Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Kynntu þér orð Guðs

Af hverju ættum við að nota nafn Guðs?

Af hverju ættum við að nota nafn Guðs?

Í þessari grein er varpað fram spurningum sem þú gætir hafa velt fyrir þér og bent á hvar þú getur fundið svörin í Biblíunni. Vottar Jehóva hefðu ánægju af að ræða við þig um þessi svör.

1. Af hverju hefur Guð gefið sjálfum sér nafn?

Þú vilt örugglega að aðrir kalli þig með nafni frekar en að kalla þig til dæmis „mann“, „herra“, „frú“ eða „konu“. Nafnið þitt aðgreinir þig frá öðrum. Um Guð eru notaðir titlar eins og „Drottinn Guð“, „Almáttugur Guð“ og „skapari“. (1. Mósebók 15:2; 17:1; Jobsbók 31:15) En Guð hefur einnig gefið sjálfum sér nafn svo að við getum átt náið samband við hann. Á íslensku er nafn hans skrifað Jehóva eða Jahve. – Lestu Jesaja 42:8.

Jafnvel þótt margir biblíuþýðendur hafi sett titla á borð við „Guð“ og „Drottin“ í stað nafns Guðs stendur það um 7.000 sinnum í fornum hebreskum biblíuhandritum. Það er því augljóst að Guð vill að við þekkjum nafn hans. – Lestu Jesaja 12:4.

2. Af hverju er mikilvægt að þekkja nafn Guðs?

Að þekkja nafn Guðs felur í sér meira en að vita bara hvað hann heitir. Að þekkja Guð með nafni merkir að hafa góðan skilning á því hvers konar Guð hann er og eiga náið samband við hann. Nafnið Jehóva merkir „hann lætur verða“ og er trygging fyrir því að hann geti orðið hvaðeina sem þarf til að láta fyrirætlun sína ná fram að ganga. Að þekkja nafn Guðs felur þess vegna í sér að trúa að hann uppfylli loforð sín. (Sálmur 9:11) Þeir sem þekkja og nota nafn Guðs treysta á hann og sýna með trú sinni að þeir elska hann framar öllu öðru. Jehóva Guð verndar þá sem gera það. – Lestu Sálm 91:14.

3. Af hverju vill Guð að nafn sitt sé kunngert?

Guð vill að fólk þekki nafn hans vegna þess að það er því til góðs. Það gerir fólki kleift að byggja upp vináttu við hann og eignast von um eilíft líf. Það er því ekki að undra að Jehóva vilji að við kunngerum nafn hans. – Lestu Jóhannes 17:3; Rómverjabréfið 10:13, 14.

Jesús kunngerði nafn Guðs með því að fræða fólk um vilja hans, lög og fyrirheit. Nú á dögum eru fylgjendur Jesú einnig önnum kafnir við að kunngera öllum þjóðum nafn Guðs. Þeir eru sameinaður ,lýður sem ber nafn Guðs‘. – Lestu Postulasöguna 15:14; Jóhannes 17:26.

4. Hvernig mun Guð upphefja nafn sitt?

Jehóva Guð ætlar að upphefja nafn sitt vegna þess að kastað hefur verið rýrð á það. Sumir fullyrða til dæmis að hann sé ekki skapari alls og að við þurfum ekki að hlýða honum. Aðrir halda því fram að honum standi á sama um okkur og að hann beri ábyrgð á þjáningum okkar. Þeir sem halda slíku fram rægja nafn Guðs. En þess konar rógburður verður ekki liðinn endalaust. Guð mun eyða þeim sem vanvirða nafn hans. – Lestu Sálm 83:18, 19.

Jehóva upphefur nafn sitt þegar ríki hans eyðir öllum stjórnum manna og kemur á friði og öryggi á jörðinni. (Daníel 2:44) Brátt munu allir skilja að Jehóva er hinn sanni Guð. – Lestu Esekíel 36:23; Matteus 6:9.

Hvað ættir þú að gera? Nálægðu þig Guði með því að kynna þér orð hans og hafðu samneyti við fólk sem elskar hann. Þegar Jehóva upphefur nafn sitt minnist hann trúfastra þjóna sinna. – Malakí 3:16.

Nánari upplýsingar er að finna í 1. kafla þessarar bókar Hvað kennir Biblían? sem gefin er út af Vottum Jehóva.

[Mynd á bls. 16]

Nafn Guðs í fornu hebresku handriti.