Fyrsta Mósebók 16:1–16
-
Hagar og Ísmael (1–16)
16 Saraí eiginkona Abrams hafði ekki alið honum börn. En hún átti egypska þjónustustúlku sem hét Hagar.
2 Saraí sagði því við Abram: „Jehóva hefur meinað mér að eignast börn. Ég bið þig að leggjast með þjónustustúlku minni. Kannski eignast ég barn með hjálp hennar.“ Og Abram hlustaði á Saraí.
3 Abram hafði búið í tíu ár í Kanaanslandi þegar Saraí kona hans gaf honum Hagar, egypska þjónustustúlku sína, fyrir konu.
4 Hann hafði kynmök við Hagar og hún varð barnshafandi. Þegar henni varð ljóst að hún gekk með barn fór hún að fyrirlíta húsmóður sína.
5 Þá sagði Saraí við Abram: „Það er þér að kenna að þjónustustúlkan mín níðist svona á mér. Ég lét hana í faðm þinn en þegar hún komst að því að hún var ófrísk fór hún að fyrirlíta mig. Jehóva dæmi milli mín og þín.“
6 Abram sagði við Saraí: „Þú ert húsmóðir hennar. Gerðu við hana það sem þú telur best.“ Þá niðurlægði Saraí hana svo að hún flúði frá henni.
7 Engill Jehóva fann hana síðar við vatnslind í óbyggðunum, við lindina á veginum til Súr.
8 Hann spurði hana: „Hagar, þjónustustúlka Saraí, hvaðan kemurðu og hvert ertu að fara?“ Hún svaraði: „Ég hljópst á brott frá Saraí húsmóður minni.“
9 Engill Jehóva sagði þá: „Snúðu aftur til húsmóður þinnar og beygðu þig undir vald hennar.“
10 Engill Jehóva bætti við: „Ég geri afkomendur þína svo marga að ekki verður hægt að telja þá.“
11 Engill Jehóva sagði einnig við hana: „Þú ert barnshafandi og munt fæða son. Þú skalt láta hann heita Ísmael* því að Jehóva hefur heyrt harmakvein þín.
12 Hann verður eins og villiasni.* Hönd hans verður upp á móti öllum og hönd hvers manns verður á móti honum. Hann mun búa andspænis öllum bræðrum sínum.“*
13 Síðan bað hún til* Jehóva sem hafði talað við hana. Hún sagði: „Þú ert Guð sem sérð,“ því að hún hugsaði með sér: „Hef ég nú séð hann sem sér mig?“
14 Þess vegna heitir brunnurinn Beer Lahaj Róí.* (Hann er á milli Kades og Bered.)
15 Hagar ól Abram son og Abram nefndi hann Ísmael.
16 Abram var 86 ára þegar Hagar fæddi Ísmael.
Neðanmáls
^ Sem þýðir ‚Guð heyrir‘.
^ Eða „ónagri“, tegund villiasna. Sumir telja hins vegar að hér sé átt við sebrahest. Vísar líklega til sjálfstæðisanda.
^ Eða hugsanl. „eiga í fjandskap við alla bræður sína“.
^ Orðrétt „ákallaði hún nafn“.
^ Sem þýðir ‚brunnur hins lifandi sem sér mig‘.