Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Ert þú „sífellt í veislu“?

Ert þú „sífellt í veislu“?

„Hinn volaði sér aldrei glaðan dag, en sá sem vel liggur á, er sífellt í veislu.“ – Orðskviðirnir 15:15, Biblían 1981.

HVAÐ er átt við með þessum orðum? Þau lýsa hvernig hugarástandið getur haft áhrif á líðan okkar. „Hinn volaði“ er upptekinn af hinu neikvæða, en það hefur þau áhrif að hann „sér aldrei glaðan dag“ og honum líður ömurlega. Aftur á móti er „sá sem vel liggur á“ jákvæður og reynir að horfa á björtu hliðarnar. Það eykur innri gleði svo að honum líður eins og hann sé „sífellt í veislu“.

Við glímum öll við vandamál sem gera okkur lífið leitt. En við getum gert ýmislegt sem hjálpar okkur að halda gleði okkar þegar við göngum í gegnum erfiðleika. Hvað segir Biblían um þetta?

  • Láttu ekki áhyggjur morgundagsins draga þig niður í dag. Jesús Kristur sagði: „Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning.“ – Matteus 6:34.

  • Reyndu að muna það góða sem hefur gerst í lífi þínu. Hvernig væri að skrifa það niður og hugleiða það þegar þú verður niðurdreginn? Forðastu að einblína á gömul mistök eða lesti. Lærðu af þeim og horfðu síðan fram á veginn. Vertu eins og bílstjóri sem lítur við og við í baksýnisspegilinn en horfir ekki stöðugt í hann. Hafðu einnig í huga að „hjá [Guði] er fyrirgefning“. – Sálmur 130:4.

  • Þegar þér finnst þú vera að sligast undan áhyggjum leitaðu þá til einhvers sem þú treystir og getur hjálpað þér að horfa á björtu hliðarnar. „Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það,“ segir í Orðskviðunum 12:25. „Eitt vingjarnlegt orð“ gæti komið frá einhverjum í fjölskyldunni eða góðum vini sem er ekki kaldhæðinn eða svartsýnn heldur reynist vinur í raun. – Orðskviðirnir 17:17.

Viskan, sem er að finna í Biblíunni, hefur hjálpað mörgum að öðlast meiri gleði í lífinu, jafnvel þegar álagið hefur verið mikið. Þessi dýrmæta viska getur einnig nýst þér.