Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Þér eruð meira virði.“ – MATTEUS 10:31.

Tekur Guð eftir þér?

Tekur Guð eftir þér?

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF SKÖPUNARVERKINU?

Aðlögunin, sem ungbarn fær fyrstu klukkustundina eftir að það kemur í heiminn, skiptir sköpum. Hvers vegna? Ef mæður tengjast börnum sínum á þessum aðlögunartíma hefur það mikil og góð áhrif á vöxt og þroska barnanna. *

Hvað fær móður til að annast nýfætt barn sitt blíðlega? Prófessor Jeannette Crenshaw segir í tímaritinu The Journal of Perinatal Education að aukið magn hríðarhormónsins oxýtósín „örvi móðurtilfinninguna eftir fæðingu barns þegar móðirin snertir barnið, horfir á það og gefur því brjóst“. Líkaminn myndar annað hormón á þessum tíma „sem hjálpar móðurinni að sinna barninu“ og styrkir samspilið milli móður og barns. Hvers vegna er það þýðingarmikið?

Höfundurinn að þessu nána sambandi milli móður og barns er ástríkur skapari okkar, Jehóva Guð. * Davíð konungur sagði í bæn til Guðs: „Þú leiddir mig fram af móðurlífi, lést mig liggja öruggan við brjóst móður minnar. Til þín var mér varpað úr móðurskauti, frá móðurlífi ert þú Guð minn.“ – Sálmur 22:10, 11.

HUGLEIDDU ÞETTA: Guð skapaði flókið kerfi til að tryggja að móðir hugsi blíðlega um barn sitt og sinni þörfum þess. Er þá ekki rökrétt að hann hafi áhuga á hverju og einu okkar, sem hann kallar „Guðs börn“? – 1. Jóhannesarbréf 3:1.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF BIBLÍUNNI UM UMHYGGJU GUÐS?

Jesús Kristur, sem þekkir skaparann betur en nokkur annar, sagði: „Eru ekki tveir spörvar seldir fyrir smápening? Og ekki fellur einn þeirra til jarðar án vitundar föður yðar. Á yður eru jafnvel höfuðhárin öll talin. Verið því óhræddir, þér eruð meira virði en margir spörvar.“ – Matteus 10:29-31.

Fæst tökum við sérstaklega eftir smáfuglum sem við sjáum og höfum yfirleitt ekki hugmynd um ef einn þeirra fellur til jarðar. En faðir okkar á himnum tekur eftir hverjum og einum þeirra. Og fuglar eru aldrei meira virði en manneskja – jafnvel ekki margir fuglar. Kennslan í þessum orðum er skýr: Þú þarft ekki að vera hræddur um að Guð taki ekki eftir þér. Hann er mjög áhugasamur um þig.

Guð hefur einlægan áhuga á velferð okkar og hann vakir yfir okkur með ást og umhyggju.

Í Biblíunni segir

  • „Augu Drottins eru alls staðar og vaka yfir vondum og góðum.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 15:3.

  • „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ – SÁLMUR 34:16.

  • „Ég gleðst og fagna yfir trúfesti þinni því að þú sást neyð mína og gafst gætur að mér í þrengingum.“ – SÁLMUR 31:8.

,MÉR FANNST AÐ JEHÓVA ELSKAÐI MIG EKKI‘

Skiptir það máli fyrir okkur að vita að Guð hefur einlægan áhuga á velferð okkar og að hann vakir yfir okkur með ást og umhyggju? Svo sannarlega. Hannah, * frá Englandi, segir:

„Oft og mörgum sinnum fannst mér að Jehóva elskaði mig ekki og að hann svaraði ekki bænum mínum. Ég hélt að það væri vegna þess að mig skorti trú og að hann væri að refsa mér eða hunsa mig af því að ég skipti ekki máli. Mér fannst Guði standa á sama um mig.“

En Hannah efast ekki lengur um að Jehóva Guð taki eftir henni og sé annt um hana. Hvað varð til þess að viðhorf hennar breyttist? „Það breyttist smátt og smátt,“ segir hún. „Ég man að biblíufyrirlestur um lausnarfórn Jesú, sem ég hlustaði á fyrir mörgum árum, hafði djúpstæð áhrif á mig og fullvissaði mig um að Jehóva elskar mig. Og ég hef oft brostið í grát þegar Jehóva hefur svarað bænum mínum vegna þess að ég finn að hann elskar mig í raun og veru. Af námi í Biblíunni og með því að sækja samkomur hef ég einnig fræðst meira um Jehóva, eiginleika hans og það hvernig hann lítur á okkur. Núna finnst mér augljóst að Jehóva elskar okkur öll, styður okkur og er meira en fús til að annast hvert og eitt okkar.“

Þetta er uppörvandi reynslusaga. En hvernig getur þú verið viss um að Guð muni eftir þér og skilji hvernig þér líður? Næsta grein svarar því.

^ gr. 3 Mæður með fæðingarþunglyndi geta átt erfitt með að tengjast barninu. En þær ættu ekki að ásaka sig fyrir það. Bandaríska geðheilbrigðisstofnunin segir að fæðingarþunglyndi eigi sér „líklega bæði líkamlegar og tilfinningalegar orsakir ... en sé ekki vegna einhvers sem móðirin gerir eða gerir ekki“. Frekari upplýsingar um þetta málefni er að finna í greininni „Þunglyndi eftir fæðingu“ í Vaknið! október-desember 2003.

^ gr. 5 Jehóva er nafn Guðs samkvæmt frummálum Biblíunnar. – 2. Mósebók 6:3, neðanmáls.

^ gr. 15 Sumum nöfnum í þessari greinaröð er breytt.