Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

„Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni.“ – SÁLMUR 139:16.

Skilur Guð þig?

Skilur Guð þig?

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF SKÖPUNARVERKINU?

Veltum fyrir okkur einu nánasta sambandi sem fólk getur átt – sambandi eineggja tvíbura. Þeir eru einstaklega nánir. Sumir tvíburar „þekkja hvernig það er að tala við einhvern og þurfa ekki að útskýra mál sitt vegna þess að hann skilur nákvæmlega hvað maður meinar,“ segir Nancy Segal sem er stjórnandi Twin Studies Center og sjálf tvíburi. Kona ein lýsir sambandi sínu og eineggja tvíburasystur sinnar svona: „Við vitum hreinlega allt hvor um aðra.“

Hvað stuðlar að þessum einstaka skilningi milli eineggja tvíbura? Rannsóknir benda til að afar lík erfðaefni þeirra spili stóran þátt í því þó að umhverfi og uppeldi skipti líka máli.

HUGLEIDDU ÞETTA: Skapari þessara mikilfenglegu erfðaefna hefur án efa einstakan skilning á því hvernig hvert og eitt okkar er úr garði gert. Sálmaritarinn Davíð sagði: „Þú hefur ... ofið mig í móðurlífi. Bein mín voru þér eigi hulin þegar ég var gerður í leyndum. ... Augu þín sáu mig er ég enn var ómyndað efni.“ (Sálmur 139:13, 15, 16) Guð er sá eini sem getur skilið að fullu bæði erfðafræðilega gerð okkar og annað sem mótar persónuleika okkar. Þar sem Guð þekkir okkur svona vel getum við verið viss um að hann skilji okkur fullkomlega.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF BIBLÍUNNI UM SKILNING GUÐS?

Davíð bað til Guðs: „Drottinn, þú rannsakar og þekkir mig, hvort sem ég sit eða stend, þá veist þú það, þú skynjar hugrenningar mínar álengdar. Eigi er það orð á tungu minni að þú, Drottinn, þekkir það eigi til fulls.“ (Sálmur 139:1, 2, 4) Jehóva Guð þekkir auk þess innstu tilfinningar okkar og hann „rannsakar öll hjörtu og þekkir allar hugsanir“. (1. Kroníkubók 28:9; 1. Samúelsbók 16:6, 7) Hvað segja þessi vers okkur um Guð?

Þótt við tjáum hugsanir okkar og tilfinningar ekki alltaf með orðum þegar við biðjum til Guðs þá skilur hann bæði hvað við gerum og af hverju við gerum það. Þar að auki gerir hann sér grein fyrir því sem við myndum vilja gera jafnvel þótt takmörk okkar komi í veg fyrir að við getum gert það sem okkur langar innst inni. Guð gaf okkur hæfileikann til að elska og því er hann án efa fús til að fylgjast með og skilja þær hugsanir okkar og hvatir sem byggjast á kærleika. – 1. Jóhannesarbréf 4:7-10.

Ekkert fer fram hjá Guði. Hann tekur meira að segja eftir þjáningum okkar sem aðrir vita ekki af eða geta ekki skilið til fulls.

 Í Biblíunni segir

  • „Augu Drottins hvíla á réttlátum og eyru hans hneigjast að bænum þeirra.“ – 1. PÉTURSBRÉF 3:12.

  • Guð lofar: „Ég vil fræða þig, vísa þér veginn sem þú átt að ganga, ég vil gefa þér ráð, vaka yfir þér.“ – SÁLMUR 32:8.

GUÐ ER MJÖG UMHYGGJUSAMUR

Getur það hjálpað okkur að takast á við erfiðleika að vita að Guð skilur aðstæður okkar og tilfinningar? Skoðum hvað gerðist hjá Önnu sem er frá Nígeríu. Hún segir: „Ég bjó við mjög erfiðar aðstæður og velti fyrir mér hvort það væri þess virði að lifa. Ég var ekkja og þurfti að hugsa um dóttur mína sem var með vatnshöfuð og lá á spítala. Á sama tíma greindist ég með brjóstakrabbamein og þurfti að fara í aðgerð, lyfjameðferð og geislameðferð. Það var gríðarlega erfitt fyrir mig að takast á við það að vera á spítala á sama tíma og dóttir mín.“

Hvað hjálpaði Önnu? „Ég hugleiddi biblíuvers eins og Filippíbréfið 4:6, 7 en þar segir: ,Friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir.‘ Í hvert sinn sem ég hugsaði um þennan ritningarstað fann ég fyrir nánu sambandi við Jehóva og ég vissi að hann skilur mig betur en ég skil mig sjálf. Ég fékk einnig mikla hvatningu frá trúsystkinum mínum í söfnuðinum sem mér þykir mjög vænt um.

Þótt ég þurfi enn að glíma við heilsuvandamál hafa aðstæður mínar og dóttur minnar batnað. Við lærðum að vera jákvæðar þegar við tökumst á við erfiðleika vegna þess að Jehóva er með okkur. Í Jakobsbréfinu 5:11 segir: ,Við teljum þá sæla sem þolgóðir hafa verið. Þið hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið hvaða lyktir Drottinn gerði á högum hans. Drottinn er mjög miskunnsamur og líknsamur.‘“ Jehóva hafði fullan skilning á aðstæðum Jobs og við getum verið viss um að hann skilji einnig erfiðleikana sem við göngum í gegnum.