Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

 BIBLÍAN BREYTIR LÍFI FÓLKS

Þrjár spurningar breyttu lífi mínu

Þrjár spurningar breyttu lífi mínu
  • FÆÐINGARÁR: 1949

  • FÖÐURLAND: BANDARÍKIN

  • FORSAGA: LEITAÐI AÐ TILGANGI Í LÍFINU

FORTÍÐ MÍN:

Ég ólst upp í Ancram, litlum smábæ í norðurhéraði New York-ríkis í Bandaríkjunum. Þar var fjöldinn allur af kúabúum og reyndar voru kýrnar í bænum fleiri en fólkið.

Í Ancram var aðeins ein kirkja og við fjölskyldan tilheyrðum henni. Á sunnudagsmorgnum var afi vanur að pússa skóna mína áður en ég hélt af stað í sunnudagaskólann með litlu hvítu biblíuna sem amma hafði gefið mér. Okkur systkinunum var kennt að vera iðjusöm, hjálpsöm, sýna náunganum virðingu og vera þakklát fyrir allt það góða sem við fengum.

Þegar ég varð eldri flutti ég að heiman og gerðist kennari. Margar spurningar brunnu á mér bæði um lífið og tilveruna og um Guð. Nemendur mínir voru sumir hverjir mjög hæfileikaríkir. Aðrir, sem voru ekki eins hæfileikaríkir, lögðu samt hart að sér við námið. Sumir áttu við líkamlega fötlun að stríða en aðrir sköruðu fram úr í íþróttum. Ég hugsaði með mér hversu óréttlátt þetta væri. Foreldrar barnanna, sem minna máttu sín, sögðu stundum að það hefði verið vilji Guðs að barnið þeirra væri svona. Ég velti því fyrir mér hvers vegna Guð léti sum börn fæðast fötluð. Þegar öllu var á botninn hvolft höfðu þessi litlu börn ekki gert neitt af sér.

Ég velti líka fyrir mér hvort líf mitt hefði sannan tilgang. Mér fannst lífið þjóta hjá. Ég hafði alist upp í indælli fjölskyldu, gengið í góða skóla og mér líkaði vel að vinna sem kennari. En fyrir utan það fannst mér lífið innantómt. Í besta falli myndi ég kannski giftast, eignast gott heimili og nokkur börn, halda áfram að vinna þar til ég færi á eftirlaun og að lokum flytja á elliheimili. Ég velti fyrir mér hvort þetta væri allt og sumt.

HVERNIG BIBLÍAN BREYTTI LÍFI MÍNU:

Eitt sumar ferðaðist ég um Evrópu með nokkrum samkennurum mínum. Við heimsóttum Westminster Abbey í London, Notre Dame-kirkjuna í París, Vatíkanið í Róm og einnig margar minni kirkjur. Hvar sem ég kom spurði ég spurninganna sem brunnu á mér. Þegar ég kom aftur heim til Sloatsburg í New York heimsótti ég fleiri kirkjur. En ég fékk hvergi fullnægjandi svör.

 Dag einn kom 12 ára nemandi minn til mín og spurði mig þriggja spurninga. Fyrst spurði hún hvort ég vissi að hún væri vottur Jehóva. Ég svaraði því játandi. Svo spurði hún hvort ég vildi vita meira um Votta Jehóva og ég sagðist vilja það. Síðan spurði hún hvar ég ætti heima. Þegar ég gaf henni upp heimilisfangið mitt kom í ljós að ég bjó í næsta nágrenni við hana. Mig grunaði ekki þá að þessar þrjár spurningar, sem þessi litla stúlka spurði mig, ættu eftir að breyta lífi mínu.

Nokkrum dögum seinna kom hún hjólandi heim til mín og bauð mér biblíunámskeið. Ég spurði hana sömu spurninga og ég hafði spurt fjölmarga presta. En ólíkt þeim sýndi hún mér svörin í minni eigin biblíu – skýr og fullnægjandi svör sem ég hafði ekki rekið augun í áður.

Biblíusannindin, sem ég lærði, fylltu mig gleði og ánægju. Það hafði mikil áhrif á mig að lesa 1. Jóhannesarbréf 5:19 en þar segir: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ Mér létti að vita að það er ekki Guð heldur Satan sem stendur að baki öllum hörmungunum sem eiga sér stað í heiminum, og að Guð muni ráða bót á öllu því tjóni sem Satan hefur valdið. (Opinberunarbókin 21:3, 4) Ég komst að raun um að sannindi Biblíunnar eru rökrétt þegar þau eru útskýrð með einföldum og skýrum hætti. Jafnvel þó að votturinn, sem leiðbeindi mér við biblíunámið, væri bara 12 ára áttaði ég mig á að ég væri að læra sannleikann.

Mig langaði samt að komast að því hvort vottarnir færu sjálfir eftir því sem þeir kenndu. Þessi unga stúlka hafði til dæmis oft talað um að sannir fylgjendur Jesú sýndu góða eiginleika eins og þolinmæði og gæsku. (Galatabréfið 5:22, 23) Mig langaði því að láta reyna á það hvort hún sýndi þessa eiginleika sjálf. Dag einn ákvað ég að koma of seint í biblíunámsstundina. Ég hugsaði með mér: ,Skyldi hún bíða eftir mér? Og ef svo er, ætli hún verði reið yfir því að ég komi of seint?‘ Þegar ég lagði bílnum við húsið mitt sá ég að hún beið mín á tröppunum. Hún hljóp að bílnum og sagði: „Ég var næstum því farin heim til að biðja mömmu að hringja í spítalana og í lögregluna til að athuga hvort eitthvað hefði komið fyrir þig af því að þú ert aldrei of sein í námsstundina. Ég hafði svo miklar áhyggjur af þér!“

Við annað tækifæri spurði ég hana spurningar sem ég taldi að 12 ára barn ætti erfitt með að svara. Mig langaði að sjá hvort hún myndi bara giska á svarið. Þegar ég spurði spurningarinnar svaraði hún alvarleg í bragði: „Þetta er erfið spurning. Ég ætla að skrifa hana niður og spyrja foreldra mína.“ Og viti menn, næst þegar hún kom lét hún mig fá eintak af Varðturninum og í því stóð svarið við spurningu minni. Það sem laðaði mig að vottunum var einmitt það að ritin þeirra höfðu að geyma biblíuleg svör við öllum spurningum mínum. Ég hélt áfram að kynna mér Biblíuna með aðstoð þessarar ungu stúlku og ári síðar lét ég skírast sem vottur Jehóva. *

HVERNIG ÞAÐ HEFUR VERIÐ MÉR TIL GÓÐS:

Nú hafði ég loksins fengið fullnægjandi svör við spurningum mínum og mig langaði til að segja öðrum frá því sem ég hafði lært. (Matteus 12:35) Í fyrstu var fjölskylda mín andvíg trú minni. En með tímanum mildaðist þó afstaða þeirra. Stuttu áður en móðir mín lést fór hún að kynna sér Biblíuna. Þótt hún hafi ekki náð að láta skírast áður en hún dó er ég sannfærð um að hún hafi verið ákveðin í að þjóna Jehóva.

Árið 1978 giftist ég Eliasi Kazan, sem einnig var vottur. Árið 1981 var okkur hjónunum boðið að þjóna á Betel * í Bandaríkjunum. Eftir að hafa verið þar í aðeins fjögur ár lést Elias. Þó að ég væri nú orðin ekkja hélt ég áfram að starfa á Betel og það hjálpaði mér að hafa eitthvað jákvætt fyrir stafni og færði mér ákveðna huggun.

Árið 2006 giftist ég Richard Eldred sem einnig þjónar á Betel. Við Richard njótum þess heiðurs að mega að starfa saman á Betel. Núna veit ég sannleikann um Guð og mér finnst ég ekki aðeins hafa fengið svör við spurningunum, sem brunnu á mér, heldur einnig öðlast sannan tilgang í lífinu. Aldrei hefði mér dottið í hug að þrjár spurningar lítillar stúlku myndu breyta lífi mínu!

^ gr. 16 Stúlkan og systkini hennar aðstoðuðu alls fimm kennara við biblíunám og þeir urðu síðan vottar Jehóva.

^ gr. 18 „Betel“ merkir „Guðs hús“ og er heiti sem Vottar Jehóva nota yfir deildarskrifstofur sínar um allan heim. (1. Mósebók 28:17, 19, Biblían 1981, neðanmáls) Þeir sem tilheyra Betelfjölskyldunni sinna margvíslegum verkefnum til að styðja fræðslustarf Votta Jehóva.