Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hvernig komast má af með lægri tekjur

Hvernig komast má af með lægri tekjur

Hvernig komast má af með lægri tekjur

OBED er tveggja barna faðir. Hann starfaði í tíu ár á fimm stjörnu hóteli í stórborg í Afríku og átti auðvelt með að sjá fyrir fjölskyldu sinni. Af og til gat hann leyft sér að fara í gott frí með fjölskyldunni og heimsótt þjóðgarðana í heimalandi sínu. En þegar hótelgestum fór fækkandi missti hann vinnuna og gat ekki lengur séð fyrir fjölskyldunni.

Stephen náði á rúmlega 22 ára starfsferli að klífa metorðastigann og verða framkvæmdastjóri hjá stórum banka. Meðal fríðindanna sem fylgdu starfinu voru stórt hús, bifreið, þjónustufólk og virtir skólar fyrir börnin. Þegar skipulagsbreytingar voru gerðar hjá bankanum missti hann vinnuna. „Ég og fjölskylda mín vorum niðurbrotin,“ sagði Stephen. „Ég var gripinn örvæntingu, beiskju og kvíða.“

Það er fjarri því að þetta séu einstök dæmi. Milljónir manna hafa misst vinnuna og þar með fastar tekjur vegna efnahagskreppunnar sem breiðist út um allan heim. Á sama tíma og verðlag hefur rokið upp úr öllu valdi hafa þeir sem fá vinnu þurft að sætta sig við lægri laun. Hvort sem um er að ræða iðnríki eða ekki þá er engin þjóð ónæm fyrir þessum mikla samdrætti.

Góð dómgreind er nauðsynleg

Neikvæðar hugsanir geta yfirbugað okkur hvort sem við stöndum frammi fyrir launalækkun eða atvinnuleysi. Auðvitað getum við ekki losnað við allan ótta. En vitur maður sagði einu sinni: „Látir þú hugfallast á degi neyðarinnar er máttur þinn lítill.“ (Orðskviðirnir 24:10) Í stað þess að fyllast skelfingu þegar efnahagurinn versnar ættum við að fara eftir því sem segir í orði Guðs: „Aflaðu þér visku, aflaðu þér hygginda.“ – Orðskviðirnir 4:5.

Þó svo að Biblían sé ekki fjármálahandbók hafa viturleg ráð hennar um slík mál samt sem áður gagnast milljónum manna um allan heim. Lítum á nokkrar meginreglur sem Biblían hefur að geyma.

Reiknaðu kostnaðinn. Hugleiðum orð Jesú sem er að finna í Lúkasi 14:28: „Hver yðar sest ekki fyrst við ef hann ætlar að reisa turn og reiknar kostnaðinn, hvort hann eigi nóg til að ljúka verkinu?“ Ef við ætlum að fylgja þessari meginreglu þýðir það að við þurfum að gera fjárhagsáætlun og halda okkur við hana. En það getur reynst þrautin þyngri eins og Obed viðurkennir. „Áður en ég missti vinnuna,“ segir hann, „vorum við vön að koma heim með troðfulla poka af vörum úr stórmarkaðinum og í þeim voru ekki bara brýnustu nauðsynjar. Við gerðum aldrei fjárhagsáætlun vegna þess að við virtumst eiga nóg fyrir öllu sem okkur langaði í.“ Góð fjárhagsáætlun tryggir að þeir peningar sem til eru fari í nauðsynjar fyrir fjölskylduna.

Einfaldaðu líf þitt. Það er örugglega erfitt að sætta sig við einfaldari lífsstíl en það er nauðsynlegt. „Til þess að spara þurftum við fjölskyldan að flytja inn í okkar eigið hús sem var bæði minna og óklárað að innan,“ segir Stephen. „Börnin urðu að fara í ódýrari skóla sem þó sá þeim fyrir góðri menntun“.

Þörf er á opnum samræðum innan fjölskyldunnar til þess að geta breytt um lífsstíl. Austin vann hjá fjármálastofnun í níu ár áður en hann missti vinnuna. Hann segir: „Við hjónin settumst niður og gerðum lista yfir þá hluti sem við virkilega þörfnuðumst. Við urðum að eyða minna í dýr matvæli, kostnaðarsöm ferðalög og óþarfa fatainnkaup. Það gleður mig að fjölskyldan skuli hafa verið samvinnuþýð meðan á breytingunum stóð.“ Að sjálfsögðu getur verið erfitt fyrir ung börn að skilja hvers vegna slíkar breytingar eru nauðsynlegar en foreldrarnir ættu að reyna að útskýra það fyrir þeim.

Vertu tilbúinn að fást við annars konar vinnu. Ef þú hefur vanist kyrrsetustörfum gæti erfiðisvinna virst óhugsandi. „Það reyndi virkilega á mig að þurfa að þiggja lítilmótleg störf þar sem ég hafði verið í stjórnunarstöðum hjá stóru fyrirtæki,“ segir Austin. Slíkt viðhorf kemur varla á óvart þegar við skoðum það sem kemur fram í Orðskviðunum 29:25 „Ótti við menn leiðir í snöru.“ Það dregur varla björg í bú að hugsa stöðugt um hvað öðrum finnst um þig. Hvað getur hjálpað þér að breyta slíkum hugsunarhætti?

Auðmýkt er lykilatriði. Eftir að Obed hafði misst vinnuna á hótelinu var honum boðið að starfa hjá fyrrum samstarfsmanni sínum á réttingarverkstæði. Það sem meðal annars fólst í þessu starfi var að ganga langar vegalengdir eftir malarvegum til þess að útvega bílmálningu og aukabúnað. Obed segir: „Mér leið eins og botninum væri náð. En með því að vera auðmjúkur gat ég sætt mig við starfið þótt launin væru innan við fjórðungur þeirra launa sem ég fékk áður. Þau voru samt nægileg til þess að sjá fyrir nauðsynjum fjölskyldu minnar“. Gæti svipað viðhorf gagnast þér?

Vertu nægjusamur. Orðabók skilgreinir nægjusaman einstakling á eftirfarandi hátt: Sá „sem lætur sér nægja lítið, er ánægður með það sem hann fær, hófsamur“. Slík lýsing gæti virst óraunhæf fyrir þann sem þarf að herða sultarólina. Hugleiddu orð trúboðans Páls postula sem vissi hvað það var að lifa við skort: „Ég hef lært að láta mér nægja það sem ég hef. Ég kann að búa við lítinn kost, ég kann einnig að hafa allsnægtir.“ – Filippíbréfið 4:11, 12.

Staða okkar gæti kannski verið betri. En þar sem við lifum á tímum mikilla breytinga gætum við hugsanlega verið enn verr stödd. Við getum notið mikils gagns af því að taka til okkar innblásnar leiðbeiningar Páls: „Trúin samfara nægjusemi er mikill gróðavegur. Ef við höfum fæði og klæði þá látum okkur það nægja.“ Páll var ekki að ýta undir leti heldur var hann að sýna fram á hvernig við getum horft á þarfir okkar í réttu ljósi. – 1. Tímóteusarbréf 6:6, 8.

Uppspretta sannrar hamingju

Sönn hamingja felst ekki í því að sanka að sér öllu sem hugurinn girnist eða lifa við allsnægtir. Jesús sagði sjálfur: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Þegar við notum eigur okkar til þess að hjálpa öðrum og styðjum við bakið á þeim, gleður það okkur og veitir okkur sanna hamingju. – Postulasagan 20:35.

Skapari okkar, Jehóva Guð, veit alltaf hvers við þörfnumst. Í gegnum orð sitt, Biblíuna, hefur hann veitt mörgum hagnýt ráð og leiðbeiningar sem hafa hjálpað þeim að bæta líf sitt og losna undan óþarfa áhyggjum. Þrátt fyrir það verður auðvitað ekki einhver snögg eða undraverð breyting á efnahagsstöðu fólks en Jesús sagði að þeir sem leituðu „fyrst ríkis [Guðs] og réttlætis“ myndu veitast allar daglegar nauðsynjar. – Matteus 6:33.