Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

FORSÍÐUEFNI | BIBLÍAN – HVERNIG HEFUR HÚN VARÐVEIST?

Biblíunni forðað frá skemmdum

Biblíunni forðað frá skemmdum

ÓGNIN: Papírus og bókfell er sá efniviður sem biblíuritararnir og afritarar notuðu aðallega til að skrifa á. * (2. Tímóteusarbréf 4:13) En hvernig stefndi þessi efniviður Biblíunni í hættu?

Papírus rifnar auðveldlega, upplitast og slitnar. „Með tíð og tíma molna papírusarkir þannig að eftir standa þræðir og duft,“ segja Richard Parkinson og Stephen Quirke sem eru sérfræðingar í sögu og tungu Forn-Egypta. „Við geymslu geta papírusrollur myglað og rotnað vegna raka. Ef þær eru grafnar í jörð er hætta á að nagdýr eða skordýr, sérstaklega hvítir maurar, éti þær upp.“ Stundum hefur papírus skemmst eftir að hann hefur fundist. Til dæmis hefur raki eða sterkt ljós flýtt fyrir eyðingu hans.

Bókfell endist betur en papírus en skemmist líka við ranga meðhöndlun eða ef það kemst í snertingu við hátt hitastig, raka eða ljós. * Skordýr herja líka á bókfell. Í bókinni Everyday Writing in the Graeco-Roman East segir að vegna þessa sé „varðveisla frekar undantekning en regla“ þegar ævafornar skrár eiga í hlut. Ef Biblían hefði eyðilagst hefði boðskapur hennar einnig dáið út.

HVERNIG BIBLÍAN VARÐVEITTIST: Lög Gyðinga skylduðu alla konunga til að „gera afrit á bók af þessum lögum“, það er að segja fyrstu fimm bókum Biblíunnar. (5. Mósebók 17:18) Þar að auki bjuggu faglærðir afritarar til svo mörg handrit að á fyrstu öld voru ritningarnar til í samkunduhúsum um allt Ísraelsland og jafnvel í fjarlægu landi eins og Makedóníu. (Lúkas 4:16, 17; Postulasagan 17:11) Hvernig varðveittust sum af þessum fornu handritum allt fram á okkar daga?

Dauðahafshandritin svokölluðu varðveittust í margar aldir í leirkrukkum sem voru geymdar í hellum í þurru loftslagi.

„Vitað er að Gyðingar settu bókrollur, sem innihéldu ritningarnar, í krúsir eða krukkur til að varðveita þær,“ segir nýjatestamentisfræðingurinn Philip W. Comfort. Kristnir menn héldu þessari venju greinilega áfram. Þess vegna hafa forn biblíuhandrit fundist í leirkrukkum en einnig í dimmum geymslum og hellum og á sérlega þurrum landsvæðum.

ÁRANGURINN: Mörg þúsund brot af biblíuhandritum hafa varðveist fram á okkar daga og eru sum þeirra eldri en 2.000 ára. Ekki er til slíkur fjöldi ævafornra handrita af nokkru öðru fornriti.

^ gr. 3 Papírus er búinn til úr samnefndri sefplöntu. Bókfell er búið til úr dýraskinnum.

^ gr. 5 Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna var til dæmis upprunalega skrifuð á bókfell. Núna, næstum 250 árum síðar, hefur skjalið upplitast svo mikið að það er varla hægt að lesa það.