Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

VIÐTAL | RAJESH KALARIA

Sérfræðingur í heilasjúkdómum skýrir frá trú sinni

Sérfræðingur í heilasjúkdómum skýrir frá trú sinni

RAJESH KALARIA, prófessor við Newcastle-háskóla á Englandi, hefur starfað við rannsóknir á mannsheilanum í meira en 40 ár. Hann var áður þróunarsinni en skipti síðar um skoðun. Blaðið Vaknið! lagði fyrir hann nokkrar spurningar um störf hans og trú.

Segðu okkur frá trúaruppeldi þínu.

Faðir minn fæddist á Indlandi og móðir mín er af indverskum ættum en fædd í Úganda. Þau lifðu að mestu leyti eftir siðum hindúa. Ég er annar í röðinni af þrem börnum. Við bjuggum í Naíróbí í Keníu en margir hindúar bjuggu þar um slóðir.

Hvað vakti áhuga þinn á vísindum?

Ég hafði alltaf áhuga á dýrum og fór oft í göngu- og tjaldferðir með vinum mínum til að virða fyrir mér fjölbreytt dýralífið. Ég ætlaði mér að verða dýralæknir. En eftir að ég útskrifaðist úr tækniháskóla í Naíróbí hélt ég til Englands og stundaði nám í sjúkdómafræði við Lundúnaháskóla. Ég sérhæfði mig síðar í rannsóknum á mannsheilanum.

Hafði námið áhrif á hverju þú trúðir?

Já. Því meira sem ég lærði um vísindi því erfiðara þótti mér að meðtaka goðsagnir og erfðavenjur hindúa, svo sem að tilbiðja dýr og líkneski.

Hvers vegna fórstu að aðhyllast þróunarkenninguna?

Þegar ég var yngri var það útbreidd skoðun meðal þeirra sem ég umgekkst að þróun mannsins hefði hafist í Afríku og við ræddum þessa hugmynd oft í skólanum. Kennarar og prófessorar létu líka í veðri vaka við okkur nemendurna að allir virtir vísindamenn aðhylltust þróunarkenninguna.

Síðar endurskoðaðir þú afstöðu þína til uppruna lífsins. Hvers vegna?

Ég hafði stundað nám í líffræði og líffærafræði í nokkur ár þegar annar nemandi sagði mér að hann væri að kynna sér Biblíuna með hjálp votta Jehóva. Það vakti forvitni mína. Þegar vottarnir héldu mót í fundarsal háskólans okkar í Naíróbí ákvað ég að mæta. Tveir trúboðar vottanna útskýrðu síðar fyrir mér sumar af kenningum Biblíunnar. Kenningar þeirra um stórkostlegan hönnuð, sem hefur svör við stóru spurningunum í lífinu, hljómuðu ekki eins og goðsagnir. Mér fannst þær rökréttar og þær vöktu áhuga minn.

Gerði læknisfræðiþekkingin þér erfitt fyrir að trúa á sköpun?

Síður en svo. Námið í líffærafræðinni sýndi mér fram á hve vel hannaðar og margbrotnar lifandi verur eru. Mér fannst ekki lengur heil brú í því að svona flókin smíð hefði myndast við tilviljanakennt ferli.

Geturðu nefnt dæmi?

Ég byrjaði að rannsaka mannsheilann upp úr 1970 og þetta undraverða líffæri kemur mér sífellt á óvart. Heilinn er setur hugsunar og minnis og stjórnstöð fyrir margs konar líkamsstarfsemi. Hann er líka miðstöð margra af skilningarvitunum og túlkar upplýsingar sem berast honum bæði innan úr líkamanum og utan frá.

Það er margbrotinni efnastarfsemi og flóknu neti taugunga að þakka að heilinn starfar eins og raun ber vitni. Taugungar eru helstu frumur heilans og í mannsheilanum eru milljarðar taugunga. Þeir bera boð sín á milli eftir löngum þráðum sem kallast taugasími. Einn taugungur getur myndað þúsundir tenginga við aðra taugunga með því að greinast í þræði sem kallast taugagriplur. Fyrir vikið eru tengingarnar í heilanum stjarnfræðilega margar. Og það sem meira er, þessi þétti skógur taugunga og taugagriplna er ekki skipulagslaus heldur nákvæmlega skipulagður. Þessi „raflögn“ er hreint undur.

Viltu skýra þetta nánar?

„Raflögnin“ myndast mjög skipulega meðan barn er í móðurkviði og eins eftir að það fæðist. Taugungar senda út þræði til annarra taugunga sem geta verið í nokkurra sentímetra fjarlægð. Það er gríðarleg vegalengd þegar um frumur er að ræða. Og taugaþráðurinn stefnir ekki alltaf bara á ákveðna frumu heldur jafnvel á ákveðinn hluta hennar.

Þegar nýr þráður greinist út frá taugungi verða á vegi hans efnafræðilegir vegvísar sem gefa fyrirmæli eins og „stopp“, „af stað“ eða „beygja“ þangað til þráðurinn nær í mark. Þræðirnir myndu fljótlega villast ef þeir fengju ekki skýr fyrirmæli. Allt ferlið er snilldarlega útfært og á upptök sín í erfðaefninu DNA.

Það vantar þó mikið upp á að við skiljum til fulls hvernig heilinn þroskast og starfar, þar á meðal hvernig hann myndar minningar, tilfinningar og hugsanir. Það eitt að heilinn skuli virka – að ekki sé nú talað um hve vel hann virkar og hve frábærlega hann þroskast – segir mér að til sé hugsuður sem er miklu æðri en við.

Hvers vegna gerðist þú vottur Jehóva?

Vottarnir sýndu mér rök fyrir því að Biblían sé orð Guðs. Til dæmis má nefna að Biblían fer alltaf með rétt mál þegar hún minnist á vísindaleg efni, þó að hún sé ekki vísindarit. Hún hefur líka að geyma nákvæma spádóma. Og hún bætir líf þeirra sem fara eftir henni. Líf mitt er til vitnis um það. Biblían hefur verið leiðsögubókin mín síðan ég gerðist vottur Jehóva árið 1973. Þar af leiðandi hef ég átt ánægjulega og innihaldsríka ævi.