Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Fornum dýrgrip bjargað úr ruslinu

Fornum dýrgrip bjargað úr ruslinu

HVAÐ sérðu fyrir þér þegar þú hugsar um ruslahaug? Eflaust dettur þér í hug úrgangur og ólykt. Þú átt sennilega ekki von á að þar finnist einhver verðmæti, þaðan af síður ómetanlegur dýrgripur.

Fyrir um 100 árum fannst þó eins konar dýrgripur einmitt á slíkum stað – í ruslinu. Þótt þessi dýrgripur hafi ekki verið bókstaflegur gimsteinn var hann samt sem áður afar verðmætur. En hvers konar dýrgripur var þetta? Af hverju er þessi fundur þýðingarmikill fyrir okkur nú á tímum?

ÓVÆNTUR FUNDUR

Undir lok 19. aldar fóru Bernard P. Grenfell og Arthur S. Hunt, fræðimenn við Oxfordháskóla, til Egyptalands. Á ruslahaugum í grennd við Nílardalinn fundu þeir nokkur brot af papírushandritum. Árið 1920, meðan þeir unnu enn hörðum höndum að því að skrá þessi handrit, keypti Grenfell fleiri handritabrot sem fundist höfðu við uppgröft í Egyptalandi. Hann keypti þau fyrir hönd John Rylands-bókasafnsins í Manchester á Englandi. Báðir mennirnir létust þó áður en þeim tókst að ljúka við að skrá öll handritin.

Annar fræðimaður við Oxfordháskóla, Colin H. Roberts að nafni, sá um að ljúka verkinu. Meðan hann var að flokka handritabrotin kom hann auga á handritaslitur úr papírus sem var 9 sentímetrar á lengd og 6 sentímetrar á breidd. Honum til undrunar kannaðist hann við grísku orðin á papírusslitrinu. Orðin á annarri hliðinni voru úr Jóhannesi 18:31-33. Á hinni hliðinni var hluti af versi 37 og 38. Roberts varð strax ljóst að hann hafði rekist á ómetanlegan dýrgrip.

HANDRITABROTIÐ ALDURSGREINT

Roberts grunaði að þetta papírusslitur væri mjög gamalt. En hversu gamalt? Til að komast að því bar hann saman rithöndina á papírusslitrinu við önnur forn handrit sem búið var að aldursgreina – en sú fræðigrein er kölluð fornletursfræði. * Með þessari aðferð gat hann áætlað aldur brotsins. Hann vildi þó vera alveg viss. Hann tók því mynd af papírusbrotinu, sendi hana til þriggja papírushandritasérfræðinga og bað þá um að ákvarða aldur þess. Að hvaða niðurstöðu komust þessir sérfræðingar?

Með því að rannsaka skriftarstílinn og lögun bókstafanna komust allir þrír sérfræðingarnir að þeirri niðurstöðu að textinn á papírusbrotinu hafði verið færður í letur um árið 125 e.Kr., aðeins fáum áratugum eftir að Jóhannes postuli dó. Fornletursfræði er þó ekki alveg örugg aðferð við að ráða aldur handrita og annar fræðimaður telur að textinn gæti hafa verið skrifaður hvenær sem er á annarri öld. Þrátt fyrir það var þetta litla papírusslitur elsta handritabrotið sem fundist hafði af Grísku ritningunum – og er það enn þann dag í dag.

ÞAÐ SEM RYLANDS-HANDRITABROTIÐ LEIÐIR Í LJÓS

Af hverju er þetta handritabrot af guðspjalli Jóhannesar þýðingarmikið fyrir þá sem unna Biblíunni nú á dögum? Fyrir því eru að minnsta kosti tvær ástæður. Fyrri ástæðan er sú að handritabrotið gefur okkur dálitla innsýn í hversu mikils frumkristnir menn mátu ritningarnar.

Af hverju er þetta handritabrot af guðspjalli Jóhannesar þýðingarmikið fyrir þá sem unna Biblíunni nú á dögum?

Á annarri öld var hægt að lesa ritaðan texta annars vegar í bókrollu og hins vegar í bókarformi. Bókrollur voru úr papírus- eða skinnörkum sem voru límdar eða saumaðar saman þannig að úr varð ein löng örk. Örkin var fest á kefli og henni rúllað saman. Við lestur var henni síðan rúllað út. Í flestum tilfellum var aðeins skrifað á aðra hlið bókrollunnar.

Hins vegar er skrifað báðum megin á litla handritabrotið sem Roberts fann. Það gæti verið vísbending um að brotið hafi verið hluti af bók frekar en bókrollu. Slík bók var búin til úr skinn- eða papírusörkum sem voru saumaðar saman á jöðrunum þannig að þær mynduðu eina lengju sem síðan var brotin saman á víxl.

Hvaða yfirburði hafði bókarformið yfir bókrolluna? Jú, frumkristnir menn voru trúboðar. (Matteus 24:14; 28:19, 20) Þeir boðuðu boðskap Biblíunnar hvar sem fólk var að finna: í heimahúsum, á markaðstorgum og á götum úti. (Postulasagan 5:42; 17:17; 20:20) Það var því mun hentugra fyrir þá að fletta upp í ritningunum í bókarformi.

Auk þess gerði bókarformið bæði söfnuðum og einstaklingum auðveldara fyrir að afrita ritningarnar til eigin nota. Guðspjöllin voru því afrituð ótal sinnum og eflaust stuðlaði það að útbreiðslu kristinnar trúar.

Rylands-handritabrotið fram- og bakhlið

Síðari ástæðan fyrir því að Rylands-handritabrotið er þýðingarmikið fyrir okkur nú á dögum er sú að það leiðir í ljós að frumtexti Biblíunnar hefur verið afritaður nákvæmlega. Þótt handritabrotið hafi aðeins að geyma nokkur vers úr Jóhannesarguðspjalli er orðalagið næstum hið sama og við lesum í biblíum okkar nú á dögum. Rylands-handritabrotið sýnir þannig fram á að texta Biblíunnar hefur ekki verið breytt þótt hann hafi verið afritaður margoft í gegnum tíðina.

Rylands-handritabrotið af guðspjalli Jóhannesar er auðvitað aðeins eitt af mörg þúsund handritum og handritabrotum sem staðfesta að frumtexti Biblíunnar hefur verið afritaður af mikilli nákvæmni. Werner Keller sagði í bók sinni The Bible as History: „Þessi gömlu [handrit] eyða allri óvissu um að textinn, sem er í biblíunum nú á dögum, sé réttur og nákvæmur.“

Fylgjendur Jesú byggja trú sína auðvitað ekki á fornleifafundum. Þeir trúa því að „sérhver ritning [sé] innblásin af Guði“. (2. Tímóteusarbréf 3:16) Það er engu að síður traustvekjandi þegar ómetanlegir dýrgripir úr fortíðinni staðfesta að „orð Drottins varir að eilífu“. – 1. Pétursbréf 1:25.

^ gr. 8 Að sögn Íslensku alfræðiorðabókarinnar er fornletursfræði „fræðigrein um leturtegundir fornaldar og miðalda; notuð til að ráða aldur og uppruna handrita“. Með tímanum breytist rithandarstíll smám saman. Breytingarnar geta leitt í ljós hve gamalt handritið er ef hægt er að bera það saman við önnur handrit sem búið er að aldursgreina með áreiðanlegum hætti.