Bréfið til Hebrea 3:1–19

  • Jesús meiri en Móse (1–6)

    • Guð hefur gert allt (4)

  • Varað við skorti á trú (7–19)

    • „Ef þið heyrið rödd mína í dag“ (7, 15)

3  Heilögu bræður og systur, þið sem hafið fengið himneska köllun,* hugsið því um Jesú – þann postula og æðstaprest sem við viðurkennum.*  Hann var trúr þeim sem skipaði hann, rétt eins og Móse var trúr í öllu húsi hans.*  Hann* verðskuldar meiri dýrð en Móse eins og sá sem byggir hús hlýtur meiri heiður en húsið sjálft.  Öll hús eru auðvitað byggð af einhverjum en Guð er sá sem hefur gert allt.  Nú var Móse trúr sem þjónn í öllu húsi Guðs og þjónusta hans vitnaði um það sem átti að opinbera síðar,  en Kristur var trúr sem sonur með umsjón yfir húsi Guðs. Við erum hús hans ef við höldum áfram að tala óhikað og varðveitum allt til enda vonina sem við erum svo stolt af.  Þess vegna segir heilagur andi: „Ef þið heyrið rödd mína í dag  þá forherðið ekki hjörtu ykkar eins og þegar þið reittuð mig til reiði, eins og daginn þegar þið ögruðuð mér í eyðimörkinni  þar sem forfeður ykkar reyndu mig þótt þeir fengju að sjá allt sem ég gerði í 40 ár. 10  Þess vegna fékk ég óbeit á þessari kynslóð og sagði: ‚Þeir fara alltaf afvega í hjörtum sínum og hafa ekki kynnst vegum mínum.‘ 11  Ég sór því í reiði minni: ‚Þeir fá ekki að ganga inn til hvíldar minnar.‘“ 12  Gætið þess, bræður og systur, að ekkert ykkar fjarlægist hinn lifandi Guð og ali með sér illt og vantrúað hjarta. 13  Uppörvið heldur hvert annað á hverjum degi meðan enn heitir „í dag“ til að ekkert ykkar forherðist af táli syndarinnar. 14  Við fáum því aðeins sama hlutskipti og Kristur* ef við varðveitum allt til enda sannfæringuna sem við höfðum í upphafi. 15  Sagt er: „Ef þið heyrið rödd mína í dag þá forherðið ekki hjörtu ykkar eins og þegar þið reittuð mig til reiði.“ 16  Hverjir heyrðu en reittu hann samt til reiði? Voru það ekki allir þeir sem Móse leiddi út úr Egyptalandi? 17  Á hverjum hafði Guð óbeit í 40 ár? Var það ekki á þeim sem syndguðu og dóu í eyðimörkinni? 18  Og hverjum sór hann að þeir fengju ekki að ganga inn til hvíldar hans? Var það ekki þeim sem óhlýðnuðust? 19  Við sjáum að þeir fengu ekki að ganga inn vegna þess að þá skorti trú.

Neðanmáls

Eða „boð til himna“.
Eða „játum“.
Það er, Guðs.
Það er, Jesús.
Eða „aðeins hlutdeild í Kristi“.