Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Eiginleikar sem við verðum að leggja stund á

Eiginleikar sem við verðum að leggja stund á

Eiginleikar sem við verðum að leggja stund á

„Stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ — 1. TÍM. 6:11.

1. Hvað leggur fólk stund á nú á dögum?

HVAÐ leggur fólk stund á nú á dögum? Eins og fram kemur í Biblíunni keppa margir að innantómum markmiðum. Sumir ‚sækjast eftir hégóma‘ og trúa því að efnislegar eigur veiti þeim hamingju. (Orðskv. 28:19) Aðrir ‚leggja stund á að gera illt‘ eða láta skemmtun og afþreyingu verða aðalatriðið í lífinu. (Orðskv. 24:8) Þótt fólk leggi mikið á sig til að keppa að slíku er það í rauninni að „sækjast eftir vindi“. — Préd. 1:17.

2. (a) Hvaða verðlaunum hefur Guð boðið sumum kristnum mönnum að keppa eftir? (b) Hvað býður Jehóva flestum kristnum mönnum nú á dögum?

2 Skoðum á hinn bóginn hvað Páll postuli lagði stund á. Hann skrifaði: „[Ég] keppi þannig að markinu, til verðlaunanna á himnum, sem Guð hefur í Kristi kallað okkur til.“ (Fil. 3:14) Í Biblíunni má sjá að 144.000 andasmurðir kristnir menn, þar á meðal Páll, hljóti þau laun að fá líf á himnum. Þeir munu ríkja yfir jörðinni með Jesú Kristi í þúsund ár. Þetta er einstakt markmið sem Guð hefur boðið þeim að keppa eftir. Meiri hluti sannkristinna manna nú á dögum hefur hins vegar aðra von eða markmið. Jehóva hefur í kærleika sínum boðið þeim það sem Adam og Eva glötuðu, það er að segja að lifa að eilífu við fullkomna heilsu í paradís á jörð. — Opinb. 7:4, 9; 21:1-4.

3. Hvernig getum við sýnt þakklæti fyrir óverðskuldaða gæsku Guðs?

3 Syndugir menn geta ekki áunnið sér eilíft líf með ófullkominni viðleitni sinni til að gera það sem er rétt. (Jes. 64:5) Við getum aðeins hlotið eilíft líf með því að treysta á þá ráðstöfun sem Jehóva hefur gert til að bjarga okkur fyrir milligöngu Jesú Krists. Hvað getum við gert til að sýna þakklæti okkar fyrir þessa óverðskulduðu gæsku Guðs? Við getum meðal annars hlýtt þessu boði: „Stunda réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi og hógværð.“ (1. Tím. 6:11) Með því að skoða þessa eiginleika nánar getum við einsett okkur að leggja stund á þá af „enn meiri“ ákafa. — 1. Þess. 4:1.

„Stunda réttlæti“

4. Hvers vegna getum við verið viss um að það sé mikilvægt að „stunda réttlæti“ og hver eru fyrstu skrefin í þá átt?

4 Í báðum bréfum sínum til Tímóteusar taldi Páll postuli upp eiginleika sem við ættum að leggja stund á og í bæði skiptin nefndi hann „réttlæti“ fyrst. (1. Tím. 6:11; 2. Tím. 2:22) Auk þess erum við víða annars staðar í Biblíunni hvött til að ástunda réttlæti. (Orðskv. 15:9; 21:21; Jes. 51:1) Ein leið til að byrja að gera það er að afla sér þekkingar á ‚hinum eina sanna Guði, og þeim sem hann sendi, Jesú Kristi‘. (Jóh. 17:3) Sá sem ástundar réttlæti finnur sig knúinn til að láta verkin tala — hann iðrast fyrri synda og ‚snýr sér‘ svo að hann geti gert vilja Guðs. — Post. 3:19.

5. Hvað verðum við að gera til að eiga gott samband við Guð og viðhalda því?

5 Milljónir manna, sem ástunda réttlæti í fullri einlægni, hafa vígt Jehóva líf sitt og táknað vígsluna með niðurdýfingarskírn. Ertu skírður kristinn einstaklingur? Hefurðu þá hugleitt þá staðreynd að lífsstefna þín ætti að bera þess vitni að þú haldir stöðuglega áfram að leggja stund á réttlæti? Það felur meðal annars í sér að þú fylgir mælikvarða Biblíunnar „til að greina gott frá illu“ þegar þú þarft að taka mikilvægar ákvarðanir í lífinu. (Lestu Hebreabréfið 5:14.) Ef þú ert einhleypur vottur á giftingaraldri þarftu til dæmis að vera algerlega staðráðinn í því að mynda ekki rómantísk tengsl við neinn sem er ekki skírður vottur Jehóva. Þannig sýnirðu að þú ástundar réttlæti. — 1. Kor. 7:39.

6. Hvað felur það í sér að ástunda réttlæti af heilum hug?

6 Að vera réttlátur er ekki það sama og að vera réttlátur í eigin augum eða „um of réttlátur“. (Préd. 7:16) Jesús varaði menn við því að sýnast réttlátir og setja sig á hærri stall en aðra. (Matt. 6:1) Þegar við stundum réttlæti af heilum hug snertir það hjartað og fær okkur til að leiðrétta rangar hugsanir, viðhorf, hvatir og langanir. Það er ólíklegt að við drýgjum alvarlega synd ef við vinnum stöðuglega að þessu. (Lestu Orðskviðina 4:23; samanber Jakobsbréfið 1:14, 15) Auk þess mun Jehóva blessa okkur og hjálpa okkur að auðsýna aðra mikilvæga kristna eiginleika.

„Stunda . . . guðrækni“

7. Hvað er „guðrækni“?

7 Guðrækni felur í sér órjúfanlega tryggð og hollustu. Í biblíuorðabók segir að gríska orðið, sem þýtt er „guðrækni“, lýsi því „að hlúa vandlega að heilbrigðum ótta við Guð“. Ísraelsmönnum mistókst æ ofan í æ að sýna slíka guðrækni og þeir óhlýðnuðust Guði jafnvel þótt hann hefði frelsað þá frá Egyptalandi.

8. (a) Hvaða spurning vaknaði í kjölfar syndar Adams? (b) Hvernig var svarið við þessum ‚leyndardómi‘ opinberað?

8 Um þúsundir ára eftir að hinn fullkomni Adam syndgaði var þeirri spurningu ósvarað hvort nokkur maður gæti sýnt fullkomna guðrækni. Í aldanna rás gat enginn syndugur maður verið fullkomlega guðrækinn. En þegar fram liðu stundir opinberaði Jehóva svarið við þessum ‚leyndardómi‘. Hann flutti líf eingetins sonar síns frá himnum inn í móðurkvið Maríu svo að hann myndi fæðast sem fullkomin maður. Á meðan Jesús lifði hér á jörð — og einnig þegar hann stóð frammi fyrir kvalafullum dauða — sýndi hann hvað það þýðir að vera algerlega trúfastur og hollur hinum sanna Guði. Bænir hans báru vitni um lotningu hans gagnvart ástríkum föður sínum á himnum. (Matt. 11:25; Jóh. 12:27, 28) Jehóva innblés því Páli að nefna guðrækni þegar hann lýsti lífsstefnu Jesú sem er okkur til eftirbreytni: „Víst er leyndardómur trúarinnar [„guðrækninnar“, NW] mikill: Hann birtist í manni, sannaðist í anda, opinber englum, var boðaður þjóðum, trúað í heimi, hafinn upp í dýrð.“ — 1. Tím. 3:16.

9. Hvernig getum við keppt að því að sýna guðrækni?

9 Þar sem við erum syndug getum við ekki sýnt fullkomna guðrækni. En við getum keppt að því. Það felur í sér að fylgja fyrirmynd Krists eins vel og við getum. (1. Pét. 2:21) Þá verðum við ekki eins og hræsnarar sem „hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar [„guðrækninnar“, NW] en afneita krafti hennar“. (2. Tím. 3:5) Það þýðir þó ekki að sönn guðrækni tengist ekki því sem sést á yfirborðinu. Hún gerir það svo sannarlega. Tökum dæmi: Hvort sem við erum að velja brúðarkjól eða ákveða hverju við ætlum að klæðast þegar við förum að versla ætti útlit okkar alltaf að endurspegla löngun okkar til að „dýrka Guð“. (1. Tím. 2:9, 10) Já, ef við viljum ástunda guðrækni verðum við á hverjum degi að taka mið af réttlátum meginreglum Guðs.

„Stunda . . . trú“

10. Hvað verðum við að gera til að viðhalda sterkri trú?

10Lestu Rómverjabréfið 10:17. Til að byggja upp sterka trú og viðhalda henni verða kristnir menn að halda áfram að hugleiða þau dýrmætu sannindi sem er að finna í orði Guðs. Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur gefið út mörg góð rit. Þrjú þeirra, Mesta mikilmenni sem lifað hefur, Lærum af kennaranum mikla og „Komið og fylgið mér“, eru einstaklega gagnleg og skrifuð til að hjálpa okkur að kynnast Kristi betur og líkja eftir honum. (Matt. 24:45-47) Þjónshópurinn skipuleggur líka samkomur og mót sem mörg hver leggja áherslu á Jesú Krist. Kemurðu auga á leiðir til að nýta þér fræðsluna betur þegar þú gefur „enn betur gaum“ að því sem Guð lætur okkur í té? — Hebr. 2:1.

11. Hvernig getur bæn og hlýðni hjálpað okkur að byggja upp sterka trú?

11 Bænin getur líka hjálpað okkur að byggja upp sterka trú. Fylgjendur Jesú báðu einu sinni: „Auk oss trú!“ Við getum í auðmýkt beðið Guð um hið sama. (Lúk. 17:5) Við ættum líka að biðja um hjálp heilags anda því að „trúmennska“ eða trú er einn af eiginleikunum sem mynda ‚ávöxt andans‘. (Gal. 5:22) Auk þess styrkir það trú okkar ef við hlýðum boðum Guðs. Við gætum til dæmis lagt okkur fram um að gera meira í boðunarstarfinu. Það mun veita okkur mikla gleði. Og trú okkar styrkist þegar við hugleiðum þær blessanir sem við fáum með því að leita „fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis“. — Matt. 6:33.

„Stunda . . . kærleika“

12, 13. (a) Hvert er hið nýja boðorð Jesú? (b) Á hvaða sviðum þurfum við að leggja stund á kristinn kærleika?

12Lestu 1. Tímóteusarbréf 5:1, 2. Páll gaf hagnýtar leiðbeiningar um það hvernig kristnir menn geta sýnt hver öðrum kærleika. Guðrækni ætti að fela í sér að fylgja hinu nýja boðorði Jesú að „elska hvert annað“ eins og hann elskaði okkur. (Jóh. 13:34) Jóhannes postuli sagði: „Ef sá sem hefur heimsins gæði horfir á bróður sinn eða systur vera þurfandi og lýkur aftur hjarta sínu fyrir þeim, hvernig getur kærleikur til Guðs verið stöðugur í honum?“ (1. Jóh. 3:17) Manstu eftir að hafa sýnt slíkan kærleika í verki?

13 Önnur leið til að leggja stund á kærleika er að vera fús til að fyrirgefa og ala ekki á gremju í garð trúsystkina okkar. (Lestu 1. Jóhannesarbréf 4:20.) Við viljum öllu heldur fylgja innblásnu ráðunum: „Umberið hvert annað og fyrirgefið hvert öðru ef einhver hefur sök á hendur öðrum. Eins og Drottinn hefur fyrirgefið ykkur, svo skuluð þið og gera.“ (Kól. 3:13) Eru stirð samskipti milli þín og einhvers í söfnuðinum? Gætirðu þá tekið þessar leiðbeiningar til þín og fyrirgefið honum?

„Stunda . . . stöðuglyndi“

14. Hvað getum við lært af söfnuðinum í Fíladelfíu?

14 Það að keppa að skammtímamarkmiðum er harla ólíkt því að keppa að markmiðum sem erfitt er að ná eða markmiðum sem reynast langt undan. Til að keppa að því marki að hljóta eilíft líf þurfum við greinilega að sýna stöðuglyndi eða vera þolgóð. „Af því að þú hefur varðveitt orð mitt um þolgæði mun ég varðveita þig á þeirri reynslustund sem á að koma,“ sagði Drottinn Jesús við söfnuðinn í Fíladelfíu. (Opinb. 3:10) Já, Jesús kenndi okkur nauðsyn þess að sýna þolgæði — eiginleika sem hjálpar okkur að gefast ekki upp þegar við mætum erfiðleikum og freistingum. Bræðurnir í söfnuðinum í Fíladelfíu á fyrstu öld hljóta að hafa sýnt einstakt þolgæði í mörgum trúarprófraunum. Þess vegna fullvissaði Jesús þá um að þeir fengju frekari hjálp í meiri prófraunum sem voru fram undan. — Lúk. 16:10.

15. Hvað sagði Jesús um þolgæði?

15 Jesús vissi að fylgjendur sínir yrðu hataðir af ættingjum sem væru ekki í trúnni og af heiminum almennt og því sagði hann að minnsta kosti við tvö tækifæri: „Sá sem staðfastur er allt til enda mun frelsast.“ (Matt. 10:22; 24:13) Jesús benti lærisveinunum einnig á hvernig þeir gætu fengið þann styrk sem þeir þurftu til að vera þolgóðir. Í dæmisögu nokkurri sagði hann að þeir „sem taka orðinu með fögnuði“ en „falla frá á reynslutíma“ séu eins og klöpp. Á hinn bóginn líkti hann trúföstum fylgjendum sínum við góða jörð vegna þess að þeir „geyma“ orð Guðs og „bera ávöxt með stöðuglyndi“. — Lúk. 8:13, 15.

16. Hvað hefur hjálpað milljónum manna að vera þolgóðir?

16 Tókstu eftir því hvað er nauðsynlegt fyrir okkur að gera til að vera þolgóð? Við verðum að „geyma“ orð Guðs og hafa það ljóslifandi í huga okkar og hjarta. Ef við hugleiðum eitthvað úr Biblíunni á hverjum degi fáum við þann styrk sem við þurfum til að halda áfram að bera ávöxt „með stöðuglyndi“. — Sálm. 1:1, 2.

„Stunda . . . hógværð“ og frið

17. (a) Af hverju er „hógværð“ svona mikilvæg? (b) Hvernig sýndi Jesús að hann var hógvær?

17 Enginn hefur ánægju af því að vera sakaður um eitthvað sem hann hefur hvorki sagt né gert. Algengt er að menn bregðist við óréttmætri gagnrýni með því að reiðast og neita ásökuninni. En er ekki mun betra að vera hógvær og mildur? (Lestu Orðskviðina 15:1.) Það kostar mikinn styrk að vera hógvær þegar maður verður fyrir óréttmætri gagnrýni. Jesús Kristur var fullkomin fyrirmynd að þessu leyti. „Hann svaraði ekki með illmælum er honum var illmælt og hótaði eigi er hann leið, heldur fól það honum á vald sem dæmir réttvíslega.“ (1. Pét. 2:23) Við getum ekki búist við að okkur takist eins vel til og Jesú. En getum við reynt að bæta okkur á þessu sviði?

18. (a) Hvaða gagn hlýst af því að vera hógvær? (b) Hvaða annan eiginleika erum við hvött til að stunda?

18 Við skulum líkja eftir Jesú og vera „ætíð reiðubúin að svara“ fyrir trú okkar, en gera það „með hógværð og virðingu“. (1. Pét. 3:15, 16) Ef við erum hógvær getur það komið í veg fyrir að skoðanamunur breytist í rifrildi, hvort sem við erum að ræða við trúsystkini eða fólk sem við hittum í boðunarstarfinu. (2. Tím. 2:24, 25) Við verðum að vera hógvær og mild í lund til að geta notið friðar. Það er kannski ástæðan fyrir því að Páll nefndi „frið“ meðal þeirra eiginleika sem við eigum að stunda þegar hann skrifaði síðara bréf sitt til Tímóteusar. (2. Tím. 2:22; samanber 1. Tímóteusarbréf 6:11.) Já, „friður“ er annar eiginleiki sem Biblían hvetur okkur til að leggja stund á. — Sálm. 34:15; Hebr. 12:14.

19. Hvað ert þú staðráðinn í að leggja stund á og hvers vegna?

19 Við höfum nú fjallað um sjö kristilega eiginleika sem við erum hvött til að leggja stund á — réttlæti, guðrækni, trú, kærleika, stöðuglyndi, hógværð og frið. Það er mikil blessun þegar bræður og systur í öllum söfnuðum leggja sig fram um að sýna þessa dýrmætu eiginleika í enn ríkari mæli. Það heiðrar Jehóva og gerir honum kleift að móta okkur sér til lofs.

Til íhugunar

• Hvað er fólgið í því að ástunda réttlæti og guðrækni?

• Hvað getur hjálpað okkur að stunda trú og stöðuglyndi?

• Hvaða áhrif ætti kærleikurinn að hafa á samskipti okkar við aðra?

• Af hverju þurfum við að leggja stund á hógværð og frið?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 12]

Jesús varaði menn við því að sýnast réttlátir til að vekja hrifningu annarra.

[Mynd á blaðsíðu 13]

Við getum ástundað trú með því að hugleiða sannindi Biblíunnar.

[Mynd á blaðsíðu 15]

Við getum lagt stund á kærleika og hógværð.