Hoppa beint í efnið

Hverjir fara til himna?

Hverjir fara til himna?

Svar Biblíunnar

Guð velur ákveðinn fjölda trúfastra kristinna manna og kvenna sem eftir dauða sinn verður reistur upp til lífs á himnum. (1. Pétursbréf 1:3, 4) Þegar þessir einstaklingar hafa verið valdir verða þeir að viðhalda sterkri trú og breyta rétt svo að þeir reynist ekki vanhæfir að hljóta arfleið á himnum. – Efesusbréfið 5:5; Filippíbréfið 3:12-14.

Hvað munu þeir sem fara til himna gera þar?

Þeir munu þjóna við hlið Jesú sem konungar og prestar í 1000 ár. (Opinberunarbókin 5:9, 10; 20:6) Þeir mynda „nýjan himin“, himneska stjórn sem mun ríkja yfir ,nýrri jörð‘, samfélagi manna á jörðinni. Þessir himnesku stjórnendur hjálpa við að endurreisa mannkynið og koma aftur á réttlæti eins og Guð ætlaði frá upphafi. – Jesaja 65:17; 2. Pétursbréf 3:13.

Hve margir verða reistir upp til lífs á himnum?

Biblían bendir á að 144.000 einstaklingar verði reistir upp til lífs á himnum. (Opinberunarbókin 7:4) Í sýninni sem er skráð í Opinberunarbókinni 14:1-3 sá Jóhannes postuli ,lambið standa á Síonarfjalli og með því hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir‘. Í þessari sýn táknar „lambið“ Jesú upprisinn. (Jóhannes 1:29; 1. Pétursbréf 1:19) ,Síonarfjall‘ táknar háa stöðu Jesú og 144.000 meðstjórnenda hans á himnum. – Sálmur 2:6; Hebreabréfið 12:22.

Hinir „kölluðu og útvöldu“ sem stjórna með Kristi í ríki hans kallast ,litla hjörðin‘.(Opinberunarbókin 17:14; Lúkas 12:32) Það gefur til kynna að þeir verði hlutfallslega fáir í samanburði við heildarfjölda sauða Jesú. – Jóhannes 10:16.

Ranghugmynd varðandi hverjir fara til himna

Ranghugmynd: Allt gott fólk fer til himna.

Staðreynd: Guð lofar eilífu lífi á jörð fyrir flest gott fólk. – Sálmur 37:11, 29, 34.

  • Jesús sagði: „Enginn hefur stigið upp til himins“ (Jóhannes 3:13) Með því sýndi hann að gott fólk sem dó á undan honum, eins og Abraham, Móse, Job og Davíð, fór ekki til himna. (Postulasagan 2:29, 34) Þess í stað hafði þetta fólk von um upprisu til lífs á jörð. – Jobsbók 14:13-15.

  • Upprisan til lífs á himnum er kölluð ,fyrri upprisan‘.(Opinberunarbókin 20:6) Þetta gefur til kynna að önnur upprisa komi á eftir. Hún verður á jörð.

  • Biblían kennir að í Guðsríki ,verði dauðinn ekki framar til‘.(Opinberunarbókin 21:3, 4) Þetta loforð hlýtur að eiga við jörðina þar sem dauðinn hefur aldrei verið til á himnum.

Ranghugmynd: Hver og einn velur hvort hann eða hún vilji fá líf á himnum eða á jörð.

Staðreynd: Guð ákveður hvaða trúföstu kristnu einstaklingar fá ,verðlaun á himnum‘, það er von um líf á himnum. (Filippíbréfið 3:14) Persónuleg löngun eða metnaður hefur ekkert að gera með það hvort maður er valinn. – Matteus 20:20-23.

Ranghugmynd: Vonin um að lifa að eilífu á jörð er lakari og stendur þeim aðeins til boða sem eru ekki verðugir lífs á himnum.

Staðreynd: Guð kallar þá sem fá eilíft líf á jörð ,þjóð sína,‘ ,sína útvöldu‘ og þá „sem Drottinn hefur blessað“. (Jesaja 65:21-23) Þeir verða þess heiðurs aðnjótandi að uppfylla upprunalegan tilgang Guðs með mannkynið – og fá eilíft fullkomið líf á jörð sem er paradís. – 1. Mósebók 1:28; Sálmur 115:16; Jesaja 45:18.

Ranghugmynd: Talan 144.000 sem Opinberunarbókin greinir frá er táknræn en ekki bókstafleg.

Staðreynd: Enda þótt Opinberunarbókin nefni tölur í táknrænni merkingu eru sumar þeirra notaðar í bókstaflegri merkingu. Hún talar til dæmis um „nöfn hinna tólf postula lambsins“. (Opinberunarbókin 21:14) Hugleiddu rökin fyrir því að það eigi líka að taka töluna 144.000 bókstaflega.

Í Opinberunarbókinni 7:4 stendur „hve margir menn höfðu verið merktir innsigli Guðs. Hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir“. Það eru þeir sem fara til himna. Hins vegar er annar hópur nefndur til sögunnar stuttu síðar: „Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið“. Þeir sem tilheyra þessum ,mikla múg‘ fá líka hjálpræði Guðs. (Opinberunarbókin 7:9, 10) Ef talan 144.000 væri táknræn og ætti við ótilgreindan hóp myndi samanburðurinn á hópunum tveimur missa marks. *

Þar að auki á talan 144.000 við þá sem eru „leystir úr hópi manna sem frumgróði“. (Opinberunarbókin 14:4) Orðalagið „frumgróði“ vísar til þess að um fáa útvalda fulltrúa sé að ræða. Það lýsir á viðeigandi hátt þeim sem munu ríkja með Kristi yfir ótilteknum fjölda þegna á jörð. – Opinberunarbókin 5:10.

^ gr. 16 Prófessor Robert L. Thomas skrifaði um töluna 144.000 sem er nefnd í Opinberunarbókinni 7:4: „Þetta er ákveðinn fjöldi ólíkt ótilteknum fjölda í Opinberunarbókinni 7:9. Ef litið er svo á að talan sé táknræn er ekki hægt að taka neina aðra tölu í bókinni bókstaflega.“ – Revelation 1-7: An Exegetical Commentary, bls. 474.