Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 FORSÍÐUEFNI

Er hægt að treysta fréttunum?

Er hægt að treysta fréttunum?

MARGIR efast um sannleiksgildi þess sem þeir lesa og heyra í fréttum. Til dæmis var gerð Gallupkönnun í Bandaríkjunum árið 2012 þar sem fólk var spurt hversu vel það treysti að fréttir í blöðum, sjónvarpi og útvarpi væru nákvæmar, óhlutdrægar og ítarlegar. Sex af hverjum tíu svöruðu „ekki mikið“ eða „ekki neitt“. Er ástæða til að vantreysta fréttunum?

Margir fréttamenn og fréttamiðlar, sem þeir starfa hjá, gefa sig út fyrir að veita nákvæmar og upplýsandi fréttir. En það er samt ástæða til að vera á varðbergi. Lítum á eftirfarandi atriði:

 • STÆRSTU FRÉTTAMIÐLARNIR. Fá en valdamikil félög eiga stærstu fréttamiðlana. Þessir miðlar hafa mikil áhrif á það hvaða fréttir eru birtar, hvernig er sagt frá þeim og hversu mikla athygli þær fá. Þar sem flest félög þurfa að skila hagnaði stjórnast ákvarðanir fjölmiðla oft á tíðum af fjárhagslegum ávinningi. Ef fréttnæmt efni kemur niður á hagnaði þeirra sem eiga fréttamiðlana er kannski látið vera að segja frá því.

 • STJÓRNVÖLD. Margt sem við heyrum í fjölmiðlum tengist stjórnmálamönnum og stjórnmálum. Stjórnvöld vilja telja almenning á að styðja hugmyndir sínar og flokksmenn. Og þar sem fjölmiðlar þurfa að sækja fréttaefni til stjórnvalda vinna fréttamenn og stjórnmálamenn stundum saman.

 •  AUGLÝSINGAR. Í flestum löndum verða fjölmiðlar að fá inn tekjur til að geta starfað og meirihluti teknanna kemur af auglýsingum. Í Bandaríkjunum fá tímarit 50 til 60 prósent af tekjum sínum af auglýsingum, dagblöð 80 prósent og einkareknar sjónvarps- og útvarpsstöðvar 100 prósent. Það er skiljanlegt að auglýsendur vilji ekki styrkja birtingu efnis sem gefur miður góða mynd af vörum þeirra eða rekstri. Ef þeir eru óánægðir með efnið, sem fréttamiðill birtir, geta þeir einfaldlega auglýst annars staðar. Með þetta í huga reyna ritstjórar stundum að forðast að birta fréttir sem gefa neikvæða mynd af styrktaraðilum þeirra.

 • ÓHEIÐARLEIKI. Það eru ekki allir fréttamenn heiðarlegir. Sumir þeirra búa til sögur. Fyrir nokkrum árum vildi fréttamaður í Japan sýna fram á hvernig kafarar væru að skemma kóralla í Okinawa. Þar sem hann fann engin sönnunargögn skemmdi hann nokkra kóralla sjálfur og tók myndir af þeim. Myndum er líka hægt að breyta til að blekkja almenning. Með myndvinnslu er núorðið hægt að gera ótrúlegustu hluti og sumar breytingar er nánast ómögulegt að greina.

 • FRÁSÖGN. Þótt staðreyndirnar séu óhrekjanlegar er það fréttamaðurinn sem ræður hvernig þeim er komið á framfæri. Hvaða staðreyndir ættu að fylgja sögunni og hverju ætti að sleppa? Fótboltalið gæti til dæmis hafa tapað leik með tveggja marka mun. Það er staðreynd. En ástæðan fyrir því að liðið tapaði er frásögn sem blaðamaðurinn getur sagt á ýmsa vegu.

 • ATRIÐUM SLEPPT. Til að koma með sannfærandi frétt sleppa fréttamenn oft atriðum sem gætu vakið upp fleiri spurningar eða flækt málið. Þess vegna ýkja þeir sumar staðreyndir og gera minna úr öðrum. Þar sem fréttamenn í sjónvarpi og útvarpi þurfa stundum að segja frá flóknum málum á um það bil einni mínútu verða mikilvæg atriði stundum út undan.

 •  SAMKEPPNI. Undanfarna áratugi hefur sjónvarpsstöðvum fjölgað verulega. Þess vegna hefur tíminn, sem fólk horfir á eina og sömu sjónvarpsstöðina, styst töluvert. Til að halda athygli áhorfenda fundu sjónvarpsstöðvar sig tilneyddar til að koma með eitthvað nýtt eða skemmtilegt. Bókin Media Bias segir um þessa þróun: „Fréttir [sjónvarpsins] breyttust í myndasýningu þar sem birtar voru myndir hver á fætur annarri til að hrista upp í fólki eða vekja spennu, og fréttirnar voru styttar til að koma til móts við [stöðugt minnkandi] athygli áhorfenda.“

 • MISTÖK. Fréttamenn eru mannlegir og gera því mistök. Þeir gætu gert stafsetningarvillur eða málfræðivillur og sett kommu á rangan stað en það gæti komið vitlausum boðum á framfæri. Ef til vill er ekki búið að sannreyna allar staðreyndir. Og fréttamaður, sem er kominn í tímaþröng, gæti líka auðveldlega ruglast á tölum og slegið inn 10.000 í staðinn fyrir 100.000.

 • RANGAR FORSENDUR. Nákvæmur fréttaflutningur er flóknari en margir halda. Það sem virðist vera staðreynd í dag er kannski afsannað á morgun. Til dæmis var jörðin eitt sinn talin vera miðdepillinn í sólkerfi okkar. Núna vitum við að jörðin snýst í kringum sólina.

 Gæta þarf jafnvægis

Vissulega er skynsamlegt að trúa ekki öllum fréttum sem við lesum. Það þýðir samt ekki að við getum ekki treyst neinu. Kjarni málsins er að gleypa ekki við öllu en vera samt með opinn huga.

Biblían segir: „Prófar eyrað ekki orðin og finnur gómurinn ekki bragð að matnum?“ (Jobsbók 12:11) Hér eru nokkur atriði sem geta hjálpað okkur að sannreyna það sem við lesum og heyrum:

 • HVAÐAN KEMUR FRÉTTIN? Kemur fréttin frá trúverðugum og áreiðanlegum aðila? Er fréttastöðin eða ritið þekkt fyrir alvarlega umfjöllun eða æsifréttastíl? Hverjir fjármagna fréttamiðilinn?

 • HEIMILDIR: Er augljóst að rækileg rannsóknarvinna búi að baki fréttinni? Er hún aðeins byggð á einni heimild? Eru heimildirnar áreiðanlegar, sanngjarnar og óhlutdrægar? Er fréttin hlutlaus eða hafa heimildir verið valdar til að styðja eitt ákveðið sjónarmið?

 • MARKMIÐ: Spyrðu þig: Er fréttaefnið fyrst og fremst ætlað til að upplýsa fólk eða skemmta því? Er markmiðið að selja eitthvað eða styðja málstað einhvers?

 • TÓNN: Þegar tónninn í fréttinni er reiðilegur, illgjarn eða yfirmáta gagnrýninn gefur það til kynna að verið sé að gera árás en ekki koma með málefnaleg rök.

 • SAMRÆMI: Ber staðreyndum fréttarinnar saman við aðrar greinar eða fréttir sem birst hafa um efnið? Ef frásagnir stangast á er gott að vera á verði.

 • HVE NÝLEG ER FRÉTTIN? Eru upplýsingarnar það nýlegar að hægt sé að treysta þeim? Það sem talið var rétt fyrir 20 árum er kannski ekki talið rétt í dag. Hins vegar gæti vantað fullnægjandi upplýsingar ef fréttin fjallar um eitthvað sem gerist þá stundina.

Er þá hægt að treysta fréttunum? Salómon gefur okkur þetta viturlega ráð: „Einfaldur maður trúir öllu en hygginn maður kann fótum sínum forráð.“ – Orðskviðirnir 14:15.