Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ertu tilbúinn að verja trú þína?

Ertu tilbúinn að verja trú þína?

Ertu tilbúinn að verja trú þína?

HEFUR þér einhvern tíma fundist þú knúinn til að verja trú þína? Lestu eftirfarandi frásögu af 16 ára systur okkar í Paragvæ. Hún heitir Susana. Það var talað um Votta Jehóva í siðfræðitíma í bekknum hennar og sagt að þeir viðurkenndu ekki „Gamla testamentið“ og tryðu hvorki á Jesú Krist né Maríu. Því var líka haldið fram að vottarnir væru ofstækisfullir og vildu heldur deyja en að þiggja læknishjálp. Hvað hefðir þú gert í hennar sporum?

Susana bað til Jehóva og rétti svo upp hönd. Kennslustundin var rétt að verða búin svo að hún bað kennarann um að fá að kynna trú sína sem vottur Jehóva. Kennarinn féllst á það. Næstu tvær vikurnar undirbjó Susana sig fyrir kynninguna og notaði til þess bæklinginn Vottar Jehóva — Hverjir eru þeir? Hverju trúa þeir?

Svo rann upp dagurinn sem Susana átti að flytja kynninguna. Hún skýrði frá því hvaðan nafnið Vottar Jehóva væri komið. Hún sagði líka frá því hvaða von við höfum um framtíðina og hvers vegna við þiggjum ekki blóðgjafir. Síðan bauð hún bekknum að koma með spurningar. Flestir í bekknum réttu upp hönd. Kennarinn var hrifinn af því að heyra biblíuleg svör þessarar ungu stúlku.

Einn nemandinn sagði: „Ég kom einu sinni í ríkissal hjá Vottum Jehóva og það voru engin líkneski þar.“ Kennarinn vildi vita hvers vegna svo að Susana las Sálm 115:4-8 og 2. Mósebók 20:4. Kennarinn sagði undrandi: „Hvernig stendur á því að kirkjurnar okkar eru fullar af líkneskjum fyrst Biblían fordæmir notkun þeirra?“

Umræðurnar héldu áfram með spurningum og svörum í 40 mínútur. Susana spurði nemendurna hvort þeir vildu sjá myndbandið No Blood — Medicine Meets the Challenge. Allir sögðust vilja það. Kennarinn ákvað að það skyldi sýnt næsta dag. Eftir að hafa sýnt myndbandið lýsti Susana læknismeðferðum sem sumir vottar Jehóva þiggja. Kennarinn sagði: „Ég vissi ekki að til væru svona margir valkostir; og ég vissi ekki heldur um kosti þess að fá læknismeðferð án blóðgjafar. Eru þessar meðferðir bara fyrir votta Jehóva?“ Þegar kennarinn heyrði að svo væri ekki sagði hann: „Ég ætla að ræða við votta Jehóva næst þegar þeir banka upp á hjá mér.“

Susana hafði búið sig undir 20 mínútna umræður en þær stóðu í þrjár klukkustundir. Viku seinna kynntu aðrir nemendur trú sína. Í lokin voru þeir spurðir margra spurninga en þeir gátu ekki varið trú sína. Þá spurði kennarinn: „Hvernig stendur á því að þið getið ekki varið trú ykkar eins og bekkjarsystir ykkar sem er vottur Jehóva?“

Svarið var: „Þeir kynna sér Biblíuna rækilega. Við gerum það ekki.“

Þá sneri kennarinn sér að systur okkar og sagði: „Það er alveg rétt, þið þekkið Biblíuna vel og reynið að fara eftir því sem þar stendur. Þið eigið hrós skilið fyrir það.“

Susana hefði getað þagað. En með því að láta í sér heyra fylgdi hún fordæmi stúlku frá Ísrael sem Sýrlendingar herleiddu. Við vitum ekki hvað hún hét en hún var ambátt í húsi sýrlenska hershöfðingjans Naamans. Hann var haldinn hræðilegum húðsjúkdómi. Þessi ísraelska stúlka sagði við húsmóður sína: „Það vildi ég að húsbóndi minn væri kominn til spámannsins í Samaríu. Hann mundi lækna hann af holdsveikinni.“ Hún gat ekki haldið aftur af sér að segja frá hinum sanna Guði. Það varð til þess að Naaman fór að tilbiðja Jehóva. — 2. Kon. 5:3, 17.

Susana gat ekki heldur látið það vera að segja frá Jehóva og þjónum hans. Með því að taka frumkvæðið að því að verja trú sína fyrir ásökunum fylgdi hún boði Biblíunnar: „Helgið Krist sem Drottin í hjörtum ykkar. Verið ætíð reiðubúin að svara hverjum manni sem krefst raka fyrir voninni sem þið eigið. En gerið það með hógværð og virðingu.“ (1. Pét. 3:15, 16) Ertu tilbúinn að verja trú þína og að eiga frumkvæðið að því þegar tækifæri býðst?

[Mynd á blaðsíðu 17]

Þú getur notað þessi hjálpargögn til að verja trú þína.