Opinberunarbókin 16:1–21

  • Sjö skálar reiði Guðs (1–21)

    • Hellt á jörðina (2), í hafið (3), í árnar og vatnsuppspretturnar (4–7), á sólina (8, 9), á hásæti villidýrsins (10, 11), í Efrat (12–16) og yfir loftið (17–21)

    • Stríð Guðs við Harmagedón (14, 16)

16  Ég heyrði sterka rödd frá helgidóminum segja við englana sjö: „Farið og hellið úr hinum sjö skálum reiði Guðs á jörðina.“  Sá fyrsti fór og hellti úr skál sinni á jörðina. Þeir sem höfðu merki villidýrsins og tilbáðu líkneski þess fengu kvalafull og illkynja sár.  Annar engillinn hellti úr skál sinni í hafið. Það varð að blóði eins og úr dauðum manni og allar lífverur* dóu, já, allt sem var í hafinu.  Sá þriðji hellti úr skál sinni í árnar og vatnsuppspretturnar* og þær urðu að blóði.  Ég heyrði engilinn sem réð yfir vötnunum segja: „Þú ert réttlátur, þú sem ert og þú sem varst, hinn trúi, því að þú hefur fellt þessa dóma.  Þeir hafa úthellt blóði heilagra og spámanna og þú hefur gefið þeim blóð að drekka eins og þeir eiga skilið.“  Og ég heyrði altarið segja: „Já, Jehóva* Guð, þú almáttugi, dómar* þínir eru sannir og réttlátir.“  Sá fjórði hellti úr skál sinni á sólina og sólin fékk vald til að svíða mennina með eldi.  Mennirnir sviðnuðu í miklum hitanum en þeir lastmæltu nafni Guðs sem hefur vald yfir þessum plágum og iðruðust hvorki né heiðruðu hann. 10  Sá fimmti hellti úr skál sinni á hásæti villidýrsins. Þá myrkvaðist ríki þess og mennirnir bitu í tunguna af sársauka 11  en þeir lastmæltu Guði himins vegna sára sinna og sársauka, og þeir iðruðust ekki verka sinna. 12  Sá sjötti hellti úr skál sinni í fljótið mikla, Efrat, og vatnið í því þornaði upp til að greiða veginn fyrir konungana sem koma frá sólarupprásinni.* 13  Nú sá ég þrjár óhreinar innblásnar yfirlýsingar* sem litu út eins og froskar og komu út af munni drekans, munni villidýrsins og munni falsspámannsins. 14  Þessar yfirlýsingar eru reyndar innblásnar af illum öndum. Þær gera tákn og fara út til konunga allrar heimsbyggðarinnar til að safna þeim saman til stríðsins á hinum mikla degi Guðs hins almáttuga. 15  „Gætið ykkar! Ég kem eins og þjófur. Sá sem heldur sér vakandi og varðveitir föt sín er hamingjusamur. Hann þarf ekki að ganga um nakinn þannig að fólk sjái skömm hans.“ 16  Og þær söfnuðu þeim saman á staðinn sem á hebresku kallast Harmagedón.* 17  Sá sjöundi hellti úr skál sinni yfir loftið. Þá barst sterk rödd út úr helgidóminum, frá hásætinu, sem sagði: „Því er lokið!“ 18  Eldingar leiftruðu, raddir heyrðust og það komu þrumur og mikill jarðskjálfti, ólíkur öllum öðrum sem höfðu orðið frá því að menn urðu til á jörðinni. Svo mikill og víðtækur var jarðskjálftinn. 19  Borgin mikla klofnaði í þrennt og borgir þjóðanna hrundu. Og Guð minntist Babýlonar hinnar miklu og gaf henni vínbikar heiftarreiði sinnar. 20  Allar eyjur flúðu og fjöllin hurfu. 21  Síðan féllu stór högl af himni á mennina en hvert þeirra vó um talentu.* Mennirnir lastmæltu Guði fyrir haglpláguna því að hún var óvenjumikil.

Neðanmáls

Eða „lifandi sálir“.
Eða „vatnslindirnar“.
Sjá orðaskýringar.
Eða „dómsúrskurðir“.
Eða „konungana úr austri“.
Orðrétt „þrjá óhreina anda“.
Á grísku Har Magedon′, dregið af hebresku orði sem merkir ‚Megiddófjall‘.
Grísk talenta jafngilti 20,4 kg. Sjá orðaskýringar.