Hoppa beint í efnið

Hoppa í efnisyfirlit

Að vernda börnin

Að vernda börnin

FÆSTA langar til að hugsa um kynferðislega misnotkun á börnum. Foreldrum hrýs hugur við því að þess háttar skuli geta átt sér stað. Þetta er engu að síður uggvekjandi og óhugnanlegur veruleiki í heimi nútímans, og það getur haft hrikalegar afleiðingar fyrir börnin. Er ástæða til að velta þessu fyrir sér? Lítum nánar á málið. Hvað ertu fús til að leggja á þig til að tryggja öryggi barnanna þinna? Það ætti varla að vera nokkru foreldri ofraun að kynna sér þetta mál í þeim tilgangi að vernda börnin. Staðgóð vitneskja getur skipt sköpum.

Misstu ekki kjarkinn þó að kynferðisleg misnotkun á börnum sé vissulega afar útbreidd. Þú býrð að minnsta kosti yfir þekkingu, reynslu og visku sem tekur barnið mörg ár eða jafnvel áratugi að afla sér. Í því er fólginn styrkur sem þú hefur en barnið ekki. Þú þarft að virkja þennan styrk og nota hann til að vernda barnið þitt. Við ætlum að líta á þrjú grundvallaratriði sem allir foreldrar ættu að hugsa um. Þau eru þessi: (1) Vertu mikilvægasta vörn barnsins gegn kynferðislegri misnotkun, (2) fræddu barnið og (3) kenndu því að verja sig.

Ertu mikilvægasta vörn barnsins?

Að vernda börnin gegn kynferðislegri misnotkun er fyrst og fremst hlutverk foreldranna en ekki barnanna sjálfra. Þið þurfið því að fræðast sjálf um kynferðislega misnotkun áður en þið byrjið að fræða börnin. Þið þurfið að kunna skil á vissum atriðum varðandi þetta mál. Þið þurfið til dæmis að vita hverjir það eru sem misnota börn og hvernig þeir bera sig að. Foreldrar ímynda sér oft að barnaníðingurinn sé ókunnugur maður sem liggi í leynum og reyni að ræna börnum til að nauðga þeim. Slíkir níðingar eru vissulega til og stundum er vakin athygli á þeim í fréttum fjölmiðla. Svona menn eru þó tiltölulega sjaldgæfir. Hér um bil 90 prósent barnaníðinga eru menn sem barnið þekkir og treystir.

Við viljum auðvitað síst af öllu trúa að viðfelldinn nágranni, kennari, heilbrigðisstarfsmaður, þjálfari eða ættingi beri girndarhug til barna okkar. Og sannleikurinn er sá að fæstir eru þannig. Það er engin ástæða til að tortryggja alla í kringum sig. Engu að síður er mikilvægt að kynna sér hvaða aðferðum dæmigerður barnaníðingur beitir því að það er ein leið til að vernda börnin. — Sjá  bls. 6.

Ef þú, foreldrið, þekkir aðferðir barnaníðingsins ertu betur í stakk búinn til að vernda börnin. Hvað gerirðu til dæmis ef einhver sem virðist hafa meiri áhuga á börnum en fullorðnum sýnir barni þínu sérstakan áhuga og gefur því gjafir, eða býðst til að gæta barnsins endurgjaldslaust eða býður því í stuttar skemmtiferðir? Ætti fyrsta hugsunin þá að vera sú að hann hljóti að vera barnaníðingur? Nei. Gættu þess að draga ekki slíka ályktun í fljótfærni. Hegðun viðkomandi getur verið fullkomlega eðlileg. Hins vegar gæti hún verið merki um að þú ættir að hafa augun opin. „Einfaldur maður trúir öllu, en kænn maður athugar fótmál sín,“ segir í Biblíunni. — Orðskviðirnir 14:15.

Ef boðið er upp á eitthvað sem hljómar lygilega vel má vera að það sé maðkur í mysunni. Hafðu auga með hverjum þeim sem býðst til að vera einn með barninu þínu. Láttu hann vita að það sé líklegt að þú vitjir um barnið af og til. Anna og Jón eiga þrjá unga drengi. Þau fara varlega í að skilja barn eftir hjá einhverjum fullorðnum. Þegar einn af drengjunum fékk tónlistarkennslu heima fyrir sagði Anna við kennarann: „Ég verð á ferðinni inn og út úr herberginu meðan þú ert hérna.“ Sumum gæti þótt þetta nokkuð langt gengið en þessir foreldrar vilja einfaldlega hafa vaðið fyrir neðan sig.

Taktu virkan þátt í tómstundaiðkunum og skólanámi barnsins. Sýndu vakandi áhuga á félögum þess. Ef ráðgert er að barnið fari í stutta ferð með vinum eða á vegum skólans skaltu kynna þér vel hvert verður farið og hvað á að gera. Ráðgefandi sérfræðingur, sem hefur starfað í 33 ár að málum sem tengjast kynferðisafbrotum, segist hafa séð ótal dæmi þar sem foreldrar hefðu getað komið í veg fyrir slíkt með því að vera hreinlega árvakrir og aðgætnir. Hann hefur eftir dæmdum barnaníðingi: „Foreldrar afhenda okkur hreinlega börnin. . . . Þeir gerðu þetta sáraeinfalt fyrir mig.“ Mundu að flestir barnaníðingar velja sér börn sem þeir telja auðvelda bráð. Foreldrar gera börnin að „erfiðri bráð“ með því að taka virkan þátt í öllu sem þau taka sér fyrir hendur.

Annað sem þú getur gert til að vera mikilvægasta vörn barnsins er að hlusta á það. Börn segja sjaldan berum orðum frá því ef þau hafa verið misnotuð kynferðislega; þau skammast sín meira en svo og kvíða viðbrögðunum. Hlustaðu því vel, jafnvel eftir óljósum vísbendingum. * Ef barnið segir eitthvað sem veldur þér áhyggjum skaltu halda stillingu þinni og hvetja það með spurningum til að segja það sem því liggur á hjarta. Ef það segist ekki vilja fá ákveðna barnapíu aftur skaltu spyrja af hverju. Ef það segir að hinn fullorðni fari í skrýtna leiki við það skaltu spyrja: „Hvers konar leiki? Hvað gerir hann?“ Ef barnið kvartar undan að einhver hafi kitlað það skaltu spyrja: „Hvar kitlaði hann þig?“ Gerðu ekki lítið úr svörum barnsins. Barnaníðingur segir barni að enginn muni trúa því og það er allt of algengt að það gerist. Og ef barnið hefur verið misnotað kynferðislega á það mun auðveldara með að ná sér aftur ef foreldrarnir trúa því og styðja það.

Vertu mikilvægasta vörn barnsins

Fræddu barnið

Í heimildarriti um kynferðislega misnotkun á börnum er haft eftir dæmdum barnaníðingi: „Ef ég kemst í tæri við krakka sem veit ekkert um kynferðismál eru líkur á að ég sé kominn með næsta fórnarlamb.“ Þessi hrollvekjandi orð eru þörf áminning til foreldra. Barnaníðingar eiga mun auðveldara með að blekkja börn sem vita ekkert um kynferðismál. Í Biblíunni segir að þekking og viska geti frelsað okkur „frá þeim mönnum, sem fara með fals“. (Orðskviðirnir 2:10-12) Er það ekki þess konar vernd sem þú vilt veita börnunum? Þá skaltu stíga næsta skref en það er fólgið í því að veigra sér ekki við að fræða þau um þetta mikilvæga málefni.

En hvernig á að fara að því? Ófáum foreldrum þykir hálf-vandræðalegt að ræða kynferðismál við börnin. Og vel má vera að börnunum þyki það enn vandræðalegra svo að það er ekki líklegt að þau bryddi sjálf upp á þessu efni. Þú þarft að eiga frumkvæðið. Anna segir: „Við byrjuðum snemma og kenndum þeim hvað líkamshlutarnir heita. Við notuðum réttu orðin, ekki feluorð eða barnamál, til að sýna þeim fram á að það væri ekkert skrýtið eða skammarlegt við nokkurn líkamshluta.“ Það er eðlilegt framhald af þessu að ræða um misnotkun. Margir foreldrar segja börnunum einfaldlega að þeir líkamshlutar, sem sundfötin hylja, séu einkastaðir þeirra sem þau eiga sjálf.

Guðrún, sem nefnd var í greininni á undan, segir: „Við Gunnar sögðum syni okkar að typpið ætti hann sjálfur og það væri ekki leikfang. Enginn ætti að fá að fikta við það — ekki pabbi, ekki mamma og ekki einu sinni læknirinn. Þegar við förum með hann til læknis segi ég honum að læknirinn ætli bara að athuga hvort allt sé í lagi og þess vegna megi hann snerta hann þarna.“ Báðir foreldrarnir eiga óformleg samtöl af þessu tagi við drenginn og fullvissa hann um að hann geti alltaf komið til þeirra og sagt þeim frá ef einhver snerti hann eins og á ekki að gera eða þannig að honum líði illa. Sérfræðingar í forvörnum og umönnun barna mæla með að foreldrar tali við börnin sín á þennan hátt.

Margir hafa notað bókina Lærum af kennaranum mikla * til að fræða börnin um þetta málefni. Í 32. kaflanum, sem nefnist „Jehóva verndaði Jesú“, eru skýrar en hughreystandi leiðbeiningar til barna þar sem varað er við hættunni á kynferðislegri misnotkun og rætt um hvernig hægt sé að verja sig. „Bókin er frábær hjálp til að herða á því sem við erum sjálf búin að segja börnunum,“ segir Anna.

Í heimi nútímans þarf að segja börnum að það sé til fólk sem vilji fá að snerta börn eins og á ekki að gera, eða fá börn til að snerta sig þannig. Slík viðvörun þarf ekki að vekja ótta með börnunum eða valda því að þau vantreysti öllum fullorðnum. „Þetta er bara gert í öryggisskyni,“ segir Guðrún. „Og þetta er bara eitt af mörgu sem við kennum drengnum, og flest af því kemur misnotkun ekkert við. Þetta hefur alls ekki gert hann hræddan.“

Til að fræða barnið vel þarftu að kenna því að sjá hlýðni í réttu ljósi. Barn þarf að læra að hlýða þó að það sé engan veginn auðvelt að kenna það. (Kólossubréfið 3:20) En kennsla í hlýðni getur farið út í öfgar. Ef barni er kennt að það verði alltaf að hlýða öllum fullorðnum, hverjar sem aðstæður eru, þá er það berskjaldað fyrir misnotkun. Barnaníðingar eru fljótir að koma auga á það ef börn eru eftirlát um of. Skynsamir foreldrar kenna börnunum að hlýðni sé skilyrðum háð. Þetta er ekki eins flókið fyrir kristna menn og ætla mætti. Það merkir einfaldlega að segja barninu: „Ef einhver segir þér að gera eitthvað sem Jehóva Guð segir að sé rangt, þá þarftu ekki að gera það. Pabbi eða mamma ættu ekki einu sinni að segja þér að gera eitthvað sem er rangt í augum Jehóva. Og þú getur alltaf sagt annaðhvort pabba eða mömmu frá ef einhver reynir að fá þig til að gera eitthvað sem er rangt.“

Að síðustu skaltu kenna börnunum að enginn hafi leyfi til að biðja þau að halda einhverju leyndu fyrir ykkur. Segðu þeim að ef einhver biðji þau að þegja yfir leyndarmáli gagnvart pabba og mömmu eigi þau alltaf að segja ykkur frá því. Hvað sem þeim er sagt — jafnvel ef þeim er hótað einhverju hræðilegu eða þau hafa sjálf gert eitthvað rangt — þá geti þau alltaf komið til pabba eða mömmu og sagt þeim frá því. Börnin þurfa ekki að verða hrædd þó að þú kennir þeim þetta. Þú getur fullvissað þau um að flest fólk geri aldrei neitt af þessu tagi — það er að segja að snerta þau þar sem eigi ekki að snerta, biðja þau að óhlýðnast Guði eða þegja yfir leyndarmáli. Þetta er sambærilegt við það að skipuleggja flóttaleið ef kviknar í — það er gert til öryggis en þarf sennilega aldrei að grípa til þess.

Fræddu barnið

Kenndu barninu að verja sig

Það þriðja, sem við ætlum að fjalla um, er að kenna barninu nokkur einföld ráð til að verja sig ef einhver reynir að misnota það og hvorugt ykkar foreldranna er nærstatt. Ein aðferðin, sem mælt er með, er eins og leikur. Foreldrarnir spyrja: „Hvað myndirðu gera ef . . . ?“ og barnið svarar. Þú gætir spurt: „Hvað myndirðu gera ef við færum saman út í búð og þú týndir mér? Hvernig myndirðu finna mig aftur?“ Barnið svarar kannski ekki eins og þú vonaðir en þú getur leiðbeint því með fleiri spurningum eins og til dæmis: „Heldurðu að þú gætir gert eitthvað sem væri enn betra fyrir þig?“

Þú getur farið svipað að til að spyrja barnið um öruggustu viðbrögðin við því ef einhver reynir að snerta það eins og á ekki að gera. Ef slíkar spurningar hræða barnið gætirðu prófað að segja sögu af öðru barni. Þú gætir til dæmis sagt: „Lítil stelpa er ein með ættingja sem henni líkar mjög vel við en svo reynir hann að snerta hana þar sem hann ætti ekki að koma við hana. Hvað finnst þér að hún ætti að gera til að stoppa hann?“

Kenndu barninu að verja sig

Hvernig ætti að kenna barninu að bregðast við í slíku tilfelli? Í bók, sem fjallar um þetta mál, segir: „Ákveðið ‚Nei!‘ eða ‚Ekki gera þetta!‘ eða ‚Láttu mig í friði!‘ er ótrúlega áhrifaríkt til að hræða þann sem ætlar að draga barn á tálar, og fá hann til að hætta að reyna að misnota þetta barn.“ Hjálpaðu barninu að leika hvernig það ætli að bera sig að þannig að það treysti sér vel til að mótmæla hátt og örugglega, forða sér án tafar og segja þér síðan frá því sem gerðist. En þó að barn virðist skilja þetta fullkomlega getur það gleymt því á fáeinum vikum eða mánuðum. Þess vegna þarf að endurtaka æfingarnar með reglulegu millibili.

Allir sem annast barnið með beinum hætti ættu að taka þátt í þessum umræðum, þeirra á meðal karlmenn svo sem faðir, stjúpfaðir og aðrir ættingjar. Hvers vegna? Vegna þess að allir sem taka þátt í að kenna barninu að verja sig eru í reynd að lofa að misnota það aldrei kynferðislega. Það er sorgleg staðreynd að oft eru það nákomnir ættingjar sem misnota börnin. Í greininni á eftir er fjallað um hvað hægt sé að gera til að heimilið sé öruggt skjól í hættulegum heimi.

^ Sérfræðingar benda á að börn, sem hafa verið misnotuð kynferðislega, gefi oft vísbendingar án orða um að eitthvað sé að. Ef barn byrjar til dæmis aftur á einhverju sem það var vaxið upp úr — ef það má ekki sjá af foreldrunum, fer að væta rúmið eða er hrætt við að vera eitt — þá gæti það verið merki þess að eitthvað alvarlegt hafi komið því úr jafnvægi. Slík einkenni eru auðvitað ekki örugg sönnun fyrir því að barnið hafi verið misnotað. Reyndu með stillingu að fá barnið til að tjá sig og segja þér hver sé orsökin fyrir vanlíðan þess, þannig að þú getir huggað það, hughreyst og verndað.

^ Gefin út af Vottum Jehóva.