Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Nálægðu þig Guði

„Sál þín . . . lýtur niður að mér“

„Sál þín . . . lýtur niður að mér“

LÍTILLÆTI er aðlaðandi eiginleiki. Við löðumst yfirleitt að þeim sem eru lítillátir. Nú á dögum hafa þó fæstir til að bera ósvikið lítillæti, sér í lagi þeir sem eru valdamiklir eða ráða yfir öðrum. En hvað um Jehóva Guð sem er voldugastur allra í alheiminum? Er hann lítillátur? Skoðum orð Jeremía spámanns í Harmljóðunum 3:20, 21. – Lestu.

Jeremía skrifaði Harmljóðin á dapurlegum tíma í sögu Ísraels. Hann hafði orðið vitni að mikilli ógæfu þegar Babýloníumenn lögðu Jerúsalem, borgina sem hann unni svo heitt, í rúst. Hann var því ákaflega sorgmæddur. Hinn raunamæddi spámaður skildi að Jehóva hafði fullnægt réttlátum dómi sínum yfir Ísraelsmönnum vegna synda þeirra og óhlýðni. En var Jeremía úrkula vonar? Fannst honum Jehóva svo fjarlægur eða fáskiptinn að hann sæi ekki þá sem iðruðust og kæmi þeim til bjargar? Hlustaðu á orð Jeremía þegar hann talar fyrir hönd þjóðar sinnar.

Þrátt fyrir að flestir séu sorgmæddir er Jeremía fullur vonar. Hann ákallar Jehóva og segir: „Sál þín * [Jehóva] man örugglega og lýtur niður að mér.“ (Vers 20 samkvæmt New World Translation.) Jeremía velkist ekki í neinum vafa. Hann er þess fullviss að Jehóva muni hvorki gleyma honum né þeim Ísraelsmönnum sem iðrast. En hvað ætlar hinn alvaldi Guð að gera? – Opinberunarbókin 15:3.

Jeremía treystir því að Jehóva ,lúti niður‘ að þeim sem iðrast í einlægni. Í annarri biblíuþýðingu segir: „Mundu, ó mundu og beygðu þig niður til mín.“ Þessi orð kveikja í huga okkar blíða mynd af Guði. Jehóva Guð, „hinn hæsti yfir allri jörðinni“, ætlar í táknrænum skilningi að beygja sig niður og frelsa þjóna sína úr ömurlegu ástandi þeirra svo að þeir geti öðlast velþóknun hans á ný. (Sálmur 83:19) Jeremía er öruggur í von sinni og það linar sársaukann innra með honum. Þessi trúfasti spámaður er ákveðinn í að bíða þolinmóður þar til Jehóva frelsar iðrunarfulla þjóna sína. – Vers 21.

Orð Jeremía kenna okkur í raun tvennt um Jehóva. Í fyrsta lagi að hann er lítillátur. (Sálmur 18:36, Biblían 1981) Jafnvel þótt Jehóva sé „mikill að mætti“ er hann fús til að ,beygja sig niður‘ og hjálpa okkur þegar við erum niðurdregin. (Jobsbók 37:23; Sálmur 113:5-7) Er það ekki hughreystandi? Í öðru lagi er Jehóva miskunnsamur. Hann er „fús til að fyrirgefa“ iðrunarfullum syndurum og taka þá aftur í sátt. (Sálmur 86:5) Þessir tveir eiginleikar – lítillæti og miskunnsemi – haldast því í hendur.

Við erum innilega þakklát fyrir að Jehóva skuli ekki vera eins og stoltir valdhafar sem eru þrjóskir og tillitslausir. Langar þig ekki til að læra meira um þennan lítilláta Guð sem er fús til að ,beygja sig niður‘ til að veita örvæntingarfullum tilbiðjendum sínum von?

[Neðanmáls]

^ gr. 3 Fræðimenn til forna breyttu orðalagi versins í „sál mín“, rétt eins og átt væri við Jeremía. Þeir töldu augljóslega að það væri virðingarleysi að nota orðið sál um Guð en það er sama orð og notað er í Biblíunni um jarðneskar sköpunarverur. En í Biblíunni er Guði oft lýst með orðum sem við mennirnir eigum auðvelt með að skilja. Þar sem orðið „sál“ getur þýtt „líf einhvers“ getur orðalagið „sál þín“ einfaldlega þýtt „þú“.

[Innskot á bls. 12]

Jehóva er fús til að ,beygja sig niður‘ og hjálpa okkur þegar við erum niðurdregin.