Jóhannes segir frá 9:1–41

  • Jesús læknar mann sem fæddist blindur (1–12)

  • Farísear yfirheyra manninn sem fékk sjónina (13–34)

  • Blindir farísear (35–41)

9  Á leið sinni sá hann mann sem hafði verið blindur frá fæðingu.  Lærisveinar hans spurðu: „Rabbí, hvort syndgaði þessi maður eða foreldrar hans fyrst hann fæddist blindur?“  Jesús svaraði: „Hvorki maðurinn né foreldrar hans syndguðu en með þessu móti geta verk Guðs opinberast á honum.  Við verðum að vinna verk þess sem sendi mig meðan dagur er því að það kemur nótt þegar enginn maður getur unnið.  Meðan ég er í heiminum er ég ljós heimsins.“  Að svo mæltu spýtti hann á jörðina og bjó til leðju úr munnvatninu, bar hana á augu mannsins  og sagði við hann: „Farðu og þvoðu þér í Sílóamlaug“ (en Sílóam merkir ‚sendur‘). Hann fór þangað, þvoði sér og þegar hann kom aftur hafði hann fengið sjónina.  Nágrannar hans og þeir sem höfðu oft séð hann betla sögðu þá: „Er þetta ekki maðurinn sem var vanur að sitja og betla?“  Sumir sögðu: „Þetta er hann.“ Aðrir sögðu: „Nei, en hann er líkur honum.“ Sjálfur sagði maðurinn: „Ég er hann.“ 10  Þeir spurðu hann þá: „Hvernig fékkstu sjónina?“ 11  Hann svaraði: „Maður sem heitir Jesús bjó til leðju, bar hana á augu mín og sagði: ‚Farðu og þvoðu þér í Sílóam.‘ Ég fór og þvoði mér og fékk sjónina.“ 12  Þá spurðu þeir: „Hvar er þessi maður?“ „Ég veit það ekki,“ svaraði hann. 13  Þeir fóru nú til faríseanna með manninn sem hafði verið blindur. 14  Svo vildi til að það var á hvíldardegi sem Jesús bjó til leðjuna og opnaði augu mannsins. 15  Farísearnir fóru líka að spyrja manninn hvernig hann hefði fengið sjónina. Hann svaraði þeim: „Hann bar leðju á augu mín, ég þvoði mér og nú sé ég.“ 16  Nokkrir faríseanna sögðu þá: „Þessi maður er ekki frá Guði fyrst hann heldur ekki hvíldardaginn.“ Aðrir sögðu: „Hvernig getur syndugur maður unnið svona kraftaverk?“ Það voru því skiptar skoðanir meðal þeirra. 17  Þeir spurðu blinda manninn aftur: „Hvað segir þú um hann fyrst það varst þú sem fékkst sjónina?“ „Hann er spámaður,“ svaraði maðurinn. 18  Gyðingarnir trúðu þó ekki að hann hefði verið blindur og fengið sjón svo að þeir kölluðu á foreldra hans 19  og spurðu: „Er þetta sonur ykkar sem þið segið að hafi fæðst blindur? Hvernig stendur þá á því að hann sér núna?“ 20  Foreldrarnir svöruðu: „Við vitum að þetta er sonur okkar og að hann fæddist blindur. 21  En við vitum ekki hvernig stendur á því að hann sér núna og vitum ekki heldur hver gaf honum sjónina. Spyrjið hann sjálfan. Hann er fullorðinn og getur svarað fyrir sig.“ 22  Foreldrarnir sögðu þetta af ótta við Gyðingana en þeir höfðu komið sér saman um að hverjum sem játaði að Jesús væri Kristur skyldi útskúfað úr samkundunni. 23  Þess vegna sögðu foreldrarnir: „Hann er fullorðinn. Spyrjið hann.“ 24  Þeir kölluðu því aftur á manninn sem hafði verið blindur og sögðu við hann: „Gefðu Guði dýrðina. Við vitum að þessi maður er syndari.“ 25  Hann svaraði: „Ég veit ekki hvort hann er syndari. Hitt veit ég að ég var blindur en nú get ég séð.“ 26  Þá sögðu þeir: „Hvað gerði hann við þig? Hvernig opnaði hann augu þín?“ 27  Hann svaraði: „Ég er búinn að segja ykkur það en þið hlustuðuð ekki. Af hverju viljið þið heyra það aftur? Eruð þið kannski líka að hugsa um að verða lærisveinar hans?“ 28  Þeir sögðu þá með fyrirlitningu: „Þú ert lærisveinn þessa manns en við erum lærisveinar Móse. 29  Við vitum að Guð talaði við Móse en við vitum ekki hvaðan þessi maður er.“ 30  Maðurinn svaraði: „Þetta er ótrúlegt! Þið vitið ekki hvaðan hann er en samt gaf hann mér sjónina. 31  Við vitum að Guð hlustar ekki á syndara, en hann hlustar á þann sem er guðhræddur og gerir vilja hans. 32  Aldrei hefur heyrst að nokkur hafi gefið þeim sjónina sem fæddist blindur. 33  Ef þessi maður væri ekki frá Guði gæti hann ekki gert neitt.“ 34  Þá svöruðu þeir: „Þú ert syndum vafinn frá fæðingu og ætlar að fara að kenna okkur!“ Og þeir ráku hann út. 35  Jesús frétti að þeir hefðu rekið hann út. Þegar hann hitti manninn spurði hann: „Trúirðu á Mannssoninn?“ 36  „Hver er hann, herra, svo að ég geti trúað á hann?“ spurði maðurinn. 37  Jesús svaraði: „Þú hefur séð hann og það er reyndar hann sem þú ert að tala við.“ 38  „Ég trúi á hann, Drottinn,“ sagði maðurinn og veitti honum lotningu.* 39  Þá sagði Jesús: „Ég kom í þennan heim til að hægt yrði að dæma fólk, svo að blindir sjái og þeir sem sjá verði blindir.“ 40  Farísear sem voru hjá honum heyrðu þetta og sögðu við hann: „Ekki erum við líka blindir, eða hvað?“ 41  Jesús svaraði: „Ef þið væruð blindir væruð þið ekki sekir um synd. En nú segist þið sjá og því varir synd ykkar.“

Neðanmáls

Eða „kraup fyrir honum“.