Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Standið stöðugir og fullvissir

Standið stöðugir og fullvissir

Standið stöðugir og fullvissir

„Hann . . . berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ — KÓLOSSUBRÉFIÐ 4:12.

1, 2. (a) Hverju veittu utansafnaðarmenn athygli hjá frumkristnum mönnum? (b) Hvernig ber Kólossubréfið vott um kærleika og umhyggju?

 FYLGJENDUR Jesú létu sér mjög annt hver um annan. Tertúllíanus (rithöfundur á annarri og þriðju öld) talar um gæsku þeirra gagnvart munaðarlausum, fátækum og öldruðum. Vantrúaðir hrifust svo af kærleika þeirra að sumir sögðu: ‚Sjáið hversu þeir elska hver annan.‘

2 Kólossubréfið ber vott um kærleika og umhyggju Páls postula og Epafrasar, félaga hans, fyrir bræðrunum og systrunum í Kólossu. Páll skrifaði þeim: „Epafras . . . berst jafnan fyrir yður í bænum sínum, til þess að þér megið standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ Árstexti votta Jehóva 2001 er sóttur í Kólossubréfið 4:12: ‚Standið stöðugir, fullkomnir og fullvissir í öllu því sem er vilji Guðs.‘

3. Hvað tvennt bað Epafras um?

3 Eins og sjá má er bæn Epafrasar fyrir vinum hans tvíþætt: (1) að þeir ‚standi stöðugir og fullkomnir‘ og (2) að þeir standi „fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ Þetta stendur skráð í Biblíunni okkur til gagns svo að þú ættir að spyrja þig hvað þú þurfir sjálfur að gera til að standa stöðugur, fullkominn og fullviss í öllu því sem er vilji Guðs. Og hvaða áhrif hefur það ef þú gerir það? Lítum nánar á málið.

Keppstu við að ‚standa stöðugur og fullkominn‘

4. Í hvaða skilningi þurftu Kólossumenn að verða „fullkomnir“?

4 Epafrasi var mjög annt um það að andlegir bræður hans og systur í Kólossu ‚stæðu stöðug og fullkomin.‘ Orðið, sem Páll notaði og þýtt er ‚fullkominn,‘ getur einnig merkt fullvaxta eða þroskaður. (Matteus 19:21; Hebreabréfið 5:14; Jakobsbréfið 1:4, 25) Þú veist sennilega að það er ekki sjálfgefið að skírður vottur Jehóva sé fullvaxta í trúnni. Páll skrifaði Efesusmönnum, sem bjuggu vestur af Kólossu, að hirðar og kennarar reyndu að hjálpa öllum að verða ‚einhuga í trúnni og þekkingunni á syni Guðs, verða fullþroska og ná vaxtartakmarki Krists fyllingar.‘ Annars staðar hvatti hann kristna menn til að verða „fullorðnir í dómgreind.“ — Efesusbréfið 4:8-13; 1. Korintubréf 14:20.

5. Hvernig getum við gert fullkomleika að markmiði okkar?

5 Hafi einhverjir í söfnuðinum í Kólossu ekki verið orðnir andlega fullvaxta eða þroskaðir þurftu þeir að setja sér það sem markmið. Ættu menn ekki að gera það líka núna? Er greinilegt að við höfum tekið framförum í rökhugsun og skoðunum, hvort sem við höfum verið skírð í áratugi eða stuttan tíma? Hugleiðum við meginreglur Biblíunnar áður en við tökum ákvarðanir? Eru safnaðarmál og tilbeiðslan á Guði farin að skipa veigamikinn sess í lífi okkar í stað þess að vera tilviljun háð? Slíkur vöxtur getur birst á marga vegu en við verðum að láta nægja að líta á tvö dæmi.

6. Nefndu dæmi um það hvernig við gætum tekið okkur á til að vera fullkomin eins og Jehóva.

6 Skoðum fyrra dæmið: Setjum sem svo að við höfum alist upp í umhverfi fordóma eða fjandskapar gagnvart fólki frá öðru svæði, af öðrum kynþætti eða öðru þjóðerni. Við vitum núna að Guð fer ekki í manngreinarálit og að við eigum ekki að gera það heldur. (Postulasagan 10:14, 15, 34, 35) Í söfnuðinum okkar eða á farandsvæðinu er fólk af þessum uppruna þannig að við umgöngumst það. En eimir eftir innra með okkur af neikvæðni eða tortryggni gagnvart fólki af þessum uppruna? Erum við fyrtin gagnvart þessu fólki ef einhverjum úr þeirra hópi verður eitthvað á eða gerir eitthvað smávægilegt á hlut okkar? Spyrðu þig hvort þú þurfir að taka þig á til að tileinka þér betur óhlutdrægni Guðs.

7. Hvaða viðhorf til annarra gætum við þurft að tileinka okkur?

7 Lítum á síðara dæmið: Að sögn Filippíbréfsins 2:3 ættum við ‚ekki að gera neitt af eigingirni eða hégómagirnd heldur vera lítillát og meta aðra meira en sjálfa okkur.‘ Hvernig gengur okkur að gera það? Allir hafa sína veikleika og styrkleika. Kannski vorum við sérstaklega glögg á veikleika annarra áður fyrr. Erum við hætt að ætlast til þess að þeir séu næstum ‚fullkomnir‘? (Jakobsbréfið 3:2) Sjáum við betur en áður hvernig aðrir eru okkur fremri? Gerum við okkur sértaklega far um að veita því athygli? ‚Ég verð að viðurkenna að þessi systir er þolinmóðari en ég.‘ ‚Hann hefur sterkari trú en ég.‘ ‚Hann er hreinlega betri kennari en ég.‘ ‚Hún hefur frábæra stjórn á skapi sínu.‘ Kannski þurftu einhverjir í söfnuðinum í Kólossu að taka sig á þarna. Hvað um okkur?

8, 9. (a) Í hvaða skilningi áttu Kólossumenn að ‚standa‘ stöðugir eins og Epafras bað? (b) Hvað gefur það í skyn um framtíðina að ‚standa stöðugur‘?

8 Epafras bað þess að Kólossumenn mættu ‚standa stöðugir og fullkomnir.‘ Hann var augljóslega að biðja Guð þess að þeir væru staðfastir og stöðuglyndir sem fullþroska og fullvaxta kristnir menn.

9 Við getum ekki gengið að því sem gefnum hlut að hver sá sem gerist kristinn, og nær jafnvel þroska, verði það áfram. Jesús sagði að englasonur Guðs hafi ‚ekki staðið í sannleikanum.‘ (Jóhannes 8:44, Biblían 1912) Og Páll minnti Korintumenn á suma sem hefðu þjónað Jehóva um skeið forðum daga en brugðist. „Sá, er hyggst standa, gæti því vel að sér, að hann falli ekki,“ sagði hann í varnaðartón við smurða bræður sína. (1. Korintubréf 10:12) Þetta hnykkir á bæninni um að Kólossumenn ‚standi stöðugir og fullkomnir.‘ Þegar þeir eru orðnir fullvaxta og þroskaðir þurfa þeir að vera staðfastir. Þeir mega ekki skjóta sér undan, lýjast eða láta berast af leið. (Hebreabréfið 2:1; 3:12; 6:6; 10:39; 12:25) Ef þeir standa stöðugir eru þeir „fullkomnir“ á vitjunardeginum og hljóta velþóknun Guðs. — 2. Korintubréf 5:10; 1. Pétursbréf 2:12.

10, 11. (a) Hvað má læra af bænum Epafrasar? (b) Hvað gætirðu einsett þér í samræmi við bænir Epafrasar?

10 Við höfum rætt um nauðsyn þess að nafngreina aðra í bænum okkar og biðja Jehóva markvisst að hjálpa þeim, hughreysta, blessa og gefa þeim heilagan anda. Það var þannig sem Epafras bað fyrir Kólossumönnum. Við getum séð gagnlega vísbendingu í orðum hans um það hvernig við getum beðið fyrir sjálfum okkur —  og ættum reyndar að gera það. Við ættum tvímælalaust að biðja um hjálp Jehóva til að geta hvert og eitt ‚staðið stöðug og fullkomin.‘ Gerirðu það?

11 Þú gætir rætt um aðstöðu þína í bænum þínum. Talaðu við Guð um það hvernig þér hefur miðað í átt til ‚fullkomleikans,‘ það er að segja til þroska. Biddu hann að hjálpa þér að koma auga á hvar þú þurfir að vaxa andlega. (Sálmur 17:3; 139:23, 24) Það er öruggt að þú þarft að bæta þig á einhverjum sviðum. En í stað þess að láta það draga úr þér kjark skaltu biðja Guð hnitmiðað um hjálp til að taka framförum. Og gerðu það oftar en einu sinni. Þú gætir jafnvel ákveðið að í þessari viku ætlir þú að biðja Guð lengi og ítarlega um hjálp til að ‚standa stöðugur og fullkominn.‘ Og stefndu að því að gera það oftar um leið og þú ígrundar árstextann. Ræddu sérstaklega í bænum þínum um tilhneiginguna til að skjóta þér undan, lýjast eða fjarlægjast þjónustu Guðs, og hvað þú getir gert til að forðast það. — Efesusbréfið 6:11, 13, 14, 18.

Biddu um sannfæringu

12. Af hverju þurftu Kólossumenn að búa yfir ‚fullvissu‘?

12 Epafras bað líka um annað sem var mikilvægt fyrir Kólossumenn til að vera Guði þóknanlegir. Og það er ekki síður mikilvægt fyrir okkur. Hann bað þess að þeir mættu standa „fullvissir í öllu því, sem er vilji Guðs.“ Þeir voru umkringdir villutrú og skemmandi heimspekikenningum. Sumar þeirra sigldu jafnvel undir fölsku flaggi sannrar tilbeiðslu. Til dæmis var þrýst á þá að halda sérstaka hátíðisdaga með föstum eða veisluhöldum eins og þurfti í tilbeiðslu Gyðinga á sínum tíma. Falskennarar beindu athyglinni að englum, hinum voldugu andaverum sem notaðar voru til að færa Móse lögmálið. Hugsaðu þér að sitja undir slíku álagi. Hugmyndirnar voru margar og mótsagnakenndar. — Galatabréfið 3:19; Kólossubréfið 2:8, 16-18.

13. Um hvað þurftu Kólossumenn að vera sannfærðir og hvað um okkur?

13 Viðbrögð Páls voru þau að leggja áherslu á hlutverk Jesú Krists. „Þér hafið tekið á móti Kristi, Drottni Jesú. Lifið því í honum. Verið rótfestir í honum og byggðir á honum, staðfastir í trúnni, eins og yður hefur verið kennt.“ Kólossumenn þurftu að vera sannfærðir um hlutverk Krists í tilgangi Guðs og lífi kristins manns. Við þurfum að vera það líka. Páll heldur áfram: „Í honum býr öll fylling guðdómsins líkamlega. Og í honum, sem er höfuð hvers konar tignar og valds, hafið þér öðlast hlutdeild í þessari fyllingu.“ — Kólossubréfið 2:6-10.

14. Af hverju var vonin raunveruleg fyrir kristina menn í Kólossu?

14 Kristnir menn í Kólossu voru andasmurðir. Þeir áttu sérstaka von um líf á himnum og höfðu ærna ástæðu til að halda henni lifandi. (Kólossubréfið 1:5) Það var „vilji Guðs“ að þeir væru algerlega sannfærðir um von sína. Átti nokkur þeirra að efast um að vonin væri örugg? Nei, alls ekki. En ættu þeir sem Guð hefur gefið von um eilíft líf í paradís á jörð að efast um að hún sé áreiðanleg? Auðvitað ekki. Þessi réttmæta von er greinilega þáttur í ‚vilja Guðs.‘ Keppir þú að því að tilheyra ‚múginum mikla‘ sem kemst lifandi úr ‚þrengingunni miklu‘? Ef svo er, finnst þér þessi von vera raunveruleg? (Opinberunarbókin 7:9, 14) Er hún hluti af ‚fullvissu þinni um allt það sem er vilji Guðs‘?

15. Á hvað bendir Páll þar sem vonin kemur við sögu?

15 Með orðinu „von“ er ekki átt við óljósa löngun eða draumóra. Það er ljóst af ábendingum Páls í Rómverjabréfinu. Páll nefnir þar nokkur atriði sem leiða hvert af öðru, og taktu eftir hvar hann staðsetur ‚vonina‘: „Vér fögnum líka í þrengingunum, með því að vér vitum, að þrengingin veitir þolgæði, en þolgæðið fullreynd, en fullreyndin von. En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda.“ — Rómverjabréfið 5:3-5.

16. Hvaða von eignaðist þú þegar þú kynntist sannleika Biblíunnar?

16 Vera má að eitt ákveðið atriði hafi vakið athygli þína þegar vottar Jehóva sögðu þér fyrst frá boðskap Biblíunnar, til dæmis ástand hinna dánu eða upprisan. Mörgum þótti það trúlega merkilegast að Biblían skuli bjóða upp á von um líf í jarðneskri paradís. Rifjaðu upp hvernig það var að heyra það í fyrsta sinn. Þetta var stórkostleg von — sjúkdómar og ellihrörnun hverfa, maður getur lifað endalaust og notið ávaxtar erfiðis síns og átt friðsamlega sambúð við dýrin. (Prédikarinn 9:5, 10; Jesaja 65:17-25; Jóhannes 5:28, 29; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þú eignaðist yndislega von!

17, 18. (a) Hvernig leiddi upptalning Páls í Rómverjabréfinu til vonar? (b) Hvers konar von er átt við í Rómverjabréfinu 5:4, 5 og hefur þú þess konar von?

17 Sennilega varðstu fyrir einhverri andstöðu eða ofsóknum þegar fram í sótti. (Matteus 10:34-39; 24:9) Jafnvel á síðustu árum hafa vottar í ýmsum löndum verið hraktir á flótta eða heimili þeirra rænd. Sumir hafa orðið fyrir líkamsárásum og biblíurit þeirra verið gerð upptæk, og sums staðar hefur verið logið um þá í fjölmiðlum. En hvernig sem mótlætið var gastu fagnað í þrengingunum eins og Rómverjabréfið 5:3 segir, og afleiðingarnar voru jákvæðar. Þrengingin veitti þér þolgæði eins og Páll skrifaði. Þolgæðið gaf þér fullreynd og velþóknun Guðs af því að þú vissir að þú varst að gera rétt. Þú varst að gera vilja Guðs, varst sannfærður um að þú hefðir velþóknun hans og fannst greinilega fyrir því. Páll bendir síðan á að ‚fullreyndin veiti von.‘ Það kann að virðast eilítið undarlegt. Af hverju nefnir Páll „von“ svona aftarlega í upptalningunni? Varstu ekki búinn að eignast von löngu áður, þegar þú heyrðir fagnaðarerindið í fyrsta sinn?

18 Ljóst er að Páll er ekki að tala um fyrstu vonarkenndina um eilíft líf heldur er hann að tala um djúpstæðari og áhrifameiri von. Þegar við erum þolgóð og finnum fyrir velþóknun Guðs hefur það sterk áhrif á vonina, sem við höfðum í uppafi, því að það styrkir hana og eflir. Vonin er nú orðin raunverulegri, traustari og persónulegri. Hún er djúpstæðari og bjartari en áður. Hún gagntekur okkur. „En vonin bregst oss ekki, því að kærleika Guðs er úthellt í hjörtum vorum fyrir heilagan anda.“

19. Hvernig ætti vonin að vera fastur þáttur í bænum þínum?

19 Epafras bað þess innilega að bræður hans og systur í Kólossu væru snortin af því sem framundan var og sannfærð um það; væru ‚fullviss í öllu því sem er vilji Guðs.‘ Við skulum líka ræða reglulega við Guð um von okkar. Ræddu um vonina um nýja heiminn í einkabænum þínum. Segðu Jehóva hve heitt þú þráir nýja heiminn og hve sannfærður þú sért um að hann komi. Biddu hann um hjálp til að styrkja og dýpka sannfæringu þína. Biddu um ‚fullvissu í öllu því sem er vilji Guðs‘ líkt og Epafras bað fyrir Kólossumönnum. Gerðu það oft.

20. Af hverju þurfum við ekki að missa kjarkinn þótt fáeinir víki út af vegi kristninnar?

20 Þú ættir ekki að láta það draga úr þér kjarkinn þótt ekki séu allir stöðugir, fullkomnir og fullvissir. Menn geta brugðist, beygt af leið eða hreinlega gefist upp. Það gerðist meðal nánustu félaga Jesú, postulanna. En hvað gerðu hinir postularnir þegar Júdas sveikst undan merkjum? Hægðu þeir á sér eða gáfust upp? Nei, Pétur vitnaði í Sálm 109:8 til að sýna fram á að annar skyldi koma í stað Júdasar. Nýr maður var valinn og dyggir þjónar Guðs héldu áfram að boða trúna af kappi. (Postulasagan 1:15-26) Þeir voru staðráðnir í að standa stöðugir, fullkomnir og fullvissir.

21, 22. Hvernig verður eftir því tekið að þú stendur stöðugur, fullkominn og fullviss?

21 Þú mátt vera viss um að það er eftir því tekið ef þú stendur stöðugur, fullkominn og fullviss í öllu því sem er vilji Guðs. Margir munu kunna að meta það. Hverjir?

22 Til dæmis bræður þínir og systur sem þekkja þig og þykir vænt um þig. Þó svo að fæstir hafi kannski orð á því hefur það svipuð áhrif og lesa má í 1. Þessaloníkubréfi 1:2-6: „Vér þökkum ávallt Guði fyrir yður alla, er vér minnumst yðar í bænum vorum. Fyrir augsýn Guðs og föður vors erum vér sífellt minnugir starfs yðar í trúnni, erfiðis yðar í kærleikanum og stöðuglyndis yðar í voninni á Drottin vorn Jesú Krist. . . . Fagnaðarerindi vort kom eigi til yðar í orðum einum, heldur einnig í krafti og í heilögum anda og með fullkominni sannfæringu. . . . Og þér hafið gjörst eftirbreytendur vorir og Drottins.“ Dyggum trúbræðrum þínum verður þannig innanbrjósts þegar þeir sjá þig ‚standa stöðugan, fullkominn og fullvissan í öllu því sem er vilji Guðs.‘ — Kólossubréfið 1:23.

23. Í hverju ættir þú að vera staðráðinn á komandi ári?

23 Það er jafnöruggt að faðir þinn á himni fylgist með þér og gleðst. Þú mátt treysta því vegna þess að þú stendur fullviss „í öllu því, sem er vilji Guðs.“ Páll talaði hvetjandi til Kólossumanna um það að ‚hegða sér eins og Jehóva er samboðið, honum til þóknunar á allan hátt.‘ (Kólossubréfið 1:10) Já, ófullkomnir menn geta þóknast Guði á allan hátt. Bræður þínir og systur í Kólossu gerðu það. Trúsystkini þín, sem þú umgengst dags daglega, gera það. Þú getur líka gert það. Láttu því daglegar bænir þínar og atferli á komandi ári sýna og sanna að þú sért staðráðinn í að ‚standa stöðugur, fullkominn og fullviss í öllu því sem er vilji Guðs.‘

Manstu?

• Hvað er fólgið í því að ‚standa stöðugur og fullkominn‘?

• Um hvað ættirðu að biðja í sambandi við sjálfan þig?

• Hvers konar von ættum við að vilja hafa, samanber Rómverjabréfið 5:4, 5?

• Hvaða markmið hefur þetta námsefni hvatt þig til að setja þér á komandi ári?

[Spurningar]

[Mynd á blaðsíðu 26]

Epafras bað þess að bræður hans mættu standa stöðugir og fullvissir um Krist og von sína.

[Mynd á blaðsíðu 29]

Milljónir manna bera í brjósti sömu von og sannfæringu og þú.