Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þunglyndi eftir fæðingu

Þunglyndi eftir fæðingu

Þunglyndi eftir fæðingu

Hvað er að mér? Ég er nýbúin að eignast fallegt og heilbrigt barn. Ég ætti því að vera glöð og hreykin, en ég er svo niðurdregin og kvíðin, jafnvel reið. Er ég slæm móðir? Hvers vegna líður mér svona illa andlega?

EF ÞÚ hefur nýlega eignast barn kannast þú ef til vill við þær tilfinningar sem lýst er hér að ofan. Ef svo er ertu ekki ein á báti. Áætlað er að 70 til 80 af hundraði sængurkvenna sé af og til þannig innanbrjósts. En hvað er fæðingarþunglyndi og hvað veldur því? Hvernig er hægt að takast á við það? Hvaða stuðning geta fjölskyldan og aðrir veitt?

Raskanir

„Fæðingarþunglyndi“ merkir þunglyndi í kjölfar barnsfæðingar. Það getur lagst á móður hvort sem um er að ræða fyrstu fæðingu eða síðari fæðingar. Þunglyndisköst geta líka fylgt fósturláti og fóstureyðingu. Einkennin geta verið misalvarleg samkvæmt upplýsingum frá deild innan bandaríska heilbrigðisráðuneytisins sem sér um heilbrigðismál kvenna.

Margar konur finna fyrir depurð eftir barnsburð, oft kallað sængurkvennagrátur, og eru einkennin væg depurð, kvíði, önuglyndi, skapsveiflur og þreyta. Þessi dapurleiki er talinn eðlilegur og skammvinnur, hann líður hjá innan tíu daga eða svo frá fæðingunni og móðirin þarf ekki að leita læknis.

Hins vegar telur fæðinga- og kvensjúkdómalæknafélag Bandaríkjanna að þessar tilfinningar magnist hjá einni af hverjum tíu konum og vari lengur en fyrstu dagana eftir barnsfæðingu. Slíkar tilfinningar geta meira að segja komið fram mörgum mánuðum eftir fæðinguna. Það getur verið um raunverulegt fæðingarþunglyndi að ræða og depurðin, kvíðinn og örvæntingin getur magnast svo mikið að konan á erfitt með að sinna daglegum störfum.

Auk þess þjást ein til þrjár konur af hverjum 1000 af enn alvarlegra þunglyndi sem hefur verið kallað fæðingarsturlun. Konan fær þá ranghugmyndir eða ofskynjanir sem beinast oft að því að gera sjálfri sér eða ungbarninu mein. Leita skal tafarlaust til læknis vegna þessara síðastnefndu einkenna. *

Orsakir

Þunglyndi eftir fæðingu á sér enga ákveðna orsök. Svo virðist sem bæði líkamlegir og tilfinningalegir þættir spili þar inn í. Til dæmis getur líkamlegur þáttur sagt til sín fyrstu tvo sólarhringana eftir fæðingu þegar estrógen- og prógesterónmagnið snarminnkar og verður minna en fyrir getnaðinn, og veldur skyndilegri breytingu á líkamsstarfseminni. Þetta getur orsakað þunglyndi á svipaðan hátt og skapsveiflur og spenna myndast fyrir tíðir. Einnig getur dregið úr hormónaframleiðslu skjaldkirtilsins eftir barnsburð. Það getur valdið einkennum sem svipar til þunglyndis. Þess vegna telja margir, sem stunda rannsóknir á fæðingarþunglyndi, að um „hormónaröskun og lífefnafræðilega röskun“ sé að ræða.

Athyglisverð tilgáta hefur verið sett fram í læknafréttabréfi þess efnis að þunglyndi eftir fæðingu geti stafað af misvægi næringarefna, til dæmis skorti á ýmsum B-vítamínum.

Þreyta og svefnleysi hefur líka sitt að segja. Dr. Steven I. Altchuler, geðlæknir við Mayo Clinic í Minnesota í Bandaríkjunum, segir: „Stuttu eftir barnsburð getur þróttleysi og svefnleysi gert smávægileg vandamál að stórmálum. Það fer illa í sumar konur að þær skuli varla ráða við ýmislegt sem þær fóru létt með fyrir fæðinguna, meðan þær fengu góðan nætursvefn, og áður en sængurkvennagráturinn lagðist á þær.“ Tilfinningalegir þættir svo sem óvænt þungun, fæðing fyrir tímann, skert frelsi, áhyggjur af útlitinu og skortur á stuðningi annarra geta líka ýtt undir þunglyndi.

Þar að auki geta algengar ranghugmyndir tengdar móðurhlutverkinu stuðlað að því að konur verði þunglyndar og fyllist vanmáttarkennd. Sem dæmi um ranghugmyndir má nefna að það sé konum eðlislægt að kunna að annast ungbörn, að móðir og barn myndi strax tengsl, að barnið verði fullkomið og aldrei óvært og að móðirin eigi að vera óaðfinnanleg. Þannig er nú lífið ekki. Það þarf að læra að annast ungbörn, það tekur oft tíma að mynda tengsl, sum börn er auðveldara að annast en önnur og engin kona er óaðfinnanleg móðir eða alger ofurmamma.

Fæðingarþunglyndi viðurkennt

Það er ekki langt síðan farið var að taka fæðingarþunglyndi alvarlega. Dr. Laurence Kruckman bendir á: „Áður fyrr var geðheilbrigðismálum kvenna enginn gaumur gefinn og þau voru oft stimpluð sem móðursýki er engar áhyggjur þyrfti að hafa af. Greiningarhandbók bandaríska geðlæknafélagsins (DSM IV) hefur aldrei viðurkennt að fullu slík veikindi eftir barnsburð. Þar af leiðandi hafa læknar ekki fengið fræðslu um þau og áreiðanlegum gögnum hefur ekki heldur verið safnað saman. . . . Og ólíkt því sem gerðist fyrir 30 árum fara mæður oft heim af sjúkrahúsinu innan sólarhrings. Fæðingarsturlun, sængurkvennagrátur og sumt þunglyndi gerir oftast vart við sig innan tveggja vikna frá fæðingunni. En konurnar eru þá komnar heim og því getur heilbrigðisstarfsfólk ekki greint einkennin.“

En að sögn Dr. Carol E. Watkins, geðlæknis hjá Northern County Psychiatric Associates í Baltimore í Maryland, getur fæðingarþunglyndi, sé það ekki greint og meðhöndlað, leitt til langvarandi þunglyndis og orðið til þess að móður og barni gangi illa að mynda tengsl. Þunglyndar mæður eiga það til að sniðganga þarfir barnsins eða missa stjórn á sér og beita ungabarnið líkamlegri refsingu til að aga það. Slíkt getur dregið úr vitsmuna- og tilfinningaþroska barnsins.

Grein í tímaritinu American Family Physician bendir á að ung börn þunglyndra mæðra standi sig verr á vitsmuna- og þroskaprófum en börn mæðra sem hafa ekki átt við þunglyndi að stríða. Auk þess getur þunglyndi eftir barnsfæðingu haft slæm áhrif á hin börnin og eiginmanninn.

Meðferð

Hvað er til ráða? Þarftu bara að harka þetta af þér? Það er hughreystandi að vita að þunglyndi eftir fæðingu er tímabundið og það er hægt að lækna það. * Hæfileg hvíld og stuðningur fjölskyldunnar getur nægt við vægum einkennum, en ef þunglyndið hindrar þig í að lifa eðlilegu lífi þá er nauðsynlegt að leita læknis, að því er kemur fram í leiðbeiningum frá deild innan bandaríska heilbrigðisráðuneytisins sem sér um heilbrigðismál kvenna.

Algeng meðferðarúrræði eru þunglyndislyf, * viðtalsmeðferð, hormónameðferð eða fleira en eitt þessara úrræða samtímis eftir því hve alvarlegt tilfellið er. Svokölluð kengúruaðferð eða húð við húð umönnun ungbarna getur einnig dregið úr þunglyndi móður. * Svo má nefna aðra valkosti svo sem jurtalækningar, nálarstungumeðferð og smáskammtalækningar.

En þú getur sjálf gert ýmislegt í málunum. Þú getur til dæmis borðað hollan mat (svo sem ávexti, grænmeti og heilkorn); forðast koffín, áfengi og sykur; stundað líkamsæfingar í hófi; og fengið þér blund þegar barnið sefur. Zoraya, sem er vottur, grét dögum saman eftir að hún eignaðist heilbrigt stúlkubarn. Hún segir að það sem hjálpaði henni einna mest að losna við þunglyndið hafi verið að sækja samkomur og taka þátt í boðunarstarfi Votta Jehóva eins fljótt og hún gat. —  Sjá fleiri tillögur í meðfylgjandi rammagrein.

Hvernig geta aðrir aðstoðað?

Stór þáttur í þunglyndi eftir barnsfæðingu er skortur á nægilegri hvíld, en aðrir geta orðið að liði með því að taka að sér viss heimilisstörf og aðstoða við umönnun barnsins. Kannanir sýna að mun minna er um fæðingarþunglyndi þar sem stórfjölskyldan hópast að til að veita stuðning og leiðbeiningar. Oft er hægt að verða að liði einfaldlega með því að hlusta vel, hughreysta konuna og varast að gagnrýna hana eða dæma. Höfum hugfast að þunglyndi eftir fæðingu er líkamlegs eðlis en ekki sjálfskaparvíti. Bandarísk samtök, sem annast eftirfæðingarfræðslu fyrir foreldra, benda á að „konur geti ekki hrist þetta af sér frekar en flensu, sykursýki eða hjartveiki“.

Af ofangreindu má sjá að þótt tíminn eftir fæðinguna geti verið dásamlegur fyrir mæður þá getur hann líka valdið streitu. Ef við höfum þetta í huga veitum við konum frekar þann stuðning sem þær þurfa eftir barnsburð.

[Neðanmáls]

^ Ekki má rugla saman þunglyndi eftir fæðingu og streituröskun eftir áfall sem herjar á sumar konur eftir erfiða fæðingu, þó svo að þetta geti farið saman.

^ Sjá greinina „I Won My Battle With Postpartum Depression“, í Vaknið! (enskri útgáfu) 22. júlí 2002.

^ Sum lyf geta borist í móðurmjólkina. Hafðu þess vegna samband við lækni til að finna bestu lausnina ef þú ætlar að hafa barnið á brjósti.

^ Sjá greinina „‚Kangaroo Mother Care‘ — Solution to a Life-Threatening Problem?“ í Vaknið! (enskri útgáfu) 8. júní 2002.

[Rammi/myndir á blaðsíðu 23]

Ráð við þunglyndi eftir fæðingu

1. Ræddu við einhvern um líðan þína, einkum aðrar mæður.

2. Biddu aðra um að hjálpa þér að annast barnið, sinna heimilisstörfunum og fara í sendiferðir. Biddu manninn þinn um að aðstoða við að gefa barninu að næturlagi og taka þátt í heimilisstörfunum.

3. Taktu þér tíma til að gera eitthvað gagnlegt fyrir sjálfa þig, þó að það sé ekki nema í stundarfjórðung á dag. Reyndu að lesa, fara í gönguferð eða slaka á í baði.

4. Þótt þú getir ekki komið nema einu í verk á dag þá er það skref í rétta átt. Suma daga getur verið að þú komir engu í verk. Reyndu að vera ekki reið út í sjálfa þig þegar það gerist.

5. Einangrun dregur þunglyndi oft á langinn. Klæddu þig og farðu út að minnsta kosti í smástund á hverjum degi. Það er hollt fyrir þig og barnið að fá ferskt loft og svolitla tilbreytingu.

[Credit Line]

Byggt á upplýsingum frá American Academy of Family Physicians, the American College of Obstetricians and Gynecologists, og the Office on Womenʹs Health of the U.S. Department of Health and Human Services.