Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Sælir lesendur Opinberunarbókarinnar

Sælir lesendur Opinberunarbókarinnar

Sælir lesendur Opinberunarbókarinnar

„Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað.“ — OPINBERUNARBÓKIN 1:3.

1. Við hvaða aðstæður skrifaði Jóhannes postuli Opinberunarbókina og hvers vegna voru þessar sýnir færðar í letur?

„ÉG, JÓHANNES, . . . var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.“ (Opinberunarbókin 1:9) Við þessar aðstæður ritaði Jóhannes postuli Opinberunarbókina. Talið er að hann hafi verið sendur í útlegð til Patmosar í stjórnartíð Dómitíanusar Rómarkeisara (81-96) sem heimtaði keisaradýrkun og ofsótti kristna menn. Meðan Jóhannes var á Patmos fékk hann röð sýna sem hann færði í letur. Hann sagði frá þeim til að styrkja, hugga og hvetja frumkristna menn í prófraununum sem þeir áttu í og voru framundan, en ekki til að hræða þá. — Postulasagan 28:22; Opinberunarbókin 1:4; 2:3, 9, 10, 13.

2. Af hverju eru þær aðstæður, sem Jóhannes og trúbræður hans voru í, áhugaverðar fyrir kristna nútímamenn?

2 Þær aðstæður, sem biblíubókin var skrifuð við, hafa mikla þýðingu fyrir kristna menn nú á tímum. Jóhannes sætti ofsóknum af því að hann var vottur um Jehóva og son hans, Krist Jesú. Hann og trúbræður hans leituðust við að vera fyrirmyndarborgarar, en þjóðfélagið var þeim óvinveitt af því að þeir tóku ekki þátt í keisaradýrkuninni. (Lúkas 4:8) Sannkristnir menn nú á tímum eru í svipaðri aðstöðu í sumum löndum þar sem ríkið áskilur sér rétt til að skilgreina hvað sé „trúarlega rétt.“ Inngangsorð Opinberunarbókarinnar eru því huggandi: „Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.“(Opinberunarbókin 1:3) Já, athugulir og hlýðnir lesendur Opinberunarbókarinnar geta fundið ósvikna hamingju og öðlast margvíslega blessun.

3. Hver gaf Jóhannesi opinberunina?

3 Frá hverjum er opinberunin og hvaða boðleið er notuð til að koma henni á framfæri? Fyrsta versið segir: „Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum.“ (Opinberunarbókin 1:1) Í stuttu máli sagt er opinberunin frá Jehóva Guði, hann gaf Jesú hana og Jesús miðlaði henni til Jóhannesar fyrir milligöngu engils. Nánari athugun leiðir í ljós að Jesús notaði einnig heilagan anda til að koma boðskap til safnaðanna og láta Jóhannes sjá sýnir. — Opinberunarbókin 2:7, 11, 17, 29; 3:6, 13, 22; 4:2; 17:3; 21:10; samanber Postulasöguna 2:33.

4. Hvernig leiðir Jehóva fólk sitt á jörðinni enn þann dag í dag?

4 Jehóva notar enn son sinn, „höfuð safnaðarins,“ til að kenna þjónum sínum á jörð. (Efesusbréfið 5:23, Biblían 1912; Jesaja 54:13; Jóhannes 6:45) Hann notar einnig anda sinn til að fræða fólk sitt. (Jóhannes 15:26; 1. Korintubréf 2:10) Á fyrstu öld notaði Jesús ‚Jóhannes, þjón sinn,‘ til að miðla söfnuðunum næringarríkri andlegri fæðu. Nú á tímum notar hann ‚hinn trúa og hyggna þjón,‘ sem myndaður er af smurðum ‚bræðrum‘ hans á jörð, til að gefa hjúunum og félögum þeirra andlegan „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47; 25:40) Sælir eru þeir sem viðurkenna gjafara þeirra ‚góðu gjafa,‘ sem við fáum í mynd andlegrar fæðu, og boðleiðina sem hann notar. — Jakobsbréfið 1:17.

Kristur stýrir söfnuðunum

5. (a) Við hvað er kristnum söfnuðum og umsjónarmönnum þeirra líkt? (b) Hvað getur stuðlað að hamingju okkar þrátt fyrir að við séum ófullkomin?

5 Í inngangsköflum Opinberunarbókarinnar er kristnum söfnuðum líkt við ljósastikur og umsjónarmönnum þeirra við engla (sendiboða) og stjörnur. (Opinberunarbókin 1:20) * Kristur biður Jóhannes að skrifa og segir um sjálfan sig: „Þetta segir sá sem heldur á stjörnunum sjö í hægri hendi sér, sá sem gengur á milli gullstikanna sjö.“ (Opinberunarbókin 2:1) Skilaboðin sjö til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu sýna að söfnuðirnir og öldungar þeirra á fyrstu öld höfðu bæði sínar sterku og veiku hliðar. Sama er uppi á teningnum núna. Við verðum miklu hamingjusamari ef við missum aldrei sjónar á því að Kristur, höfuð okkar, er á meðal okkar í söfnuðunum. Hann veit nákvæmlega hvað er að gerast. Umsjónarmennirnir eru táknrænt séð „í hægri hendi“ hans, það er að segja undir stjórn hans og handleiðslu og þurfa að standa honum reikning fyrir hjarðgæsluna í söfnuðunum. — Postulasagan 20:28; Hebreabréfið 13:17.

6. Hvað sýnir að það eru ekki bara umsjónarmenn sem þurfa að standa Kristi reikning?

6 Við værum að blekkja okkur ef við héldum að aðeins öldungarnir þyrftu að standa Kristi reikningsskap gerða sinna. Í einum skilaboða sinna segir Kristur: „Allir söfnuðirnir skulu vita, að ég er sá, sem rannsakar nýrun og hjörtun, og ég mun gjalda yður, hverjum og einum, eftir verkum yðar.“ (Opinberunarbókin 2:23) Þetta er í senn viðvörun og hvatning — viðvörun um að Kristur þekkir innstu hvatir okkar og hvatning af því að það fullvissar okkur um að hann veit hvað við leggjum á okkur og blessar okkur ef við gerum það sem við getum. — Markús 14:6-9; Lúkas 21:3, 4.

7. Hvernig varðveittu kristnir menn í Fíladelfíu ‚orðið um þolgæði Jesú‘?

7 Boðskapur Krists til safnaðarins í lýdísku borginni Fíladelfíu er ekki áminning en hefur að geyma loforð sem ætti að vekja óskipta athygli okkar. „Af því að þú hefur varðveitt orðið um þolgæði mitt mun ég og varðveita þig frá reynslustundinni, sem koma mun yfir alla heimsbyggðina, til að reyna þá sem á jörðunni búa.“ (Opinberunarbókin 3:10) Grísku orðin, sem þýdd eru „varðveitt orðið um þolgæði mitt,“ geta líka merkt „varðveitt það sem ég sagði um þolgæði.“ Áttunda versið gefur til kynna að kristnir menn í Fíladelfíu hafi ekki aðeins hlýtt boðum Krists heldur líka fylgt ráðleggingu hans um að sýna trúfesti og þolgæði. — Matteus 10:22; Lúkas 21:19.

8. (a) Hverju hét Jesús kristnum mönnum í Fíladelfíu? (b) Hverja snertir ‚reynslustundin‘ nú á tímum?

8 Jesús bætti við að hann myndi varðveita þá frá „reynslustundinni.“ Við vitum ekki hvað þetta fól nákvæmlega í sér fyrir þessa kristnu menn. Enda þótt stutt hlé hafi orðið á ofsóknunum eftir dauða Dómitíanusar árið 96 skall á ný ofsóknaralda í stjórnartíð Trajanusar (98-117) og hafði eflaust í för með sér frekari prófraunir. En ‚aðalreynslustundin‘ er á „Drottins degi,“ á ‚endalokatímanum‘ sem við lifum núna. (Opinberunarbókin 1:10; Daníel 12:4) Andasmurðir kristnir menn gengu í gegnum sérstakan reynslutíma á dögum fyrri heimsstyrjaldarinnar og strax í kjölfar hennar. En ‚reynslustundin‘ stendur enn yfir. Hún tekur til ‚allrar heimsbyggðarinnar,‘ meðal annars þeirra milljóna manna sem mynda múginn mikla og vonast til að lifa af þrenginguna miklu. (Opinberunarbókin 3:10; 7:9, 14) Við erum sæl ef við ‚varðveitum það sem Jesús sagði um þolgæði,‘ það er að segja: „Sá sem staðfastur er allt til enda, mun hólpinn verða.“ — Matteus 24:13.

Gleðileg undirgefni við drottinvald Jehóva

9, 10. (a) Hvernig ætti sýnin um hásæti Jehóva að snerta okkur? (b) Hvernig getur lestur í Opinberunarbókinni stuðlað að hamingju okkar?

9 Sýnin um hásæti Jehóva og himneskan hirðsal hans í 4. og 5.  kafla Opinberunarbókarinnar ætti að fylla okkur lotningu. Við ættum að hrífast af innilegri lofgerð máttugra himneskra vera sem lúta réttlátu drottinvaldi Jehóva fagnandi. (Opinberunarbókin 4:8-11) Rödd okkar ætti að heyrast meðal þeirra sem kalla: „Honum, sem í hásætinu situr, og lambinu, sé lofgjörðin og heiðurinn, dýrðin og krafturinn um aldir alda.“ — Opinberunarbókin 5:13.

10 Þetta merkir að við eigum að lúta vilja Jehóva í einu og öllu. Páll postuli skrifaði: „Hvað sem þér gjörið í orði eða verki, gjörið það allt í nafni Drottins Jesú og þakkið Guði föður fyrir hann.“ (Kólossubréfið 3:17) Lestur Opinberunarbókarinnar gerir okkur raunverulega sæl ef við viðurkennum drottinvald Jehóva í innstu fylgsnum hugans og hjartans og tökum mið af vilja hans á öllum sviðum lífsins.

11, 12. (a) Hvernig verður hið jarðneska kerfi Satans skekið og því tortímt? (b) Hverjir munu þá „geta staðist“ samkvæmt 7. kafla Opinberunarbókarinnar?

11 Gleðileg undirgefni við drottinvald Jehóva er forsenda hamingju okkar og allra annarra í alheiminum. Brátt skekur mikill táknrænn jarðskjálfti heimskerfi Satans og tortímir því. Það verður hvergi hæli fyrir þá menn sem neita að lúta himneskri stjórn Krists sem er tákn um lögmæt yfirráð Guðs. Spádómurinn segir: „Konungar jarðarinnar og höfðingjarnir og herforingjarnir og auðmennirnir, mektarmennirnir og hver þræll og þegn fólu sig í hellum og í hömrum fjalla. Og þeir segja við fjöllin og hamrana: ‚Hrynjið yfir oss og felið oss fyrir ásjónu hans, sem í hásætinu situr, og fyrir reiði lambsins; því að kominn er dagurinn, hinn mikli dagur reiði þeirra, og hver mun geta staðist?‘“ — Opinberunarbókin 6:12, 15-17.

12 Jóhannes postuli svarar þessari spurningu í næsta kafla með því að lýsa miklum múgi manna sem kemur út úr þrengingunni miklu og stendur „frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu.“ (Opinberunarbókin 7:9, 14, 15) Að þeir standa frammi fyrir hásæti Jehóva gefur til kynna að þeir viðurkenna og lúta drottinvaldi hans að öllu leyti. Þeir njóta því velþóknunar hans.

13. (a) Hvað tilbiður meirihluti jarðarbúa, og hvað táknar merkið á enni þeirra eða hönd? (b) Hvers vegna verður þolgæðis þörf?

13 Þrettándi kaflinn sýnir hins vegar að allir aðrir jarðarbúar tilbiðja stjórnmálakerfi Satans sem táknað er með villidýri. Þeir fá merki á „enni“ sitt eða „hönd“ til tákns um heilshugar og virkan stuðning sinn við þetta kerfi. (Opinberunarbókin 13:1-8, 16, 17) Fjórtándi kaflinn bætir síðan við: „Ef einhver tilbiður dýrið og líkneski þess og fær merki á enni sitt eða hönd sína, þá skal sá hinn sami drekka af reiði-víni Guðs . . . Hér reynir á þolgæði hinna heilögu, þeirra er varðveita boð Guðs og trúna á Jesú.“ (Opinberunarbókin 14:9, 10, 12) Þegar fram í sækir verður sú spurning sífellt áleitnari hvern þú styður: Jehóva og drottinvald hans eða hið óguðlega stjórnmálakerfi sem villidýrið táknar. Sælir eru þeir sem forðast að fá merki dýrsins og halda trúfastir og þolgóðir áfram að lúta drottinvaldi Jehóva.

14, 15. Hverju er skotið inn í lýsingu Opinberunarbókarinnar á Harmagedón, og hvaða þýðingu hefur það fyrir okkur?

14 Það stefnir í árekstur stjórnenda „allrar heimsbyggðarinnar“ og Jehóva vegna deilunnar um drottinvald. Lokauppgjörið fer fram í Harmagedón, ‚stríðinu á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14, 16) Athyglisvert innskot er að finna mitt í lýsingunni á samansöfnun stjórnenda jarðar til stríðs gegn Jehóva. Jesús grípur sjálfur fram í og segir: „Sjá, ég kem eins og þjófur. Sæll er sá sem vakir og varðveitir klæði sín, til þess að hann gangi ekki nakinn um og menn sjái blygðun hans.“ (Opinberunarbókin 16:15) Þetta kann að vera skírskotun til levískra musterisvarða sem voru sviptir klæðum og niðurlægðir opinberlega ef þeir sofnuðu á verðinum.

15 Skilaboðin eru skýr: Viljum við lifa Harmagedón af þá verðum við að halda andlegri vöku okkar og varðveita hin táknrænu andlegu klæði okkar er auðkenna okkur sem trúfasta votta Jehóva Guðs. Við erum sæl ef við forðumst andlegt sinnuleysi og látum ekki af að prédika kostgæfilega ‚fagnaðarboðskapinn‘ um stofnsett ríki Guðs. — Opinberunarbókin 14:6.

‚Sæll er sá sem varðveitir þessi orð‘

16. Hvers vegna eru lokakaflar Opinberunarbókarinnar sérstakt gleðiefni?

16 Sælir lesendur Opinberunarbókarinnar geta ekki verið annað en himinlifandi er þeir lesa í lokaköflunum um dýrlega von sína — um nýjan himin og nýja jörð, það er að segja réttláta stjórn Guðsríkis á himnum yfir nýju og hreinsuðu samfélagi manna, allt ‚Jehóva Guði, hinum alvalda‘ til dýrðar. (Opinberunarbókin 21:22) Þegar þessi stórfenglega sýnaröð er á enda segir engillinn Jóhannesi: „Þessi orð eru trú og sönn. Og [Jehóva], Guð anda spámannanna, sendi engil sinn til að sýna þjónum sínum það, sem verða á innan skamms. Sjá, ég kem skjótt. Sæll er sá, sem varðveitir spádómsorð þessarar bókar.“ — Opinberunarbókin 22:6, 7.

17. (a) Hvaða loforð er gefið í Opinberunarbókinni 22:6? (b) Hverju þurfum við að vera vakandi fyrir og forðast?

17 Sælir lesendur Opinberunarbókarinnar muna að sams konar orð er að finna í byrjun ‚bókarinnar.‘ (Opinberunarbókin 1:1, 3) Þau fullvissa okkur um að spár síðustu bókar Biblíunnar rætast „innan skamms.“ Svo langt er liðið á endalokatímann að þeir þýðingarmiklu atburðir, sem Opinberunarbókin spáir fyrir, hljóta að fara að gerast hver á fætur öðrum. Enginn stöðugleiki, er kann að virðast ríkja í heimi Satans, ætti því að fá okkur til að sofna á verðinum. Athugull lesandi minnist viðvarananna til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu og forðast snöru efnishyggju, skurðgoðadýrkunar, siðleysis, hálfvelgju og sértrúarfráhvarfs.

18, 19. (a) Hvers vegna á Jesús enn eftir að koma, og undir hvaða von Jóhannesar tökum við? (b) Í hvaða tilgangi á Jehóva enn eftir að ‚koma‘?

18 Jesús boðar nokkrum sinnum í Opinberunarbókinni að hann ‚komi skjótt.‘ (Opinberunarbókin 2:16; 3:11; 22:7, 20a) Hann á eftir að fullnægja dómi yfir Babýlon hinni miklu, stjórnmálakerfi Satans og öllum mönnum sem neita að lúta drottinvaldi Jehóva er birtist nú fyrir atbeina messíasarríkisins. Við tökum undir með Jóhannesi postula sem segir: „Amen. Kom þú, Drottinn Jesús!“ — Opinberunarbókin 22:20b.

19 Jehóva segir sjálfur: „Sjá, ég kem skjótt, og launin hef ég með mér, til að gjalda hverjum og einum eins og verk hans er.“ (Opinberunarbókin 22:12) Meðan við bíðum þeirra dýrlegu launa að fá að lifa að eilífu, ýmist sem hluti hins fyrirheitna ‚nýja himins‘ eða ‚nýju jarðar,‘ megum við taka af kostgæfni þátt í að bjóða öllum hjartahreinum mönnum: „‚Kom þú!‘ Og sá sem þyrstur er, hann komi. Hver sem vill, hann fær ókeypis lífsins vatn.“ (Opinberunarbókin 22:17) Megi þeir einnig verða sælir lesendur hinnar hrífandi og innblásnu Opinberunarbókar.

[Neðanmáls]

^ gr. 5 Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 28-9, 136 (neðanmáls).

Til upprifjunar

Hvaða boðleið notaði Jehóva til að koma opinberuninni á framfæri og hvað lærum við af því?

Hvers vegna ættum við að vera fús til að lesa skilaboðin til safnaðanna sjö í Litlu-Asíu?

Hvernig getum við verið óhult á „reynslustundinni“?

Hvaða hamingja fellur okkur í skaut ef við varðveitum orð Opinberunarbókarinnar?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 24]

Þeir eru sælir sem viðurkenna uppsprettu gleðitíðinda Opinberunarbókarinnar.

[Mynd á blaðsíðu 26]

Sæll er sá er heldur vöku sinni.