Önnur Mósebók 5:1–23

  • Móse og Aron frammi fyrir faraó (1–5)

  • Kúgunin versnar (6–18)

  • Ísraelsmenn kenna Móse og Aroni um (19–23)

5  Eftir þetta gengu Móse og Aron inn til faraós og sögðu: „Þetta segir Jehóva Guð Ísraels: ‚Leyfðu fólki mínu að fara svo að það geti haldið mér hátíð í óbyggðunum.‘“  Faraó svaraði: „Hver er Jehóva? Á ég að hlýða honum og leyfa Ísrael að fara? Ég þekki engan Jehóva og ég læt Ísrael alls ekki fara.“  En þeir sögðu: „Guð Hebrea hefur talað við okkur. Leyfðu okkur að fara í þriggja daga ferð* út í óbyggðirnar og færa Jehóva Guði okkar fórnir. Annars refsar hann okkur með sjúkdómum eða sverði.“  Konungur Egyptalands svaraði þeim: „Móse og Aron, hvers vegna ætlið þið að taka fólkið úr vinnu? Farið aftur að vinna!“  Og faraó hélt áfram: „Þið sjáið hve margir verkamenn eru í landinu, og þið viljið láta þá taka sér frí frá vinnunni.“  Sama dag skipaði faraó þrælastjórunum og verkstjórum fólksins:  „Þið skuluð ekki lengur sjá fólkinu fyrir hálmi í múrsteinana. Látið það sjálft fara og safna hálmi.  Þið eigið samt að krefjast þess að það framleiði jafn marga múrsteina og áður. Dragið ekki úr framleiðslunni. Fólkið er latt. Þess vegna hrópar það: ‚Við viljum fara, við viljum færa Guði okkar fórnir!‘  Heimtið meiri vinnu af fólkinu og haldið því uppteknu svo að það hlusti ekki á lygar.“ 10  Þrælastjórarnir og verkstjórarnir gengu þá út og sögðu við fólkið: „Faraó segir: ‚Ég gef ykkur ekki meiri hálm. 11  Farið sjálf og sækið ykkur hálm hvar sem þið getið fundið hann en framleiðið samt jafn mikið og áður.‘“ 12  Þá dreifði fólkið sér um allt Egyptaland og safnaði stönglum til að nota í hálm. 13  Þrælastjórarnir ráku á eftir því og sögðu: „Þið þurfið að framleiða jafn mikið á dag og þið gerðuð áður, á meðan þið fenguð hálm.“ 14  Verkstjórar Ísraelsmanna, sem þrælastjórar faraós höfðu sett yfir þá, voru barðir. Þrælastjórarnir spurðu þá: „Af hverju gerið þið ekki jafn marga múrsteina og áður? Ykkur tókst það hvorki í gær né í dag.“ 15  Verkstjórar Ísraelsmanna gengu nú inn til faraós og kvörtuðu: „Hvers vegna ferðu svona með þjóna þína? 16  Þjónar þínir fá engan hálm en samt er sagt við okkur: ‚Búið til múrsteina!‘ Þjónar þínir eru barðir þó að þetta sé þínu eigin fólki að kenna.“ 17  En hann svaraði: „Þið eruð letingjar og nennið engu! Þess vegna segið þið: ‚Við viljum fara, við viljum færa Jehóva fórnir.‘ 18  Farið nú. Haldið áfram að vinna! Þið fáið engan hálm en eigið samt að framleiða jafn marga múrsteina og áður.“ 19  Þá sáu verkstjórar Ísraelsmanna að þeir voru í miklum vanda vegna skipunarinnar: „Þið megið ekki draga neitt úr daglegri framleiðslu múrsteina.“ 20  Þegar þeir komu út frá faraó hittu þeir Móse og Aron sem stóðu þar og biðu eftir þeim. 21  Verkstjórarnir sögðu strax: „Megi Jehóva sjá hvað þið hafið gert og dæma ykkur. Það er ykkur að kenna að faraó og þjónar hans fyrirlíta okkur* og þið hafið lagt sverð í hendur þeirra til að drepa okkur.“ 22  Þá sneri Móse sér til Jehóva og sagði: „Jehóva, hvers vegna ferðu svona illa með þetta fólk? Hvers vegna hefurðu sent mig? 23  Frá því að ég gekk fyrir faraó og talaði í þínu nafni hefur hann farið verr með þetta fólk en áður og þú hefur alls ekki frelsað fólk þitt.“

Neðanmáls

Eða „fara þrjár dagleiðir“.
Eða „Þið hafið gert okkur að ódaun í nösum faraós og þjóna hans“.