrútar og 1.000 hrútlömb ásamt tilheyrandi drykkjarfórnum. Fjölmargar sláturfórnir voru færðar fyrir allan Ísrael. 22  Fólkið át og drakk frammi fyrir Jehóva þennan dag og gleðin var mikil. Fólkið gerði Salómon son Davíðs að konungi öðru sinni og smurði hann til leiðtoga frammi fyrir Jehóva en Sadók til prests. 23  Salómon settist í hásæti Jehóva í stað Davíðs föður síns. Hann var farsæll konungur og allir Ísraelsmenn hlýddu honum. 24  Allir höfðingjarnir og stríðskapparnir og allir synir Davíðs konungs gengust undir vald Salómons konungs. 25  Jehóva gerði Salómon mjög mikinn fyrir augum alls Ísraels og veitti konungdómi hans meiri tign og vegsemd en nokkur Ísraelskonungur hafði notið á undan honum. 26  Davíð Ísaíson var konungur yfir öllum Ísrael. 27  Hann ríkti yfir Ísrael í 40 ár, 7 ár í Hebron og 33 ár í Jerúsalem. 28  Hann dó í hárri elli eftir langa og góða ævi* og hafði hlotið mikil auðæfi og dýrð. Salómon sonur hans varð konungur eftir hann. 29  Samúel sjáandi, Natan spámaður og Gað sjáandi skráðu sögu Davíðs konungs frá upphafi til enda. 30  Þar er sagt frá allri stjórnartíð hans og afrekum og því sem gerðist hjá honum, Ísrael og ríkjunum í kring.

Neðanmáls

Eða „óharðnaður“.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
Daríki var persnesk gullmynt. Sjá viðauka B14.
Eða „frá eilífð til eilífðar“.
Eða „hreinlyndi; réttlæti“.
Orðrétt „í góðri elli, saddur daga“.