Hoppa beint í efnið

VIÐTAL | ANTONIO DELLA GATTA

Hvers vegna prestur sagði sig úr kirkjunni sinni

Hvers vegna prestur sagði sig úr kirkjunni sinni

ANTONIO Della Gatta var vígður sem prestur árið 1969 eftir að hafa stundað nám í Róm í níu ár. Seinna þjónaði hann sem sóknarprestur í prestaskóla nálægt Napólí. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu, eftir að hafa rannsakað og hugleitt málið vel, að kaþólsk trú væri ekki byggð á Biblíunni. Í viðtali við Vaknið! talar hann um leit sína að Guði.

Segðu okkur frá æsku þinni.

Ég fæddist á Ítalíu árið 1943. Við systkinin ólumst upp í litlu þorpi þar sem pabbi var bóndi og smiður. Foreldrar okkar kenndu okkur að vera góðir kaþólikkar.

Hvers vegna langaði þig að verða prestur?

Þegar ég var ungur hafði ég yndi af því að hlusta á prestana í kirkjunni. Ég hreifst af rödd þeirra og tilkomumiklu trúarathöfnunum. Þess vegna hafði ég sterka löngun til þess að verða prestur. Þegar ég var 13 ára fór mamma með mig í heimavistarskóla sem undirbjó stráka fyrir framhaldsnám í prestsembætti.

Fól kennslan í sér biblíunám?

Eiginlega ekki. Þegar ég var 15 ára gaf einn kennaranna mér eintak af guðspjöllunum – frásögur af lífi og boðun Jesú – og ég las bókina nokkrum sinnum. Þegar ég var 18 ára fór ég til Rómar til að stunda nám í háskóla sem heyrði beint undir páfann. Ég lærði latínu, grísku, sögu, heimspeki, sálfræði og guðfræði. Við lásum vers úr Biblíunni og hlustuðum á biblíulestra í kirkjunni á sunnudögum en það er ekki hægt að segja að við höfum stundað biblíunám.

Þú varðst sóknarprestur. Fól það í sér að kenna?

Ég sinnti aðallega umsjónarstörfum. En ég hélt kennslustundir um úrskurði annars Vatíkanþingsins.

Hvers vegna fórstu að efast um kirkjuna?

Það var þrennt sem truflaði mig. Kirkjan tók þátt í stjórnmálum. Slæm hegðun var látin viðgangast bæði meðal prestastéttarinnar og sóknarbarnanna. Og sumar kaþólskar kenningar virtust órökréttar. Hvernig gæti til dæmis Guð kærleikans refsað fólki að eilífu eftir dauðann? Og vill Guð virkilega að við endurtökum bænaþulur mörg hundruð sinnum? *

Hvað gerðir þú?

Ég grátbað Guð um leiðsögn. Ég keypti líka eintak af Jerusalem Bible, kaþólskri biblíu sem var nýlega komin út á ítölsku, og byrjaði að lesa hana. Það var svo einn sunnudagsmorgun þegar ég var að hengja upp hökulinn minn eftir messu að tveir menn komu í prestaskólann. Þeir kynntu sig og sögðust vera vottar Jehóva. Við spjölluðum saman í meira en klukkustund um Biblíuna og það sem hún segir um hvernig hægt sé að bera kennsl á sanna trú.

Hvað fannst þér um þessa gesti?

Ég dáðist af sannfæringu þeirra og hve auðveldlega þeir gátu vísað í vers úr kaþólskri biblíu. Seinna fór Mario, annar vottur, að heimsækja mig. Hann var þolinmóður og trúfastur – hann hringdi dyrabjöllunni á prestaskólanum klukkan níu á hverjum einasta laugardagsmorgni, sama hvernig viðraði.

Hvað fannst hinum prestunum um þessar heimsóknir?

Ég bauð þeim að taka þátt í umræðum okkar en enginn þeirra tók biblíunámið alvarlega. En ég hafði mikla ánægju af því. Ég lærði yndisleg sannindi eins og það hvers vegna Guð leyfir illsku og þjáningar, en það hafði lengi þvælst fyrir mér.

Reyndu yfirboðarar þínir að fá þig til að hætta að kynna þér Biblíuna?

Árið 1975 fór ég nokkrum sinnum til Rómar til að útskýra viðhorf mitt. Yfirboðarar mínir reyndu að fá mig til að skipta um skoðun en enginn þeirra notaði Biblíuna. Ég skrifaði að lokum bréf til Rómar 9. janúar 1976 til að skýra frá því að ég leit ekki lengur á mig sem kaþólikka. Tveim dögum seinna yfirgaf ég prestaskólann og fór með lest á samkomu Votta Jehóva í fyrsta sinn. Samkoman reyndist vera mót þar sem nokkrir söfnuðir voru saman komnir. Allt var svo ólíkt því sem ég var vanur! Allir vottarnir voru með Biblíu og fylgdust með í henni þegar ræðumennirnir fjölluðu um ýmis efni.

Hvað fannst fjölskyldu þinni um allt þetta?

Flestir voru mjög andsnúnir. En ég komst að því að einn bræðra minna var að kynna sér Biblíuna með aðstoð vottanna í Lombardy-héraði á Norður-Ítalíu. Ég heimsótti hann og vottarnir á staðnum hjálpuðu mér að finna vinnu og húsnæði. Seinna sama ár skírðist ég sem vottur Jehóva.

Loksins finnst mér ég náinn Guði.

Sérðu eftir einhverju?

Alls ekki! Loksins finnst mér ég náinn Guði vegna þess að nú þekki ég hann út frá Biblíunni en ekki heimspeki eða kirkjuhefðum. Og ég get kennt öðrum af sannfæringu og einlægni.

^ gr. 13 Biblían svarar þessum spurningum og fleirum á skýran hátt. undir BIBLÍAN OG LÍFIÐ > BIBLÍUSPURNINGAR OG SVÖR.