Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Gættu þín að verða ekki hrokafullur

Gættu þín að verða ekki hrokafullur

Gættu þín að verða ekki hrokafullur

„Guð stendur í gegn dramblátum.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 4:6.

1. Nefndu dæmi um viðeigandi stolt.

HEFURÐU einhvern tíma verið yfir þig stoltur af einhverju? Flestir þekkja þá tilfinningu að vera ánægðir og stoltir. Það er engan veginn rangt að vera stoltur þegar það á við. Foreldrar eru trúlega ánægðir og stoltir þegar börnin fá góðar einkunnir í skóla og góða umsögn um hegðun og frammistöðu. Páll postuli og félagar hans voru stoltir af nýjum söfnuði sem þeir höfðu átt þátt í að stofna, vegna þess að bræðurnir þar voru trúfastir og stóðust ofsóknir. — 1. Þessaloníkubréf 1:1, 6; 2:19, 20; 2. Þessaloníkubréf 1:1, 4.

2. Af hverju er stolt yfirleitt óæskilegt?

2 Af dæmunum hér að ofan má sjá að stolt getur verið það sama og ánægjukennd vegna einhvers sem maður á eða hefur afrekað. Oft ber þó stolt keim af óviðeigandi sjálfsáliti — fólki finnst það öðrum fremra sökum hæfileika, útlits, efnahags eða stöðu. Þetta birtist gjarnan í hroka og stærilæti í viðmóti og framkomu. Við sem erum kristin ættum tvímælalaust að vara okkur á stolti af því tagi. Hvers vegna? Vegna þess að við höfum meðfædda tilhneigingu til að vera eigingjörn, tilhneigingu sem við höfum tekið í arf frá Adam, forföður okkar. (1. Mósebók 8:21) Hjartað getur því hæglega leitt okkur afvega þannig að við verðum stolt af röngu tilefni. Þjónar Guðs mega til dæmis ekki vera stoltir af því að tilheyra ákveðnum kynþætti eða stoltir af efnum sínum, menntun, hæfileikum eða af því að standa sig betur en aðrir í vinnunni. Stolt, sem er sprottið af slíkum hvötum, er óviðeigandi og Jehóva hefur vanþóknun á því. — Jeremía 9:23; Postulasagan 10:34, 35; 1. Korintubréf 4:7; Galatabréfið 5:26; 6:3, 4.

3. Hvað er hroki og hvað sagði Jesús um hann?

3 Það er önnur ástæða fyrir því að við ættum að forðast óviðeigandi stolt. Ef við leyfum stolti að festa rætur í hjarta okkar getur það breyst í auvirðilegan hroka og dramblæti. Hvað er hroki? Hrokafullum manni finnst hann vera öðrum fremri og hann lítur niður á þá sem hann telur standa sér að baki. (Lúkas 18:9; Jóhannes 7:47-49) Jesús nefndi hroka ásamt öðru illu sem hann sagði koma „úr hjarta mannsins“ og ‚saurga manninn‘. (Markús 7:20-23) Kristnum mönnum er ljóst að þeir mega ekki verða hrokafullir í hjarta sér.

4. Hvers vegna getur verið hollt fyrir okkur að lesa frásögur í Biblíunni af hrokafullum einstaklingum?

4 Biblían segir frá hrokafullum mönnum og englum og þessar frásagnir geta hjálpað þér að forðast hroka og stærilæti. Ef þú lest þær og hugleiðir ertu í betri aðstöðu til að koma auga á óviðeigandi stolt sem kann að leynast innra með þér eða getur þróast með tímanum. Það hjálpar þér að ýta frá þér hugsunum og tilfinningum sem gætu gert þig hrokafullan. Og þá bregst þú ekki heldur illa við þegar Guð gerir eins og hann hefur varað við: „Ég [mun] ryðja burt frá þér þeim, er ofkætast drambsamlega í þér, og þú munt ekki framar ofmetnast á mínu heilaga fjalli.“ — Sefanía 3:11.

Guð hegnir hrokafullum

5, 6. Hvernig sýndi faraó hroka og með hvaða afleiðingum?

5 Afstaða Jehóva til hroka kemur vel fram í samskiptum hans við volduga þjóðhöfðingja eins og faraó. Það leikur enginn vafi á því að faraó var hrokafullur mjög. Hann áleit sig vera guð sem bæri að tilbiðja og fyrirleit Ísraelsmenn sem voru þrælar hans. Tökum sem dæmi viðbrögð hans þegar farið var þess á leit við hann að Ísraelsmenn fengju að fara út í eyðimörkina til að halda Jehóva hátíð. „Hver er Drottinn [Jehóva], að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara?“ spurði hann yfirlætislega. — 2. Mósebók 5:1, 2.

6 Eftir að sex plágur höfðu gengið yfir Egyptaland sagði Jehóva Móse að flytja egypska valdhafanum eftirfarandi boð: „Þú stendur enn í móti fólki mínu með því að vilja ekki gefa þeim fararleyfi.“ (2. Mósebók 9:17) Móse boðaði svo sjöundu pláguna, haglið sem eyddi landið. Eftir tíundu pláguna leyfði faraó Ísraelsmönnum að fara en skipti svo um skoðun og elti þá. Að lokum var hann innikróaður með her sínum í Rauðahafinu. Þú getur rétt ímyndað þér hvað hlýtur að hafa flogið um huga hans þegar sjórinn steyptist yfir þá! Hvaða afleiðingar hafði hroki og ofdramb faraós? Úrvalssveitir hans hrópuðu: „Flýjum fyrir Ísrael, því að Drottinn berst með þeim móti Egyptum.“ — 2. Mósebók 14:25.

7. Hvernig sýndu valdhafarnir í Babýlon hroka?

7 Jehóva auðmýkti fleiri hrokafulla valdhafa. Einn þeirra var Sanheríb Assýríukonungur. (Jesaja 36:1-4, 20; 37:36-38) Babýloníumenn lögðu Assýríu undir sig að lokum en tveir hrokafullir konungar í Babýlon voru líka auðmýktir. Þú manst eflaust eftir veislu Belsasars konungs þegar hann og tiginbornir gestir hans heiðruðu guði Babýlonar með því að drekka vín úr kerum sem höfðu verið tekin úr musteri Jehóva. Skyndilega birtust fingur mannshandar og rituðu skilaboð á vegginn. Aðspurður hvað hinn dularfulli boðskapur merkti áminnti Daníel spámaður Belsasar: „Guð hinn hæsti veitti Nebúkadnesar föður þínum ríki . . . En er hjarta hans metnaðist og hugur hans gjörðist ofdrambsfullur, þá var honum hrundið úr konungshásætinu og tignin tekin frá honum. Og þú, Belsasar, sonur hans, hefir ekki lítillætt hjarta þitt, þótt þú vissir allt þetta.“ (Daníel 5:3, 18, 20, 22) Her Meda og Persa vann Babýlon þessa sömu nótt og Belsasar konungur var drepinn. — Daníel 5:30; 6:1.

8. Nefndu dæmi um hvernig Jehóva hegndi hrokafullum mönnum.

8 Hægt er að nefna fleiri hrokafulla menn sem fyrirlitu þjóna Jehóva, svo sem risann Golíat, Haman, forsætisráðherra Persíu, og Heródes konung Agrippu í Júdeu. Sökum hroka síns dóu þessir þrír menn með smán fyrir hendi Guðs. (1. Samúelsbók 17:42-51; Esterarbók 3:5, 6; 7:10; Postulasagan 12:1-3, 21-23) Afskipti Jehóva af þessum hrokafullu mönnum undirstrikar sannleika orðskviðarins sem segir: „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ (Orðskviðirnir 16:18) Það er engum vafa undirorpið að „Guð stendur í gegn dramblátum“. — Jakobsbréfið 4:6.

9. Hvernig sýndu konungarnir í Týrus sviksemi?

9 Konungurinn í Týrus reyndist einu sinni hjálpsamur við þjóð Guðs, ólíkt hinum hrokafullu valdhöfum í Egyptalandi, Assýríu og Babýlon. Í stjórnartíð Davíðs og Salómons sendi hann byggingarefni og færa handverksmenn til að aðstoða við að reisa konungshöllina og musteri Guðs. (2. Samúelsbók 5:11; 2. Kroníkubók 2:11-16) En því miður snerust Týrverjar gegn fólki Jehóva þegar fram liðu stundir. Hvað olli því? — Sálmur 83:4-8; Jóel 3:9-11; Amos 1:9, 10.

„Hjarta þitt varð hrokafullt“

10, 11. (a) Hverjum má líkja við konungana í Týrus? (b) Hvað breytti afstöðu Týrverja til Ísraelsmanna?

10 Jehóva innblés Esekíel spámanni að afhjúpa konungsætt Týrusar og fordæma hana. Boðunum er beint að „konunginum í Týrus“ en orðfærið hæfir bæði konungsættinni þar og Satan, hinum upphaflega svikara sem var ekki staðfastur „í sannleikanum“. (Esekíel 28:12; Jóhannes 8:44) Satan var einu sinni trúföst andavera og þjónaði með öðrum sonum Guðs á himnum. Jehóva gaf vísbendingu um það fyrir munn Esekíels hvers vegna bæði Satan og konungsætt Týrusar fóru út af réttri braut:

11 „Þú varst í Eden, aldingarði Guðs, þú varst þakinn alls konar dýrum steinum. . . . Ég hafði skipað þig verndar-kerúb . . . Þú varst óaðfinnanlegur í breytni þinni frá þeim degi, er þú varst skapaður, þar til er yfirsjón fannst hjá þér. Fyrir þína miklu verslun fylltir þú þig hið innra ofríki og syndgaðir. . . . Ég . . . tortímdi þér, þú verndar-kerúb . . . Hjarta þitt varð hrokafullt af fegurð þinni, þú gjörðir speki þína að engu vegna viðhafnarljóma þíns.“ (Esekíel 28:13-17) Já, það var hroki sem varð kveikjan að því að konungar Týrusar fóru með ofbeldi á hendur fólki Jehóva. Týrus varð óhemjuauðug verslunarmiðstöð og fræg fyrir fallegar vörur. (Jesaja 23:8, 9) Konungar Týrusar urðu hrokafullir með afbrigðum og fóru að kúga fólk Guðs.

12. Hvað leiddi til þess að Satan sveik Guð og hverju hefur hann haldið áfram?

12 Andaveran, sem varð Satan, bjó sömuleiðis yfir nægri visku til að gera hvaðeina sem Guð fól henni. En í stað þess að vera þakklát ofmetnaðist hún og fékk fyrirlitningu á stjórnarháttum Guðs. (1. Tímóteusarbréf 3:6) Satan hafði svo mikið álit á sjálfum sér að hann fór að ásælast tilbeiðslu Adams og Evu. Þessi ranga löngun óx og þroskaðist uns hún ól af sér synd. (Jakobsbréfið 1:14, 15) Satan tældi Evu til að borða ávöxtinn af eina trénu sem Guð hafði bannað þeim að borða af. Síðan notaði hann hana til að fá Adam til að borða forboðna ávöxtinn. (1. Mósebók 3:1-6) Þannig afneituðu fyrstu hjónin því að Guð hefði rétt til að ráða yfir þeim og gerðust í reynd dýrkendur Satans. Hroka hans eru engin takmörk sett. Hann hefur reynt að lokka allar skynsemigæddar sköpunarverur Guðs á himni og jörð til að dýrka sig og hafna Jehóva sem alheimsdrottni. Hann reyndi meira að segja að lokka Jesú Krist til þess. — Matteus 4:8-10; Opinberunarbókin 12:3, 4, 9.

13. Lýstu afleiðingum drambs og hroka.

13 Það er því ljóst að hroki á upptök sín hjá Satan og er undirrót syndar, þjáninga og spillingar í heiminum núna. Satan er „guð þessarar aldar“ og heldur áfram að ýta undir óviðeigandi stolt og hroka. (2. Korintubréf 4:4) Hann veit að hann hefur nauman tíma til umráða þannig að hann heyr stríð gegn sannkristnum mönnum. Það er markmið hans að snúa öllum frá Guði og gera þá eigingjarna, raupsama og hrokafulla. Biblían sagði fyrir að þessi einkenni yrðu áberandi núna á „síðustu dögum“. — 2. Tímóteusarbréf 3:1, 2; Opinberunarbókin 12:12, 17.

14. Hvaða reglu fylgir Jehóva í samskiptum við skynsemigæddar sköpunarverur sínar?

14 Jesús afhjúpaði djarflega slæmar afleiðingar þess hroka sem Satan sýndi. Hann benti að minnsta kosti þrívegis á reglu sem Jehóva fylgir í samskiptum við mannkynið, og það í áheyrn sjálfumglaðra óvina sinna: „Hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.“ — Lúkas 14:11; 18:14; Matteus 23:12.

Verndaðu hjartað gegn hroka

15, 16. Af hverju varð Hagar hrokafull?

15 Þú hefur ef til vill veitt því athygli að fyrrnefnd dæmi snerust um valdamikla menn. Má skilja það svo að venjulegt fólk eigi ekki á hættu að verða hrokafullt? Nei, auðvitað ekki. Tökum dæmi af heimili ættföðurins Abrahams. Hann átti engan erfingja og Sara, eiginkona hans, var komin úr barneign. Algengt var að menn í stöðu Abrahams tækju sér aðrar konur og eignuðust börn með þeim. Guð umbar slík hjónabönd af því að það var ekki tímabært að taka aftur upp þá meginreglu sem hann hafði sett sönnum tilbiðjendum sínum í upphafi. — Matteus 19:3-9.

16 Að áeggjan konu sinnar féllst Abraham á að eignast erfingja með egypskri ambátt hennar sem Hagar hét. Hjákonan Hagar varð barnshafandi. Hún hefði átt að vera þakklát fyrir þann heiður sem hún hlaut með þessu en í staðinn leyfði hún sér að verða hrokafull. „Er hún vissi, að hún var með barni, fyrirleit hún húsmóður sína,“ segir Biblían. Hugarfar hennar olli slíkri togstreitu á heimilinu að Sara rak hana á dyr. En það var til lausn á þessum vanda. Engill Guðs sagði Hagar: „Hverf þú heim aftur til húsmóður þinnar og gef þig undir hennar vald.“ (1. Mósebók 16:4, 9) Hagar hlýddi, breytti greinilega hugarfari sínu gagnvart Söru og varð formóðir mikils fjölda.

17, 18. Hvers vegna þurfum við öll að vera á varðbergi gegn hroka?

17 Hagar er dæmi um að fólk getur orðið hrokafullt þegar hagur þess vænkast. Af þessu má draga þann lærdóm að kristinn maður geti orðið hrokafullur ef hann efnast og fær vald, jafnvel þótt hann hafi áður sýnt af sér hreint hjarta. Þetta getur líka gerst ef honum er hrósað fyrir velgengni sína, visku eða hæfni. Kristnir menn ættu því að gæta sín að leyfa ekki hroka að skjóta rótum í hjörtum sér, einkum ef þeir komast áfram í lífinu eða þeim er falin ábyrgð.

18 Sjónarmið Jehóva er mikilvægasta ástæðan til þess að forðast hroka. Í orði hans segir: „Drembileg augu og hrokafullt hjarta eru lampi óguðlegra, — allt er það synd.“ (Orðskviðirnir 21:4) Það er athyglisvert að Biblían skuli vara efnaða kristna menn sérstaklega við því að ofmetnast og „hreykja sér“. (1. Tímóteusarbréf 6:17; 5. Mósebók 8:11-17) Kristnir menn, sem eru ekki ríkir, ættu að varast alla öfund og hafa hugfast að allir, jafnt ríkir sem fátækir, geta orðið hrokafullir. — Markús 7:21-23; Jakobsbréfið 4:5.

19. Hvernig spillti Ússía konungur góðu mannorði sínu?

19 Hroki og önnur illska geta spillt sambandi manns við Jehóva. Tökum Ússía konung sem dæmi. Sagt er um fyrri hluta stjórnartíðar hans: „Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins . . . Hann leitaði Guðs kostgæfilega . . . og meðan hann leitaði Drottins, veitti Guð honum gengi.“ (2. Kroníkubók 26:4, 5) Því miður spillti Ússía góðu mannorði sínu því að hann varð „drembilátur, og það svo, að hann aðhafðist óhæfu“. Svo stórt leit hann á sig að hann gekk inn í musterið til að brenna reykelsi. Hann reiddist þegar prestarnir vöruðu hann við þessari ósvífni og fyrir vikið sló Jehóva hann holdsveiki og hann dó í ónáð. — 2. Kroníkubók 26:16-21.

20. (a) Hvernig setti Hiskía konungur mannorð sitt í hættu? (b) Um hvað er fjallað í næstu grein?

20 Hiskía konungur er gott dæmi til samanburðar. Einu sinni varð hann „drembilátur“ og var næstum búinn að spilla prýðilegu mannorði sínu. Sem betur fer „lægði Hiskía dramb sitt“ og endurheimti velþóknun Guðs. (2. Kroníkubók 32:25, 26) Við tökum eftir að mótefnið gegn hroka Hiskía var auðmýkt en hún er einmitt andstæða hrokans. Í næstu grein ætlum við því að fjalla um það hvernig við getum tamið okkur kristilega auðmýkt og varðveitt hana.

21. Til hvers geta auðmjúkir kristnir menn hlakkað?

21 Gleymum þó ekki öllum hinum slæmu afleiðingum hroka og stærilætis. Þar eð Guð „stendur í gegn dramblátum“ skulum við vera staðráðin í að bæla niður óviðeigandi stolt sem kann að gera vart við sig í fari okkar. Ef við leggjum okkur fram um að vera auðmjúk getum við hlakkað til þess að lifa af hinn mikla dag Guðs þegar hrokafullum mönnum og verkum þeirra verður svipt burt af jörðinni. Þá mun „dramblæti mannsins . . . lægjast og hroki mannanna beygjast, og Drottinn einn skal á þeim degi háleitur vera“. — Jesaja 2:17.

Til íhugunar

• Lýstu hrokafullum manni.

• Hvaðan er hroki upprunninn?

• Hvað getur gert fólk hrokafullt?

• Af hverju verðum við að varast hroka?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 9]

Hroki faraós varð honum að falli.

[Mynd á blaðsíðu 10]

Hagar varð hrokafull þegar hagur hennar vænkaðist.

[Mynd á blaðsíðu 11]

Hiskía auðmýkti sig og endurheimti velþóknun Guðs.