Síðari Konungabók 5:1–27

  • Elísa læknar Naaman af holdsveiki (1–19)

  • Gehasí sleginn holdsveiki vegna græðgi (20–27)

5  Naaman hershöfðingi Sýrlandskonungs var mikilsmetinn maður. Konungurinn hafði miklar mætur á honum því að Jehóva hafði veitt Sýrlendingum sigur* undir forystu hans. Hann var mikil stríðshetja en hann var holdsveikur.*  Eitt sinn þegar Sýrlendingar fóru í herferð til Ísraelslands tóku þeir litla stúlku til fanga. Hún varð þjónustustúlka eiginkonu Naamans.  Hún sagði við húsmóður sína: „Ég vildi að herra minn færi til spámannsins í Samaríu. Hann myndi lækna hann af holdsveikinni.“  Hann* fór þá til herra síns og sagði honum hvað stúlkan frá Ísrael hafði sagt.  Sýrlandskonungur sagði: „Farðu þangað. Ég skal senda Ísraelskonungi bréf.“ Naaman lagði þá af stað og tók með sér tíu talentur* af silfri, 6.000 sikla af gulli og tíu alklæðnaði.  Hann færði Ísraelskonungi bréfið en þar stóð: „Þegar þú færð þetta bréf í hendur er Naaman þjónn minn kominn til þín. Ég hef sent hann til að þú læknir hann af holdsveikinni.“  Þegar Ísraelskonungur hafði lesið bréfið reif hann föt sín og sagði: „Er ég Guð? Hef ég vald yfir lífi og dauða? Hann sendir þennan mann til mín og segir mér að lækna hann af holdsveikinni. Þið hljótið að sjá að hann vill koma af stað deilum við mig.“  Þegar Elísa, maður hins sanna Guðs, frétti að Ísraelskonungur hefði rifið föt sín sendi hann konungi þessi skilaboð: „Hvers vegna reifstu fötin þín? Láttu manninn koma til mín svo að hann átti sig á að það er spámaður í Ísrael.“  Þá kom Naaman með hesta sína og vagna og nam staðar við dyrnar á húsi Elísa. 10  En Elísa sendi mann til hans og lét segja honum: „Farðu og baðaðu þig sjö sinnum í Jórdan. Þá verður húðin aftur heilbrigð og þú verður hreinn.“ 11  Naaman varð bálreiður, gekk burt og sagði: „Ég sem hélt að hann myndi koma út til mín, standa hér og ákalla nafn Jehóva Guðs síns, hreyfa höndina fram og aftur yfir meinin og lækna mig af holdsveikinni. 12  Eru ekki Abana og Parpar, fljótin í Damaskus, betri en allt vatn í Ísrael? Get ég ekki baðað mig í þeim og orðið hreinn?“ Síðan sneri hann sér við og fór burt ævareiður. 13  En þjónar hans komu til hans og sögðu: „Faðir, ef spámaðurinn hefði sagt þér að gera eitthvað erfitt, hefðirðu þá ekki gert það? Það eina sem hann sagði var: ‚Þvoðu þér og vertu hreinn.‘ Hvers vegna viltu ekki gera það?“ 14  Þá fór hann niður eftir og dýfði sér sjö sinnum í Jórdan eins og maður hins sanna Guðs hafði sagt. Húð hans varð heilbrigð eins og húðin á litlu barni, og hann varð hreinn. 15  Síðan sneri hann aftur til manns hins sanna Guðs ásamt öllu fylgdarliði sínu. Hann kom til hans og sagði: „Nú veit ég að hvergi á jörðinni er til Guð nema í Ísrael. Viltu nú þiggja gjöf* frá þjóni þínum?“ 16  En Elísa svaraði: „Svo sannarlega sem Jehóva lifir, hann sem ég þjóna,* vil ég ekki þiggja hana.“ Naaman þrýsti á hann að þiggja gjöfina en Elísa lét ekki undan. 17  Að lokum sagði Naaman: „Fyrst svo er, leyfðu mér, þjóni þínum, þá að taka með mér mold héðan, eins mikla og tvö múldýr geta borið, því að ég vil ekki lengur færa neinum guðum brennifórn eða sláturfórn nema Jehóva. 18  Það er þó eitt sem ég vona að Jehóva fyrirgefi mér: Þegar herra minn fer í musteri* Rimmons til að krjúpa fyrir honum styður hann sig við handlegg minn. Þess vegna verð ég líka að krjúpa í musteri Rimmons. Megi Jehóva fyrirgefa mér, þjóni þínum, þegar ég geri þetta.“ 19  Elísa sagði við hann: „Farðu í friði.“ Þegar Naaman var kominn spölkorn frá honum 20  hugsaði Gehasí, þjónn guðsmannsins Elísa, með sér: „Herra minn hefur leyft Naaman, þessum Sýrlendingi, að fara án þess að þiggja nokkuð af því sem hann kom með. Svo sannarlega sem Jehóva lifir ætla ég að hlaupa á eftir honum og fá eitthvað frá honum.“ 21  Gehasí hljóp síðan á eftir Naaman. Þegar Naaman sá að einhver kom hlaupandi á eftir honum steig hann úr vagninum, gekk á móti honum og sagði: „Er allt í lagi?“ 22  „Já,“ svaraði hann. „Herra minn sendi mig til að segja þér: ‚Rétt í þessu komu til mín tveir ungir menn frá Efraímsfjöllum. Þeir eru synir spámannanna. Viltu gefa þeim eina talentu af silfri og tvo alklæðnaði?‘“ 23  Naaman svaraði: „Taktu endilega tvær talentur.“ Hann lagði fast að honum og setti tvær talentur af silfri í tvo poka ásamt tveim alklæðnuðum. Síðan fékk hann tveim þjónum sínum pokana og þeir báru þá á undan Gehasí. 24  Þegar Gehasí kom til Ófel* tók hann gjafirnar af þjónunum og kom þeim fyrir í húsinu. Síðan sendi hann mennina burt. Þegar þeir voru farnir 25  fór Gehasí aftur til herra síns. „Hvar hefurðu verið, Gehasí?“ spurði Elísa. En hann svaraði: „Þjónn þinn hefur ekki farið neitt.“ 26  Elísa sagði við hann: „Heldurðu að ég hafi ekki vitað það í hjarta mér þegar maðurinn steig úr vagninum og gekk á móti þér? Er þetta rétti tíminn til að þiggja silfur og föt, ólívulundi og víngarða, sauðfé og nautgripi eða þræla og ambáttir? 27  Nú mun holdsveiki Naamans loða við þig og afkomendur þína að eilífu.“ Gehasí gekk þá burt frá honum hvítur sem snjór af holdsveiki.

Neðanmáls

Eða „frelsað Sýrlendinga“.
Eða „haldinn húðsjúkdómi“.
Hugsanlega er átt við Naaman.
Talenta jafngilti 34,2 kg. Sjá viðauka B14.
Orðrétt „blessun“.
Orðrétt „stend frammi fyrir“.
Orðrétt „hús“.
Staður í Samaríu, hugsanlega hæð eða virki.