Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | ELDAR NEBOLSIN

Píanóleikari skýrir frá trú sinni

Píanóleikari skýrir frá trú sinni

Eldar Nebolsin frá Úsbekistan hefur hlotið lof víða um heim fyrir píanóleik sinn. Hann hefur verið einleikari með sinfóníuhljómsveitum í Lundúnum, Moskvu, Sankti Pétursborg, New York, París, Róm, Sydney, Tókýó og Vínarborg. Eldar ólst upp við trúleysi í Sovétríkjunum. En seinna fór hann að trúa að mennirnir væru handaverk kærleiksríks skapara. Vaknið! spurði hann út í tónlistina og trú hans.

Hvers vegna lagðirðu tónlistina fyrir þig?

Foreldrar mínir eru báðir píanóleikarar. Þeir byrjuðu að kenna mér á píanó þegar ég var fimm ára. Seinna meir fór ég í tónlistarskóla í Tashkent fyrir lengra komna.

Hvaða áskorun fylgir því að spila með hljómsveit?

Engar tvær hljómsveitir eru eins. Hver hljómsveit er eins og risastórt hljóðfæri sem stjórnandinn „leikur á“. Það erfiðasta fyrir einleikara er kannski það að ná góðu samspili við stjórnandann. Þetta er eins og samtal tveggja vina – það er ekki bara annar þeirra sem stýrir ferðinni heldur laga þeir sig hvor að öðrum. Venjulega hefur maður bara eina eða tvær æfingar til að slípa sig saman.

Hvað notarðu mikinn tíma í æfingar?

Að minnsta kosti þrjá tíma á dag. En þá er ég ekki bara að æfa erfiðu kaflana. Ég reyni líka að átta mig á formgerð tónverksins, sem ég ætla að flytja, án þess þó að spila það. Annað sem ég geri er að hlusta á fleiri verk tónskáldsins þar sem það gefur mér betri innsýn í verkið sem ég er að æfa.

Hvað einkennir góðan píanóleikara að þínu mati?

Hæfileiki hans til að láta píanóið „syngja“. Ég skal útskýra hvað ég á við. Píanóið er eins konar ásláttarhljóðfæri. Eftir að slegið er á nótu getur tónninn bara orðið veikari. Því er öfugt farið með blásturshljóðfæri og mannsröddina sem geta haldið tóninum og jafnvel aukið styrkleika hans. Píanóleikari þarf að geta komið í veg fyrir að tónninn deyi út. Hann gerir það með fíngerðum hreyfingum fingra og úlnliða og með því að nota hægri pedalann af nákvæmni, en hann lengir tóninn og breytir hljómblænum. Þegar píanóleikari hefur náð tökum á þessari tækni getur hann látið píanóið hljóma eins og flautu, horn eða jafnvel heila hljómsveit. Hann getur líka látið píanóið líkja eftir fágaðasta hljóðfæri sem til er – mannsröddinni.

Þú hefur greinilega mikla unun af tónlist.

Mér finnst tónlist vera það tungumál sem kallar fram og tjáir hvað best tilfinningar sem er erfitt, jafnvel ómögulegt, að tjá með orðum.

Hvað vakti áhuga þinn á andlegum málum?

Á heimili okkar var alltaf til fullt af bókum sem pabbi kom með frá Moskvu. Ein bókin, sem vakti sérstaklega áhuga minn, hafði að geyma biblíusögur um upphaf mannkyns og frásögur af Ísraelsþjóðinni. Önnur bók, sem ég fann, var bókin Þú getur lifað að eilífu í paradís á jörð sem er gefin út af Vottum Jehóva. * Það hreif mig hversu skýrt hún útskýrir biblíutengd efni. Þegar ég fór í tónlistarnám til Spánar árið 1991 tók ég þessa bók með mér og las hana nokkrum sinnum. Í henni fann ég trú sem byggist ekki aðeins á tilfinningum heldur á rökum og sannfæringu.

Það heillaði mig að Biblían skuli lofa að mennirnir geti fengið að lifa að eilífu á jörðinni. Mér fannst það svo rökrétt. Það mætti kannski nefna að fram að þessu hafði ég ekki hitt votta Jehóva. En ég ákvað að þegar ég hitti þá myndi ég biðja um biblíunámskeið.

Hvernig hittirðu svo vottana?

Fáeinum dögum eftir að hafa tekið þessa stóru ákvörðun sá ég tvær konur, báðar með biblíu. „Þær líta út eins og fólkið í bókinni sem ég hef verið að lesa,“ hugsaði ég. „Þær boða trúna alveg eins og kristnir menn á biblíutímanum.“ Stuttu seinna var ég byrjaður í biblíunámi. Það ánægjulegasta, sem ég geri núna, er að hjálpa öðrum að kynnast skaparanum.

Þú hafðir áður verið trúleysingi. En hvað sannfærði þig um að til væri skapari?

Tónlistin sjálf. Nánast allir kunna að meta tónlist en það gera dýr ekki á sama hátt. Tónlist getur tjáð gleði, traust og blíðu og nánast allar aðrar tilfinningar. Við förum ósjálfrátt að hreyfa okkur í takt við tónlist. En þurfum við á henni að halda til að komast af? Á hún þátt í að „hinir hæfustu lifi af“, eins og þróunarsinnar kenna? Ég trúi því ekki. Mér finnst órökrétt að ætla að mannsheilinn hafi þróast. Hann býr yfir hæfileika til að semja og njóta tónlistar í líkingu við þá sem Mozart og Beethoven sömdu. Það er miklu eðlilegri skýring að heilinn sé handaverk viturs og kærleiksríks skapara.

Biblían er eins og sinfónía með fágaða formgerð, snilldarlega uppbyggingu og hjartnæman boðskap fyrir allt mannkyn.

Hvað varð til þess að þú fórst að trúa að Biblían væri frá Guði?

Biblían er safn 66 smærri bóka sem skrifaðar voru af um það bil 40 mönnum á um 1.600 árum. Ég velti fyrir mér hver gæti hafa stýrt ritun þessa samfellda meistaraverks. Eina rökrétta svarið er að það hafi verið Guð. Í mínum huga er Biblían eins og sinfónía með fágaða formgerð, snilldarlega uppbyggingu og hjartnæman boðskap fyrir allt mannkyn.

^ gr. 15 Vottar Jehóva nota núna námsbókina Hvað kennir Biblían? Hægt er að nálgast hana á www.jw.org/is.