Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Leitar þú hælis hjá Jehóva?

Leitar þú hælis hjá Jehóva?

„Drottinn frelsar líf þjóna sinna, enginn sem leitar hælis hjá honum mun sekur fundinn.“ – SÁLM. 34:23.

SÖNGVAR: 8, 54

1. Hvernig getur trúföstum þjónum Guðs liðið vegna þess að þeir hafa syndgað?

„ÉG AUMUR maður!“ (Rómv. 7:24) Margir trúfastir þjónar Guðs hafa endurómað þessi orð Páls postula. Erfðasyndin hrjáir okkur öll og þegar verk okkar endurspegla ekki löngun okkar til að þóknast Jehóva líður okkur stundum ömurlega. Sumir þjónar Guðs, sem hafa drýgt alvarlega synd, hafa jafnvel hugsað að Guð geti aldrei fyrirgefið þeim.

2. (a) Hvernig gefur Sálmur 34:23 til kynna að þjónar Guðs þurfi ekki láta sektarkennd gagntaka sig? (b) Um hvað er rætt í þessari grein? (Sjá rammann „ Lærdómar eða spádómleg fyrirmynd?“)

2 Í Biblíunni erum við þó fullvissuð um að þeir sem leita hælis hjá Jehóva þurfi ekki að láta sektarkennd gagntaka sig. (Lestu Sálm 34:23.) Hvað felst í því að leita hælis hjá Jehóva? Hvaða skref þurfum við að stíga til að hljóta miskunn Jehóva og fyrirgefningu? Við fáum svarið við þessum spurningum með því að skoða þá ráðstöfun sem griðaborgir voru í Ísrael til forna. Þessari ráðstöfun var að vísu komið á með lagasáttmálanum sem féll úr gildi á hvítasunnu árið 33. En höfum í huga að lögin komu frá Jehóva. Þegar við skoðum þá ráðstöfun sem griðaborgirnar voru getum við því kynnst viðhorfi Jehóva til syndar, syndara og iðrunar. Könnum fyrst hvaða tilgangi þessar borgir gegndu og hvernig fyrirkomulagið virkaði.

 ,VELJIÐ GRIÐASTAÐI‘

3. Hvernig tóku Ísraelsmenn á manndrápum af ásettu ráði?

3 Jehóva leit blóðsúthellingu alltaf alvarlegum augum. Þeir sem drápu mann af ásettu ráði í Ísrael til forna voru teknir af lífi af nánasta karlkynsættingja fórnarlambsins en hann var álitinn ,sá sem átti blóðs að hefna‘. (4. Mós. 35:19) Þessi verknaður friðþægði fyrir blóð saklausa mannsins sem hafði verið úthellt. Þegar hefndum var komið fram innan skamms tíma verndaði það fyrirheitna landið gegn því að verða flekkað. Jehóva fyrirskipaði: „Þér skuluð eigi vanhelga landið, sem þér eruð í, því að [það að úthella blóði manna] vanhelgar landið.“ – 4. Mós. 35:33, 34, Biblían 1981.

4. Hvernig tóku Ísraelsmenn á manndrápi af gáleysi?

4 En hvernig tóku Ísraelsmenn á því þegar einhver varð óviljandi öðrum að bana? Manndráparinn var sekur um að úthella saklausu blóði þó svo að hann hafi ekki ætlað sér það. (1. Mós. 9:5) Honum var þó sýnd sú miskunn að mega flýja undan þeim sem átti blóðs að hefna til einnar af griðaborgunum sex. Þar naut hann verndar en hann þurfti að vera um kyrrt í griðaborginni þar til æðstipresturinn dó. – 4. Mós. 35:15, 28.

5. Hvers vegna getum við kynnst Jehóva betur með því að skoða þá ráðstöfun sem griðaborgirnar voru?

5 Það var ekki hugmynd manna að ákveðnar borgir skyldu vera griðaborgir. Jehóva fyrirskipaði sjálfur Jósúa: „Segðu Ísraelsmönnum að velja griðastaði.“ Þessar borgir voru álitnar heilagar. (Jós. 20:1, 2, 7, 8) Þar sem Jehóva átti beinan þátt í að taka þessar borgir frá í sérstökum tilgangi spyrjum við okkur kannski: Hvernig hjálpar þessi ráðstöfun okkur að sjá miskunn Jehóva í skýrara ljósi? Og hvað lærum við um það hvernig við getum leitað hælis hjá honum nú á dögum?

„SKAL HANN ... LEGGJA MÁL SITT FYRIR ÖLDUNGA“

6, 7. (a) Lýstu hlutverki öldunganna í að dæma mann sem hafði óviljandi orðið öðrum að bana. (Sjá mynd í upphafi greinar.) (b) Hvers vegna var skynsamlegt af flóttamanni að leita til öldunganna?

6 Þegar einhver hafði óviljandi orðið öðrum að bana þurfti hann fyrst að ,leggja mál sitt fyrir öldungana‘ við hlið griðaborgarinnar sem hann hafði flúið til. Þeir áttu að taka vel á móti honum. (Jós. 20:4) Einhverju síðar var hann sendur aftur til öldunga borgarinnar þar sem drápið hafði átt sér stað og þeir dæmdu í málinu. (Lestu 4. Mósebók 35:24, 25.) Flóttamaðurinn fékk ekki að fara aftur til griðaborgarinnar fyrr en þeir höfðu úrskurðað að manndrápið hefði verið af gáleysi.

7 Hvers vegna áttu öldungarnir að koma að málinu? Þeir áttu að halda söfnuði Ísraels hreinum og hjálpa þeim sem hafði gerst sekur um manndráp af gáleysi að njóta góðs af miskunn Jehóva. Biblíufræðingur skrifaði að ef flóttamaðurinn leitaði ekki til öldunganna „stofnaði hann sjálfum sér í hættu“. Hann bætti við: „Blóðsektin hvíldi yfir honum sjálfum þar sem hann nýtti sér ekki þá vernd sem Guð hafði séð honum fyrir.“ Manndráparanum stóð hjálp til boða en hann þurfti að bera sig eftir henni og þiggja hana. Ef hann leitaði ekki hælis í einni af borgunum sem Jehóva hafði tekið frá mátti nánasti ættingi þess sem hafði misst lífið drepa hann.

8, 9. Af hverju ætti þjónn Guðs, sem hefur drýgt alvarlega synd, að leita aðstoðar öldunganna?

8 Ef þjónn Guðs nú á dögum gerist sekur um alvarlega synd þarf hann að leita hjálpar hjá öldungum safnaðarins til að  ná sér aftur á strik. Hvers vegna er það svona mikilvægt? Í fyrsta lagi kemur fram í Biblíunni að það sé ráðstöfun Jehóva að öldungar taki á málum þar sem alvarleg synd hefur verið drýgð. (Jak. 5:14-16) Í öðru lagi hjálpar þessi ráðstöfun iðrandi syndurum að varðveita sambandið við Jehóva og forðast að syndga aftur. (Gal. 6:1; Hebr. 12:11) Í þriðja lagi hafa öldungarnir fengið það verkefni og verið þjálfaðir til þess að hughreysta iðrandi syndara og hjálpa þeim að komast yfir sektarkenndina. Jehóva kallar þessa öldunga „skjól fyrir skúrum“. (Jes. 32:1, 2) Ertu ekki sammála að þessi ráðstöfun sé skýrt merki um miskunn Guðs?

9 Margir þjónar Guðs hafa komist að raun um hve mikill léttir það er að leita aðstoðar öldunganna. Bróðir, sem heitir Daniel, drýgði alvarlega synd en hikaði við að leita til öldunganna í marga mánuði. „Að svona löngum tíma liðnum,“ viðurkennir hann, „hugsaði ég að öldungarnir gætu ekkert gert fyrir mig lengur. En ég var alltaf að líta um öxl og beið þess að þurfa að taka afleiðingunum. Og þegar ég bað til Jehóva fannst mér ég alltaf þurfa að byrja á að biðjast fyrirgefningar á því sem ég hafði gert.“ Að lokum leitaði Daniel aðstoðar öldunganna. Hann hugsar til baka og segir: „Ég var vissulega hræddur við að leita til þeirra. En eftir á var eins og þungu fargi væri af mér létt. Nú finn ég að ég get leitað til Jehóva án þess að nokkuð standi í veginum.“ Daniel er nú með hreina samvisku og nýlega var hann útnefndur safnaðarþjónn.

HANN ÞARF ,AÐ FLÝJA TIL EINHVERRAR AF ÞESSUM BORGUM‘

10. Hvað þurfti sá sem hafði óviljandi orðið öðrum að bana að gera til að hljóta miskunn?

10 Sá sem hafði óviljandi orðið öðrum að bana þurfti að grípa til ákveðinna aðgerða til að hljóta miskunn. Hann þurfti að flýja til næstu griðaborgar. (Lestu Jósúabók 20:4.) Það er harla ólíklegt að flóttamanninum hafi staðið á sama um þessa ráðstöfun. Líf hans var undir því komið að hann næði sem fyrst til borgarinnar  og yrði þar um kyrrt. Þetta kostaði hann ýmsar fórnir. Hann þurfti að segja skilið við vinnuna, þægindin heima fyrir og ferðafrelsið þar til æðstipresturinn dæi. * (4. Mós. 35:25) En slíkar fórnir voru vel þess virði. Ef flóttamaðurinn yfirgæfi griðaborgina sýndi hann að honum stæði á sama um blóð þess sem hann hafði orðið að bana, og stofnaði auk þess eigin lífi í hættu.

11. Hvernig sýnir iðrunarfullur þjónn Guðs að hann tekur miskunn hans ekki sem sjálfsagðan hlut?

11 Iðrandi syndarar nú á dögum þurfa sömuleiðis að grípa til aðgerða til að njóta góðs af miskunn Guðs. Við þurfum að láta algerlega af rangri breytni okkar og bæði flýja alvarlegar syndir og smærri syndir sem geta oft leitt til grófra synda. Páll postuli lýsti undir innblæstri hvernig iðrun kristinna manna í Korintu birtist í verkum þeirra. Hann skrifaði: „Þér hryggðust Guði að skapi, – hvílíka alvöru vakti það hjá yður, já, hvílíkar afsakanir, hvílíka gremju, hvílíkan ótta, hvílíka þrá, hvílíkt kapp, hvílíka refsingu!“ (2. Kor. 7:10, 11, Biblían 1981) Með því að sýna í verki að við viljum einlæglega láta af syndugri breytni segjum við Jehóva að okkur standi ekki á sama og að við tökum ekki miskunn hans sem sjálfsagðan hlut.

12. Hvað gæti þjónn Guðs þurft að segja skilið við til að hljóta miskunn hans?

12 Hvað gæti þjónn Guðs þurft að segja skilið við til að hljóta áfram miskunn Guðs? Hann þarf að vera fús til snúa baki við hverju því sem gæti orðið til þess að hann freistaðist til að syndga, jafnvel því sem er honum kært. (Matt. 18:8, 9) Ef einhverjir vina þinna þrýsta á þig til að gera eitthvað sem Jehóva mislíkar, myndirðu þá hætta að umgangast þá? Ef þú átt erfitt með að hafa stjórn á áfengisneyslu, ertu þá tilbúinn til að forðast aðstæður þar sem þú gætir freistast til að drekka of mikið? Ef þú átt í baráttu við kynferðislega siðlausar langanir, forðastu þá að gera hluti sem gætu vakið óhreinar hugsanir sem og kvikmyndir og vefsíður sem hafa svipuð áhrif? Mundu að allar fórnir, sem við færum til að halda ráðvendni okkar við Jehóva, eru vel þess virði. Ekkert er sárara en að finnast hann hafa yfirgefið mann. Hins vegar er ekkert sem veitir meiri ánægju en að finna fyrir „ævarandi kærleika“ hans. – Jes. 54:7, 8.

„ÞAR VEITIST YKKUR GRIГ

13. Útskýrðu hvers vegna flóttamaður gat verið öruggur og lifað hamingjusömu lífi í griðaborginni.

13 Þegar flóttamaður var kominn inn í griðaborg var hann öruggur. Jehóva sagði um þessar borgir: „Þar veitist ykkur grið.“ (Jós. 20:2, 3) Jehóva ætlaðist ekki til að manndráparinn yrði dæmdur aftur fyrir sama mál, og sá sem átti blóðs að hefna mátti ekki fara inn í borgina og taka flóttamanninn af lífi. Flóttamaðurinn þurfti því ekki að óttast um líf sitt. Svo framarlega sem hann hélt sig í borginni var hann öruggur undir verndarhendi Jehóva. Griðaborgin var ekki fangelsi. Í henni hafði hann tækifæri til að vinna, hjálpa öðrum og þjóna Jehóva í friði. Já, hann gat lifað hamingjusömu og innihaldsríku lífi.

Treystu að Jehóva fyrirgefi þér. (Sjá 14.-16. grein.)

14. Hverju getur iðrunarfullur þjónn Guðs treyst?

14 Sumum þjónum Guðs, sem hafa drýgt alvarlega synd en iðrast, hefur fundist þeir vera „í fangelsi sektarkenndarinnar“. Þeir hafa jafnvel hugsað að Jehóva muni alltaf líta á þá sem flekkaða vegna syndar sinnar. Ef þér líður þannig  skaltu fullvissa þig um að þegar Jehóva fyrirgefur þér geturðu verið öruggur um miskunn hans. Daniel, sem vitnað var í fyrr í greininni, komst að raun um það. Eftir að hafa fengið leiðbeiningar hjá öldungunum og þeir hjálpað honum að hljóta hreina samvisku á ný sagði hann: „Mér leið eins og ég gæti andað aftur. Þegar búið var að taka á málinu þurfti ég ekki að vera með sektarkennd lengur. Þegar syndin er fyrirgefin er hún farin. Jehóva léttir af okkur byrðum okkar og fer með þær langt í burtu, rétt eins og hann hefur lofað. Við þurfum aldrei að sjá þær aftur.“ Þegar flóttamaður var kominn inn í griðaborg þurfti hann ekki lengur að vera stöðugt með varann á og óttast þann sem átti blóðs að hefna. Að sama skapi þurfum við ekki að óttast að Jehóva sé að leita að ástæðu til að minna okkur aftur á synd sem hann hefur þegar fyrirgefið og dæma okkur fyrir hana. – Lestu Sálm 103:8-12.

15, 16. Hvernig getur hlutverk Jesú sem lausnari og æðstiprestur aukið traust þitt á miskunn Guðs?

15 Við höfum jafnvel enn meiri ástæðu en Ísraelsmenn til að treysta á miskunn Jehóva. Eftir að Páll hafði tjáð sig um hve illa honum leið yfir því að hafa ekki hlýtt Jehóva fullkomlega sagði hann: „Guði sé lof að Jesús Kristur, Drottinn vor, frelsar.“ (Rómv. 7:24) Já, Páll átti í baráttu við syndugar tilhneigingar og hann iðraðist sárlega fyrri synda. Hann treysti samt algerlega á fyrirgefningu Guðs fyrir milligöngu Jesú. Jesús er lausnari okkar og veitir okkur hreina samvisku og innri frið. (Hebr. 9:13, 14) Sem æðstiprestur okkar „getur hann og til fulls frelsað þá sem hann leiðir fram fyrir Guð þar sem hann ávallt lifir til að biðja fyrir þeim“. (Hebr. 7:24, 25) Hlutverk æðstaprestsins fullvissaði Ísraelsmenn um að syndir þeirra yrðu fyrirgefnar. Ætti þjónusta Jesú, æðstaprests okkar, þá ekki enn frekar að fullvissa okkur um að við hljótum „miskunn og náð þegar við erum hjálparþurfi“? – Hebr. 4:15, 16.

16 Til að leita hælis hjá Jehóva þurfum við að trúa á lausnarfórn Jesú. Það er ekki nóg að viðurkenna að lausnarfórnin hjálpi fjölda fólks. Treystu öllu heldur að lausnarfórnin nái til þín. (Gal. 2:20, 21) Treystu að hún sé grundvöllur þess að þú fáir fyrirgefningu synda þinna og að hún veiti þér von um eilíft líf. Lausnarfórn Jesú er gjöf Jehóva til þín.

17. Hvers vegna viltu leita hælis hjá Jehóva?

17 Griðaborgirnar endurspegla miskunn Jehóva. Með þessari ráðstöfun lagði Guð áherslu á heilagleika lífsins en sýndi líka fram á hvernig öldungarnir hjálpa okkur, hvað felst í sannri iðrun og hvernig við getum verið algerlega viss um að hann fyrirgefur. Leitar þú hælis hjá Jehóva? Þú getur hvergi verið öruggari. (Sálm. 91:1, 2) Í næstu grein sjáum við hvernig griðaborgirnar geta hjálpað okkur að líkja eftir framúrskarandi fordæmi Jehóva um réttlæti og miskunn.

^ gr. 10 Í heimildarritum Gyðinga kemur fram að fjölskylda þess sem hafði framið manndráp af gáleysi hafi líklega flust með honum til griðaborgarinnar.