Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 GÓÐ RÁÐ HANDA FJÖLSKYLDUNNI | UPPELDI

Að ræða við unglinginn um kynferðisleg smáskilaboð

Að ræða við unglinginn um kynferðisleg smáskilaboð

VANDINN

Þú hefur heyrt að kynferðisleg samskipti í gegnum farsíma séu algeng meðal unglinga. Þú veltir kannski fyrir þér hvort barnið þitt myndi taka þátt í slíku?

Þú vilt ræða við barnið þitt um þetta en veist ekki hvernig þú átt að fara að því. Fyrst þarftu að hugleiða hvers vegna sumt ungt fólk stundar þetta sín í milli og hvers vegna þú ættir að láta þig málið varða. *

ÁSTÆÐAN

  • Sumir unglingar senda kynferðisleg smáskilaboð til að daðra við einhvern sem þeir eru hrifnir af.

  • Stundum sendir stelpa djarfa mynd af sér af því að strákur þrýstir á hana að gera það.

  • Stundum áframsendir strákur djarfa mynd af stelpu á marga til að skemmta vinum sínum eða til að ná sér niðri á henni eftir að þau eru hætt saman.

Hver svo sem ástæðan er getur unglingur vopnaður farsíma komist í mikil vandræði. „Líf manneskju getur breyst varanlega með því að ýta á einn takka,“ segir í bókinni CyberSafe.

Margir gera sér ekki grein fyrir að þegar mynd er komin á Netið missir sendandinn stjórn á því hvernig hún er notuð. Í fréttatilkynningu frá Alríkislögreglu Bandaríkjanna kom fram að 18 ára stelpa hafi „svipt sig lífi eftir að nektarmynd, sem hún sendi kærastanum úr farsíma, hafði verið dreift til hundruða unglinga í skólanum. Nemendur, sem héldu áfram að dreifa myndinni, eru sagðir hafa áreitt stelpuna.“

Kynferðisleg smáskilaboð vekja líka lagalegar spurningar. Sums staðar hafa börn undir lögaldri, sem hafa sent öðrum börnum kynferðisleg smáskilaboð, verið ákærð fyrir dreifingu barnakláms og komist á skrá hjá yfirvöldum sem kynferðisafbrotamenn. Foreldrar gætu líka þurft að sæta ábyrgð ef þeir eru skráðir fyrir símanum eða ef þeir reyna ekki að koma í veg fyrir að barnið sendi kynferðisleg skilaboð.

 HVAÐ ER TIL RÁÐA?

Settu skýrar reglur. Enda þótt þú getir ekki alltaf stjórnað farsímanotkun unglingsins getur þú séð til þess að hann þekki reglurnar sem þú hefur sett og afleiðingarnar af því að brjóta þær. Mundu líka að sem foreldri hefurðu rétt á að fylgjast með farsímanotkun unglingsins. – Meginregla: Efesusbréfið 6:1.

Hvettu unglinginn til að hugsa málið til hlítar. Þú gætir sagt: „Það er mismunandi hvað fólk skilgreinir sem kynferðisleg skilaboð. Hvernig myndir þú skilgreina þau?“ „Hvers konar myndir eru óviðeigandi að þínu mati?“ „Sums staðar telst það refsivert að ungmenni sendi nektarmynd af öðru ungmenni. Finnst þér þetta svo alvarlegt?“ „Hvers vegna væri þetta siðferðilega rangt?“ Hlustaðu vandlega á sjónarmið unglingsins og hvettu hann til að hugsa um afleiðingarnar af því að ýta á senda-takkann. – Meginregla: Hebreabréfið 5:14.

Hugsaðu um afleiðingarnar af því að ýta á senda-takkann.

Ræðið um hugsanlegar aðstæður. Þú gætir sagt við dóttur þína: „Segjum sem svo að strákur þrýsti á stelpu að senda honum kynferðisleg skilaboð. Hvað ætti hún að gera? Láta undan svo að hann hætti ekki að vera vinur hennar? Neita en daðra samt við hann? Binda enda á sambandið? Ræða þetta við einhvern fullorðinn?“ Hjálpaðu dóttur þinni þannig að rökhugsa. Að sjálfsögðu gætirðu rætt á svipuðum nótum við son þinn. – Meginregla: Galatabréfið 6:7.

Höfðaðu til betri vitundar unglingsins. Spyrðu á þessa leið: „Hversu mikilvægt finnst þér að hafa gott mannorð? Hvaða eiginleika viltu vera þekktur fyrir? Hvernig myndi þér líða ef þú niðurlægðir einhvern með því að áframsenda óviðeigandi mynd? Hvernig myndi þér líða ef þú tækir hugrakka afstöðu með því sem er rétt?“ Hjálpaðu unglingnum að ,hafa góða samvisku‘. – 1. Pétursbréf 3:16.

Vertu góð fyrirmynd. Biblían segir að viskan frá Guði sé hrein og hræsnislaus. (Jakobsbréfið 3:17) Endurspeglar gildismat þitt þessi orð Biblíunnar? „Við þurfum að vera góðar fyrirmyndir sjálf og horfa ekki á myndir og vefsíður sem gætu talist ósiðlegar eða bannaðar,“ segir í bókinni CyberSafe.

^ gr. 5 Þegar talað er um kynferðisleg smáskilaboð er átt við að senda ljósmyndir, myndskeið eða textaskilaboð af kynferðislegu tagi með farsíma. Finna má fleiri upplýsingar á vefsíðunni jw.org/is. Þar er greinin „Ungt fólk spyr – hvað ætti ég að vita um kynferðisleg smáskilaboð?“ Sjá BIBLÍAN OG LÍFIÐ > UNGLINGAR.