Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Forðastu hugsunarhátt heimsins

Forðastu hugsunarhátt heimsins

„Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali.“ – KÓL. 2:8.

SÖNGVAR: 38, 31

1. Hvað ráðlagði Páll postuli trúsystkinum sínum? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

PÁLL postuli mun hafa skrifað kristnum mönnum í Kólossu árið 60 eða 61 e.Kr. en þá var hann fangi í Róm. Hann nefnir að það sé mikilvægt að búa yfir „speki og skilningi andans“, það er að segja að sjá hlutina sömu augum og Jehóva. (Kól. 1:9) Hann skrifaði enn fremur: „Þetta segi ég til þess að enginn blekki ykkur með fagurgala. Gætið þess að láta engan hertaka ykkur með marklausu, villandi spekitali sem byggist á mannasetningum og er komið frá heimsvættunum [„meginhugmyndum heimsins“, NW] en ekki frá Kristi.“ (Kól. 2:4, 8) Hann bendir á hvers vegna ýmsar vinsælar hugmyndir séu rangar og hvers vegna hugsunarháttur heimsins geti höfðað til ófullkomins fólks. Þessi hugsunarháttur getur til dæmis ýtt undir að fólki finnist það gáfaðra en aðrir og yfir þá hafið. Bréfinu var ætlað að hjálpa þjónum Guðs að forðast hugsunarhátt heimsins og ranga breytni. – Kól. 2:16, 17, 23.

2. Hvers vegna ætlum við að líta á dæmi um hugsunarhátt heimsins?

2 Í heiminum er almennt gert lítið úr leiðbeiningum Jehóva eða þær hunsaðar með öllu. Trú okkar gæti veikst smám saman  ef við létum slíkan hugsunarhátt hafa áhrif á okkur. Hann birtist í sjónvarpi, á Netinu, á vinnustaðnum og í skólanum. Í þessari grein ætlum við að skoða hvernig við getum komið í veg fyrir að þessi hugsunarháttur spilli huga okkar. Við lítum á fimm dæmi og ræðum hvað við getum gert til að forðast hugsunarhátt heimsins.

ÞURFUM VIÐ AÐ TRÚA Á GUÐ?

3. Hvaða hugmynd höfðar til margra og hvers vegna?

3 „Ég get verið góð manneskja þótt ég trúi ekki á Guð.“ Það er algengt víða um lönd að fólk segist ekki trúa á Guð. Það telur sig vera trúlaust. Þeir sem hugsa þannig hafa ef til vill ekki velt sérstaklega fyrir sér hvort Guð sé til en finnst það góð tilfinning að geta gert eins og þeim þóknast. (Lestu Sálm 10:4.) Öðrum finnst það hljóma gáfulega að segjast ekki þurfa að trúa á Guð til að hafa góð lífsgildi.

4. Hvernig er hægt að rökræða við manneskju sem segir að það sé ekki til neinn skapari?

4 Er rökrétt að halda því fram að ekki sé til skapari? Það er auðvelt að týna áttum ef leitað er svara hjá vísindunum við þeirri spurningu hvort lífið sé skapað. En í rauninni er svarið sáraeinfalt. Fyrst það þarf hugvit til að byggja hús hlýtur að þurfa enn meira hugvit til að búa til lifandi veru. Einföldustu einfrumungar jarðar eru miklum mun flóknari að gerð en nokkurt hús því að þeir geta fjölgað sér – og það getur hús ekki gert. Þessar frumur geta sem sagt geymt og afritað þær upplýsingar sem þær þurfa til að fjölga sér. Hver hannaði þessar lífverur? Biblían svarar: „Sérhvert hús hefur einhver gert en Guð er sá sem allt hefur gert.“ – Hebr. 3:4.

5. Hvað getum við sagt um þá hugmynd að við getum vitað hvað sé gott og rétt án þess að trúa á Guð?

5 Á hvaða nótum er hægt að rökræða þá hugmynd að við þurfum ekki að trúa á Guð til að vita hvað sé gott og rétt? Í Biblíunni kemur fram að þeir sem trúa ekki á Guð geti samt haft ýmis góð lífsgildi. (Rómv. 2:14, 15) Vel má vera að þeir virði og elski foreldra sína, svo dæmi sé tekið. En á hverju byggist siðgæði þeirra sem viðurkenna ekki að til sé ástríkur skapari sem ákveði hvað sé rétt og rangt? (Jes. 33:22) Margt hugsandi fólk viðurkennir að vandamál mannkyns séu svo hrikaleg að þau verði ekki leyst án hjálpar Guðs. (Lestu Jeremía 10:23.) Við skulum ekki freistast til að hugsa sem svo að við þurfum ekki að trúa á Guð og fylgja mælikvarða hans til að vita hvað sé gott og rétt. – Sálm. 146:3.

ÞURFUM VIÐ AÐ TILHEYRA TRÚFÉLAGI?

6. Hvernig líta margir á trúfélög og trúarbrögð?

6 „Maður getur verið ánægður með lífið án þess að tilheyra trúfélagi.“ Þessi hugsunarháttur heimsins höfðar til margra vegna þess að þeim finnst trúarbrögðin leiðinleg og óþörf. Mörg trúfélög kenna að til sé helvíti, krefja fólk um tíund og blanda sér í stjórnmál. Það gerir marga afhuga Guði. Það er því skiljanlegt að þeim fjölgi sem finnst þeir vera ágætlega settir án trúarbragða. „Ég er andlega sinnaður en vil ekki tilheyra neinu trúfélagi,“ segja sumir.

7. Hvernig stuðlar sönn trú að hamingju?

7 En er hægt að vera ánægður með lífið án trúar? Það er vissulega hægt að vera ánægður án falstrúar en enginn getur verið raunverulega hamingjusamur  nema hann þekki Jehóva sem er kallaður ,hinn sæli Guð‘. (1. Tím. 1:11, Biblían 1912) Allt sem Guð gerir er öðrum til góðs. Þjónar hans eru hamingjusamir vegna þess að þeir einbeita sér að því að hjálpa fólki. (Post. 20:35) Hugleiddu til dæmis hvernig sönn trú stuðlar að hamingjuríku fjölskyldulífi. Hún kennir okkur að virða maka okkar og vera honum trú, halda hjúskaparheitið, kenna börnunum hæversku og kurteisi og elska okkar nánustu. Sönn trú gerir þjónum Jehóva um allan heim kleift að starfa saman í friði og einingu og vera sameinaðir í söfnuðum sínum. – Lestu Jesaja 65:13, 14.

8. Hvað veitir sanna hamingju og hvernig sést það af Lúkasi 11:28?

8 Brjótum nú til mergjar þá hugmynd heimsins að hægt sé að vera ánægður með lífið án þess að þjóna Guði. Hvað veitir fólki gleði og lífsfyllingu? Sumir hafa ánægju af starfi sínu, einhverri íþrótt eða áhugamáli. Aðrir njóta þess að sinna fjölskyldu og vinum. Allt getur þetta verið ánægjulegt en lífið hefur æðri tilgang en þetta. Ólíkt dýrunum erum við fær um að kynnast skaparanum og þjóna honum. Við erum þannig úr garði gerð að það veitir okkur hamingju. (Lestu Lúkas 11:28.) Okkur finnst til dæmis mjög ánægjulegt og uppörvandi að safnast saman með trúsystkinum okkar til að tilbiðja Jehóva. (Sálm. 133:1) Við njótum þess líka að tilheyra alþjóðlegu bræðralagi, lifa heilbrigðu lífi og eiga okkur unaðslega von.

ÞURFUM VIÐ SIÐFERÐISREGLUR?

9. (a) Hvernig hugsa margir í heiminum um kynlíf? (b) Hvers vegna er kynlíf utan hjónabands bannað samkvæmt Biblíunni?

9 „Af hverju að banna kynlíf utan hjónabands?“ Fólk segir kannski við okkur: „Er eitthvað rangt við kynlíf utan hjónabands? Maður á að lifa lífinu.“ En það er hreinlega rangt að kynferðislegt siðleysi sé í lagi. Af hverju? Af því að það er bannað samkvæmt Biblíunni. * (Lestu 1. Þessaloníkubréf 4:3-8.) Jehóva hefur þann rétt að setja okkur lög vegna þess að hann skapaði okkur. Hann er höfundur hjónabandsins og samkvæmt lögum hans er kynlíf aðeins heimilt milli karls og konu sem eru gift hvort öðru. Guð setur okkur lög vegna þess að hann elskar okkur. Þau eru okkur til góðs. Fjölskylda, sem heldur þau, býr við ást, virðingu og öryggi. Guð umber ekki þá sem brjóta lög hans vísvitandi. – Hebr. 13:4.

10. Hvernig getur kristinn maður forðast kynferðislegt siðleysi?

10 Biblían kennir okkur hvernig við getum forðast kynferðislegt siðleysi. Við þurfum meðal annars að gæta vel að hvað við horfum á. Jesús sagði: „Hver sem horfir á konu í girndarhug hefur þegar drýgt hór með henni í hjarta sínu. Ef hægra auga þitt tælir þig til falls þá ríf það úr og kasta frá þér.“ (Matt. 5:28, 29) Kristinn maður forðast því að horfa á klám og hlusta á tónlist með siðlausum textum. Páll postuli skrifaði trúsystkinum sínum: „Deyðið ... hið jarðbundna í fari ykkar: hórdóm.“ (Kól. 3:5) Við þurfum líka að hafa stjórn á hugsunum okkar og tali. – Ef. 5:3-5.

 ÆTTUM VIÐ AÐ SÆKJAST EFTIR FRAMA Í HEIMINUM?

11. Hvers vegna getur það virst eftirsóknarvert að sækjast eftir frama í heiminum?

11 „Það er lykillinn að hamingjunni að koma sér áfram.“ Við erum oft hvött til að sækjast eftir frama í heiminum – reyna að klífa metorðastigann, komast í áhrifastöðu eða verða rík. Hjá mörgum í heiminum er þetta æðsta markmiðið í lífinu og við gætum hæglega farið að hugsa eins.

12. Er það lykillinn að hamingjunni að koma sér áfram í heiminum?

12 Er það rétt að maður uppskeri varanlega hamingju ef manni tekst að komast í valda- og virðingarstöðu? Nei. Satan langaði til að verða frægur og valdamikill. Honum tókst það vissulega en hann er ekki hamingjusamur heldur reiður. (Matt. 4:8, 9; Opinb. 12:12) Frami í heiminum veitir aðeins stundlega lífsfyllingu ólíkt gleðinni sem fylgir því að hjálpa fólki að njóta góðs af visku Guðs og eignast von um eilíft líf. Í heiminum ríkir ákafur samkeppnisandi sem ýtir undir öfund og knýr fólk til að reyna að skara fram úr. Í Biblíunni er þetta kallað „eftirsókn eftir vindi“. – Préd. 4:4.

13. (a) Hvernig eigum við að líta á atvinnu? (b) Hvað veitti Páli djúpstæða gleði?

13 Við þurfum auðvitað að sjá fyrir okkur og það er ekkert að því að velja sér vinnu sem maður hefur ánægju af. En vinnan ætti ekki að vera aðalatriðið í lífinu. Jesú sagði: „Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.“ (Matt. 6:24) Við uppskerum óviðjafnanlega gleði þegar við einbeitum okkur fyrst og fremst að því að þjóna Jehóva og fræða aðra um orð hans. Það var reynsla Páls postula. Sem ungur maður átti hann glæsta framtíð fyrir sér innan gyðingdómsins en hann öðlaðist sanna hamingju þegar hann tók að kenna fólki sannleikann og sá hvernig fólk tók við boðskap Guðs og það breytti lífi þess. (Lestu 1. Þessaloníkubréf 2:13, 19, 20.) Frami í heiminum getur aldrei veitt lífsfyllingu af þessu tagi.

Við uppskerum varanlega gleði ef við fræðum fólk um visku Guðs. (Sjá 12. og 13. grein.)

 GETUM VIÐ LEYST VANDAMÁL MANNKYNS?

14. Hvers vegna höfðar sú hugmynd til margra að mennirnir geti leyst vandamál sín sjálfir?

14 „Mennirnir geta leyst vandamál sín sjálfir.“ Þessi hugmynd höfðar til margra í heiminum. Af hverju? Ef hún ætti við rök að styðjast þyrftu mennirnir ekki á leiðsögn Guðs að halda og gætu gert eins og þeim sýndist. Og sú hugmynd að mennirnir geti leyst vandamál sín sjálfir getur virst sannfærandi því að samkvæmt sumum rannsóknum eru stríð, glæpir, sjúkdómar og fátækt í rénun. Í vefgrein nokkurri segir: „Ein ástæðan fyrir því að mannkyninu fer batnandi er sú að mennirnir hafa ákveðið að bæta heiminn.“ Bendir þetta til þess að mannkynið sé nú farið að takast á við vandamálin sem hafa þjakað það svo lengi? Við skulum leita svars við því með því að líta nánar á þessi vandamál.

15. Hve alvarleg eru vandamál mannkyns?

15 Stríð: Talið er að í það minnsta 60 milljónir manna hafi týnt lífi í heimsstyrjöldunum tveim. Mannkynið hefur sannarlega ekki lært af reynslunni síðan síðari heimsstyrjöldinni lauk. Árið 2015 höfðu 65 milljónir manna þurft að flýja heimili sín vegna stríðsátaka eða ofsókna. Þar af er áætlað að 12,4 milljónir manna hafi lagt á flótta árið 2015. Glæpir: Vissum glæpum hefur að vísu fækkað sums staðar en öðrum hefur fjölgað með ógnvekjandi hraða. Þar má nefna netglæpi, heimilisofbeldi og hryðjuverk. Margir telja auk þess að spilling hafi aukist í heiminum. Mannkynið er ekki fært um að uppræta glæpi. Sjúkdómar: Tekist hefur að halda sumum sjúkdómum í skefjum. Í skýrslu, sem birt var árið 2013, kom fram að hvorki meira né minna en níu milljónir manna deyi fyrir sextugt af völdum hjartasjúkdóma, heilablóðfalls, krabbameins, öndunarfærasjúkdóma og sykursýki. Fátækt: Að sögn Alþjóðabankans fjölgaði þeim sem búa við örbirgð í Afríku úr 280 milljónum árið 1990 í 330 milljónir árið 2012.

16. (a) Af hverju getur engin stjórn nema ríki Guðs leyst vandamál mannkyns? (b) Hvaða blessun spá bæði Jesaja og sálmaskáldið?

16 Eigingirni ræður ríkjum á sviði efnahagsmála og stjórnmála. Eigingjarnt fólk getur auðvitað ekki upprætt stríð, glæpi, sjúkdóma og fátækt. Aðeins ríki Guðs getur gert það. Lítum á það sem Jehóva ætlar að gera fyrir mannkynið. Stríð: Ríki Guðs mun uppræta djúpstæðar orsakir stríðsátaka eins og eigingirni, spillingu, þjóðernishyggju, fölsk trúarbrögð og Satan sjálfan. (Sálm. 46:9, 10) Glæpir: Ríki Guðs kennir fólki í milljónatali að elska hvert annað og treysta hvert öðru. Engin ríkisstjórn manna getur það. (Jes. 11:9) Sjúkdómar: Jehóva mun veita þjónum sínum fullkomna heilsu. (Jes. 35:5, 6) Fátækt: Jehóva útrýmir henni og mun fullnægja öllum andlegum og líkamlegum þörfum fólks. Það eru lífsgæði sem eru margfalt verðmætari en peningar. – Sálm. 72:12, 13.

„VITIÐ HVERNIG ÞIÐ EIGIÐ AÐ SVARA“

17. Hvernig geturðu varið þig gegn hugsunarhætti heimsins?

17 Ef útbreidd hugmynd vekur hjá þér efasemdir um trú þína skaltu kanna hvað Biblían segir um málið og ræða það við reyndan bróður eða systur. Veltu fyrir þér hvers vegna fólk aðhyllist þessa hugmynd, hvað sé bogið við hana og hvernig þú getir hrakið hana. Við getum öll varið okkur gegn hugsunarhætti heimsins með því að gera eins og Páll hvatti söfnuðinn í Kólossu til. Hann sagði: „Umgangist þá viturlega sem fyrir utan eru ... Vitið hvernig þið eigið að svara hverjum manni.“ – Kól. 4:5, 6.

^ gr. 9 Margir vita ekki að textinn í Jóhannesi 7:53 – 8:11 tilheyrir ekki innblásnum texta Biblíunnar þó að versin sé að finna í mörgum þýðingum hennar. Sumir halda því fram að maður þurfi sjálfur að vera syndlaus til að geta sakað aðra manneskju um hjúskaparbrot og vísa í þessi vers því til stuðnings. Í lögunum, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, segir hins vegar: „Ef maður er staðinn að því að liggja með eiginkonu annars manns skulu bæði tekin af lífi.“ – 5. Mós. 22:22.