Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 ÆVISAGA

Ég tek sannleika Biblíunnar opnum örmum þótt ég sé handleggjalaus

Ég tek sannleika Biblíunnar opnum örmum þótt ég sé handleggjalaus

Mörgum finnst gott að halda í eitthvað þegar þeir eru óöruggir. Það get ég ekki gert þar sem ég hef enga handleggi. Það þurfti að taka handleggina af mér til að bjarga lífi mínu þegar ég var sjö ára gamall.

Ég fæddist árið 1960. Mamma var þá 17 ára. Pabbi yfirgaf hana áður en ég fæddist. Við mamma bjuggum hjá ömmu og afa í Burg, litlum bæ sem tilheyrði áður Austur-Þýskalandi. Margir aðhylltust trúleysi og það gerði fjölskylda mín einnig. Í okkar huga var Guð ekki til.

Ég var ánægður að eiga afa sem sinnti mér þegar ég var að alast upp. Hann leyfði mér að taka þátt í ýmsum verkum með sér. Til dæmis fékk ég oft að klifra upp í tré til þess að saga niður greinar. Mér fannst þetta heilmikið ævintýri. Ég var áhyggjulaus og glaður krakki.

SLYS SEM BREYTTI LÍFI MÍNU

Einn daginn, þegar ég var sjö ára, gerðist skelfilegur atburður. Ég var nýbyrjaður í öðrum bekk í skóla. Á leiðinni heim klifraði ég upp í háspennumastur. Ég var kominn í átta metra hæð þegar ég fékk háspennustraum í mig og rotaðist. Þegar ég vaknaði var ég á spítala. Ég fann ekki fyrir handleggjunum. Þeir höfðu brennst illa og sárin voru svo skelfileg að það þurfti að taka handleggina af mér til þess að ég fengi ekki blóðeitrun. Þú getur rétt ímyndað þér hversu niðurbrotin mamma, amma og afi voru. En ég var bara barn og skyldi ekki til fullnustu hversu mikil áhrif handamissirinn myndi hafa á líf mitt.

Ég mætti aftur í skólann þegar ég var kominn af spítalanum. Hin börnin gerðu grín að mér, hrintu mér og köstuðu hlutum í mig þar sem ég gat ekki varið mig. Ég var afar sár yfir því hversu grimm og illkvittin þau voru við mig. Að lokum var ég sendur í heimavistarskóla fyrir fatlaða í Birkenwerder. Skólinn var langt í burtu og fjölskylda mín hafði ekki efni á að heimsækja mig. Ég hitti hana bara í skólaleyfum. Næstu tíu árin ólst ég því upp án fjölskyldunnar.

AÐ ALAST UPP ÁN HANDLEGGJA

Ég þurfti að læra að gera allt upp á nýtt með því að nota fæturna. Geturðu ímyndað þér að borða með því að halda á gafli eða skeið með tánum? Einhvern veginn lærði ég það. Ég lærði líka að tannbursta mig og greiða mér með fótunum. Ég fór meira að segja að nota fæturna til að sýna handatilburði þegar ég talaði við fólk. Það má  segja að fæturnir hafi tekið við hlutverki handanna.

Á unglingsárunum fékk ég mikinn áhuga á vísindaskáldskap. Stundum ímyndaði ég mér að ég væri með hátæknihendur sem gerðu mér kleift að gera allt. Þegar ég var 14 ára byrjaði ég að reykja. Mér fannst það gera mig sjálfsöruggari og að ég væri eins og annað fólk. Ég var í raun að segja: „Ég get þetta alveg eins og þið. Reykingamenn eru fullorðið fólk, hvort sem það er með hendur eða ekki.“

Ég hélt mér uppteknum og tók þátt í félagslífi. Ég gerðist meðlimur í ungmennahreyfingu Austur-Þýskalands, ríkisstyrktri ungliðahreyfingu jafnaðarmanna. Ég var ritari sem var ábyrgðarstaða innan hreyfingarinnar. Ég byrjaði í kór, stundaði ljóðaupplestra og tók þátt í íþróttum fatlaðra. Eftir starfsnám fór ég að vinna í fyrirtæki í bænum mínum. Eftir því sem ég varð eldri notaði ég gervihendur æ oftar því að ég vildi vera heill maður.

ÉG TEK SANNLEIKA BIBLÍUNNAR OPNUM ÖRMUM

Einu sinni þegar ég var að bíða eftir lestinni, á leið til vinnu, gaf maður sig á tal við mig. Hann spurði mig hvort ég gæti ímyndað mér að Guð gæti læknað mig og gefið mér handleggina á ný. Ég var undrandi. Auðvitað langaði mig að fá handleggina aftur en þetta hljómaði óraunhæft og ótrúverðugt. Ég var trúleysingi og sannfærður um að Guð væri ekki til. Þaðan í frá forðaðist ég þennan mann.

Einhverju síðar bauð samstarfskona mín mér að koma í heimsókn til sín og fjölskyldu sinnar. Í kaffispjalli fóru hún og foreldrar hennar að tala um Guð – Jehóva Guð. Það var í fyrsta sinn sem ég heyrði að Guð ætti sér nafn. (2. Mósebók 6:3, neðanmáls) Ég hugsaði hins vegar: „Það getur ekki verið að til sé Guð, alveg sama hvaða nafni maður kallar hann. Ég skal sannfæra þau um það.“ Ég var öruggur um mína skoðun og því samþykkti ég að ræða við þau um Biblíuna. En það kom mér á óvart að ég gat ekki sannað að Guð væri ekki til.

Smám saman fjaraði undan trúleysi mínu þegar ég rannsakaði Biblíuna betur. Margir spádómar Biblíunnar hafa ræst þrátt fyrir að hafa verið skrifaðir mörgum öldum, jafnvel árþúsundum áður. Í eitt skiptið, þegar við vorum að ræða Biblíuna, bárum við saman ástand heimsins og spádómana í Matteusi kafla 24, Lúkasi kafla 21 og 2. Tímóteusarbréfi kafla 3. Eins og læknir skoðar hin ýmsu einkenni sjúklings til að sjúkdómsgreina hann, hjálpaði það mér að sjá samansafn þeirra atburða sem nefndir eru í þessum spádómum til að skilja að við lifum á þeim tíma sem Biblían kallar ,síðustu daga‘. * Ég var djúpt snortinn. Þessir spádómar voru að rætast fyrir augunum á mér.

Ég var sannfærður um að ég hefði fundið sannleikann. Ég fór að biðja til Jehóva Guðs og hætti að reykja – ég sem hafði verið stórreykingamaður  í meira en áratug. Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna í um það bil eitt ár í viðbót. Ég lét skírast í baðkari 27. apríl 1986. Það var gert með leynd þar sem starfsemi vottanna var bönnuð í Austur-Þýskalandi.

AÐ GEFA AF SÉR

Vegna bannsins hittumst við í litlum hópum á einkaheimilum og ég þekkti því fáa trúbræður. Ég fékk óvænt leyfi frá yfirvöldum til að fara í heimsókn til Vestur-Þýskalands en þar var starfsemi vottanna ekki bönnuð. Í fyrsta skipti á ævinni gat ég mætt á biblíufræðslumót og hitt þúsundir trúbræðra og -systra. Það var alveg einstök upplifun.

Eftir að Berlínarmúrinn féll var banninu aflétt. Loksins var okkur frjálst að tilbiðja Jehóva Guð. Mig langaði að auka þátttöku mína í að boða trúna. En ég kveið því að tala við ókunnuga. Ég hafði líka minnimáttarkennd vegna fötlunar minnar og vegna þess að ég ólst upp á heimili fyrir fatlaða. Þrátt fyrir það ákvað ég árið 1992 að boða trúna í 60 klukkustundir einn mánuðinn. Mér gekk mjög vel og það veitti mér mikla ánægju. Því ákvað ég að gera þetta í fleiri mánuði og mér tókst það í þrjú ár.

Ég hef þessi orð í Biblíunni alltaf hugföst: „Hver er sjúkur án þess að ég sé sjúkur?“ (2. Korintubréf 11:29) Ég get hugsað og ég get talað þó að ég sé handleggjalaus þannig að ég reyni eftir bestu getu að hjálpa öðrum. Aðstæður mínar hjálpa mér að skilja betur erfiðar aðstæður annarra. Ég get uppörvað aðra þar sem ég veit hvernig það er að dauðlanga til að gera eitthvað en geta það bara alls ekki. Að gefa af mér á þennan hátt veitir mér mikla gleði.

Að færa öðrum gleðifréttir veitir mér gleði.

JEHÓVA STYÐUR MIG DAGLEGA

Ég verð þó að segja að stundum er ég niðurdreginn. Ég þrái einfaldlega að vera heill. Ég get gert flestallt sjálfur en það kostar mig miklu meiri tíma, áreynslu og erfiði. Einkunnarorð mín á hverjum degi eru: „Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrkan gerir.“ (Filippíbréfið 4:13) Jehóva gefur mér styrk til að framkvæma „venjulegar“ athafnir á hverjum degi. Jehóva hefur ekki gefist upp á mér – þess vegna vil ég aldrei gefast upp á að þjóna honum.

Ég hef notið þeirrar blessunar frá Jehóva að eignast fjölskyldu, en mig skorti það í bernsku. Elke, konan mín, er yndisleg og hlý. Auk þess hef ég eignast milljónir trúsystkina – votta Jehóva. Þetta er alþjóðleg fjölskylda mín.

Með Elke, eiginkonunni minni.

Það er líka mikil huggun að hugsa til þeirrar framtíðar sem Guð lofar okkur í paradís þar sem hann mun ,gera alla hluti nýja‘, þar á meðal handleggina mína. (Opinberunarbókin 21:5) Ég skil þetta loforð betur þegar ég hugleiði það sem Jesús gerði þegar hann var hér á jörð. Hann læknaði samstundis menn með bæklaða útlimi. Eitt sinn græddi hann meira að segja afhöggvið eyra á mann. (Matteus 12:13; Lúkas 22:50, 51) Loforð Jehóva og kraftaverk Jesú hafa sannfært mig um að bráðlega verði ég heill aftur.

Mesta blessunin er þó að hafa kynnst Jehóva Guði. Hann er faðir minn og vinur, huggari minn og styrkur. Davíð konungur lýsti sömu tilfinningu: „Drottinn er styrkur minn ... Ég hlaut hjálp, því fagnar hjarta mitt.“ (Sálmur 28:7) Þessum stórkostlega sannleik ætla ég aldrei að sleppa. Ég tek honum opnum örmum þó að ég sé handleggjalaus.

^ gr. 17 Nánari upplýsingar um tákn síðustu daga er að finna í 9. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Kaflinn heitir „Lifum við á ,síðustu dögum‘?“ Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og er fáanleg á www.jw.org/is.