Hoppa beint í efnið

Hvað er skírn?

Hvað er skírn?

Svar Biblíunnar

 Skírn merkir að vera færður algerlega á kaf í vatn. a Biblían segir oft frá því þegar einstaklingar voru skírðir. (Postulasagan 2:41) Þar á meðal þegar Jesús var skírður í ánni Jórdan. (Matteus 3:13, 16) Nokkrum árum síðar er sagt frá eþíópískum manni sem var skírður í „vatni nokkru“ sem var við veginn þar sem leið hans lá. – Postulasagan 8:36–40.

 Jesús kenndi að skírn væri krafa sem gerð væri til fylgjenda sinna. (Matteus 28:19, 20) Pétur postuli staðfesti þessa kenningu. – 1. Pétursbréf 3:21.

Í þessari grein

 Hvað merkir skírn?

 Skírn er ytra eða opinbert tákn þess að einstaklingurinn sem lætur skírast hafi iðrast synda sinna og gefið Guði skilyrðislaust loforð um að gera vilja hans. Það felur í sér að lifa í hlýðni við Guð og Jesú. Þeir sem láta skírast fara inn á veginn til eilífs lífs.

 Niðurdýfingarskírn er viðeigandi tákn um þær breytingar sem einstaklingurinn hefur gert í lífi sínu. Hvernig þá? Biblían líkir skírninni við greftrun. (Rómverjabréfið 6:4; Kólossubréfið 2:12) Með því að fara á kaf í vatnið sýnir skírnþeginn að hann hafi „dáið“ fyrri lífsstefnu. Þegar hann rís upp úr vatninu er hann í raun að hefja nýtt líf sem vígður kristinn einstaklingur.

 Hvað segir Biblían um ungbarnaskírn?

 Í Biblíunni kemur hvergi fram að ungbörn skuli skírð. b

 Ungbarnaskírn stenst raunar ekki í ljósi ritninganna. Biblían segir að sá sem vilji láta skírast þurfi að uppfylla viss skilyrði. Hann verður til að mynda að skilja í það minnsta grundvallarkenningar orðs Guðs og lífa í samræmi við þær. Hann hefur iðrast synda sinna. Og hann hefur vígt Guði líf sitt í bæn. (Postulasagan 2:38, 41; 8:12) Smábörn eru ekki fær um að gera neitt af þessu.

 Hvað merkir það að vera skíður í nafni föðurins, sonarins og heilags anda?

 Jesús sagði fylgjendum sínum ‚að gera fólk … að lærisveinum, skíra það í nafni föðurins, sonarins og heilags anda og kenna því að halda öll fyrirmæli sín.‘ (Matteus 28:19, 20) Í þessu samhengi merkir að skíra „í nafni“ að skírnþeginn viðurkenni vald og stöðu föðurins og sonarins og einnig hlutverk heilags anda Guðs. Tökum sem dæmi orð Péturs við mann sem hafði verið lamaður frá fæðingu: „Í nafni Jesú Krists frá Nasaret: Gakktu!“ (Postulasagan 3:6) Merkingin er augljós – Pétur þekkti og viðurkenndi vald Krists og gaf honum heiðurinn af undursamlegri lækningu þessa manns.

 Drýgir maður synd ef maður skírist aftur?

 Það er ekki óalgengt að fólk skipti um trú. En hvernig ber að líta á það ef fólk hefur þegar verið skírt í sinni fyrri kirkju? Væri það synd að láta skírast aftur? Sumir myndu svara því játandi og vísa ef til vill í Efesusbréfið 4:5 því til stuðnings, en þar stendur: „Það er einn Drottinn, ein trú, ein skírn.“ En þetta vers merkir ekki að það sé óleyfilegt að skíra mann á ný. Hvernig þá?

 Samhengið. Samhengið í Efesusbréfinu 4:5 sýnir að Páll postuli var að leggja áherslu á mikilvægi einingar sannkristinna manna í skoðun og trú. (Efesusbréfið 4:1–3, 16) Forsenda slíkrar einingar væri að þeir tilbæðu sama Guð, hefðu sömu trú eða skilning á því sem Biblían kennir og fylgdu sömu kröfum ritninganna um skírn.

 Páll postuli hvatti suma sem voru þegar skírðir til að skírast á ný. Ástæðan var sú að þeir höfðu verið skírðir án þess að hafa fullan skilning á kristinni kenningu. – Postulasagan 19:1–5.

 Réttur grundvöllur skírnar. Ef skírn á að vera Guði þóknanleg þarf hún að byggjast á nákvæmri þekkingu á sannindum Biblíunnar. (1. Tímóteusarbréf 2:3, 4) Þegar einstaklingur skírist á grundvelli trúarkenninga sem stangast á við Biblíuna er sú skírn ekki viðurkennd af Guði. (Jóhannes 4:23, 24) Þó að hann hafi verið einlægur þá skorti hann „nákvæma þekkingu“. (Rómverjabréfið 10:2) Til að öðlast velþóknun Guðs þarf hann að læra sannindi Biblíunnar, fara eftir því sem hann hefur lært, vígja Guði líf sitt og láta skírast aftur. Við þessar kringumstæður er það ekki synd að láta skírast aftur. Þvert á móti er það einmitt það sem hann ætti að gera.

 Aðrar tegundir skírnar sem sagt er frá í Biblíunni

 Biblían talar líka um annars konar skírn sem hefur aðra merkingu en kristin niðurdýfingarskírn. Lítum á dæmi um þetta.

 Skírn Jóhannesar skírara. e Jóhannes skírði Gyðinga og trúskiptinga til tákns um iðrun vegna synda sem þeir höfðu drýgt gegn lögmáli Móse – laga sem Guð gaf Ísraelsþjóðinni fyrir milligöngu Móse. Skírn Jóhannesar undirbjó fólk til að bera kennsl á og taka á móti Messíasi, Jesú frá Nasaret. – Lúkas 1:13–17; 3:2, 3; Postulasagan 19:4.

 Skírn Jesú sjálfs. Skírn Jesú, sem Jóhannes skírari framkvæmdi, var einstök. Jesús var fullkominn maður og hafði ekki drýgt neina synd. (1. Pétursbréf 2:21, 22) Skírn hans fól því ekki í sér iðrun eða „bæn til Guðs um góða samvisku“. (1. Pétursbréf 3:21) Þess í stað sýndi hún að hann var að gefa sig Guði á hönd til að gera vilja hans, eins og sagt hafði verið fyrir um Messías, eða Krist. Það fól líka í sér að hann myndi fórna lífi sínu fyrir okkur. – Hebreabréfið 10:7–10.

 Skírn með heilögum anda. Bæði Jóhannes skírari og Jesús Kristur töluðu um skírn með heilögum anda. (Matteus 3:11; Lúkas 3:16; Postulasagan 1:1–5) Þetta er ekki sama skírn og skírn í nafni heilags anda. (Matteus 28:19) Hver er munurinn?

 Tiltölulega fámennur hópur fylgjenda Jesú er skírður með heilögum anda. Þessir einstaklingar eru smurðir með heilögum anda vegna þess að þeir eru kallaðir til þjónustu með Kristi á himnum. Þeir munu verða konungar og prestar yfir jörðinni. f (1. Pétursbréf 1:3, 4; Opinberunarbókin 5:9, 10) Þegnar þeirra verða milljónir fylgjenda Jesú sem hafa þá von að lifa í paradís á jörð. – Matteus 5:5; Lúkas 23:43.

 Skírn til Krists Jesú og til dauða hans. Þeir sem eru skírðir með heilögum anda eru líka ‚skírðir … til Krists Jesú‘. (Rómverjabréfið 6:3) Þessi skírn á því við um smurða fylgjendur Jesú sem munu ríkja með honum á himni. Þegar þeir eru skírðir til Jesú verða þeir meðlimir hins smurða safnaðar. Hann er höfuð safnaðarins og þeir eru líkaminn. – 1. Korintubréf 12:12, 13, 27; Kólossubréfið 1:18.

 Smurðir kristnir menn eru líka skírðir „til dauða [Jesú]“. (Rómverjabréfið 6:3, 4) Þeir líkja eftir honum og lifa fórnfúsu lífi í hlýðni við Guð og afsala sér voninni um eilíft líf á jörðinni. Þessi táknræna skírn fullkomnast þegar þeir deyja og fá upprisu á himnum sem andaverur. – Rómverjabréfið 6:5; 1. Korintubréf 15:42–44.

 Skírn með eldi. Jóhannes skírari sagði við áheyrendur sína: „Hann [Jesús] mun skíra ykkur með heilögum anda og eldi. Hann er með varpskófluna í hendinni og mun gerhreinsa þreskivöllinn og safna hveitinu í hlöðu en brenna hismið í óslökkvandi eldi.“ (Matteus 3:11, 12) Tökum eftir að það er munur á skírn með eldi og skírn með heilögum anda. Hvað átti Jóhannes við með þessum myndhvörfum?

 Hveitið táknar þá sem hlusta á Jesú og hlýða honum. Þeir hafa möguleika á að skírast með heilögum anda. Hismið táknar þá sem hlusta ekki á Jesú. Endalok þeirra eru skírn með eldi, sem merkir eilífa tortímingu. – Matteus 3:7–12; Lúkas 3:16, 17.

a Samkvæmt biblíuorðabókinni Vine’s Complete Expository Dictionary of Old and New Testament Words vísar gríska orðið sem er þýtt „skírn“ til „niðurdýfingar, þess að fara á kaf og koma upp úr vatninu á ný“.

b Skírn þar sem ungbörn eiga í hlut vísar til athafnar í sumum kirkjum þegar barni er gefið nafn og það er „skírt“ með því að hella vatni á höfuð þess.

c Jehóva er nafn Guðs. (Sálmur 83:18) Sjá greinina „Hver er Jehóva?

d Sjá greinina „Hvað er heilagur andi?

e Sjá greinina „Who Was John the Babtist?

f Sjá greinina „Hverjir fara til himna?

g Biblían notar orðið skírn þegar hún talar um trúarlega hreinsunarsiði, eins og að hella vatni á áhöld. (Markús 7:4; Hebreabréfið 9:10) Þarna er um alls ólíka hluti að ræða sem eiga ekkert skylt við niðurdýfingarskírnina sem Jesús og fylgjendur hans boðuðu.