Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Syngjum af gleði

Syngjum af gleði

„Gott er að syngja Guði vorum lof.“ – SÁLM. 147:1.

SÖNGVAR: 10, 2

1. Hvað getum við gert í söng?

VINSÆLL textahöfundur sagði eitt sinn: „Orð fá mann til að hugsa. Tónlist vekur hjá manni tilfinningu. En söngur tengir hugsun við tilfinningu.“ Söngvarnir okkar eru lofsöngvar og lýsa kærleika okkar til Jehóva, föður okkar á himnum. Það er engin furða að söngur sé áberandi þáttur í hreinni tilbeiðslu, hvort sem við syngjum í einrúmi eða með söfnuði þjóna Guðs.

2, 3. (a) Hvernig getur sumum fundist að syngja með söfnuðinum? (b) Um hvaða spurningar verður nú rætt?

2 En hvernig finnst þér að syngja með söfnuðinum? Finnst þér það vandræðalegt? Í sumum menningarsamfélögum getur körlum fundist óþægilegt að syngja í fjölmenni. Það getur haft áhrif á allan söfnuðinn, sérstaklega ef þeir sem fara með forystuna eru hikandi við að syngja eða eru að sinna öðru á meðan söfnuðurinn syngur. – Sálm. 30:13.

3 Söngur er hluti af tilbeiðslu okkar. Í ljósi þess viljum við ekki fara út eða missa af þessum hluta samkomunnar. Hvert og eitt okkar ætti því að spyrja sig: Hvernig lít ég á sönginn á samkomunum? Hvað get ég gert ef ég hika við að syngja fyrir framan aðra? Og hvað get ég gert til að tjá tilfinningar í söngnum til fulls?

 SÖNGUR ER MIKILVÆGUR ÞÁTTUR Í SANNRI TILBEIÐSLU

4, 5. Hversu víðtækar ráðstafanir voru gerðar fyrir söng við tilbeiðsluna í Ísrael til forna?

4 Trúfastir þjónar Jehóva hafa lengi notað tónlist til að lofa hann. Það er athyglisvert að meðan Ísraelsmenn voru Jehóva trúir var söngur áberandi í tilbeiðslu þeirra. Þegar verið var að undirbúa byggingu musterisins valdi Davíð konungur 4.000 Levíta til að leika tónlist Guði til lofs. Þeirra á meðal voru 288 menn „sem hafði verið kennt að syngja Drottni söngva. Allt voru þetta þjálfaðir menn.“ – 1. Kron. 23:5; 25:7.

5 Tónlist og söngur gegndi stóru hlutverki við vígslu musterisins. Í frásögunni segir: ,Lúðurþeytararnir og söngvararnir hljómuðu eins og ein rödd þegar þeir fluttu Drottni lofgjörð og þökk. Þegar þeir hófu að lofa Drottin með lúðrablæstri, málmgjöllum og hljóðfæraleik fyllti dýrð Drottins hús Guðs.‘ Það hefur eflaust verið mjög trústyrkjandi að vera viðstaddur þennan viðburð. – 2. Kron. 5:13, 14; 7:6.

6. Lýstu einstökum tónlistarflutningi sem átti sér stað þegar Nehemía var landstjóri í Jerúsalem.

6 Nehemía, sem leiddi trúfasta Ísraelsmenn við endurbyggingu múra Jerúsalem, valdi líka söngvara og hljóðfæraleikara af hópi Levíta. Einstakur tónlistarflutningur Levítanna við vígslu múranna átti stóran þátt í gera þennan viðburð gleðiríkan. Í þetta sinn voru ,tveir stórir kórar sem flytja áttu þakkarsálminn‘. Þeir gengu á múrnum, hvor á móti öðrum og mættust nálægt musterissvæðinu og heyrðist þá söngurinn langt að. (Neh. 12:27, 28, 31, 38, 40, 43) Jehóva hefur eflaust verið ánægður að heyra tilbiðjendur sína lofa hann svona ákaft í söng.

7. Hvernig sýndi Jesús að söngur væri mikilvægur við tilbeiðslu kristinna manna?

7 Tónlist hélt áfram að vera áberandi þáttur í sannri tilbeiðslu eftir að kristna söfnuðinum var komið á fót. Á þýðingarmesta kvöldi mannkynssögunnar, þegar kvöldmáltíð Drottins hafði verið innleidd, sungu Jesús og lærisveinarnir saman. – Lestu Matteus 26:30.

8. Hvernig gáfu kristnir menn á fyrstu öld fordæmi til eftirbreytni með söng sínum við tilbeiðslu?

8 Kristnir menn á fyrstu öld gáfu fordæmi til eftirbreytni með því að syngja Guði lofsöngva. Þeir komu oft saman á einkaheimilum og þó að þau hafi ekki verið eins íburðarmikil og musterið sungu þeir af miklum ákafa fyrir Jehóva. Undir innblæstri hvatti Páll postuli trúsystkini sín og sagði: „Fræðið og áminnið hvert annað og syngið Guði sætlega lof í hjörtum ykkar með sálmum, lofsöngvum og andlegum ljóðum.“ (Kól. 3:16) Við ættum að syngja ,andlegu ljóðin‘ í söngbók okkar af þakklæti til Jehóva. Þau eru hluti af andlegu fæðunni sem hinn „trúi og hyggni þjónn“ veitir okkur. – Matt. 24:45.

AÐ SIGRAST Á ÓTTANUM VIÐ AÐ SYNGJA

9. (a) Hvað gæti aftrað sumum frá því að syngja af gleði á samkomum og mótum? (b) Hvernig ættum við að syngja Jehóva lofsöngva og hverjir ættu að taka frumkvæðið? (Sjá mynd í upphafi greinar.)

9 Hvað ef það er ekki algengt að syngja í fjölskyldu þinni, menningu eða umhverfi? Með nútímatækni er auðvelt  að hlusta á atvinnusöngvara. Maður getur þó farið hjá sér eða orðið fyrir vonbrigðum þegar maður ber sinn eigin söng saman við það sem maður heyrir í útvarpi eða sjónvarpi. Það er samt ábyrgð okkar allra að syngja Jehóva lofsöngva. Haltu því söngbókinni hátt uppi, lyftu höfðinu og syngdu af öllu hjarta. (Esra. 3:11; lestu Sálm 147:1.) Í mörgum ríkissölum er texta söngvanna nú varpað upp á skjá en það auðveldar okkur að syngja. Það er líka athyglisvert að það að syngja ríkissöngva er nú orðið hluti af dagskrá Ríkisþjónustuskólans fyrir öldunga. Þannig er lögð áhersla á hve mikilvægt er að öldungar taki frumkvæði í að syngja í söfnuðinum.

10. Hvað ættum við að hafa í huga ef við erum hrædd við að syngja?

10 Margir eru hræddir við að syngja upphátt af því að þeir óttast að skera sig úr eða að söngur þeirra hljómi illa. Við ættum þó að hafa í huga að „öll hrösum við margvíslega“ þegar við tölum. (Jak. 3:2) Við hættum samt ekki að tala. Hvers vegna ættum við þá að láta ófullkominn söng okkar aftra okkur frá því að lofa Jehóva í söng?

11, 12. Nefndu nokkrar tillögur sem hjálpa okkur að bæta okkur í að syngja.

11 Okkur gæti kviðið fyrir að syngja vegna þess að við vitum ekki hvernig við eigum að gera það. Með því að notfæra okkur nokkrar einfaldar tillögur getum við þó bætt sönginn okkar. *

12 Þú getur lært að syngja af krafti með því að anda rétt. Til að ljósapera geti lýst þarf hún rafmagn og eins þarf röddin að fá loft til að við getum talað  eða sungið. Syngdu jafn hátt og þú talar eða jafnvel hærra. (Finna má tillögur í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, bls. 181 til 184 undir millifyrirsögninni „Lærðu að anda rétt“.) Í Biblíunni eru þjónar Jehóva stundum hvattir til að ,hrópa af fögnuði‘ þegar þeir syngja lofsöngva. – Sálm. 33:1-3.

13. Útskýrðu hvernig hægt er að syngja af meira öryggi.

13 Í tilbeiðslustund fjölskyldunnar eða jafnvel þegar þú ert einn skaltu prófa eftirfarandi: Veldu einn af uppáhaldssöngvunum þínum í söngbókinni. Lestu textann hátt og snjallt. Taktu svo einn lið söngtextans og segðu hann í einum andardrætti með sama raddstyrk og áður. Síðan skaltu syngja liðinn af sama krafti. (Jes. 24:14) Þannig verður söngur þinn hljómmikill, sem er mjög gott. Láttu það ekki hræða þig eða gera þig vandræðalegan.

14. (a) Hvað getum við gert til að syngja betur? (Sjá rammann „ Hvernig geturðu bætt sönginn?“) (b) Hvaða tillögur til að sigrast á vandamálum með röddina finnst þér vera gagnlegar?

14 Til að syngja fullum hálsi þarf að mynda sem mest pláss í munninum. Önnur tillaga er því að opna munninn meira en þegar maður talar. Hvað geturðu gert ef þér finnst röddin vera veik eða finnst þú vera skrækróma? Þú getur fundið gagnleg ráð varðandi þessi vandamál í bókinni Aflaðu þér menntunar í Boðunarskólanum, bls. 184, í rammagreininni „Sigrast á sérstökum vandamálum“.

SYNGDU GUÐI LOF AF ÖLLU HJARTA

15. (a) Hvað var tilkynnt á ársfundinum 2016? (b) Nefndu nokkrar ástæður fyrir því að nýja söngbókin var gefin út.

15 Fólk var mjög spennt á ársfundinum 2016 þegar bróðir Stephen Lett í hinu stjórnandi ráði tilkynnti að ný  söngbók, Syngjum af gleði fyrir Jehóva, yrði bráðlega tekin í notkun á samkomum. Bróðir Lett útskýrði að ein ástæðan fyrir að endurskoða þurfti söngbókina hafi verið að samræma söngvana við endurskoðaða útgáfu Nýheimsþýðingar Heilagrar ritningar. Það þýddi að það þurfti að taka út eða endurskoða texta með orðum eða orðalagi sem er ekki lengur notað í endurskoðaðri útgáfu Nýheimsþýðingarinnar frá 2013. Auk þess var bætt við nýjum söngvum um boðunina og söngvum sem tjá þakklæti okkar fyrir lausnarfórnina. Þar sem söngur er mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar vildi hið stjórnandi ráð líka að út kæmi vönduð söngbók með útliti sem samræmdist kápu hinnar endurskoðuðu útgáfu Nýheimsþýðingarinnar.

16, 17. Hvaða breytingar voru gerðar í nýju söngbókinni?

16 Til að auðveldara sé að nota söngbókina er söngvunum raðað eftir efni. Fyrstu 12 söngvarnir fjalla um Jehóva, næstu 8 um Jesú og lausnargjaldið og svo framvegis. Í bókinni er yfirlit með öllum efnisflokkunum en það hjálpar bræðrum til dæmis að velja söng fyrir opinbera fyrirlestra.

17 Til að hver og einn geti sungið af öllu hjarta hefur sumum textum verið breytt. Þeir eru nú skýrari og orðum, sem eru ekki lengur algeng, hefur verið breytt í skiljanlegri orð. Söngurinn, sem hét „Langlyndi“, heitir núna „Verum þolinmóð“ svo dæmi sé tekið og textanum var breytt í samræmi við það. Einnig var viðeigandi að breyta söngnum „Varðveittu hjartað“ í „Varðveitum hjartað“. Hvers vegna? Þegar maður söng eldri textann var maður að segja öðrum hvað þeir áttu að gera. Það gæti verið óþægilegt fyrir þá sem mæta á samkomur og mót og eru nýir, áhugasamir eða ungir og fyrir systur. Því var heiti söngsins og textanum breytt.

Æfið söngvana í tilbeiðslustund fjölskyldunnar. (Sjá 18. grein.)

18. Hvers vegna ættum við að kynna okkur söngvana í nýju söngbókinni? (Sjá einnig neðanmálsgrein.)

18 Margir söngvanna í bókinni Syngjum af gleði fyrir Jehóva eru settir fram sem bæn. Í þeim getum við tjáð Jehóva tilfinningar okkar. Aðrir söngvar ,hvetja okkur til kærleika og góðra verka‘. (Hebr. 10:24) Við viljum væntanlega kynna okkur laglínur, taktinn og textana við söngvana okkar, en hægt er að hlusta á lögin á jw.org. Ef þú æfir þig heima geturðu lært að syngja þá af öryggi og af öllu hjarta. *

19. Hvernig geta allir í söfnuðinum átt beinan þátt í tilbeiðslunni á Jehóva?

19 Munum að söngur er mikilvægur þáttur í tilbeiðslu okkar. Það er kraftmikil leið til að sýna að við elskum Jehóva og erum honum þakklát. (Lestu Jesaja 12:5.) Þegar þú syngur af gleði verða aðrir líka öruggari við sönginn. Allir í söfnuðinum – ungir, aldnir og áhugasamir – geta tekið beinan þátt í tilbeiðslunni á Jehóva með þessum hætti. Hikaðu því ekki við að tjá þig í söng. Hlýddu öllu heldur því sem sálmaskáldinu var innblásið að skrifa: „Lofsyngið Drottni.“ Já, syngjum af gleði! – Sálm. 96:1.

^ gr. 11 Nánari leiðbeiningar um að bæta söngröddina má finna í desemberþættinum 2014 í Sjónvarpi Votta Jehóva á ensku (Video on Demand, FROM OUR STUDIO).

^ gr. 18 Til að gera okkur tilbúin að syngja hefst mótsdagskráin alltaf á tónlist sem er leikin í tíu mínútur. Tónlistin, sem er í hljómsveitarútgáfu, hjálpar okkur að búa hjörtu okkar og huga undir dagskrána sem fylgir. Við erum því hvött til að vera komin í sætin þegar hún hefst og hlusta á hana af athygli.