Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig geturðu aðlagast nýja söfnuðinum?

Hvernig geturðu aðlagast nýja söfnuðinum?

„ÉG KVEIÐ fyrir að flytja hingað,“ segir Allen. * „Ég vissi ekki hvort ég myndi eignast nýja vini og hvort mér yrði vel tekið.“ Allen er að aðlagast nýjum söfnuði rúma 1.400 kílómetra að heiman.

Þú gætir líka verið kvíðinn ef þú hefur flust í nýjan söfnuð. Hvað getur hjálpað þér að aðlagast? Hvað geturðu gert ef það reynist erfiðara en þú hafðir búist við? Og ef þú ert ekki að flytja sjálfur, hvernig geturðu þá auðveldað þeim að aðlagast sem flytja í söfnuðinn þinn?

HVERNIG GETURÐU AÐLAGAST OG VERIÐ ÁNÆGÐUR?

Tökum dæmi: Það reynir á tré þegar þau eru færð frá einum stað til annars. Þegar tré er tekið upp þarf yfirleitt að skera á flestar rætur þess til að auðvelda flutninginn. Um leið og það er sett niður aftur þarf það að byrja að mynda nýjar rætur. Að sama skapi hefur líklega reynt á þig að flytja í nýjan söfnuð. Þú hafðir eflaust fest rætur í gamla söfnuðinum, eignast kæra vini og komið þér upp góðum venjum í þjónustunni við Jehóva. Nú þarftu að mynda nýjar rætur til að geta dafnað í nýju umhverfi. Hvað getur hjálpað þér til þess? Farðu eftir meginreglum Biblíunnar. Skoðum nokkrar þeirra.

Sá sem les orð Guðs reglulega er „sem tré gróðursett hjá lindum, það ber ávöxt sinn á réttum tíma og blöð þess visna ekki. Allt, sem hann gerir, lánast honum.“ – Sálm. 1:1-3.

Kristnir menn þurfa að nærast reglulega á orði Guðs til að eiga gott samband við hann, rétt eins og tré þarf reglulega að fá vatn til að dafna. Haltu því áfram að lesa daglega í Biblíunni og mæta reglulega á samkomur. Hafðu góða reglu á tilbeiðslustund fjölskyldunnar og sjálfsnámi. Það sem þú þurftir áður til að viðhalda sterkri trú þarftu líka að fá á nýja staðnum.

„Sá sem gefur öðrum að drekka fær þorsta sínum svalað.“ – Orðskv. 11:25.

Þegar þú tekur fullan þátt í boðuninni verðurðu endurnærður og aðlagast söfnuðinum fyrr. „Það sem fyrst og fremst hjálpaði okkur hjónunum var að gerast aðstoðarbrautryðjendur fljótlega eftir að við komum í nýja söfnuðinn,“ segir Kevin sem er öldungur. „Við kynntumst trúsystkinum okkar, brautryðjendunum og svæðinu fljótt.“ Roger flutti á svæði í 1.600 kílómetra fjarlægð frá staðnum þar sem hann bjó. Hann segir: „Besta leiðin til að aðlagast nýjum söfnuði er að fara eins oft og hægt er í boðunina. Láttu öldungana líka vita að þú sért fús til að aðstoða á hvaða hátt sem er, svo sem við að þrífa ríkissalinn, hlaupa í skarðið með verkefni á samkomu eða bjóða einhverjum far á samkomu. Þegar bræður og systur sjá að sá sem er aðfluttur er fórnfús er auðveldara fyrir þau að kynnast honum.“

,Látið verða rúmgott hjá ykkur.‘ – 2. Kor. 6:13.

Haltu ekki aftur af bróðurkærleikanum. Þegar Melissa og fjölskylda hennar fluttu í nýjan söfnuð einbeittu þau sér að því að eignast nýja vini. „Við gáfum okkur tíma til að spjalla við fólk fyrir og eftir samkomur,“ segir hún. „Þannig gátum við átt samræður við það í stað þess að bara  heilsa.“ Þetta hjálpaði fjölskyldunni líka að læra nöfn trúsystkina fyrr. Fjölskyldan var auk þess gestrisin og styrkti þannig tengslin við nýja vini sína. „Við skiptumst á símanúmerum,“ bætir Melissa við, „svo að hægt væri að ná í okkur og bjóða okkur að vera með í því sem tengdist söfnuðinum og í öðru.“

Þér finnst það kannski yfirþyrmandi tilhugsun að kynnast nýju fólki, en þá gætirðu byrjað á einhverju litlu. Þú gætir brosað – þó að þig langi kannski ekki til þess í fyrstu. Þannig laðarðu fólk að þér. „Vingjarnlegt augnaráð gleður hjartað.“ (Orðskv. 15:30) „Ég er hlédræg að eðlisfari,“ segir Rachel en hún flutti langt frá staðnum þar sem hún ólst upp. „Stundum þarf ég að þvinga mig til að tala við trúsystkini í nýja söfnuðinum. En ég leita að einhverjum sem situr í ríkissalnum og talar ekki við neinn. Kannski er sú manneskja jafn feimin og ég.“ Væri ekki ráð að reyna að tala við einhvern sem þú hefur enn ekki kynnst, fyrir eða eftir hverja samkomu?

Sumum getur hins vegar fundist spennandi að kynnast nýju fólki fyrstu vikurnar. En með tímanum verður allt hversdagslegt og þá getur maður þurft að leggja sig fram um að halda áfram að eignast nýja vini.

Það reynir á tré þegar þau eru flutt en þegar þau eru sett niður á nýjum stað mynda þau nýjar rætur.

GEFÐU ÞÉR TÍMA TIL AÐ AÐLAGAST

Sum tré þurfa meiri tíma en önnur til að festa almennilega rætur í nýju umhverfi. Að sama skapi aðlagast ekki allir nýjum söfnuði jafn fljótt. Ef það er liðinn svolítill tími síðan þú fluttir og þú átt enn í baráttu við að aðlagast getur verið gagnlegt að fara eftir þessum ráðum Biblíunnar:

„Þreytumst ekki að gera það sem gott er því að á sínum tíma munum við uppskera ef við gefumst ekki upp.“ – Gal. 6:9.

Gefðu þér meiri tíma til að aðlagast en þú hafðir reiknað með. Margir trúboðar úr Gíleaðskólanum heimsækja ekki heimaland sitt fyrr en þeir hafa verið nokkur ár í landinu sem þeir voru sendir til. Það hjálpar þeim að tengjast trúsystkinum í nýja landinu sterkum böndum og laga sig að nýrri menningu.

Alejandro hefur flutt mörgum sinnum og veit að það er ekki hægt að flýta aðlögunarferlinu. Hann segir: „Eftir síðasta skiptið, sem við fluttum, sagði konan mín: ,Allir vinir mínir eru í gamla söfnuðinum!‘“ Hann minnti hana á að hún hefði sagt nákvæmlega það sama tveim árum áður – þegar þau fluttu síðast. En á þessum tveim árum hafði hún sýnt fólki áhuga og þeir sem voru ókunnugir urðu nánir vinir hennar.

„Segðu ekki: Hvernig stendur á því að hinir fyrri dagar voru betri en þessir? Ekki er það skynsamlegt að þú spyrjir svo.“ – Préd. 7:10.

Berðu ekki nýja söfnuðinn saman við þann gamla. Trúsystkini þín í nýja söfnuðinum gætu til dæmis verið hlédrægari eða opnari en þú hefur vanist. Horfðu á jákvæða eiginleika þeirra, rétt eins og þú vilt að þau sjái þína góðu eiginleika. Það hefur komið sumum sem hafa flust í nýjan söfnuð á óvart að þeir hafi þurft að spyrja sig: Elska ég allt bræðralagið? – 1. Pét. 2:17.

 „Biðjið og yður mun gefast.“ – Lúk. 11:9.

Biddu Guð um að hjálpa þér. „Harkaðu ekki bara af þér,“ segir David sem er öldungur. „Það er margt sem við getum aðeins gert með hjálp Jehóva. Biddu því um hana!“ Rachel, sem vitnað var í fyrr í greininni, er sammála. „Ef okkur hjónunum finnst við ekki vera nógu tengd söfnuðinum,“ segir hún, „biðjum við Jehóva sérstaklega um að láta okkur vita ef við erum að gera eitthvað sem gerir öðrum erfitt að nálgast okkur. Síðan reynum við að nota meiri tíma með trúsystkinum okkar.“

Foreldrar, ef börnin ykkar eiga erfitt með að falla inn í hópinn takið ykkur þá tíma til að biðja með þeim um það. Hjálpið þeim að eignast nýja vini. Þið gætuð komið því í kring að þau fái tækifæri til að njóta uppbyggilegs félagsskapar.

GERÐU ÞITT TIL AÐ NÝLEGA AÐFLUTTUM LÍÐI VEL

Hvað geturðu gert til að hjálpa þeim sem hafa nýlega flust í söfnuðinn þinn? Leitastu við að vera sannur vinur allt frá upphafi. Veltu fyrir þér hvað þú kynnir að meta ef þú værir nýfluttur á staðinn, og gerðu það síðan. (Matt. 7:12) Gætu nýir í söfnuðinum verið með í tilbeiðslustund fjölskyldu þinnar eða horft með þér á mánaðarþáttinn í Sjónvarpi Votta Jehóva? Gætirðu boðið þeim með þér í boðunina? Ef þú býður þeim í einfalda máltíð eiga þeir lengi eftir að muna eftir gestrisni þinni. Hvað annað geturðu gert til að hjálpa þeim?

„Þegar við komum í nýja söfnuðinn,“ segir Carlos, „gaf systir okkur lista yfir búðir þar sem ódýrt er að versla. Það var mikil hjálp í því.“ Þeir sem eru vanir annars konar veðráttu þar sem þeir bjuggu áður eru oft þakklátir fyrir að fá að vita hvernig fólk klæðir sig á nýja staðnum, hvort sem loftslagið þar er heitt eða kalt eða það rignir mikið. Maður getur líka hjálpað þeim að ná betri árangri í boðuninni með því að segja þeim sögu staðarins eða hvaða trúarskoðanir eru ríkjandi.

ÞAÐ ER ERFIÐISINS VIRÐI AÐ AÐLAGAST

Allen, sem minnst var á í byrjun greinarinnar, er nú búinn að vera í rúmt ár í nýja söfnuðinum. Hann hugsar til baka og segir: „Til að byrja með þurfti ég að hafa fyrir því að kynnast bræðrum og systrum. En nú eru þau orðin eins og fjölskylda mín og ég er ánægður.“ Allen áttar sig á að hann missti ekki vini sína þegar hann flutti heldur eignaðist hann nýja, og þeir verða líklega vinir hans áfram um alla ævi.

^ gr. 2 Sumum nöfnum er breytt.