Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gleðitíðindi Opinberunarbókarinnar

Gleðitíðindi Opinberunarbókarinnar

Gleðitíðindi Opinberunarbókarinnar

„Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa.“ — OPINBERUNARBÓKIN 14:6.

1. Af hverju eru vottar Jehóva ekki „heimsendisflokkur“ þótt þeir trúi að Opinberunarbókin sé innblásin?

ANDSTÆTT því sem haldið er fram eru vottar Jehóva ekki „heimsendisflokkur“ eða „dómsdagstrúarregla.“ Þeir líta hins vegar á Opinberunarbók Biblíunnar sem hluta af innblásnu orði Guðs. Opinberunarbókin hefur að vísu að geyma dómsboðskap gegn hinum óguðlegu. En í boðunarstarfi sínu meðal almennings beina þjónar Guðs aðallega athyglinni að hinum stórkostlega vonarboðskap Biblíunnar, meðal annars í Opinberunarbókinni. Þeir leggja ekkert við né taka nokkuð burt af spádómsorðum hennar. — Opinberunarbókin 22:18, 19.

Boðberar gleðitíðinda

2. Hvaða ritningargreinar nota vottar Jehóva oft í prédikunarstarfi sínu?

2 „Þetta fagnaðarerindi um ríkið verður prédikað um alla heimsbyggðina öllum þjóðum til vitnisburðar. Og þá mun endirinn koma.“ Oft er vitnað í þessi orð Jesú í Matteusi 24:14 til að sýna fram á að boðunarstarf votta Jehóva meðal almennings eigi sér biblíulegar forsendur. Og hvert er „þetta fagnaðarerindi um ríkið“? Margir vottar myndu svara með því að vitna í 20. og 21. kafla Opinberunarbókinnar þar sem talað er um þúsundáraríki Krists, stjórn þess og hið mannlega samfélag þar sem dauði, harmur og kvöl verður „ekki framar til.“ — Opinberunarbókin 20:6; 21:1, 4.

3. Hverju samsvarar boðunarstarf votta Jehóva meðal almennings?

3 Vottar Jehóva eru boðberar þessara gleðitíðinda og í raun talsmenn táknræns sendiboða á himnum sem Jóhannes lýsir svo í Opinberunarbókinni: „Ég sá annan engil fljúga um háhvolf himins. Hann hélt á eilífum fagnaðarboðskap, til að boða þeim, sem á jörðunni búa, og sérhverri þjóð og kynkvísl, tungu og lýð.“ (Opinberunarbókin 14:6) Þessi ‚eilífi fagnaðarboðskapur‘ felur í sér þau boð að „Drottinn og Kristur hans hafi fengið vald yfir heiminum“ og „tími“ Jehóva sé kominn til að „eyða þeim, sem jörðina eyða.“ (Opinberunarbókin 11:15, 17, 18) Eru þetta ekki sannkölluð fagnaðartíðindi?

Boðskapur Opinberunarbókarinnar

4. (a) Hvaða grundvallarsannindi koma fram í 1. kafla Opinberunarbókarinnar? (b) Hvers er krafist af þeim sem vilja njóta góðs af gleðitíðindum Opinberunarbókarinnar?

4 Fyrsti kafli Opinberunarbókarinnar lýsir Jehóva sem ‚Alfa og Ómega, honum sem er og var og kemur, hinum alvalda.‘ Og sonur hans, Jesús Kristur, er kallaður „votturinn trúi,“ „frumburður dauðra“ og „höfðinginn yfir konungum jarðarinnar.“ Hann er líka kallaður sá sem „elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu.“ (Opinberunarbókin 1:5, 8) Strax í byrjun greinir Opinberunarbókin frá grundvallarsannindum sem geta bjargað lífi manna. ‚Þeir sem á jörðunni búa‘ njóta ekki góðs af gleðitíðindunum, sem þeim eru færð, nema þeir viðurkenni drottinvald Jehóva, trúi á úthellt blóð Jesú og trúi að Jehóva hafi reist hann upp frá dauðum og skipað hann konung jarðar. — Sálmur 2:6-8.

5. Í hvaða hlutverki er Kristi lýst í 2. og 3. kafla Opinberunarbókarinnar?

5 Næstu tveir kaflar lýsa Kristi Jesú sem kærleiksríkum, himneskum umsjónarmanni safnaða lærisveina sinna á jörð. Bókin, sem rituð var sjö völdum kristnum söfnuðum í Litlu-Asíu á fyrstu öld, hefur að geyma hvatningu og skýrar ráðleggingar sem eiga við enn þann dag í dag. Skilaboðin til safnaðanna hefjast yfirleitt á orðum eins og: „Ég þekki verkin þín“ eða: „Ég þekki þrengingu þína.“ (Opinberunarbókin 2:2, 9) Já, Kristur vissi nákvæmlega hvað var að gerast í söfnuðum lærisveina sinna. Hann hrósaði sumum fyrir kærleika þeirra, trú, erfiði í þjónustunni, þolgæði og trúfesti við nafn hans og orð. Aðra áminnti hann fyrir að hafa látið kærleika sinn til Jehóva og sonarins kólna eða fyrir að hafa leiðst út í siðleysi, skurðgoðadýrkun eða sértrúarfráhvarf.

6. Hvað má læra af sýninni í 4. kafla Opinberunarbókarinnar?

6 Fjórði kaflinn hefur að geyma ógnþrungna sýn um himneskt hásæti Jehóva Guðs og gefur okkur örlitla innsýn í dýrlega nærveru hans og hið himneska stjórnarfyrirkomulag sem hann mun nota. Krýndir stjórnendur í hásætum umhverfis höfuðhásæti alheimsins veita Jehóva lotningu og lýsa yfir: „Verður ert þú, [Jehóva] vor og Guð, að fá dýrðina og heiðurinn og máttinn, því að þú hefur skapað alla hluti, og fyrir þinn vilja urðu þeir til og voru skapaðir.“ — Opinberunarbókin 4:11.

7. (a) Hvað boðar engillinn að jarðarbúar eigi að gera? (b) Hver er mikilvægur þáttur fræðslustarfs okkar?

7 Hefur þetta einhverja þýðingu fyrir menn nú á dögum? Vissulega. Vilji þeir lifa í þúsundáraríkinu verða þeir að gefa því gaum sem ‚engillinn, er flýgur um háhvolf himins,‘ segir: „Óttist Guð og gefið honum dýrð, því að komin er stund dóms hans.“ (Opinberunarbókin 14:6, 7) Einn megintilgangur biblíufræðslustarfs votta Jehóva er að hjálpa „þeim, sem á jörðunni búa,“ að kynnast Jehóva, tilbiðja hann, viðurkenna hann sem skapara og beygja sig fúslega undir réttlátt drottinvald hans.

Lambið sem verðskuldar heiður

8. (a) Hvernig er Kristi lýst í 5. og 6. kafla? (b) Hvað geta allir, sem hlýða á gleðitíðindin, lært af sýninni?

8 Fimmti og sjötti kafli lýsa Jesú Kristi sem lambi verðugu þess að ljúka upp bók með sjö innsiglum og opinbera þannig á líkingamáli atburði okkar tíma. (Samanber Jóhannes 1:29.) Himneskar raddir segja við lambið táknræna: „Verður ert þú að taka við bókinni og ljúka upp innsiglum hennar, því að þér var slátrað og þú keyptir menn Guði til handa með blóði þínu af sérhverri kynkvísl og tungu, lýð og þjóð. Og þú gjörðir þá, Guði vorum til handa, að konungsríki og prestum. Og þeir munu ríkja á [„yfir,“ Biblían 1859] jörðunni.“ (Opinberunarbókin 5:9, 10) Sýnin kennir okkur að á grundvelli úthellts blóðs Krists eru ákveðnir menn af alls kyns uppruna kallaðir til að vera með honum á himnum og „ríkja yfir jörðunni.“ (Samanber Opinberunarbókina 1:5, 6.) Tala þeirra er takmörkuð og tilgreind síðar í Opinberunarbókinni.

9. Hvernig er Kristi enn fremur lýst í 6. kafla?

9 Í annarri sýn er Kristi jafnframt lýst sem krýndum riddara á hvítum hesti er fer út „sigrandi og til þess að sigra.“ Til allrar hamingju vinnur hann bug á hinum illu afleiðingum af yfirreið þriggja annarra riddara Opinberunarbókarinnar sem hafa riðið hamstola yfir jörðina frá tímamótaárinu 1914 og haft í för með sér stríð, hungursneyð og dauða fyrir mannkynið. (Opinberunarbókin 6:1-8) Hið einstæða hlutverk Krists, lambs Guðs, í hjálpræði mannkyns og framvindu hins stórfenglega tilgangs Jehóva er aðalinntak biblíufræðslustarfs votta Jehóva.

10. (a) Hvaða mikilvægar upplýsingar koma fram í 7. kafla? (b) Hvað sagði Kristur um þá sem fá ríkið í hendur?

10 Sjöundi kaflinn hefur sannkölluð gleðitíðindi að færa. Aðeins í Opinberunarbókinni finnum við tölu þeirra sem Jesús kallaði ‚litlu hjörðina‘ og faðir lambsins hefur fengið ríkið í hendur. (Lúkas 12:32; 22:28-30) Jehóva Guð innsiglar þá með anda sínum. (2. Korintubréf 1:21, 22) Jóhannes postuli, sem fékk opinberunina, vottar: „Ég heyrði tölu þeirra, sem merktir voru innsigli, hundrað fjörutíu og fjórar þúsundir.“ (Opinberunarbókin 7:4) Þessi nákvæmi fjöldi er endurtekinn síðar og sagður vera tala þeirra „sem voru leystir út úr hóp mannanna“ til að ríkja með lambinu á hinu himneska Síonfjalli. (Opinberunarbókin 14:1-4) Kirkjur kristna heimsins koma með óljósar og ósannfærandi skýringar á þessari tölu en athugasemd biblíufræðingsins E. W. Bullinger vekur athygli: „Hún er einföld staðreyndalýsing: tiltekin tala samanborið við ótiltekna tölu í þessum sama kafla.“

11. (a) Hvaða gleðitíðindi er að finna í 7. kafla? (b) Hvaða framtíðarvon opnast ‚múginum mikla‘?

11 Hvaða ótilteknu tölu átti Bullinger við? Í 9. versi skrifar Jóhannes postuli: „Eftir þetta sá ég, og sjá: Mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ (Opinberunarbókin 7:9) Hverjir mynda þennan mikla múg, hver er staða þeirra frammi fyrir Guði og hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir þá? Svar Opinberunarbókarinnar er jarðarbúum gleðitíðindi. Við lesum: „Þetta eru þeir, sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins.“ Vegna trúar sinnar á úthellt blóð Krists fá þeir vernd í „þrengingunni miklu.“ Kristur mun „leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“ (Opinberunarbókin 7:14-17) Milljónir núlifandi manna geta gengið til liðs við þennan óteljandi múg sem mun lifa af endalok þessa núverandi illa heimskerfis. Þeir verða þegnar konungsins Jesú Krists í þúsundáraríki hans og hann leiðir þá til eilífs lífs á jörð. Eru þetta ekki gleðitíðindi?

„Sannir og réttlátir eru dómar hans“

12, 13. (a) Hvað hafa kaflar 8 til 19 að geyma? (b) Af hverju ættu slíkar spádómar ekki að raska ró hjartahreinna manna?

12 Kaflar 8 til 19 ýta undir þann orðstír Opinberunarbókarinnar að hún boði ógnvekjandi hamfarir. Þeir hafa að geyma beinskeyttan dómsboðskap (táknaður með básúnublæstri, plágum og skálum reiði Guðs) sem beinist gegn ýmsum öflum í heimskerfi Satans. Dómi verður fyrst fullnægt yfir falstrúarbrögðum (‚Babýlon hinni miklu‘), síðan yfir óguðlegum stjórnmálakerfum sem villidýrin tákna. — Opinberunarbókin 13:1, 2; 17:5-7, 15, 16. *

13 Kaflarnir lýsa hreinsun himnanna þegar Satan og illum árum hans er varpað niður til nágrennis jarðar. Það er eina skynsamlega skýringin á fordæmislausum þrengingum heimsins frá árinu 1914. (Opinberunarbókin 12:7-12) Kaflarnir lýsa einnig á líkingamáli eyðingu hins illa heimskerfis Satans. (Opinberunarbókin 19:19-21) Ætti hjartahreinum mönnum að blöskra þessir átakanlegu atburðir? Nei, því að þegar dómi Guðs er fullnægt heyrast raddir af himni: „Hallelúja! Hjálpræðið og dýrðin og mátturinn er Guðs vors. Sannir og réttlátir eru dómar hans.“ — Opinberunarbókin 19:1, 2.

14, 15. (a) Hvernig verður réttlátur endi bundinn á þetta illa heimskerfi? (b) Af hverju ætti þessi hluti Opinberunarbókarinnar að vera hjartahreinu fólki fagnaðarefni?

14 Jehóva innleiðir ekki réttlátt heimskerfi án þess að losa fyrst jörðina við þá sem eru að eyðileggja hana. (Opinberunarbókin 11:17, 18; 19:11-16; 20:1, 2) En enginn maður eða pólitískt ríki hefur vald eða mátt til að koma þessu til leiðar. Aðeins Jehóva og skipaður konungur hans og dómari, Kristur Jesús, eru færir um að gera það í réttlæti. — 2. Þessaloníkubréf 1:6-9.

15 Jehóva ætlar að binda enda á þetta illa heimskerfi eins og Opinberunarbókin sýnir greinilega fram á. Það ætti að vera gleðiefni þeim körlum og konum sem „andvarpa og kveina yfir öllum þeim svívirðingum, sem framdar eru,“ og minna þau á nauðsyn þess að hlýða kalli engilsins með gleðitíðindin: „Óttist Guð . . . því að komin er stund dóms hans. Tilbiðjið þann, sem gjört hefur himininn og jörðina.“ (Esekíel 9:4; Opinberunarbókin 14:7) Megi þeir tilbiðja Jehóva og þjóna honum ásamt vottum hans sem „varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ — Opinberunarbókin 12:17.

Dýrleg þúsund ára stjórn

16. (a) Af hverju hafa kirkjur kristna heimsins hafnað voninni um þúsundáraríkið? (b) Hvers vegna trúa vottar Jehóva að fyrirmyndarbæninni verði svarað?

16 Kaflar 20 til 22 í Opinberunarbókinni hafa að geyma biblíulegar forsendur fyrir voninni um þúsundáraríki. Þeir eru eini hluti Biblíunnar sem minnist beinlínis á þúsund ára tímabil sem verður undanfari eilífrar hamingju á himni og jörð. Kirkjur kristna heimsins hafa hafnað voninni um þúsundáraríkið. Þar eð kirkjan kennir að réttlátir fari til himna en óguðlegir til helvítis gerir hún ekki ráð fyrir paradísarjörð. Fyrirmyndarbænin, þar sem við biðjum um að ‚vilji Guðs verði svo á jörðu sem á himni,‘ hefur glatað allri merkingu í hugum flestra sóknarbarna kristna heimsins. (Matteus 6:10) En ekki hjá vottum Jehóva. Þeir trúa því staðfastlega að Jehóva Guð hafi ekki skapað jörðina til að vera „auðn,“ heldur til að vera „byggileg.“ (Jesaja 45:12, 18) Þessi forni spádómur, fyrirmyndarbænin og þúsundáraríkisvon Opinberunarbókarinnar eru öll samhljóða. Þúsund ára stjórn Krists sér til þess að vilji Jehóva verður gerður á jörðu eins og á himni.

17. Hvað gefur til kynna að „þúsund árin“ séu bókstafleg?

17 Hugtakið „þúsund ár“ kemur sex sinnum fyrir í sjö fyrstu versum 20. kafla Opinberunarbókarinnar. Eftirtektarvert er að það stendur þrívegis með ákveðnum greini sem sýnir að um bókstaflegt þúsund ára tímabil er að ræða, en ekki aðeins langt, ótilgreint tímabil eins og margir fræðimenn kristna heimsins vilja halda fram. Hvað gerist í þúsundáraríkinu? Í fyrsta lagi verður Satan tekinn úr umferð allt tímabilið. (Opinberunarbókin 20:1-3; samanber Hebreabréfið 2:14.) Það eru sannarlega fagnaðartíðindi!

18. (a) Hvers vegna má segja að þúsundáraríkið sé „dagur“ dóms? (b) Hvað gerist við lok þúsund áranna?

18 Þar eð „dómsvald“ er fengið þeim sem ‚ríkja með Kristi um þúsund ár‘ er þetta tímabil í rauninni þúsund ára langur „dagur“ dóms. (Opinberunarbókin 20:4, 6; samanber Postulasöguna 17:31; 2. Pétursbréf 3:8.) Hinir dauðu verða reistir upp og dæmdir réttlátlega samkvæmt verkum sínum á þessu tímabili, ásamt þeim sem koma úr „þrengingunni miklu.“ (Opinberunarbókin 20:12, 13) Við lok þúsund áranna verður Satan sleppt lausum um stuttan tíma til að reyna mannkynið í lokaprófraun. Síðan verður honum, djöflum hans og öllum uppreisnarseggjum og fylgismönnum hans á jörð tortímt að eilífu. (Opinberunarbókin 20:7-10) Nöfn þeirra sem standast prófið verða skráð óafmáanlega í „lífsins bók“ og þeir fá að lifa hamingjusamir að eilífu á paradísarjörð þar sem þeir þjóna og tilbiðja Jehóva. — Opinberunarbókin 20:14, 15; Sálmur 37:9, 29; Jesaja 66:22, 23.

19. (a) Hvers vegna getum við treyst því að hin stórfenglegu loforð Opinberunarbókarinnar rætist örugglega? (b) Um hvað verður fjallað í næstu grein?

19 Þetta eru gleðitíðindi Opinberunarbókarinnar, ekki innantóm loforð manna. Jóhannes postuli skrifar: „Sá, sem í hásætinu sat, sagði: ‚Sjá, ég gjöri alla hluti nýja,‘ og hann segir: ‚Rita þú, því að þetta eru orðin trúu og sönnu.‘“ (Opinberunarbókin 21:5) Hvað þurfum við að gera til að eiga hlutdeild í uppfyllingu þessa gleðiboðskapar? Opinberunarbókin hefur að geyma margar ráðleggingar til þeirra sem vilja þóknast Guði. Það hefur óendanlega hamingju í för með sér, bæði nú og að eilífu, að fylgja þeim eins og næsta grein sýnir fram á.

[Neðanmáls]

^ gr. 12 Ítarlegri umfjöllun um Opinberunarbókina er að finna í bókinni Revelation — Its Grand Climax At Hand!, gefin út árið 1988 af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.

Til upprifjunar

Hvaða grundvallarsannindi í 4. til 6. kafla Opinberunarbókinnar eru veigamikill hluti gleðitíðindanna?

Hvaða gleðitíðindi hefur 7. kafli Opinberunarbókarinnar að geyma?

Hvers vegna ættu hjartahreinir menn ekki að láta dómsboðskap Opinberunarbókarinnar raska ró sinni?

Hvernig verður þúsundáraríkið „dagur“ dóms?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 19]

Konungurinn Jesús Kristur losar jörðina að fullu við stríð, hallæri og dauða.