Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | FAN YU

Hugbúnaðarverkfræðingur skýrir frá trú sinni

Hugbúnaðarverkfræðingur skýrir frá trú sinni

DR. FAN YU byrjaði starfsferil sinn sem stærðfræðingur hjá kjarnorkustofnun Kína í nágrenni Peking. Þar stundaði hann rannsóknir. Á þeim tíma var hann trúleysingi og taldi að lífið hefði þróast. En núna trúir hann á Guð og að lífið hafi verið hannað og skapað af Guði. Vaknið! spurði hann út í trú hans.

Segðu okkur aðeins frá sjálfum þér.

Ég fæddist árið 1959 í borginni Fuzhou í Jiangxi-sýslu í Kína. Þegar ég var um átta ára gamall var landið undir áhrifum af menningarbyltingunni. Faðir minn var byggingarverkfræðingur og honum var fyrirskipað að leggja járnbraut um óbyggðir fjarri heimili okkar. Lengi vel gat hann aðeins heimsótt okkur einu sinni ári. Ég bjó hjá móður minni sem var kennari í grunnskóla. Við bjuggum í skólanum þar sem hún kenndi. Árið 1970 urðum við að flytjast til Liufang sem á þeim tíma var fátæklegur smábær í Linchuan-héraði. Þar var matur af skornum skammti.

Hvaða trú ertu alinn upp við?

Faðir minn hafði hvorki áhuga á trúarbrögðum né stjórnmálum. Móðir mín var búddisti. Í skólanum var mér kennt að lífið hefði orðið til við þróun og ég trúði því sem kennararnir sögðu.

Hvernig kviknaði áhugi þinn á stærðfræði?

Ég heillaðist af stærðfræði vegna þess að með henni er reynt að komast að sannleikanum með því að beita rökhugsun. Ég fór í háskóla stuttu eftir að Mao Tse-tung, leiðtogi byltingarinnar, lést árið 1976. Ég valdi stærðfræði sem aðalfag. Eftir að ég lauk meistaranámi vann ég við stærðfræðilegar rannsóknir tengdar byggingu kjarnakljúfa.

Hver voru fyrstu kynni þín af Biblíunni?

Árið 1987 fór ég til Bandaríkjanna til að ná mér í doktorsgráðu í Texas A&M-háskólanum. Ég tók eftir að margir þar í landi trúðu á Guð og lásu Biblíuna. Ég hafði líka heyrt að í Biblíunni væri að finna hagnýta visku og þess vegna ákvað ég að lesa hana.

Mér fannst það sem Biblían kenndi gagnlegt. En sumt var erfitt að skilja og ég hætti því fljótlega að lesa hana.

Hvað vakti áhuga þinn á Biblíunni að nýju?

Hugmyndin um skapara var ný fyrir mér svo að ég ákvað að rannsaka málið á eigin spýtur.

Árið 1990 bankaði kona, sem er vottur Jehóva, upp á hjá mér og sýndi mér loforð Biblíunnar um betri framtíð. Hún fékk síðan hjón til að koma og aðstoða mig við að skilja Biblíuna. Síðar fór Liping, eiginkona mín, einnig að kynna sér Biblíuna en hún hafði kennt eðlisfræði í framhaldsskóla í Kína og var trúleysingi eins og ég. Við lærðum hvað Biblían kennir um uppruna lífsins. Hugmyndin um skapara var ný fyrir mér svo að ég ákvað að rannsaka málið á eigin spýtur.

Hvernig gerðirðu það?

Sem stærðfræðingur var ég vanur að nota líkindareikning. Ég hafði líka lært að til að líf geti orðið til af sjálfu sér þurfa prótín að vera til fyrir. Ég reyndi því að reikna út líkurnar á því að prótín yrðu til af sjálfu sér. Prótín eru meðal flóknustu sameinda sem vitað er um og í lifandi frumum geta verið þúsundir mismunandi prótína sem vinna saman á hárnákvæman hátt. Eins og fleiri hafa gert áttaði ég mig á að það er svo ólíklegt að prótín geti orðið til af tilviljun að það er í rauninni útilokað. Ég hef ekki rekist á neitt innan þróunarfræðinnar sem útskýrir að mínu mati á fullnægjandi hátt hvernig þessar gríðarlega flóknu sameindir hefðu getað búið sig til sjálfar og enn síður hvernig þær hefðu getað myndað lífverur – en sameindir eru ómissandi þáttur í þeim. Þetta sýndi mér að það hlyti að vera til skapari.

Hvað sannfærði þig um að Biblían sé frá Guði?

Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna með hjálp votta Jehóva og lærði að í henni er að finna marga ítarlega spádóma sem þegar hafa ræst. Ég fann líka hversu góð áhrif það hefur að fylgja meginreglum hennar. Ég velti því fyrir mér hvernig biblíuritararnir, sem voru uppi fyrir þúsundum ára, gátu miðlað visku sem gagnast okkur enn í dag. Smám saman áttaði ég mig á að Biblían er orð Guðs.

Hvað styrkir sannfæringu þína um að til sé skapari?

Þegar ég hugsa um öll frumefnin í náttúrunni get ég ekki annað en trúað á skapara. Ég hanna hugbúnað fyrir tölvur og ég er oft agndofa yfir því hversu miklu framar mannsheilinn stendur tölvuhugbúnaði. Það er til dæmis undravert að heilinn geti greint og þekkt tal. Flest okkar geta auðveldlega skilið tal jafnvel þótt setningar séu ekki heilar og þótt við heyrum samtímis hlátur, hósta, stam, hreim, bergmál, bakgrunnshljóð eða símhringingu. Kannski finnst þér þetta ekkert merkilegt en þeir sem hanna tölvuhugbúnað finnst þetta stórmerkilegt. Þeir vita að jafnvel fullkomnasti hugbúnaður, sem skynjar tal, stendur mannsheilanum langt að baki.

Mannsheilinn getur greint tilfinningar, skynjað hreim og þekkt fólk á röddinni en það geta jafnvel flóknustu tölvur ekki gert. Hugbúnaðarverkfræðingar rannsaka nú hvernig hægt sé að láta tölvur líkja eftir mannsheilanum þegar þeir hanna hugbúnað til að greina raddir. Ég er ekki í nokkrum vafa um að þeir séu í raun að rannsaka það sem Guð hefur búið til.