Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Þjáningar – eru þær refsing frá Guði?

Þjáningar – eru þær refsing frá Guði?

LUZIA ER HÖLT Á VINSTRI FÆTI. Hún var mjög ung þegar hún fékk lömunarveiki, bráðsmitandi veirusjúkdóm sem ræðst á taugakerfi líkamans. Þegar hún var 16 ára sagði konan sem hún vann hjá við hana: „Guð lét þig lamast af því að þú varst óhlýðin og vond við mömmu þína.“ Mörgum árum seinna man Luzia enn eftir því hvað hún var niðurbrotin af að heyra þetta.

ÞEGAR DAMARIS FÉKK AÐ VITA AÐ HÚN VÆRI MEÐ KRABBAMEIN Í HEILA, spurði faðir hennar: „Hvað hefurðu gert til að verðskulda þetta? Þú hlýtur að hafa gert eitthvað mjög slæmt. Þess vegna er Guð að refsa þér.“ Damaris var algerlega niðurbrotin yfir því sem hann sagði.

Það er ekkert nýtt að fólk telji að veikindi séu refsing frá Guði. Í bókinni Manners and Customs of Bible Lands segir að margir á tímum Krists hafi trúað að „veikindi stöfuðu af synd hins veika eða einhverra í fjölskyldu hans og að þau væru refsing fyrir syndina“. Á miðöldum „trúðu margir að Guð sendi plágur til að refsa þeim fyrir syndir þeirra,“ segir í bókinni Medieval Medicine and the Plague. Var Guð þá að fullnægja dómi á vondu fólki þegar milljónir manna í Evrópu dóu í plágunni á 14. öld? Eða kom plágan einfaldlega til vegna bakteríusýkingar, eins og læknisfræðilegar rannsóknir hafa síðar sýnt fram á? Sumir spyrja sig: Notar Guð veikindi til að refsa fólki fyrir syndir þeirra? *

HUGLEIDDU ÞETTA: Hvers vegna hefði Jesús læknað sjúka ef sjúkdómar og þjáningar voru verðskulduð refsing frá Guði? Hefði það ekki gert lítið úr rétti og réttlæti Guðs? (Matteus 4:23, 24) Jesús myndi aldrei vinna á móti Guði. Hann sagði: „Ég geri ætíð það sem honum þóknast“ og „[ég] geri eins og faðirinn hefur boðið mér.“ – Jóhannes 8:29; 14:31.

Biblían segir skýrt að ,allir vegir Guðs séu réttlátir‘. (5. Mósebók 32:4) Guð myndi til dæmis aldrei valda flugslysi sem ylli dauða mörg hundruð saklausra manna til að refsa einhverjum um borð. Guð er réttlátur og Abraham, trúfastur þjónn hans, sagði að Guð myndi aldrei „tortíma hinum réttláta með hinum óguðlega“. Hann spurði einnig: „Mun dómari allrar jarðarinnar ekki gera rétt?“ (1. Mósebók 18:23, 25) Biblían segir þar að auki að ,Guð breyti ekki ranglega‘ eða „aðhafist illt“. – Jobsbók 34:10-12.

HVAÐ LÆRUM VIÐ AF BIBLÍUNNI UM ÞJÁNINGAR?

Þjáningar eru ekki refsing frá Guði fyrir syndir okkar. Jesús gaf það skýrt til kynna þegar hann og lærisveinar hans sáu mann sem hafði verið blindur frá fæðingu. „Lærisveinar hans spurðu hann: ,Rabbí, hvort hefur þessi maður syndgað eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?‘ Jesús svaraði: ,Hvorki er það af því að hann hafi syndgað eða foreldrar hans heldur til þess að verk Guðs verði opinber á honum.‘“ – Jóhannes 9:1-3.

Vegna ríkjandi ranghugmynda hafa lærisveinar Jesú eflaust verið undrandi þegar hann sagði þeim að hvorki synd mannsins né foreldra hans hefði leitt þessa ógæfu yfir hann. Jesús læknaði ekki aðeins manninn heldur kollvarpaði þeirri röngu hugmynd að þjáningar séu refsing frá Guði. (Jóhannes 9:6, 7) Þeir sem eiga við alvarleg veikindi að stríða geta sótt huggun í að vita að Guð stendur ekki á bak við þjáningar þeirra.

Af hverju læknaði Jesús sjúka ef Guð var að refsa þeim fyrir syndir þeirra?

Í Biblíunni segir

  • „Hið illa getur eigi freistað Guðs og sjálfur freistar hann einskis manns.“ (JAKOBSBRÉFIÐ 1:13) „Hið illa“, sem hefur þjakað mannkynið í gegnum aldirnar, verður bráðum afmáð – þar á meðal veikindi, þjáningar og dauði.

  • Jesús Kristur ,læknaði alla þá er sjúkir voru‘. (MATTEUS 8:16) Sonur Guðs sýndi hverju Guðsríki mun koma til leiðar um allan heim með því að lækna alla sem komu til hans.

  • „Hann [Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ – OPINBERUNARBÓKIN 21:3-5.

HVERJUM ER UM AÐ KENNA?

En hvers vegna þarf mannkynið að þola svona mikla erfiðleika og þjáningar? Fólk hefur velt því fyrir sér í aldaraðir. Hverjum er um að kenna ef ekki Guði? Þessum spurningum verður svarað í næstu grein.

^ gr. 4 Þó að dæmi séu um að Guð hafi áður refsað fólki fyrir ákveðnar syndir gefur Biblían ekki til kynna að Jehóva noti núna veikindi eða áföll til að refsa fólki fyrir syndir þeirra.