Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Hverjum er um að kenna?

Hverjum er um að kenna?

Ef Guð er ekki valdur að sárri fátækt, hungursneyðum, grimmilegum styrjöldum, skelfilegum sjúkdómum og náttúruhamförum, hvað veldur þeim þá? Biblían bendir á þrjár helstu ástæðurnar fyrir þjáningum manna:

  1. Eigingirni, græðgi og hatur. „Einn maður drottnar yfir öðrum honum til ógæfu.“ (Prédikarinn 8:9) Oft þjáist fólk vegna þess að það verður fyrir barðinu á ófullkomnu fólki sem er eigingjarnt eða grimmt.

  2. Tími og tilviljun. Menn þjást oft vegna þess að „tími og tilviljun hittir þá alla fyrir“. (Prédikarinn 9:11) Fólk getur verið á röngum stað á röngum tíma, orðið fyrir slysi, verið kærulaust eða gert mistök.

  3. Stjórnandi þessa heims er illur. Biblían gefur skýrt til kynna hver sé meginástæðan fyrir þjáningum manna. Í henni segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) ,Hinn vondi‘ er Satan djöfullinn og „í honum finnst enginn sannleikur“, en hann er voldug andavera sem áður var engill Guðs. (Jóhannes 8:44, Biblían 1981) Fleiri englar sameinuðust Satan í uppreisninni gegn Guði í eiginhagsmunaskyni og urðu þannig illir andar. (1. Mósebók 6:1-5) Allt frá því að Satan og illir andar hans gerðu uppreisn hafa þeir haft mikil og slæm áhrif á málefni heimsins. Það á sérstaklega við nú á tímum. Nú er djöfullinn bálreiður og „afvegaleiðir alla heimsbyggðina“ en það hefur valdið hörmungum á jörðinni. (Opinberunarbókin 12:9, 12) Satan er sannarlega grimmur stjórnandi. Í vonsku sinni nýtur hann þess að sjá menn þjást. Það er Satan – ekki Guð – sem veldur þjáningum manna.

HUGLEIDDU ÞETTA: Aðeins tilfinningalaus og djöfullegur illvirki myndi láta saklaust fólk þjást. Aftur á móti segir Biblían: „Guð er kærleikur.“ (1. Jóhannesarbréf 4:8) Og í fullu samræmi við það segir á öðrum stað í Biblíunni: „Fjarri fer því að Guð breyti ranglega og Hinn almáttki aðhafist illt.“ – Jobsbók 34:10.

Það er eðlilegt að velta fyrir sér spurningunni: „Hversu lengi mun almáttugur Guð leyfa Satan að halda áfram sinni grimmu stjórn?“ Eins og komið hefur fram hefur Guð andstyggð á illsku og hann finnur til með okkur þegar við þjáumst. Við fáum þessa hvatningu í orði hans: „Varpið allri áhyggju ykkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir ykkur.“ (1. Pétursbréf 5:7) Guð elskar okkur og hefur mátt til að binda enda á allt óréttlæti og þjáningar, eins og rætt er um í næstu grein. *

^ gr. 7 Finna má nánari upplýsingar um hvers vegna Guð leyfir þjáningar í 11. kafla bókarinnar Hvað kennir Biblían? Bókin er gefin út af Vottum Jehóva og hægt er að nálgast hana á www.jw.org/is.