Lúkas segir frá 17:1–37

  • Að falla, fyrirgefa og trúa (1–6)

  • Ómerkilegir þjónar (7–10)

  • Tíu holdsveikir menn læknast (11–19)

  • Þannig kemur ríki Guðs (20–37)

    • Ríki Guðs er „meðal ykkar“ (21)

    • „Munið eftir konu Lots“ (32)

17  Síðan sagði hann við lærisveinana: „Það er óhjákvæmilegt að eitthvað komi upp sem verður fólki að falli. En illa fer fyrir þeim sem veldur því.  Það væri betra fyrir hann að myllusteinn væri hengdur um háls hans og honum kastað í hafið en að hann yrði einum þessara minnstu að falli.  Gætið að ykkur. Ef bróðir þinn syndgar skaltu ávíta hann og ef hann iðrast skaltu fyrirgefa honum.  Jafnvel þótt hann syndgi gegn þér sjö sinnum á dag og komi aftur til þín sjö sinnum og segi: ‚Ég sé eftir þessu,‘ skaltu fyrirgefa honum.“  Postularnir sögðu nú við Drottin: „Gefðu okkur meiri trú.“  Drottinn svaraði: „Ef þið hefðuð trú á við sinnepsfræ gætuð þið sagt við þetta mórberjatré: ‚Rífðu þig upp með rótum og gróðursettu þig í sjónum!‘ og það myndi hlýða ykkur.  Segjum að einhver ykkar eigi þjón sem plægir eða gætir fjár. Segir hann þá við þjóninn þegar hann kemur inn af akrinum: ‚Komdu nú hingað og fáðu þér að borða‘?  Segir hann ekki öllu heldur: ‚Eldaðu handa mér kvöldmat, settu á þig svuntu og þjónaðu mér meðan ég borða og drekk. Síðan getur þú borðað og drukkið‘?  Varla verður hann þjóninum þakklátur fyrir að gera það sem var í hans verkahring. 10  Það sama á við um ykkur. Þegar þið hafið gert allt sem ykkur var falið skuluð þið segja: ‚Við erum ómerkilegir þjónar. Við höfum bara gert það sem við áttum að gera.‘“ 11  Jesús hélt nú til Jerúsalem og leið hans lá á mörkum Samaríu og Galíleu. 12  Þegar hann kom að þorpi nokkru mættu honum tíu holdsveikir menn en stóðu þó í nokkurri fjarlægð. 13  Þeir hrópuðu: „Jesús, kennari, miskunnaðu okkur!“ 14  Þegar hann sá þá sagði hann við þá: „Farið og sýnið ykkur prestunum.“ Á leiðinni þangað urðu þeir hreinir. 15  Einn þeirra sneri við þegar hann sá að hann hafði læknast og lofaði Guð háum rómi. 16  Hann féll á grúfu við fætur Jesú og þakkaði honum. En maðurinn var Samverji. 17  Jesús sagði þá: „Urðu ekki allir tíu hreinir? Hvar eru þá hinir níu? 18  Sneri enginn við til að lofa Guð nema þessi erlendi maður?“ 19  Síðan sagði hann við manninn: „Stattu á fætur og farðu leiðar þinnar. Trú þín hefur læknað þig.“ 20  Farísear spurðu hann nú hvenær ríki Guðs kæmi. Hann svaraði þeim: „Ríki Guðs kemur ekki þannig að mikið beri á. 21  Fólk mun ekki heldur segja: ‚Sjáið, það er hér!‘ eða: ‚Það er þar!‘ því að ríki Guðs er meðal ykkar.“ 22  Síðan sagði hann við lærisveinana: „Sá tími kemur að þið þráið að sjá einn af dögum Mannssonarins en fáið það ekki. 23  Menn munu segja við ykkur: ‚Sjáið, hann er þar!‘ eða: ‚Sjáið, hann er hér!‘ Farið hvorki né hlaupið eftir þeim 24  því að Mannssonurinn verður á degi sínum eins og elding sem leiftrar frá einum enda himins til annars. 25  En fyrst þarf hann að þola miklar þjáningar og þessi kynslóð mun hafna honum. 26  Það verður eins á dögum Mannssonarins og var á dögum Nóa: 27  Fólk át og drakk, kvæntist og giftist fram til þess dags sem Nói gekk inn í örkina og flóðið kom og eyddi öllum. 28  Eins gerðist á dögum Lots: Fólk át og drakk, keypti og seldi, gróðursetti og byggði. 29  En daginn sem Lot fór út úr Sódómu rigndi eldi og brennisteini af himni og eyddi öllum. 30  Eins verður á þeim degi sem Mannssonurinn opinberast. 31  Sá sem er uppi á þaki á þeim degi en er með eigur sínar í húsinu á ekki að fara niður til að sækja þær, og sá sem er úti á akri á ekki heldur að fara heim til að ná í það sem hann á. 32  Munið eftir konu Lots. 33  Hver sem reynir að bjarga lífi* sínu týnir því en hver sem týnir lífi sínu varðveitir það. 34  Ég segi ykkur að þá nótt verða tveir í sama rúmi, annar verður tekinn en hinn skilinn eftir. 35  Tvær konur mala í sömu kvörn, önnur verður tekin en hin skilin eftir.“ 36  *—— 37  Þeir spurðu hann þá: „Hvar, Drottinn?“ Hann svaraði: „Þar sem líkið er þar safnast ernirnir.“

Neðanmáls

Eða „sál“.
Þetta vers er ekki í sumum fornum handritum og tilheyrir greinilega ekki innblásinni frásögn Biblíunnar.