Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | INNSÝN Í ANDAHEIMINN

Sýnir um andaverur á himnum

Sýnir um andaverur á himnum

Biblían hefur að geyma heillandi frásögur af sýnum sem gera okkur kleift að sjá inn í andaheiminn ef svo má að orði komast. Í þessari grein færðu að líta nokkrar þeirra og við hvetjum þig til að skoða þær vel. Þó að sumt sem lýst er í þessum sýnum hafi ekki bókstaflega merkingu auðvelda þær okkur að sjá fyrir okkur andaverurnar á himnum og skilja hvernig þær geta haft áhrif á líf okkar.

JEHÓVA ER HINN HÆSTI

„Þar stóð hásæti á himni og einhver sat í því sem var ásýndum líkur jaspissteini og sardissteini og regnbogi var kringum hásætið sem smaragður á að sjá.“ – Opinberunarbókin 4:2, 3.

„Skæran bjarma [lagði] af allt umhverfis og frá honum stafaði geislaflóð líkast regnboga í skýjum á votviðrisdegi. Þannig var ímynd dýrðar Drottins á að líta.“ – Esekíel 1:27, 28.

Sýnirnar, sem Jóhannes postuli og Esekíel spámaður sáu, draga upp mynd af dýrð Jehóva, hins hæsta Guðs. Þar er dýrð hans líkt við ýmislegt sem við getum auðveldlega séð fyrir okkur eins og glitrandi gimsteina, regnboga og mikilfenglegt hásæti. Sýnirnar segja okkur að hjá Jehóva sé óviðjafnanleg fegurð, yndisleiki og friður.

Þessi lýsing á Jehóva Guði kemur heim og saman við orð sálmaritarans sem skrifaði: „Mikill er Drottinn og mjög vegsamlegur, óttalegri öllum guðum. Því að allir guðir þjóðanna eru falsguðir en Drottinn hefur gert himininn, dýrð og hátign eru frammi fyrir honum, máttur og prýði í helgidómi hans.“ – Sálmur 96:4-6.

Þó að Jehóva sé hinn hæsti í alheiminum býður hann okkur að nálgast sig í bæn og fullvissar okkur um að hann hlusti á okkur. (Sálmur 65:3) Guð elskar okkur og ber heilmikla umhyggju fyrir okkur. Jóhannes postuli gat því með sanni skrifað: „Guð er kærleikur.“ – 1. Jóhannesarbréf 4:8.

JESÚS ER TIL HÆGRI HANDAR GUÐI

„Hann [Stefán, lærisveinn Jesú] horfði til himins, fullur af heilögum anda og leit dýrð Guðs og Jesú standa til hægri handar Guði og sagði: ,Ég sé himnana opna og Mannssoninn standa til hægri handar Guði.‘“ – Postulasagan 7:55, 56.

Stuttu áður en Stefán fékk þessa sýn höfðu trúarleiðtogar Gyðinga – mennirnir sem Stefán talaði nú við – tekið Jesú af lífi. Sýnin staðfesti að Jesús hafði verið reistur upp til lífs á ný og hafinn upp til himna í dýrð. Um þetta skrifaði Páll postuli: „[Guð] vakti [Jesú] frá dauðum og lét hann setjast sér til hægri handar á himnum, ofar hverri tign og valdi og mætti, ofar öllum herradómi og sérhverju nafni sem nefnt er, ekki aðeins í þessari veröld heldur og í hinni komandi.“ – Efesusbréfið 1:20, 21.

Þessi sýn lýsir háleitri stöðu Jesú en hún sýnir einnig að hann ber mikla umhyggju fyrir mönnunum, líkt og Jehóva. Þegar Jesús þjónaði hér á jörð læknaði hann sjúka og veikburða og reisti fólk upp frá dauðum. Með fórnardauða sínum sýndi hann hve mjög hann elskar Guð og mannkynið. (Efesusbréfið 2:4, 5) Til hægri handar Guði mun Jesús bráðlega beita valdi sínu öllum hlýðnum mönnum til mikillar blessunar.

ENGLAR ÞJÓNA GUÐI

„Meðan ég [Daníel spámaður] horfði á var hásætum komið fyrir og Hinn aldni [Jehóva Guð] tók sér sæti ... þúsundir þúsunda þjónuðu honum, tugþúsundir tugþúsunda stóðu frammi fyrir honum.“ – Daníel 7:9, 10.

Í þessari sýn sá Daníel ekki aðeins einn engil á himnum heldur fjöldann allan af englum. Það hlýtur að hafa verið tilkomumikil sýn. Englar eru dýrlegar andaverur sem eru afburðagreindar og máttugar. Þeirra á meðal eru serafar og kerúbar. Biblían nefnir engla oftar en 250 sinnum.

Englar eru ekki menn sem hafa lifað á jörðu. Guð skapaði englana löngu áður en hann skapaði mennina. Englar voru viðstaddir þegar jörðin var grundvölluð og þá sungu þeir saman gleðisöng. – Jobsbók 38:4-7.

Trúfastir englar þjóna Guði til dæmis með því að styðja við mikilvægasta starf sem unnið er á jörðinni nú á dögum – boðun fagnaðarerindisins um ríki Guðs. (Matteus 24:14) Þátttaka þeirra í þessu starfi var opinberuð Jóhannesi postula í sýn. Hann skrifaði: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap til að boða þeim sem á jörðunni búa og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Þó að englar tali ekki við fólk nú á tímum eins og þeir gerðu við ákveðin tækifæri fyrr á tímum, leiða þeir boðbera fagnaðarerindisins til þeirra sem eru hjartahreinir.

SATAN AFVEGALEIÐIR MILLJÓNIR MANNA

„Stríð [hófst] á himni: Mikael [Jesús Kristur] og englar hans fóru að berjast við drekann. Drekinn og englar hans börðust á móti en fengu eigi staðist og héldust heldur ekki lengur við á himni. Og drekanum mikla var varpað niður, hinum gamla höggormi sem heitir djöfull og Satan og afvegaleiðir alla heimsbyggðina, honum var varpað niður á jörðina og englum hans var varpað niður með honum.“ – Opinberunarbókin 12:7-9.

Það hefur ekki alltaf ríkt friður á himnum. Í upphafi mannkyns gerði einn af englunum uppreisn gegn Jehóva Guði vegna þess að hann langaði til að vera tilbeðinn. Hann gerði sjálfan sig þar með að Satan sem merkir andstæðingur. Síðar gengu aðrir englar til liðs við hann í uppreisninni og urðu þannig illir andar. Þeir eru illir í orðsins fyllstu merkingu, andsnúnir Jehóva Guði og hafa leitt meirihluta mannkyns inn á veg sem gengur þvert á kærleiksríkar leiðbeiningar hans.

Satan og illir andar hans eru siðspilltir og grimmir. Þeir eru óvinir mannkyns og eiga sök á mörgum af þeim þjáningum sem hrjá mennina. Sem dæmi drap Satan búpening og þjóna Jobs sem var trúfastur maður. Síðan drap hann börnin hans tíu með því að láta ,mikinn storm‘ skella á húsinu, sem þau voru í, svo að það hrundi yfir þau. Því næst sló hann Job „illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja“. – Jobsbók 1:7-19; 2:7.

En brátt verður Satan tortímt. Frá því að honum var varpað niður til jarðar hefur hann vitað að „hann hefur nauman tíma“. (Opinberunarbókin 12:12) Satan hefur verið dæmdur og verður að engu gerður. Það eru sannarlega góðar fréttir.

ÞEIR SEM FARA TIL HIMNA

„Með blóði þínu [Jesú] keyptir þú Guði til handa menn af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gerðir þá að konungum og prestum Guði vorum til handa. Og þeir munu ríkja á jörðunni.“ – Opinberunarbókin 5:9, 10.

Fleiri en Jesús fá upprisu til lífs á himni. Hann sagði við trúfasta postula sína: „Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er.“ – Jóhannes 14:2, 3.

Þeir sem fara til himna hafa ákveðnu hlutverki að gegna. Þeir munu, ásamt Jesú, mynda himneska stjórn sem með tímanum ríkir yfir jörðinni öllu mannkyni til blessunar. Þetta er ríkið sem Jesús sagði fylgjendum sínum að biðja um í faðirvorinu: „Faðir vor, þú sem ert á himnum. Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki, verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.“ – Matteus 6:9, 10.

HVAÐ GERA ÞEIR SEM FARA TIL HIMNA?

„Ég [Jóhannes postuli] heyrði raust mikla frá hásætinu er sagði: ,Sjá, tjaldbúð Guðs er meðal mannanna ... Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.‘“ – Opinberunarbókin 21:3, 4.

Þessi spádómlega sýn vísar til þess tíma þegar ríki Guðs bindur enda á stjórn Satans og gerir jörðina að paradís. Jesús og aðrir sem reistir eru upp til himna mynda stjórn Guðs á himnum. Allt sem valdið hefur mönnunum sorg og sársauka heyrir þá sögunni til. Jafnvel dauðinn verður ekki framar til.

En hvað um þá milljarða manna sem hafa dáið og fara ekki til himna? Þeir verða reistir upp til lífs á ný og eiga fyrir sér eilíft líf í paradís á jörð. – Lúkas 23:43.

Jehóva Guð og Jesús Kristur, sonur hans, ásamt trúföstum englum og þeim sem hafa verið leystir út frá jörðinni, er innilega annt um okkur og velferð okkar. Þessar sýnir fullvissa okkur um það. Ef þú vilt vita meira um hvað þeir munu gera fyrir mannkynið hvetjum við þig til að hafa samband við Votta Jehóva eða fara inn á vefsíðu okkar www.jw.org/is og sækja bókina Hvað kennir Biblían?