Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs“

„Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs“

„Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs“

„Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:11.

1, 2. Fyrir hvaða raunum urðu pólsk hjón?

HARALD ABT hafði verið vottur Jehóva í tæpt ár þegar her Hitlers hertók Danzig (nú Gdańsk) í Norður-Póllandi. Þá varð ástandið erfitt, jafnvel hættulegt, fyrir sannkristna menn sem bjuggu þar. Gestapó reyndi að neyða Harald til að skrifa undir yfirlýsingu um að hann myndi afneita trú sinni en hann neitaði. Eftir nokkrar vikur í fangelsi var Harald sendur í fangabúðirnar í Sachsenhausen þar sem honum var hótað og misþyrmt hvað eftir annað. SS-foringi benti á reykháf líkbrennsluhússins og sagði við hann: „Þarna muntu stíga upp til Jehóva Guðs þíns innan tveggja vikna ef þú heldur fast við trú þína.“

2 Þegar Harald var handtekinn var Elsa, eiginkona hans, enn þá með 10 mánaða gamla dóttur þeirra á brjósti. En Gestapó lét hana samt ekki fram hjá sér fara. Áður en langt um leið var barnið tekið frá henni og hún var send í útrýmingarbúðirnar í Auschwitz. Hún þraukaði árum saman og sömuleiðis Harald. Í Varðturninum á ensku, 15. apríl 1980, er hægt að lesa meira um sögu þeirra. Harald skrifaði: „Allt í allt hef ég verið í fangabúðum og fangelsum í 14 ár vegna trúar minnar. Ég hef verið spurður: ‚Hjálpaði konan þín þér að halda þetta út?‘ Það gerði hún sannarlega. Ég vissi alveg frá upphafi að hún myndi aldrei víkja frá trú sinni og sú vitneskja veitti mér styrk. Ég vissi að hún vildi fremur sjá mig dáinn á líkbörum en að vita að ég væri laus vegna þess að ég hefði látið undan. . . . Elsa varð fyrir miklum prófraunum þau ár sem hún var í þýskum fangabúðum.“

3, 4. (a) Hvaða fordæmi geta hvatt kristna menn til að vera þolgóðir? (b) Hvers vegna hvetur Biblían okkur til að hugleiða fordæmi Jobs?

3 Það er alls ekki auðvelt að líða illt eins og margir vottar geta borið vitni um. Þess vegna hvetur Biblían alla kristna menn: „Takið spámennina til fyrirmyndar, sem talað hafa í nafni Drottins og liðið illt með þolinmæði.“ (Jakobsbréfið 5:10) Í aldanna rás hafa margir þjónar Guðs verið ofsóttir án saka. Fordæmi þessara „fjölda votta“ getur hvatt okkur til að halda ótrauð áfram í hinu kristna kapphlaupi. — Hebreabréfið 11:32-38; 12:1.

4 Í Biblíunni er Job ein besta fyrirmynd okkar í þolgæði. „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið,“ skrifaði Jakob. „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir Drottinn gjörði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Frásagan af Job veitir okkur innsýn í þá blessun sem bíður trúfastra þjóna Jehóva. Það sem meira er, hún opinberar sannindi sem koma okkur að gagni á erfiðleikatímum. Jobsbók hjálpar okkur að svara eftirfarandi spurningum: Hvers vegna verðum við að reyna að sjá heildarmyndina þegar við lendum í prófraunum? Hvaða eiginleikar og viðhorf hjálpa okkur að vera þolgóð? Hvernig getum við styrkt trúsystkini okkar þegar þau verða fyrir erfiðleikum?

Að sjá heildarmyndina

5. Hvað er mikilvægast að hafa í huga þegar við verðum fyrir prófraunum og freistingum?

5 Við verðum að sjá heildarmyndina til að halda andlegu jafnvægi í prófraunum. Annars gætu persónuleg vandamál skyggt á andlega sjón okkar. Það sem mestu máli skiptir er hollusta okkar við Guð. Faðirinn á himnum veitir okkur hvatningu sem við getum hvert og eitt tekið til okkar: „Vertu vitur, sonur minn, og gleð hjarta mitt, svo að ég geti svarað þeim orði, sem smána mig.“ (Orðskviðirnir 27:11) Þetta er mikill heiður. Þrátt fyrir veikleika okkar og ófullkomleika getum við glatt skaparann. Við gleðjum Jehóva þegar við stöndumst prófraunir og freistingar vegna kærleikans til hans. Kristinn kærleikur umber allt. Hann fellur aldrei úr gildi. — 1. Korintubréf 13:7, 8.

6. Hvernig smánar Satan Jehóva og hvað gengur hann langt?

6 Í Jobsbók kemur skýrt fram að það er Satan sem smánar Jehóva. Þar er einnig afhjúpað illt eðli þessa ósýnilega óvinar og löngun hans til að eyðileggja samband okkar við Guð. Eins og fram kemur í frásögunni af Job sakar Satan í raun alla þjóna Jehóva um að hafa eigingjarnar hvatir og hann leitast við að sanna að kærleikur þeirra til Jehóva geti kólnað. Hann hefur smánað Guð í þúsundir ára. Þegar Satan var varpað niður af himni lýsti rödd af himnum honum sem „kæranda bræðra vorra“ og sagði að hann kærði þá „fyrir Guði vorum dag og nótt“. (Opinberunarbókin 12:10) Við getum sýnt með trúfesti okkar og þolgæði að ásakanir hans eru ekki á rökum reistar.

7. Hvernig er best að takast á við veikleika?

7 Við verðum að muna að djöfullinn notfærir sér hverja þá þrengingu, sem við getum lent í, til að reyna að draga okkur frá Jehóva. Hvenær freistaði hann Jesú? Þegar Jesús hafði fastað í marga daga og var orðinn svangur. (Lúkas 4:1-3) Andlegur styrkur Jesú gerði honum hins vegar kleift að hafna staðfastlega freistingum djöfulsins. Það er sannarlega mikilvægt að hafa andlegan styrk til að sporna gegn hvers konar veikleika — sem gæti til dæmis stafað af veikindum eða elli. „Jafnvel þótt vor ytri maður hrörni,“ gefumst við ekki upp vegna þess að „dag frá degi [endurnýjast] vor innri maður.“ — 2. Korintubréf 4:16.

8. (a) Hvaða skaðlegu áhrif geta neikvæðar tilfinningar haft? (b) Hvaða hugarfar hafði Jesús?

8 Þar að auki geta neikvæðar tilfinningar haft skaðleg áhrif á okkar andlega mann. „Hvers vegna leyfir Jehóva þetta?“ gæti einhver spurt. „Hvernig getur bróðir komið svona fram við mig?“ gæti annar spurt þegar einhver hefur gert á hlut hans. Slíkar tilfinningar leiða kannski til þess að við einblínum á persónulegar aðstæður í stað þess að horfa á heildarmyndina. Gremja Jobs í garð þriggja falsvina sinna virtist skaða hann jafnmikið andlega og veikindin sköðuðu hann líkamlega. (Jobsbók 16:20; 19:2) Páll postuli benti líka á að við getum ‚gefið djöflinum færi‘ ef við ölum á reiði. (Efesusbréfið 4:26, 27) Í stað þess að láta gremju sína eða reiði bitna á öðrum eða einblína of mikið á óréttlætið í stöðunni ættu kristnir menn að líkja eftir Jesú sem „gaf [sig] í hans vald, sem réttvíslega dæmir“, það er að segja Jehóva Guðs. (1. Pétursbréf 2:21-23) Ef við höfum ‚sama hugarfar‘ og Jesús getur það hjálpað okkur að standast árásir Satans. — 1. Pétursbréf 4:1.

9. Hvaða fullvissu veitir Guð okkur?

9 Við skulum aldrei líta á vandamál okkar sem merki um vanþóknun Guðs. Slíkur hugsunarháttur hafði skaðleg áhrif á Job þegar hinir svokölluðu huggarar urðu harðorðir í hans garð. (Jobsbók 19:21, 22) Biblían hughreystir okkur með þessum orðum: „Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.“ (Jakobsbréfið 1:13) Öllu heldur lofar Jehóva að hjálpa okkur að bera hverja þá byrði sem íþyngir okkur og standast þær freistingar sem við verðum fyrir. (Sálmur 55:23; 1. Korintubréf 10:13) Með því að styrkja samband okkar við Guð á erfiðum tímum getum við séð hlutina í réttu ljósi og staðið gegn djöflinum. — Jakobsbréfið 4:7, 8.

Hvað hjálpar okkur að vera þolgóð?

10, 11. (a) Hvað gerði Job kleift að sýna þolgæði? (b) Hvernig hjálpaði það Job að hafa góða samvisku?

10 Job varðveitti ráðvendi sína á erfiðum tímum þótt hann hafi þurft að þola ásakanir „huggara“ sinna og hafi ekki skilið hvers vegna hann varð fyrir þessum raunum. Hvað getum við lært af þolgæði hans? Við getum verið viss um að trúfesti hans við Jehóva hafi verið grundvallarástæðan fyrir velgengni hans. Hann var „guðhræddur og grandvar“ og lifði samkvæmt því. (Jobsbók 1:1) Hann neitaði að snúa baki við Jehóva þótt hann skildi ekki hvers vegna allt hefði skyndilega farið úrskeiðis. Job trúði því að hann ætti að þjóna Guði í meðlæti og mótlæti. — Jobsbók 1:21; 2:10.

11 Job hafði góða samvisku og það veitti honum huggun. Þegar svo virtist sem ævi hans væri á enda veitti það honum hughreystingu að vita að hann hefði gert sitt besta til að hjálpa öðrum, hefði ekki vikið frá réttlátum mælikvarða Jehóva og að hann hefði forðast hvers konar falstrú. — Jobsbók 31:4-11, 26-28.

12. Hvernig brást Job við hjálpinni sem hann fékk frá Elíhú?

12 Job þurfti engu að síður að fá hjálp til að leiðrétta viðhorf sín á ýmsum sviðum. Hann þáði þá hjálp af auðmýkt — en það var annar þáttur í því að hann gat verið þolgóður. Hann sýndi Elíhú þá virðingu að hlusta á viturlegar leiðbeiningar hans og tók til sín leiðréttingu Jehóva. „Ég [hef] talað án þess að skilja,“ viðurkenndi hann. „Ég [tek] orð mín aftur og iðrast í dufti og ösku.“ (Jobsbók 42:3, 6) Þrátt fyrir veikindin sem enn hrjáðu hann, gladdist hann yfir því að geta leiðrétt hugsunarhátt sinn og þar af leiðandi styrkt samband sitt við Guð. „Ég veit, að þú [Jehóva] megnar allt,“ sagði Job. (Jobsbók 42:2) Eftir að Jehóva hafði lýst mikilleik sínum skildi Job mun betur stöðu sína gagnvart skaparanum.

13. Hvernig naut Job góðs af því að sýna miskunn?

13 Miskunnsemi Jobs er okkur einnig góð fyrirmynd. Þótt fölsku huggararnir hafi sært hann djúpt bað hann fyrir þeim þegar Jehóva fór fram á það. Eftir það veitti Jehóva honum heilsuna á ný. (Jobsbók 42:8, 10) Biturð mun greinilega ekki hjálpa okkur að vera þolgóð heldur þurfum við að sýna kærleika og miskunn. Ef við látum af gremjunni styrkir það samband okkar við Jehóva og slíkt viðhorf veitir okkur velþóknun hans. — Markús 11:25.

Vitrir ráðgjafar geta hjálpað

14, 15. (a) Hvaða eiginleika þurfa ráðgjafar að sýna til að hjálpa öðrum? (b) Hvers vegna tókst Elíhú að hjálpa Job?

14 Annað sem við getum lært af frásögunni af Job er hve mikils virði vitrir ráðgjafar geta verið. „Í nauðum“ eru þeir sem bræður. (Orðskviðirnir 17:17) En eins og sést af reynslu Jobs geta sumir ráðgjafar sært í stað þess að hjálpa. Góður ráðgjafi þarf að sýna hluttekningu, virðingu og góðvild eins og Elíhú gerði. Öldungar og aðrir þroskaðir kristnir einstaklingar gætu þurft að leiðrétta hugsunarhátt þeirra sem eru að kikna undan vandamálum. Slíkir ráðgjafar geta lært mikið af Jobsbók. — Galatabréfið 6:1; Hebreabréfið 12:12, 13.

15 Við getum lært mikið af því hvernig Elíhú tók á málum. Hann gaf sér góðan tíma til að hlusta áður en hann svaraði röngum ásökunum þriggja félaga Jobs. (Jobsbók 32:11; Orðskviðirnir 18:13) Elíhú ávarpaði Job með nafni og nálgaðist hann sem vin. (Jobsbók 33:1) Hann áleit sig ekki meiri en Job eins og falsvinirnir þrír gerðu. Hann sagði: „Ég er og myndaður af leiri.“ Hann vildi ekki auka á þjáningar Jobs með hugsunarlausum orðum. (Jobsbók 33:6, 7; Orðskviðirnir 12:18) Hann hrósaði Job fyrir að sýna réttlæti í stað þess að gagnrýna fyrri breytni hans. (Jobsbók 33:32) Mestu máli skiptir þó að Elíhú sá hlutina frá sjónarhóli Guðs og minnti Job á að Guð myndi aldrei fremja ranglæti. (Jobsbók 34:10-12) Hann hvatti Job til að bíða eftir Jehóva frekar en að reyna að sanna eigið réttlæti. (Jobsbók 35:2; 37:14, 23) Öldungar og aðrir geta dregið mikinn lærdóm af þessu.

16. Hvernig urðu falsvinir Jobs verkfæri í höndum Satans?

16 Viturleg ráð Elíhús voru í algerri andstöðu við særandi orð Elífasar, Bildads og Sófars. „Þér hafið ekki talað rétt um mig,“ sagði Jehóva við þá. (Jobsbók 42:7) Þótt þeir fullyrtu að ásetningur þeirra hafi verið góður voru þeir í raun verkfæri í höndum Satans en ekki sannir vinir. Frá upphafi gerðu þeir allir þrír ráð fyrir að hörmungar Jobs væru honum sjálfum að kenna. (Jobsbók 4:7, 8; 8:6; 20:22, 29) Elífas hélt því fram að Guð bæri ekkert traust til þjóna sinna og það skipti hann engu máli hvort við værum réttlát eða ekki. (Jobsbók 15:15; 22:2, 3) Hann ásakaði jafnvel Job um syndir sem hann hafði ekki drýgt. (Jobsbók 22:5, 9) Elíhú hjálpaði Job hins vegar að styrkja samband sitt við Guð en það er alltaf markmið kærleiksríkra ráðgjafa.

17. Hvað ættum við að hafa hugfast í prófraunum?

17 Það er annað sem við getum lært af Jobsbók um þolgæði. Guð er kærleiksríkur. Hann tekur eftir aðstæðum okkar og bæði vill og getur hjálpað okkur á ýmsa vegu. Fyrr í greininni var fjallað um Elsu Abt og reynslu hennar. Hún komst að þessari niðurstöðu: „Áður en ég var handtekin hafði ég lesið bréf frá systur sem sagði að í miklum prófraunum myndi andi Jehóva veita manni innri frið. Mér fannst hún hljóta að vera að ýkja þetta aðeins. En þegar ég varð sjálf fyrir prófraunum komst ég að því að hún hafði rétt fyrir sér. Maður upplifir þessa tilfinningu í raun og veru. Það er erfitt að ímynda sér það ef maður hefur ekki upplifað það sjálfur. En þetta er mín reynsla. Jehóva hjálpar.“ Elsa var ekki að tala um það sem Jehóva gat gert eða gerði fyrir langa löngu á dögum Jobs. Hún var að tala um okkar daga. Já, „Jehóva hjálpar“.

Þolgæði veitir hamingju

18. Hvernig naut Job góðs af því að vera þolgóður?

18 Fáir verða fyrir jafn alvarlegum prófraunum og Job. En hverju svo sem við verðum fyrir í þessu heimskerfi höfum við góða og gilda ástæðu til að vera ráðvönd eins og Job. Þolgæðið auðgaði líf hans. Það fullkomnaði hann og gerði hann að betri manni. (Jakobsbréfið 1:2-4) Það styrkti samband hans við Guð. „Ég þekkti þig af afspurn, en nú hefir auga mitt litið þig!“ sagði hann. (Jobsbók 42:5) Það sannaðist að Satan var lygari því að hann gat ekki brotið ráðvendni Jobs á bak aftur. Öldum síðar talaði Jehóva enn um að ráðvendni Jobs væri til fyrirmyndar. (Esekíel 14:14) Ráðvendni hans og þolgæði er þjónum Guðs nú á dögum til mikillar hvatningar.

19. Hvers vegna finnst þér þess virði að sýna þolgæði?

19 Í bréfi sínu til kristinna manna á fyrstu öld talaði Jakob um þá gleði sem þolgæði veitir. Hann notaði dæmið um Job til að minna þá á að Jehóva umbunar ríkulega trúföstum þjónum sínum. (Jakobsbréfið 5:11) Í Jobsbók 42:12 segir: „Drottinn blessaði síðari æviár Jobs enn meir en hin fyrri.“ Guð gaf Job tvöfalt til baka það sem hann hafði misst og veitti honum langa og farsæla ævi. (Jobsbók 42:16, 17) Hverjar þær raunir, þrengingar og sorgir, sem við verðum fyrir við endalok þessa heims, verða á sama hátt afmáðar og gleymdar í nýjum heimi Guðs. (Jesaja 65:17; Opinberunarbókin 21:4) Við höfum heyrt um þolgæði Jobs og erum staðráðin í því að líkja eftir fordæmi hans með hjálp Jehóva. Biblían lofar: „Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.“ — Jakobsbréfið 1:12.

Hvert er svarið?

• Hvernig getum við glatt hjarta Jehóva?

• Hvers vegna ættum við ekki að álykta að vandamál okkar séu merki um vanþóknun Guðs?

• Hvað hjálpaði Job að vera þolgóður?

• Hvernig getum við líkt eftir Elíhú þegar við styrkjum trúsystkini okkar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 20]

Góður ráðgjafi sýnir hluttekningu, virðingu og góðvild.

[Myndir á blaðsíðu 21]

Elsa og Harald Abt.